Manneskjur með vesen

Manneskjur með vesen

Hvað gerum við þegar einhver er með ,,vesen”? Hvernig bregst þú við ákalli fólks um hjálp? Hvað dettur þér fyrst í hug þegar þú heyrir um réttindabaráttu fatlaðra? Hælisleitenda? Samkynhneigðra? Múslima sem vilja byggja mosku? Kvenna? Dettur þér fyrst í hug: Voðalegt vesen er þetta á fólkinu. Ekkert nema athyglissýkin og frekjan. Ísland er nú bara fínt eins og það hefur alltaf verið! Eða reynirðu að sjá neyðina á bakvið ákall þessa fólks? Neyðina sem rekur fólk til að þola ýmis konar niðurlægingu, höfnun, hæðni og jafnvel útskúfun, til þess að fá leiðréttingu mála sinna. Til þess að fá að upplifa þó ekki sé nema lágmarks réttlæti.

Þann 1. desember árið 1955 var kona nokkur á leiðinni heim úr vinnu í strætisvagni í Montgomery, Alabama. Hún hét Rosa Parks og hún var svört. Við þekkjum flest þessa sögu. Rosa Parks neitaði að standa upp og gefa sætið sitt eftir hvítum manni sem kom inn í strætisvagninn, en það var reyndar skylda hennar samkvæmt þeim reglum sem í gildi voru. En þennan dag var hún búin að fá nóg, neitaði að hlýða og var handtekin. Atburðurinn markaði upphaf réttindabaráttu svartra, og Martin Luther King varð heimsfrægur sem leiðtogi hennar. Bæði hann og Rosa Parks eru þekkt nöfn í dag og álitin hetjur og jafnvel dýrlingar í margra augum. En Rosa Parks var ekki fyrsta svarta manneskjan til að neita að standa upp fyrir hvítum í strætisvagni. Margir höfðu áður gert það sama og verið handteknir og dæmdir. Og ég held að viðhorfið til þessa fólks í samfélaginu, og Rosu líka á sínum tíma hafi miklu frekar verið: Af hverju í ósköpunum þarf þetta fólk að vera með svona vesen. Hverslags frekja er þetta eiginlega í konunni. Hún veit hvernig reglurnar eru, ef hún er þreytt getur hún bara hvílt sig þegar hún kemur heim. Og þá á ég að sjálfsögðu við að þetta hafi verið viðhorf hins hvíta meirihluta sem naut forréttinda sem þeim fannst algjörlega sjálfsögð, jafnvel gefin af Guði. Okkur finnst þetta auðvitað fáránlegt í dag, og skiljum ekkert í því hversu ósanngjarnt þetta kerfi var. Ég heyrði einu sinni sagt um hana Freyju Haraldsdóttur, sem er löngu orðin landsþekkt sem baráttukona fyrir réttindum fatlaðra: Voðalegt vesen er þetta á henni, hún er nú bara athyglissjúk konan. Það er nú bara frekja að ætlast til þess að hún geti fengið allt það sem hún vill… Það verður fróðlegt að heyra hvernig verður talað um Freyju eftir nokkra áratugi…

Það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég las söguna um samskipti Jesú við Kanversku konuna var, þessi kona er mjög ákveðin, eiginlega frek. Hún gefur sig ekki, jafnvel þótt Jesús þykist ekki heyra í henni. Og lærisveinunum virðist finnast hið sama. Geturðu ekki sent hana í burtu Jesús? Hún eltir okkur með hrópum, við fáum engan frið fyrir henni! Við vitum ekki nákvæmlega hvað það er sem hrjáir dóttur hennar sem hún segir vera haldna illum anda. En mér datt strax í hug frásögnin sem við höfum fylgst með í fjölmiðlum síðustu daga um unga manninn sem var handtekinn í Árbænum fyrir skömmu. Upp á yfirborðið kemur harmsaga fjölskyldu sem rekst alls staðar á veggi, í kerfinu vísar hver á annan, og móðirin situr uppi með dreng sem er svo illa veikur að á tímum Jesú hefði hann örugglega verið talinn andsetinn. Já, því að vandamál fólks á tímum Jesú, og vandamál okkar í dag, eru hin sömu, þótt við köllum þau kannski ekki alltaf sömu nöfnum. Og enginn virðist hlusta.

Hvað er það sem knýr Kanversku konuna til að leita til Jesú? Þetta hafa örugglega ekki verið létt spor, Jesús er útlendingur, hún veit að gyðingar líta á hennar fólk sem óvini, og að hún getur í raun ekki átt von á neinu góðu frá honum. Ef hún hefði átt við eitthvað minniháttar vandamál að stríða, hefði hún sennilega ekki lagt það á sig að leita til Jesú. Og hún ef hún hefði á annað borð gert það með eitthvað minniháttar vandamál, hefði hún örugglega gefist upp þegar Jesús hunsaði hana. En þegar ég setti sögu hennar í samhengi við sögu unga piltsins sem var handtekinn í Árbænum og móður hans, þá skildi ég betur hvað það var sem knýr hana áfram. Það er einfaldlega neyðin sjálf. Óbærilegar aðstæður sem ekki er hægt að þola öllu lengur. Aðstæður sem eru svo slæmar að hún er tilbúin að þola bæði höfnun og niðurlægingu, bara ef það verður til þess að hún fái einhverja úrlausn.

Og hún fær bæði höfnun og niðurlægingu! Það er svo ótrúlegt að í þessum guðspjallstexta snýst allt á hvolf. Þegar við speglum okkur í þessum texta, þá verður Jesús að fyrirmynd þess sem við viljum ekki vera, en kanverska konan að fyrirmynd þess sem við viljum líkjast. Og það er ekki bara í guðspjallstextanum sem allt snýst á hvolf, í lexíunni, sem segir frá glímu Jakobs við Guð, gerist sá fáheyrði atburður að Guð tapar!

Og kanverska konan sættir sig við þetta allt. Hún hættir ekki þótt Jesús hunsi hana. Og hún samþykkir að kannski sé hún ekki meira virði en hundarnir, en hún er tilbúin til að þiggja hvaða lítilræði sem er frá Jesú, molana af borðum húsbóndans, bara ef hann léttir af henni einhverju af byrðinni. Og Jesús lætur segjast. Hann sér í þessari konu ákveðni, knýjandi þörf, sem aðeins neyðin ein getur vakið. Kannski var hann að reyna á þolrif hennar með framkomu sinni, kannski var þetta allt úthugsað hjá honum, eða kannski var hann bara eins og við hin, sem sá bara konu sem var með vesen. Það skiptir í rauninni ekki máli. Það sem skiptir máli var að Jesús gat hjálpað konunni, og hann gerði það þegar hann sá hversu knýjandi neyð hennar var.

Hvað gerum við þegar einhver er með ,,vesen”? Hvernig bregst þú við ákalli fólks um hjálp? Hvað dettur þér fyrst í hug þegar þú heyrir um réttindabaráttu fatlaðra? Hælisleitenda? Samkynhneigðra? Múslima sem vilja byggja mosku? Kvenna? Dettur þér fyrst í hug: Voðalegt vesen er þetta á fólkinu. Ekkert nema athyglissýkin og frekjan. Ísland er nú bara fínt eins og það hefur alltaf verið! Eða reynirðu að sjá neyðina á bakvið ákall þessa fólks? Neyðina sem rekur fólk til að þola ýmis konar niðurlægingu, höfnun, hæðni og jafnvel útskúfun, til þess að fá leiðréttingu mála sinna. Til þess að fá að upplifa þó ekki sé nema lágmarks réttlæti.

Jakob sagði við Guð: Ég sleppi þér ekki nema þú blessir mig! Og Guð gaf honum nýtt nafn, nýja tilveru. Við stöndum frammi fyrir því í samfélaginu að margir hópar segja þetta, fólk sem áður hefur verið í felum með neyð sína, stígur fram og segir, ég krefst blessunar til handa mér og mínum. Ég vil líka fá nýtt nafn, nýja tilveru. Hvað ætlum við að gera? Ert þú tilbúin að sjá neyð fólks? Ert þú tilbúinn að hlusta á sögur þess? Ert þú tilbúinn til að taka sinnaskiptum eins og Jesús gerði og taka þátt í því að breyta lífi fólks sem býr við óbærilegar aðstæður? Ert þú tilbúinn að verða samverkamaður Guðs?