Sú þjóð sem í myrkri gengur

Sú þjóð sem í myrkri gengur

Ég veit að þetta er ekki jólalegt tal en ég vil ákveðið halda því fram að það sé aðventulegt. Ég veit líka að við erum mörg sem væntum þess að þessu ástandi megi linna og betri tíð fara í hönd. Það mun þó aðeins gerast ef réttlæti kemst á í samskiptum manna og þjóða. Sumir textar aðventunnar fela einmitt í sér slíka von.
fullname - andlitsmynd Hjalti Hugason
15. desember 2014

Við erum nú stödd djúpt inni í þeim mikilvæga tíma sem kallast aðventa eða jólafasta og er haldinn þegar skammdegið er svartast.

Uppreisn gegn myrkri

Aðventan felur í sér andóf, mótmæli eða uppreisn gegn myrkri. Þegar skammdegið gerist svartast kveikjum við ljós! Undanfarnar vikur hafa mörg okkar vísast sett upp seríur á svölum eða í trjám og runnum og komið fyrir ljósastjökum eða stjörnum í gluggum. Og í dag var kveikt á þriðja kertinu í aðventukransinum. Á undanförnum vikum hefur ljósunum stöðugt fjölgað.

Ljós sem lýsir í myrkri er tákn um líf og von. Ljósið lýsir upp myrkur, dreifir hita og nú höfum við lært að ljós vinnur jafnvel gegn þunglyndi og depurð. Þannig nærir ljósið lífið á ótrúlega marga vegu.

Ljós er tákn sem ekki verður misskilið í norrænu skammdegi.

Margs konar myrkur

En það er til annars konar myrkur og skammdegismyrkrið er ekki það versta. Til er sálrænt myrkur, svartnætti sem hellst getur yfir okkur hvenær sem er á lífsleiðinni, andlegt myrkur sem sest að í huga þess sem finnst Guð fjarri og tóm eitt og tilgangsleysi blasa við. Einnig má tala um félagslegt myrkur sem getur lagst yfir heil lönd og ríki. Á árunum sem liðin eru frá Hruni má þó ef til vill segja að það hafi verið meiri sorti yfir samfélagi okkar en um langan tíma fyrir Hrun. Víst hefur rofað til síðan í Búsáhaldabyltingunni en það er enn ekki orðið bjart eins og læknadeilan og stríðið um RÚV bera meðal annars vott um. Ef til vill er átt við slíkt félagslegt myrkur í jólatextanum þekkta:

Sú þjóð, sem í myrkri gengur, sér mikið ljós. Yfir þá sem búa í landi náttmyrkranna skín ljós. Þú eykur stórum fögnuðinn, gerir gleðina mikla. Menn gleðjast fyrir augliti þínu eins og þegar uppskeru er fagnað … (Jes 9.1–2)

Hvers væntum við?

Heitið aðventa á uppruna sinn í alþjóðamáli Vesturkirkjunnar latínu og kallast þar adventus Domini eða koma Drottins. Þetta er tími eftirvæntingar og tilhlökkunar, biðtími eftir einhverju meira og betra en sjálf aðventan þrátt fyrir allt er. Tími þar sem við og gjörvöll kirkjan horfum fram á við og væntum. En meðan við bíðum ættum við að spyrja: Eftir hverju bíðum við? Hvað er það sem við væntum? Væntingar okkar og vonir segja okkur nefnilega eitt og annað um okkur sjálf og gildismat okkar.

Þessa dagana hlakka börnin og mörg okkar eldri sem tekist hefur að halda í eitthvað af barninu í sér eftir jólunum og við það er auðvitað ekkert að athuga. — En mörg okkar á meðal vænta þó ugglaust einhvers annars og meira en enn einna jólanna sem vissulega gefa okkur verðskuldaða tilbreytingu og hvíld í svartasta skammdeginu. Þar á ég við þau sem vona að hinu félagslega myrkri linni, misskiptingunni, ranglætinu, oflætinu, drambinu, spillingunni, hrokanu, yfirganginum sem svo víða verður vart í samfélagi okkar verði settar skorður. Það gerði til dæmis fólkið á Austurvelli Hrun-veturinn og aftur í vetur. Um slíkt fólk var einu sinni sagt:

Sæl eru þau sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu því að þau munu södd verða. Sæl eru miskunnsöm því að þeim mun miskunnað verða. Sæl eru hjartahrein því að þau munu Guð sjá. Sæl eru friðflytjendur því að þau munu Guðs börn kölluð verða. Sæl eru þau sem ofsótt eru fyrir réttlætis sakir því að þeirra er himnaríki. (Mt 5.6–9)

Viðsjárverðir tímar

Vel má vera að við lifum nú viðsjárverða tíma. Margir tala þessa mánuðina um nýtt kalt stríð en það er líkingamál eða sviðsmynd sem veldur okkur sem munum fyrra kalda stríðið verulegum óhug. Það voru vondir tímar sem sköpuðu vont samfélag og gerði fólk verra en það þurfti að vera — jafnvel okkur sem þá vorum bara börn og unglingar. Grafið var undan trausti og kallaðar fram andstæður sem ekki var gott að alast upp við.

Um daga fyrra kalda stríðsins var kjarnorkuváin sú ógn sem mannkyni stóð mest hætta af og kallaði fram vitund um að heimsendir af manna völdum væri fullkomlega raunhæfur möguleiki.

Ný ógn

Sú ógn sem við stöndum frammi fyrir nú á dögum er samt annars eðlis. Hún er eins og þokubakki úti við sjóndeildarhringinn sem nálgast stöðugt, knúin áfram af lífsstíl okkar Vesturlandabúa. Þar á ég við loftslagsbreytingarnar af okkar eigin völdum. Samkvæmt spám Alþjóðaloftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna mun hitinn á þessari öld hækka um allt að 4 o C. Hlýnunin getur þó jafnvel orðið enn meir eða allt að rúmlega 6 o C. Hún mun leiða til þess að hitabylgjur verða tíðari á alheimsvísu, útbreiðsla skordýra mun aukast, þurrkasvæði jarðar stækka. Skert aðgengi að vatni mun valda landeyðingu og dauða búpenings og fólks. Úrhelli og steypiregn munu jafnframt verða algengari með rofi og jarðvegsruðningi. Fellibyljum mun og fjölga og þeir ásamt hlýnuninni valda flóðbylgjum og hækkun sjávar með aukinni seltu á þeim svæðum sem verst verða úti. Innan tíu ára getur landbúnaðaruppskera í Afríku þegar hafa dregist saman um helming með tilheyrandi hungursneyð. Og innan fimmtíu ára geta fiskveiðar verið hrundar ef núverandi sókn á heimsvísu heldur áfram. Því hefur enda verið fleygt að loftslagsvandinn sé stærsta prófraun sem mannkynið hefur nokkurn tímann staðið frammi fyrir, enda munu örlög milljóna manna og dýrategunda ráðast af því hvort samfélög heimsins grípa til sameiginlegra aðgerða í tæka tíð eða ekki.

Eðli þessarar prófraunar rennur líklega fyrst upp fyrir okkur þegar við tökum tillit til þess efnahagslega, félagslega og pólitíska óstöðugleika sem mun fylgja í kjölfar loftslagsvandans. Það gerist um leið og þeir hlutar mannkyns sem verst verða út taka að krefjast — ef ekki réttlætis — þá í það minnsta réttar síns til lífs. En við því er þá líka að búast að við sem betur eru sett reynum að standa verja núverandi lífsform okkar með kjafti og klóm en það byggist eins og við vitum öll á ranglátri skiptingu jarðargæða.

Vonarrík framtíð

Ég veit að þetta er ekki jólalegt tal en ég vil ákveðið halda því fram að það sé aðventulegt. Ég veit líka að við erum mörg sem væntum þess að þessu ástandi megi linna og betri tíð fara í hönd. Það mun þó aðeins gerast ef réttlæti kemst á í samskiptum manna og þjóða. Sumir textar aðventunnar fela einmitt í sér slíka von m.a einn af Gamla testamentis-textum síðastliðins sunnudags:

Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum. Kálfur, ljón og alifé munu ganga saman og smásveinn gæta þeirra. Kýr og birna verða saman á beit, ungviði þeirra hvílir hvort hjá öðru, og ljónið mun bíta gras eins og nautið. Brjóstmylkingurinn mun leika sér við holu nöðrunnar og barn, nývanið af brjósti, stinga hendi inn í bæli höggormsins. Enginn mun gera illt, enginn valda skaða á mínu heilaga fjalli því að allt landið verður fullt af þekkingu á Drottni eins og vatn hylur sjávardjúpið. (Jes 11.6–9)

Þetta er vonarrík framtíðarsýn sem bregður upp ástandi sem einkennist af jafnvægi, jöfnuði, réttlæti sátt og friði. Brugðið er upp myndum af heiminum eins og Guð hugsaði hann í upphafi og vill að hann sé.

Kölluð til ábyrgðar!

Þetta ástand mun ekki renna upp af sjálfu sér heldur kalla textar aðventu og jóla okkur til ábyrgðar og baráttu fyrir því að þessi draumsýn geti orðið að veruleika. — Við eigum langt í land með að axla þá ábyrgð en við getum notað þessa jólaföstu sem æfingi í að keppa að þessu marki.

Guð gefi okkur náð til þess!