Ævarandi sáttmáli guðlegs réttlætis

Ævarandi sáttmáli guðlegs réttlætis

„Þegar aðkomumaður dvelur hjá ykkur skuluð þið ekki sýna ójöfnuð. Aðkomumaður, sem dvelur hjá ykkur, skal njóta sama réttar og innborinn maður. Þú skalt elska hann eins og sjálfan þig því að þið voruð aðkomumenn í Egyptalandi. Ég er Drottinn, Guð ykkar.“
Mynd

Prédikun flutt í Háteigskirkju

Lexía: Esk 37.26-28; Pistill: 1Pét 4.7-11; Guðspjall: Jóh 15.26-16.4


Samfélagsumræðan hér á landi hefur verið ansi hressileg umliðna viku í kjölfar kjarnyrtrar gagnrýni sr. Davíðs Þórs Jónssonar á stefnu íslenskra stjórnvalda í málefnum innflytjenda og flóttamanna en þó sér í lagi á þá ákvörðun að vísa hátt í 300 hælisleytendum úr landi en stór hluti þeirra á að fara til Grikklands. Á meðal þeirra sem vísa á úr landi eru börn sem hafa hér fundið skjól með fjölskyldum sínum og eru þegar farin að aðlagast samfélaginu, mögulega fatlað fólk og veikt, sem og einstaklingar í skelfilega viðkvæmri og beinlínis hættulegri stöðu, eins og er t.d. staðreyndin í tilfelli tveggja ungra sómalskra kvenna, Fötmu og Natífu. Þær eru að flýja aðstæður í stríðshrjáðu samfélagi þar sem réttindi kvenna eru varla meiri en búpenings. En stjórnvöld skáka í því skjóli að þær hafi þegar sótt um vernd í Grikklandi og því skuli senda þær þangað aftur á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar sem heimilar yfirvöldum í ríkjum Schengen-svæðisins að senda hælisleytendur aftur til þess lands innan Schengen þar sem hælisumsókn þeirra var fyrst lögð fram. Staðreyndin er hins vegar sú að geta Grikkja til þess að taka við og sinna flóttamönnum hefur fyrir löngu náð þolmörkum sínum eða eins og fulltrúi Rauða krossins hefur bent á: að flóttamannakerfið þar sé löngu sprungið og því nauðsynlegt að aðstoða Grikki í þeirri stöðu sem þeir séu í nú. Aðstoðin sem Grikkir þarfnast hlýtur að vera sú að aðrar þjóðir Evrópu veiti fleira flóttafólki hæli og hætti að senda það aftur til Grikklands og skáka í skjóli Dyflinnarreglugerðarinnar, sem – vel að merkja – veitir stjórnvöldum Schengen-ríkja ákveðna heimild en bindur engan veginn hendur þeirra varðandi stefnumótun eða framkvæmd hvers ríkis fyrir sig í málefnum flóttamanna þvert á það sem dómsmálaráðherra hélt blákalt fram fyrr í vikunni þrátt fyrir að hann eigi að vita, sitjandi í sínu embætti, að það er ekki satt.

Sá veruleiki sem blasir við hælisleytendum sem sendir verða aftur til Grikklands er skelfilegur. Yfirfullum flóttamannabúðunum hefur verið líkt við helvíti á jörð og margir búa á götunni, allslausir og yfirgefnir. Það átti t.a.m. við um Fötmu og Natífu áður en þær komu til Íslands og sá veruleiki bíður þeirra mjög líklega verði þær sendar aftur til Grikklands. Og það þarf ekki mikla lífsreynslu til þess að geta ímyndað sér hvaða hættur kunni að steðja að ungum sómölskum konum sem búa á götunni í Grikklandi.

Nú ætla ég hvorki að hrósa né lasta sr. Davíð Þór fyrir framsetningu hans og orðaval en þegar hátt er reitt til höggs er hætt við að lagið geigi og í ákafa sínum kann bogmaðurinn að skjóta yfir markið og reyndar er það mín skoðun að hann hafi misst duglega marks þegar hann notaði orðið „fasísk“ um ríkisstjórnina. Þar með gildisfelldi hann merkingu þess orðs líkt og stjórnarliðar hafa í kjölfarið gildisfellt merkingu orðsins „hatursorðræða“ með því að kenna orð sr. Davíðs við það ljóta fyrirbæri. Það er hins vegar næsta víst að með gagnrýni sinni hefur hann bæði vakið athygli á og líflegar umræður um hið umrædda brottvísunarmál og málefni útlendinga yfirleitt, sem er af hinu góða.

Eitt af því sem farið hefur fyrir brjóstið á fólki er að sr. Davíð notaði helvíti sem myndhverfingu til þess að leggja áherslu á alvarleika þess sem hann var að tala um. Fyrirmyndina sótti hann til Madeleine Albright fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna sem á sama hátt vildi leggja áherslu á vanþóknun sína á þeim konum sem ekki styddu aðrar konur – í samhengi kvenfrelsisbaráttu og baráttu gegn rótgróinni kvenfyrirlitningu feðraveldisins. Í fréttafyrirsögn á Vísi.is var því haldið fram að Davíð Þór „hótaði Katrínu og Vinstri grænum helvítisvist“ sem er vitanlega af og frá og fullkomin rangtúlkun á orðum hans. Margir hafa stigið fram, meðal annars háskólakennari í bókmenntafræði, og bent á að með tali sínu um helvíti sé hann að beita myndhvörfum til þess að leggja áherslu á mál sitt. Hann er að setja fram þá skoðun sína ‒ og margra annarra ‒ að stefna og aðgerðir stjórnvalda í málefnum útlendinga brjóti gegn mannúð og góðu siðferði – í raun gegn því sem í biblíulegu samhengi væri kallað réttlæti Guðs. Einni birtingarmynd þess réttlætis er lýst í 3Mós (19.33 ‒ 34) með svohljóðandi orðum:

„Þegar aðkomumaður dvelur hjá ykkur skuluð þið ekki sýna ójöfnuð. Aðkomumaður, sem dvelur hjá ykkur, skal njóta sama réttar og innborinn maður. Þú skalt elska hann eins og sjálfan þig því að þið voruð aðkomumenn í Egyptalandi. Ég er Drottinn, Guð ykkar.“

Íslensk stjórnvöld réttlæta þá ákvörðun að vísa nær 300 hælisleytendum úr landi með vísun til ákvæða hinnar mjög svo umdeildu Dyflinnarreglugerðar en þessi framkvæmd er ekkert annað en ómannúðleg og lítilsvirðandi meðferð á fólki sem í neyð sinni hefur leitað á náðir okkar Íslendinga. Það að vera útlendingur sem þarf að leita hælis í framandi samfélagi, er ekkert nýtt. Það endurspeglast ekki síst í grundvallarsögu Gamla testamentisins, dvöl Ísraels í Egyptalandi, sem byrjar sem hælisleit fólks á flótta undan hungursneyð. Það, að veita útlendingi skjól og koma fram við hann eins og væri hann innfæddur, er ein af grundvallarkröfum réttlætisins í Móselögum og endurspeglar jafnframt kröfu trúarinnar um framkvæmd náungakærleikans í formi gestrisninnar – gestrisni sem Guð gæfi að við sem samfélag værum eins áfram um að auðsýna þeim sem til okkar koma allslaus og þurfandi frá öðrum heimsálfu eins og við höfum sýnt okkur vera gagnvart bræðrum okkar og systrum frá Úkraínu. Því miður hefur flóttamannavandinn í kjölfar Úkraínustríðsins afhjúpað djúpstæðan og kerfislægan rasisma í Evrópu því það er æpandi staðreynd að hörundslitur og menningarlegur uppruni hælisleytenda hefur mikil áhrif á móttökurnar sem þeir fá í löndum Evrópu – og ekki aðeins hér hjá okkur.

Presturinn í Laugarnesi hefur ekki hótað neinum helvítisvist enda hefur hann ekki vald til þess þótt honum sé ýmislegt til lista lagt. Miklu nær myndi ég halda að hann hefði áhyggjur af sálarheill þeirra sem fara með ákvörðunarvaldið í þeim málaflokki sem um ræðir en fyrst og fremst var hann að benda á hina miklu ábyrgð sem þeir bera og þær grafalvarlegu afleiðingar fyrir líf fólks sem ákvarðanir þeirra geta haft. Tal um helvíti hefur enga merkingu nema í samhengi við spurninguna um sekt og sakleysi, góða og vonda samvisku. Þegar við tölum um helvíti erum við ekki að tala um landafræði heldur um siðferðilega breytni. Hugmyndin um slíkan hinsta dóm á í gyðing-kristnu samhengi uppruna sinn í spámannlegri orðræðu um hinstu tíma sem er í eðli sínu framsetning á ósk um endurhvarf til upprunalegs paradísarástands sköpunarinnar en birtir jafnframt vanmátt gagnvart því ofurvaldi sem hið illa virðist hafa í mannheimum. Þess vegna er sett fram þessi útópíska óskhyggja um að réttlætið muni sigra að lokum og að hið illa fái makleg málagjöld.

Með hugtakinu „ævarandi sáttmáli“ tjáir Esekíel trú sína á miskunnsaman Guð sem elskar mannkynið ævinlega en gerir jafnframt miklar kröfur til þess vegna þess að það er skapað í hans mynd og er þannig falið að varðveita bæði náttúrulegt og félagslegt réttlæti sköpunarinnar. Svipaða hugsun orðar Jeremía með hugtakinu „nýr sáttmáli“ og Jesús Kristur hefur þau orð Jeremía í huga þegar hann túlkar eigin dauða og upprisu sem „nýjan sáttmála í mínu blóði sem fyrir ykkur er úthellt“ eins og hann orðar það í síðustu kvöldmáltíðinni.

Við sem játum kristna trú getum ekki af heilum hug og hreinu hjarta verið aðilar að þeim sáttmála ef við sýnum systkinum okkar í neyð það kaldlyndi sem umrædd fyrirætlan stjórnvalda ber vitni um.

Dýrð sé Guði: Föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.