Að hafa áhrif á aðstæðurnar

Að hafa áhrif á aðstæðurnar

Foreldrar og fjölskylda eru mikilvægustu uppalendurnir. Þess vegna þarf heimilið að vera vettvangur jákvæðra og heilbrigðra viðhorfa þar sem öllum líður vel. Trú og traust á Jesú Krist, sem opnar okkur sýn á kærleikann þarf að koma fram í lífi þeirrar kirkju sem kallast vill kristin.

Á þriðja degi var brúðkaup í Kana í Galíleu. Móðir Jesú var þar. Jesú var og boðið til brúðkaupsins og lærisveinum hans. En er vín þraut segir móðir Jesú við hann: Þeir hafa ekki vín.

Jesús svarar: Hvað varðar það mig og þig, kona? Minn tími er ekki enn kominn.

Móðir hans sagði þá við þjónana: Gjörið það, sem hann kann að segja yður. Nú voru þar sex vatnsker úr steini samkvæmt reglum Gyðinga um hreinsun, og tók hvert þeirra tvo mæla eða þrjá.

Jesús segir við þá: Fyllið kerin vatni. Þeir fylltu þau á barma. Síðan segir hann: Ausið nú af og færið veislustjóra. Þeir gjörðu svo. Veislustjóri bragðaði vatnið, sem var orðið vín, og vissi ekki, hvaðan það var, en þjónarnir, sem vatnið höfðu ausið, vissu það. Þá kallaði veislustjóri á brúðgumann og sagði: Allir menn bera fyrst fram góða vínið og síðan hið lakara, er menn gjörast ölvaðir. Þú hefur geymt góða vínið þar til nú.

Þetta fyrsta tákn sitt gjörði Jesús í Kana í Galíleu og opinberaði dýrð sína, og lærisveinar hans trúðu á hann. Jóh. 2. 1-11

Mér finnst alltaf merkilegra og merkilegra hvernig kirkjan er. Kirkjan er í raun og veru ótrúleg, því að allt sem henni tengist er með svo sérstökum hætti og hefur svo mikil, og oft skemmtileg áhrif. Að minnsta kosti veit ég að kirkjan hefur aukið lífsgæði mín og margra annarra. Samt er oft erfitt að benda á þessi áhrif, staðfæra þau og staðfesta. – Og að sama skapi er erfitt að sjá fyrir hvernig lífið væri án þessara áhrifa. Hvað meinum við þegar við segjum KIRKJA?

Mörgum dettur í hug kirkjuhúsið. Við vitum að kirkjuhúsið er frátekið fyrir Guð. Við vitum líka að orðið kirkja hefur margar fleiri merkingar.

Ein mikilvægasta merking orðsins kirkja er söfnuður. Það segir okkur að við, söfnuður þessarar kirkju, við erum einnig frátekin fyrir Guð. Það gerðist í skírninni. Þar erum við merkt Kristi og tekin frá með sérstökum hætti til að tilheyra honum um alla framtíð. Orðið kirkja getur einnig merkt stofnun eða skipulag, - við tilheyrum þjóðkirkjunni, og hún tilheyrir allri hinni kristnu kirkju á jörðinni.

Þetta skrítna skipulag, sem við köllum kirkju, hefur n.k. leiðbeiningarreglur, sem við nefnum Biblíu, gamla bók og merka. Gallinn er e.t.v. sá að þessar leiðbeiningar hafa aldrei verið uppfærðar!!!? Þess vegna verðum við að lesa í þær og reyna að skilja þær rétt – skilja þær í samhengi og skilja þær út frá aðalatriðinu, sem er að sjálfsögðu Jesús Kristur og allir þeir flóknu atburðir sem honum tengjast.

Í daglega lífinu er oft verið að benda á kirkjuna. “Af hverju gerir kirkjan ekki eitthvað?” segja menn. Kirkjan þetta – og – kirkjan hitt! heyrist víða, en þá er ekki skilgreint hvað er átt við með orðinu kirkja. Það er t.d. augljóslega ekki átt við kirkjuhúsið, því það gerir að sjálfsögðu ekki neitt sjálft.

Þetta tal undirstrikar í mínum huga að við öll, sem erum hin lifandi kirkja, söfnuðurinn, við þurfum að vera okkur meðvituð um þessa stöðu okkar – að við erum kirkjan. Við þurfum líka að vera stolt af því, vegna þess að við erum kirkja af því að VIÐ höfum ákveðið að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífs okkar.

Ef við bendum á kirkjuna og segjum: “Hvað ætlar kirkjan að gera, eða hver er skoðun kirkjunnar?” þá erum við um leið að benda með að m. k. þremur fingrum á sjálf okkur, því við erum jú kirkjan! Guðsþjónustan er samkoma þeirra sem trúa á Krist.

Í dag höfum við, hér í samfélagi safnaðarins, fengið að heyra merkilega texta, beint úr leiðbeiningabókinni, sem gleymdist að uppfæra. Það er eitt af því sem gerir þetta samfélag svo skemmtilegt og sérstakt, að við verðum að reyna að lesa ákveðinn skilning inn í það sem textinn segir.

* * *

Guðspjallið er t.d. mjög merkilegt fyrir þær sakir að það lýsir fyrsta kraftaverkinu sem vitað er til að Jesús framdi. Hann var staddur í brúðkaupi, en gestgjafinn hafði greinilega misreiknað sig í undirbúningi veislunnar, þannig að vínið þraut. Það er ekki litið svo á að þarna hafi farið fram eitthvert fyllerý. Á dögum Jesú þótti það skömm að verða drukkinn. Þess vegna var vínið oft blandað vatni.

Jesús kom að málum í þetta skipti með þeim hætti að breyta vatni í vín. Þannig bjargaði hann gestgjafanum frá ákveðinni hneisu og um leið bjargaði hann gestunum, því í þessum heimshluta var og er vín hluti af menningunni. Um leið sá hann til þess að koma með ákveðna gleði inn í samfélag sitt. Hann bjargaði “situasjóninni” með því að breyta vatni í vín.

Sá sem vill vera kirkja, öflug og góð kirkja, ætti jafnan að hugsa með sér: Hvernig get ég bjargað “situasjóninni”? Hvernig get ég leitt gleði, von og trú inn í þær aðstæður sem ríkja? Þarf að breyta vatni í vín eða er eitthvað annað sem er enn mikilvægara að breyta hér hjá okkur?

Ef við lítum til þjóðfélagsins í dag, þá er ljóst að ekki er mikilvægast að breyta vatni í vín. Hér er stundum rætt um vínmenningu. Fylgifiskar hennar eru ákveðin óhamingja og ómenning sem tengist ofneyslu. Ofneysla tjáir lífsflótta og hér á landi þarf frekar að sporna við neyslu ávanabindandi efna heldur en hitt. Á það við alla aldurshópa, en sérstaklega langar mig að vara unglingana við að byrja að neyta áfengis, því oftar en ekki leiðir sú neysla til annarra og alvarlegri hluta.

Það er mikilvægt fyrir ykkur, ágætu unglingar, að halda fast í bernskuna, því fullorðinsárin koma nógu snemma. Ef þið haldið í bernskuna, þá verðið þið tilbúin til að ákveða sjálf hvernig líf fullorðinsáranna á að vera þegar þar að kemur.

Umræða og fréttaflutningur undanfarinna daga sýnir okkur að eitthvað mikið er að hugsunarhættinum – að minnsta kosti hjá þeim sem stýrt hafa för hjá DV.

Með jákvæðum hugsunarhætti og kærleiksríku viðhorfi til náungans er auðvelt að hafa góð áhrif. Brúðkaupið í Kana er okkur áminning um að Jesús Kristur vill koma með kærleika sinn og gleði inn í fjölskyldulífið. Það er mikilvægt að þar ríki gleði og samheldni. Með stuðningi fjölskyldunnar á sem flestum sviðum er lagður grunnur að hamingju og velgengni uppvaxandi kynslóða.

Foreldrar og fjölskylda eru mikilvægustu uppalendurnir. Þess vegna þarf heimilið að vera vettvangur jákvæðra og heilbrigðra viðhorfa þar sem öllum líður vel. Trú og traust á Jesú Krist, sem opnar okkur sýn á kærleikann þarf að koma fram í lífi þeirrar kirkju sem kallast vill kristin.

* * *

Leiðbeiningabókin, sem lesið var úr fyrir okkur, hafði fleira að segja en frásöguna af brúðkaupinu í Kana.

Textinn sem lesinn var úr 2. Mósebók sýnir okkur að Móse var í svipuðum vandræðum gagnvart trú sinni og við mennirnir í dag. Eins og sést á textanum, þá stóð það mjög í Móse að fá ekki að líta Guð sjálfan augum. Þrátt fyrir samningaumleitanir hans, þá fékk hann aðeins að líta baksvipinn af ljóma hans.

Ef eitthvert ykkar hefur séð Guð, þá vil ég gjarnan frétta af því? Við erum í sömu stöðu og Móse forðum, að við getum ekki séð Guð sjálfan og lýst honum, nema með þeirri hugmynd sem við gerum okkur af Guði. Við stöndum þó betur, því að við vitum að Jesús Kristur er sonur Guðs – sendur til okkar mannanna sakir elsku hans.

Móse hafði reynt Guð að því að honum mátti treysta. Guð yfirgaf ekki Ísraelsmenn í eyðimörkinni, þótt þeir hafi fallið frá strax og á móti blés. Líknin og miskunnin voru til marks um trúfesti Guðs. Þetta traust getum við einnig haft á Guði, því enn í dag megum við treysta því að hann er með okkur. Í skírnarskipuninni, sem lesin var þegar við vorum tekin inn í kirkjuna segir einmitt: “Sjá, ég er með yður alla daga, allt til enda veraldar”. Þetta fyrirheiti hans hefur enn ekki brugðist.

Það er svolítið merkilegt, að þrátt fyrir það að leiðbeiningarbókin, Biblían, hefur ekki verið uppfærð, eins og stýrikerfin í tölvunum okkar, þá heldur boðskapur hennar nokkuð vel og leiðbeiningarnar sem eru gefnar eru öflugar.

Þannig leggur Páll okkur ómetanlegt lið í textanum sem lesinn var út Rómverjabréfinu. Þar styrkir hann okkur í þeirri ætlan að vera kirkja. Páll er skír á því að við höfum ótal margt til brunns að bera sem hjálpar okkur í þeirri viðleitni að vera góð kirkja. Páll kallar þessa eiginleika okkar náðargáfur.

Öll erum við gædd margvíslegum hæfileikum sem gera okkur kleift að umgangast hvert annað með hæfilegri virðingu og auðga samskipti okkar á margvíslegan hátt.

Ég vil gjarnan tileinka DV og nýjum ritstjórum þess eitt af versum Páls í texta dagsins, en þar segir: “Elskan sé flærðarlaus. Hafið andstyggð á hinu vonda, en haldið fast við hið góða.” (Rm. 12:9)

Páll nefnir okkur einnig bróðurkærleika og ástúð. Þessi orð þurfa engrar uppfærslu við til að skiljast. Hann hvetur okkur einnig til að vera áhugasöm og brennandi í andanum. Með því styrkjumst við sem kirkja sem vill hafa góð áhrif.

Sérstaklega vil ég beina til okkar allra hvatningu Páls úr pistli dagsins og gera hana að lokaorðum mínum í dag, en Páll segir: “Verið glaðir í voninni, þolinmóðir í þjáningunni og staðfastir í bæninni.” (Rm. 12:12)

Þessi hvatning ásamt öllum þeim náðargáfum, sem við, eitt og sérhvert okkar, erum gædd, gera það að verkum að kirkjan er vel í stakk búin að hafa góð áhrif í samfélaginu. Við erum kirkjan. Mættum við öll vera okkur meðvituð um það og stolt af því.

AMEN.