Gróðinn af lífinu

Gróðinn af lífinu

Er hugsjónin í anda nútímans að græða sem mest af lífinu? Skólinn er þá ekki einvörðungu stofnun sem elur með börnum þekkingu og góða siði, heldur viðskiptatækifæri sem getur grætt mikið. Heilbrigðiskerfið er þá ekki aðeins til að lækna fólk.....Er best fyrir fagurt mannlíf, að neyðinni verði umbreytt í féþúfu á markaðstorgi og mannúðinni snúið í söluvöru.

Kom, Guð andi helgi, hér himnum frá og til vor ber ljóssins geisla er ljóma af þér. Kom, vér börn þín köllum á, kom og gjafir þínar ljá, kom í hjörtun himnum frá.

Gleðilega hátíð,

Kirkjan á afmæli í dag. Ekki þetta hús, heldur samfélag fólksins í heiminum sem játar kristna trú og sameinast í söfnuðum undir merki krossins og hefur Jesú Krist að leiðtoga lífsins. Kirkjan rekur upphafið til þess atburðar, þegar heilagur andi kom yfir lærisveina Jesú á hvítasunnu. Við heyrðum frá því sagt í ritningarorðum hér. Sálmaskáldið Stefán Thorarensen tjáir svo í einlægri bæn: „Kom, Guð andi helgi, himnum frá og til vor ber ljóssins geisla er ljóma af þér“. Þetta ákall hefur sameinað þjóðina í kirkjunni um aldir, að lífið í landinu megi mótast af helgum anda.

Þetta orð, andi, getur verið erfitt að höndla. Samt er það algengt í daglegu máli. „Það var svo góður andi í hópnum“. „að vera innblásinn af anda“. „Andinn sveif yfir vötnunum“, og stundum er andinn kenndur við móral í íþróttum og það verði að styrkja móralinn í liðinu. Í guðspjöllunum er andanum, sem kom yfir Jesú við skírn hans líkt við dúfu, sem er svo táknið um frið í nútímanum.

Góðan anda tengjum við gjarnan við jákvæðni, samstöðu og kraft til góðra verka. Þá má kenna anda við tískubylgjur, þar sem fólki er blásin í brjóst ákveðin vegferð og til þess mælst að allir fari. Tískan er mikill máttur í nútímanum, veldur miklu, en er hverful og breytist harla skjótt.

Ég bendi fermingarbörnunum mínum á, að uppruna andans megi líkja við vindinn, sem er ósýnilegur eins og Guð, en máttur í lífi og veldur miklu. Sömuleiðis andadráttur mannsins táknið um lífsmark hans. Lifandi maður andar. Andinn og lífið eru því samgróin. Þess vegna vegur sú spurning þungt: Hvaða andi er það sem mótar lífið og veldur mestu?

Sá helgi andi, sem kom yfir lærisveinana á hvítasunnudag og sálmaskáldið biður um að móti lífið, boðar góðvild, réttlæti, hluttekningu, hjálpfýsi, umhyggju, þakklæti. Allt það sem Jesús Kristur stóð fyrir í orði og verki og skráð er í heilögu orði. Þú skalt elska Guð og náungann eins og sjálfan þig, gjöra það sem þú vilt að aðrir menn gjöri þér, elska í stað þess að hata, hjálpa í stað þess að ganga framhjá, fyrirgefa í stað þess að hefna, iðrast í stað þess að kenna öðrum um mistök sín, virða og rækta ábyrgð í háttum. Við getum haldið áfram að telja upp öll þessi gildi mannkosta sem við viljum að blómgist og móti velferðina. Af því að inngróin menning okkar þráir fagurt mannlíf þar sem andinn ljómar í trú, von og kærleika.

Í barnaskólanum mínum vorum við látin læra utanbókar boðorðin tíu í Biblíusögunum og boðskapurinn í þeim fléttaður inn í allt námið og lífið í skólanum, mótaði skólareglurnar, samskipti og kennsluna.

Ég bendi fermingarbörnunum mínum á, að boðorðin tíu eru meira en 3000 ára gömul, og spyr hvort einhvert boðorðið sé orðið úrelt vegna aldurs og hvort verði að bæta einhverjum nýjum við vegna framfara og breytinga sem orðið hafa í mannlífinu á svo löngum tíma? Eftir ítarlegar umræður, þá verður niðurstaðan sú, að ekkert er úrelt og engu þarf að bæta við. Vandinn er að taka mark á boðorðunum og láta ráða lífsins för.

Jesús Kristur sagði að öll boðorðin fælust í að elska Guð og náungann eins og sjálfan sig. Þetta boðar helgur andi kristinnar trúar og sálmaskáldið biður um að umvefji lífið okkar.

Nú er bannað að láta börnin læra boðorðin tíu í grunnskólanum, líka þessi átta þar sem ekki er minnst á Guð, svo ekki séu nefnd kærleiksboðorð Jesú. Af því að það er talið mismuna börnum eftir trúarbrögðum. Er víst að það auðgi fagurt mannlíf að fara á mis við boðorðin í Biblíunni?

Í árskýrslum stórfyrirtækja landsins er árangurinn metinn bestur, ef þau skila mestum gróða fyrir eigendurna, ekki hvað þau hafi lagt mikið að mörkum til samfélagslegra verkefna eða til að bæta kjör starfsfólksins. Er það góður mælikvarði á fagurt mannlíf?

Nú er vinsælt að mæla flest á kvarða og meta til fjár eða einkunna. Er víst að hamingjan og sældin blómstri helst þar sem gróðinn er mestur? Er það reynsla okkar af lífinu? Hjálpar gróðinn andanum til að blása okkur í brjóst samúð og fórnarlund, góðvild og virðingu, hjálpfýsi og réttlæti?

Er hugsjónin í anda nútímans að græða sem mest af lífinu? Er það besta leiðin til þess að blómga metnað um velferð og hamingju? Skólinn er þá ekki einvörðungu stofnun sem elur með börnum þekkingu og góða siði, heldur viðskiptatækifæri sem getur grætt mikið. Heilbrigðiskerfið er þá ekki aðeins til að lækna fólk og efla lífsgæði, heldur arðsamur rekstur sem skilar myndarlegum gróða? Áfengisbölið gæti líka verið eftirsóknarverður markaður sem býður veigarnar sem víðast og margir fái hlutdeild vaxandi gróðanum. Er best fyrir fagurt mannlíf að neyðinni verði umbreytt í féþúfu á markaðstorgi og mannúðinni snúið í söluvöru?

Í sumum trúarbrögðum er boðað, að velþóknun Guðs yfir manninum birtist í efnislegu ríkidæmi hans og sé vitnisburður um að einstaklingurinn njóti náðar Guðs. Gæti verið að andi slíkrar trúar sé farinn að móta íslenskt gildismat og siðferði? Það er mjög á skjön við Jesú Krist og boðskap hans sem sagði að sælir eru fátækir því þeirra er himnaríki, var sjálfur alslaus, upp á aðra komin um framfærslu sína, átti ekki heimili til að höfði halla, tæpast fötin utan á sér og ekki einu sinni krossinn sem hann dó á, sem var öðrum ætlaður. En boðaði ekki líf í meinlætum, tók sjálfur þátt í veislum og mannfögnuði og þáði beina hjá efnuðu fólki. En að ekkert vit væri í að eignast allan heiminn og fyrirgjöra sálu sinni.

Hér koma í huga vísuorð Halldórs Laxnes úr Sjálfstæðu fólki: „því hvar er auður, afl og hús, ef engin jurt vex í þinni krús“. Hvað kemur fyrst og er í forgangi nútímans, mótar hugsjón og lífsgildi og fyrir hvað er lifað? Ævisögurnar geyma margar minningar um það, hvernig græðgin át mennskuna innanfrá og aurafárið glapti alla skynsamlega sýn á gæði lífsins.

Í umræðum um hagræðingu og skipulag lífshátta okkar, þá takast á siðræn sjónarmið af andlegum og efnislegum toga. En sjaldan er spurt: Hvað er best fyrir fagurt mannlíf? Þá skiptir máli hvers konar anda við ræktum og hvar sækjum við næringu fyrir siðrænar viðmiðanir okkar? Þar hefur kristin trú verið hinn andlegi brunnur þjóðar um aldir og nært menningu, réttlæti og mannskilning. Það er eftirsóknarvert að búa við kraftmikið efnahagslíf sem er sjálfbært í sátt við fólkið og umhverfi og skapar trausta atvinnu, en þóknast ekki aðeins fáeinum útvöldum með gróða fyrir þá eina. Það eru mannréttindi að njóta fjárhagslegs sjálfstæðis um lífskjör sín, eiga nóg til framfærslu og lífsgæða. En það eru takmörk á hve miklu maðurinn getur torgað og öll förum við alslaus af þessari jörð. Nóg er af efnislegum gæðum á jörðinni til að búa öllum íbúum hennar mannsæmandi kjör. Því er ábyrgðin svo krefjandi. Hvernig deilum við kjörum saman? Það er á valdi mannsins. Hvernig hefur honum með öllu sínu viti og skynsemi tekist að höndla það? En það þekkjum við, þegar alvara lífsins blasir við, þá dugar vald fjarins skammt til að bjarga. Þá er hugsjónin um gróðann víðsfjarri og allt annað er í fyrirrúmi. Hvað er það?

Biðja, elska, vona í fórnfúsum verkum sem ekki spyrja um endurgjald. Móðir mín sagði gjarnan andspænis missi og sárum áföllum: „Nú er ekkert í boði nema að biðja Guð um að hjálpa sér“. Það hefur verið kjölfesta þjóðar og birtist í samfélagi fólks sem er hönd í hönd og deilir kjörum saman og nærist af anda sem huggar, hlustar, líknar, biður, vonar. Að rétta særðri sál hjálparhönd. Að njóta vináttu með samferðafólki þar sem hjálpfýsi af fórnarlund blómgast og styrkur til að setja sig í annarra spor. Að standa með þeim sem eiga undir högg að sækja. Það á ekkert skylt við sjálfsvorkun nútímans sem heimtar athygli og upphafningu af minnsta tilefni, heldur von sem áræðir af andans þolgæði að standa í fæturna og elskar náungann eins og sjálfan sig. Þar eru englar Guðs að verki, þó þeir hafi enga hugmynd um það sjálfir.

Þetta höfum séð í viðbrögðum við óskiljanlegum hryðjuverkum í Manchester. Fólkið er saman hönd í hönd, elskar, biður og vonar. Hrópar ekki á hefnd eða stríð, heldur rís upp og ræktar ástina í verkum sínum. Dettur einhverjum í hug að fara að græða á neyðinni í stað þess að leyfa andanum að ljóma af ljóssins geisla.

Það er svo víða unnið að því að auðga fagurt mannlíf. Við sjáum það hér á landi m.a. í fjölskrúðugu félagslífi þar sem sjálfboðin þjónusta er í fyrirrúmi. Víða er unnið svo vel að skapa fallega menningu, þar sem verkin göfga sældina í hamingjunni. Grænar fingur fara um moldina og auðga gróskuna með rækt og alúð. Tæknin hefur borið okkur margs konar gæði og létt undir með svo margt sem áður var erfitt. Og fólkið leggur sig fram í daglegum störfum og nýtur hamingju í árangri verka sinna og þjónustu. Þar eru ábyrgð og traust hornsteinar velferðar.

Hér er mikið að þakka, en hvetur um leið til umhugsunar um framtíð þar sem fagurt mannlíf blómgast í trú, von og kærleika. „Verði gróandi þjóðlíf með þverrandi tár, sem þroskast á Guðsríkisbraut“, eins og segir í þjóðsöngnum okkar“. Megi það verða hér. Amen.