Stund milli stríða

Stund milli stríða

Fylgjendur Jesú eru í frásögn dagsins staddir á kunnuglegum slóðum, þeim sem unnið hafa úr erfiðri reynslu. Upprisan hefur átt sér stað en hin nauðsynlega djörfung og frelsun, sem fylgir því að nýta reynslu sína til góðs bíður enn eftir hvítasunnu-undrinu.

Konurnar voru með þeim … öll voru þau með einum huga stöðug í bæninni.

Eins og leiftursmynd er pistill dagsins tekinn úr frásögn Postulasögunnar af atburðum daganna eftir upprisu Jesú. Við erum stödd í atburðarás þeirri sem að Tvíbókaritið rammar inn en Postulasagan, fimmta rit Nýja testamentisins, er ekki sjálfstæð bók heldur beint framhald Lúkasarguðspjalls og ritað af guðspjallamanninum sjálfum. Tvíbókaritið, Lúkasarguðspjall-Postulasagan, er grunnur hins kristna dagatals og uppspretta þeirrar hátíðahefðar sem að tímatal okkar byggir á.

Þannig erum við á þessum 6. sunnudegi eftir páska stödd á milli uppstigningardags, sem var síðastliðinn fimmtudag og Hvítasunnudags, sem er næstu helgi. Tvíbókaritið rekur í Lúkasarguðspjalli söguna af fagnaðarerindinu frá fæðingu frelsarans í Betlehem, sem fundinn var tímasetning á sólstöðuhátíð Rómverja, til dauða hans og upprisu í Jerúsalem, en sú frásögn á sér stað á páskahátíð gyðinga og er til þessa dags tímasett samkvæmt fornu tungldagatali þeirra. Postulasagan hefst á þeirri reynslu fylgjenda Jesú að sjá upprisinn meistara sinn stíga upp til himna á uppstigningardegi, en þeim degi var fundinn staður 40 dögum eftir páska. Sú frásögn leiðir inn í atburð Hvítasunnudags, þegar að lærisveinar Jesú fengu gjöf heilags anda og fylltust djörfung til að boða fagnaðarerindið, en Hvítasunnudagur líkt og páskar eru forn gyðingleg hátíð sem að öðlast nýtt inntak í meðförum Tvíbókaritsins.

Pistill dagsins er því stund milli stríða í dagatali okkar. Fagnaðarerindið sem ferðast hafði frá Betlehem til Jerúsalem er nú að færast á hendur kirkjunnar en Postulagasagan segir frá fæðingu hennar á Hvítasunnudag og boðunarstarfi Postulanna þar til það berst fyrir tilstuðlan Páls til hjarta heimsveldisins, þaðan og þangað sem að allir vegir liggja.

Saga Tvíbókaritsins, sagan af Jesú, er saga sem að skilgreint hefur sjálfsmynd siðmenningar okkar frá því að hún öðlaðist þann sess með trúskiptum Konstantínusar Rómarkeisara árið 313. Sagan gerir tilkall til þess að leysa af hólmi epískann grundvöll gyðinga eftir fall musterisins og Rómverja sem höfðu frá upphafi keisaratímans verið í leit að slíkum grundvelli. Svo áhrifamikil er sagan af Jesú að kristindómurinn öðlaðist sess sem ríkistrú í Róm og er til þessa dags útbreiddasti og fjölmennasti átrúnaður heims og meirihlutaátrúnaður fjölda þjóða frá germönsku Norður-Evrópu til Suður-Kóreu.

Sú spurning hvað skýrir þessar vinsældir er í mínum huga áleitin en ég hyggst leyfa tilraunum til skýringa að bíða betri tíma. Ég vil þó draga fram tvennt sem að mögulega færir okkur nær kjarna kristindómsins.

Í pistli dagsins erum við stödd í lofstofu í Jerúsalem í fylgd með venjulegu fólki að vinna úr erfiðri reynslu sem verður þeim og okkur til ómældrar blessunar. Upptalning þeirra sem þar dvöldust dregur skýrt fram hvers konar fólk þarna var. Textinn segir: ,,Það voru þeir Pétur og Jóhannes, Jakob og Andrés, Filippus, Tómas, Bartólómeus, Matteus, Jakob Alfeusson, Símon vandlætari og Júdas Jakobsson. Konurnar voru einnig með þeim og María móðir Jesú og bræður hans.” Þetta voru sjómenn, smiðir, tollheimtumaður, húsmæður og hans nánasta fjölskylda. Venjulegt fólk sem hafði horft upp á þann sem stóð þeim nærri, verið tekinn af lífi með hrottalegasta aftökutæki sem þau þekktu til, og voru nú að vinna úr þeirri reynslu að hann sé upprisinn og uppnuminn, sem og þau sem hópur.

Öll voru þau með einum huga stöðug í bæninni. Hið fyrra sem tengir okkur svo djúpt við þessa sögu er að við mætum í frásögninni fylgjendum sem eru mannleg og breysk. Tilraunir þessa fólks til að lifa köllun sína eru í frásögnum guðspjallanna sannar en fallvaltar. Þannig bregst hinn fúsi Pétur köllun sinni með því að afneita Jesú, Tómas kemst ekki fram úr efa sínum hjálparlaust, hans nánustu sofna á verðinum hina örlagaríku nótt, konurnar reyna að á þær er ekki hlustað og Júdas velur að taka líf sitt í skömm.

Altarisgangan endurspeglar að mínu áliti hið síðara sem á svo sterkan hljómgrunn hjá þeim sem finna sig í sögunni af Jesú. Erfiðasti atburður sögunnar er settur í forgrunn í messunni og gerður að grundvelli þess að við eigum samfélag við Guð og hvert annað, með því að ganga til altaris. Það er engin tilviljun að í hverri messu eru rifjaðir upp þeir atburðir að Jesús var svikinn, píndur, myrtur og kastað til hliðar. Við fáum að vera þátttakendur í þeirri atburðarás með honum sem á þeirri nóttu er hann var svikinn, tók brauðið, gjörði þér þakkir og braut það og gaf sínum lærisveinum og sagði: Takið og etið, þetta er líkami minn, sem fyrir yður er gefinn.

Með því að eta, eiga þátt í og hugleiða örlög Jesú fáum við andrými til að vinna úr okkar lífsreynslu, hver sem hún er. Hafir þú reynt að vera beitt eða beittur ofbeldi, hafa misst það sem þér var kærast eða misst stjórn á sjálfum þér og aðstæðum þínum - þá þekkir þú atburði píslarsögunnar og hvernig það er að lifa með lífsreynslu sem að skilgreinir alla þínu tilveru. Það að vera manneskja er að vinna úr reynslu sinni og það sem að skilgreinir hvers konar manneskjur við verðum í lífinu er það hvernig við vinnum úr erfiðustu reynslum lífs okkar.

Fylgjendur Jesú eru í frásögn dagsins staddir á kunnuglegum slóðum, þeim sem unnið hafa úr erfiðri reynslu. Upprisan hefur átt sér stað en hin nauðsynlega djörfung og frelsun, sem fylgir því að nýta reynslu sína til góðs bíður enn eftir hvítasunnu-undrinu. Lífsreynsla þín, hver sem hún er, verður ekki tekin til baka. Það verður ekki gert lítið úr þeirri staðreynd að svik, ofbeldi og/eða óréttlæti átti sér stað í þínu lífi. Upprisa bíður allra sem ekki velja leið Júdasar en hvítasunnu-undrið, það að bera reynslu sinni vitni öðrum til góðs, er að mínu áliti það sem gerir kristindóminn að eftirsóknarverðum átrúnaði.

Öll voru þau með einum huga stöðug í bæninni. Það að vera hér, það að vera kristin og koma til kirkju, að þiggja samfélag bænar og altarisgöngu er það – að játast því að vera ófullkominn manneskja, að glíma við það að vinna úr lífsreynslum sínum og að þiggja aðstoð við þá glímu frá Guði og frá fólki. Við það geta allar manneskjur tengt og ekkert verkefni í lífinu er mikilvægara. Það hvernig að við vinnum úr erfiðustu reynslum lífs okkar skilgreinir hvers konar manneskjur við verðum í lífinu.

Sagan af Jesú, sem að endurspeglast í tímatali okkar og helgihaldi, er saga þess að vera manneskja. Guðspjall dagsins, sem tekið er úr Jóhannesarguðspjalli, er hluti ræðu þar sem að Jesús er að kveðja fylgjendur sína og biðja fyrir þeim. Boðskapur bænarinnar er sá að þau sem að gera sig hans, þau sem sækjast eftir leyndardómi þess að verða fylgjendur og samverkamanneskjur Jesú, eru í heiminum en ekki af heiminum. Því fer fjarri að í orðum Jesú sé fólgin trygging gegn erfiðri reynslu en trúin er fyrirheit um grundvöll sem treysta má á í úrvinnslu slíkrar reynslu.

Þann grundvöll hafa kristnar manneskjur reitt sig á frá hinum fyrstu fylgjendum og sá grundvöllur er hvílíkt hnoss að hann verðskuldar að verða að útgangspunkti þess hvernig að við mælum tímann.

Pistill: Post 1.12-14 Þá sneru þeir aftur til Jerúsalem frá Olíufjallinu, sem svo er nefnt og er í nánd við Jerúsalem, hvíldardagsleið þaðan. Er þeir komu þangað fóru þeir upp í loftstofuna þar sem þeir dvöldust: Það voru þeir Pétur og Jóhannes, Jakob og Andrés, Filippus, Tómas, Bartólómeus, Matteus, Jakob Alfeusson, Símon vandlætari og Júdas Jakobsson. Konurnar voru einnig með þeim og María móðir Jesú og bræður hans. Öll voru þau með einum huga stöðug í bæninni.

Guðspjall: Jóh 17.9–17 Ég bið fyrir þeim. Ég bið ekki fyrir heiminum heldur fyrir þeim sem þú hefur gefið mér því að þeir eru þínir og allt mitt er þitt og þitt er mitt. Í þeim er ég dýrlegur orðinn. Ég er ekki lengur í heiminum. Þeir eru í heiminum en ég kem til þín. Heilagi faðir, varðveit þá í þínu nafni, því nafni sem þú hefur gefið mér, svo að þeir verði eitt eins og við. Meðan ég var hjá þeim varðveitti ég þá í nafni þínu sem þú hefur gefið mér, og gætti þeirra og enginn þeirra glataðist nema sonur glötunarinnar svo að ritningin rættist. Nú kem ég til þín. Þetta tala ég í heiminum til þess að þeir eigi í sjálfum sér fögnuð minn fullkominn. Ég hef gefið þeim orð þitt og heimurinn hataði þá af því að þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. Ég bið ekki að þú takir þá úr heiminum heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa. Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. Helga þá í sannleikanum. Þitt orð er sannleikur.