Lifandi kirkja, opin þér

Lifandi kirkja, opin þér

Heyrst hefur að prestar séu ósýnilegir sex daga vikunnar og óskiljanlegir þenna eina sem þeir messa. Eins er talað um að kirkjur eigi meira að vera opnar þeim sem þangað vilja leita, hvort sem er til næðis í einrúmi eða til að njóta þar samfélags.
fullname - andlitsmynd Ólafur Jóhannsson
17. nóvember 2009

Grensáskirkja

Heyrst hefur að prestar séu ósýnilegir sex daga vikunnar og óskiljanlegir þenna eina sem þeir messa. Eins er talað um að kirkjur eigi meira að vera opnar þeim sem þangað vilja leita, hvort sem er til næðis í einrúmi eða til að njóta þar samfélags.

Mörgum er þó kunnugt og ljóst að flestar kirkjur, a. m. k. í þéttbýli, eru opnar lungann úr deginum og öllum velkomið að leita þangað.

Kirkjan er opin

Grensáskirkja er dæmigerð hverfiskirkja í borginni. Hún er opin frá því kl. 9 á morgnana og langt frameftir degi, oft fram á kvöld. Mismunandi aldurshópar í barna- og unglingastarfi eiga fasta tíma á stundatöflu vikunnar, sömuleiðis starf með eldri borgurum, AA-fundir, fræðslustarf, sjálfshjálparhópar og tónlistarstarf, bæði innan safnaðarins og kórar sem fá aðstöðu í húsakynnum kirkjunnar.

Einnig er nokkuð um að einstaklingar komi og eigi hljóða stund í einrúmi í sjálfri kirkjunni eða litlu kapellunni.

Í hverri viku skipta þau hundruðum sem koma í Grensáskirkju einhverra ofangreindra erinda og enn fleiri þær vikur sem útfarir eru. Hið sama á við um allar hinar hátt í þrjátíu kirkjurnar á höfuðborgarsvæðinu.

Kyrrðarstundir í hádegi

Því fer einnig víðs fjarri að hefðbundin messa á sunnudegi sé eina fasta helgihaldið í kirkjunni. Kyrrðarstundir eru í Grensáskirkju í hádeginu á þriðjudögum. Kyrrðarstund er stutt helgistund með orgelleik, sálmasöng, ritningarlestri, fyrirbæn og altarisgöngu. Að henni lokinni býðst einfaldur málsverður í safnaðarheimilinu. Stundin í kirkjunni hefst kl. 12:10 og þátttakendur hafa lokið við að næra sig kl. 12:50. Þannig er vel unnt að sækja kyrrðarstundina innan þess tímaramma sem klukkustundar hádegishlé gefur. Mörgum finnst gott að geta þannig horfið um stund út úr erli starfsins og sótt sér andlega uppbyggingu og endurnæringu í dagsins önn.

Fimm daga vikunnar er hægt að sækja slíkar kyrrðarstundir í einhverri kirkju á höfuðborgarsvæðinu, suma daga í fleiri en einni.

Hversdagsmessur

Í Grensáskirkju eru hversdagsmessur á fimmtudögum kl. 18:10 og bera nafn með rentu. Auk þess að vera á venjulegum vinnudegi eru þær ögn einfaldari í sniðum og formið hversdagslegra en í hefðbundinni messu á sunnudagsmorgnum. Þorvaldur Halldórsson tónlistarmaður leiðir tónlistina sem einkennir hversdagsmessuna og ber hana uppi. Auk þess er ritningarlestur, stutt hugvekja á hversdagsmáli, fyrirbænastund og altarisganga. Messunni lýkur kl. 18:50.

Helgihald við allra hæfi

Í Grensáskirkju eru svonefndar Tómasarmessur annað sunnudagskvöld í mánuði. Tómasarmessur eru einnig í Breiðholtskirkju og hafa verið þar á annan áratug, oftast síðasta sunnudagskvöld í mánuði.

Í öðrum kirkjur eru batamessur, jassmessur, kvennamessur, léttmessur, poppmessur, æðruleysismessur, þjóðlagamessur, þ. e. a. s., mismunandi form af því að við erum ólík. Innihaldið er samt alltaf það sama: Að eiga með öðrum samfélag við Guð sem nærir trúna, styrkir vonina og eflir kærleikann. Til þess er kirkjan opin.