Betri en við höldum - Prédikun um hið illa

Betri en við höldum - Prédikun um hið illa

Hið illa er allt sem sundrar. Allt sem ýtir undir óttann við það sem er öðruvísi en við sjálf. Hið illa er græðgin og öfundin sem gerir okkur sjálfhverf og tekur frá okkur hæfileikann til að setja okkur í spor annarra og finna til samkenndar.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
28. febrúar 2016
Flokkar

Hér er hægt að horfa og hlusta á prédikunina

Betri en við höldum Hvort er heimurinn meira góður eða vondur? Í einum af fermingartímunum eftir áramót var umræðuefnið “hið illa”. Ég spurði þá öll fermingarbörnin hvort þeim fyndist heimurinn vera meira góður eða vondur. Hjá flestum stóð ekki á svarinu og þau svöruðu mjög fljótt að heimurinn væri meira vondur. Þegar við síðan ræddum þetta betur og skoðuðum hvaðan þessar upplýsingar eða þessar hugmyndir kæmu þá kom í ljós að það var fyrst og fremst tilfinningin frá fjölmiðlum. Að það væru svo mörg hræðileg stríð, ofbeldi og hungursneyð vegna óréttlætis, að heimurinn hlyti að vera vondur. þegar við síðan ræddum þetta nánar voru þau ekki alveg jafn sannfærð um að þessi mynd af heiminum væri endilega sönn því þau upplifðu heiminn í kringum sig nokkuð góðan.

Hans Rosling, sænskur prófessor í alþjóða heilbrigðisvísindum, hefur ítrekað sýnt fram á það með tölfræði að heimurinn sé alls ekki eins slæmur og stór hluti fólks telur. Rosling hefur haldið fyrirlestra um allan heim um þess mál og hann vill meina að ástæðan fyrir því að við teljum flest að heimurinn sé mun verri en hann er, sé sú að fjölmiðlar sýni okkur fyrst og fremst þá hlið. Þrátt fyrir að margir fjölmiðlar líti á það sem hlutverk sitt að upplýsa okkur um það sem er að gerast í heiminum þá þurfa þeir alltaf að velja hvað þeir telja helst vera fréttnæmt og þá verða gjarnan neikvæðar fréttir fyrir valinu. Þær auka áhorfið.

Rosling vill meina að við getum ekki treyst á fjölmiðla eina og sér til þess að öðlast þekkingu á heiminum heldur þurfum við einnig til þess menntun og verðum síðan sjálf að sannreyna upplýsingarnar sem við öflum okkur. Hann segir að þrátt fyrir að til sé fullt af fátæku fólki þar sem stúlkur fá ekki að ganga í skóla, börn séu ekki bólusett og fólk flýji þaðan í stríðum straumum vegna styrjalda, þá eigi þetta aðeins við um lítið brot af heiminum.

Þetta er allt saman vont og þessu þarf að breyta. Því er mikilvægt að fjölmiðlar beri okkur fréttir af þess ástandi. Það má samt ekki bera þetta þannig á borð fyrir okkur að við förum að trúa því að heimurinn sé að mestu leyti hræðilegur. Því það er hann ekki. Yfir 80% barna í heiminum eru bólusett. Merihluti stúlkna í heiminum hefur sama aðgang að menntun og drengir, mun færri deyja venga náttúruhamfara nú en fyrir 100 árum og svo mætti lengi telja.

Sigrum illt með góðu Í dag heyrðum við sögu af því þegar Jesús er sakaður um að vera í þjónustu hins illa þegar hann rekur út illan anda. Á þessum tímum voru sjúkdómar gjarnan taldir vera til komnir vegna illra anda eða fyrir reiði Guð, og í þessu tilviki var um að ræða mállausan mann. Jesús læknar málleysingjann sem fær málið og í kringum hann er fólk sem fer í svo mikið uppnám við þetta að það ásakar Jesú um að vera í þjónustu hins illa.

Hvað ætli þetta illa sé?

Hið illa er allt sem sundrar. Allt sem ýtir undir óttann við það sem er öðruvísi en við sjálf.

Hið illa er græðgin og öfundin sem gerir okkur sjálfhverf og tekur frá okkur hæfileikann til að setja okkur í spor annarra og finna til samkenndar.

Hið illa er allt það sem fær okkur til að vilja meiða annað fólk og okkur sjálf. Það er andstæðan við ástina.

Ég er nokkuð viss um að hið illa sé í þér og mér en ekki einhver kraftur sem er utanvið okkur. Að öll séum við fær um að vinna vond verk, öfunda og týna okkur í sjálfhverfunni, meiða og óttast þau sem eru öðruvísi en við svo mikið að við byggjum múra á milli okkar og þeirra. Það gerðist ekki aðeins hér áður fyrr. Það er að gerast núna. Allt í kringum okkur.

En ég líka viss um að í okkur sé allt hið góða. Að í okkur búi ást og þrá eftir samhengi og löngun til að setja okkur í spor annarra og þráin eftir því að deila kjörum með hvert öðru. Og þessir kraftar eru mun sterkari en hinir illu. Jesús hefur sýnt okkur það.

Þegar Jesús var ásakaður fyrir að reka hið illa á brott með hjálp hins illa þá blés hann á vitleysuna. Hann sagði það vera fullkomna fásinnu að segja að hægt væri að ráða niðurlögum einhvers sem væri vont með hinu illa. Það getur ekki komið neitt gott út úr því þegar illt mætir illu. Eina leiðin til að sigra hið illa er með kærleika. Hið góða sigrar hið illa.

Þannig læknaði Jesús manninn, með kærleika og ást en ekki með illsku og hatri.

Það hefur sýnt sig í gegnum tíðin að þegar við mætum ofbeldi með ofbeldi þá veldur það aðeins enn meira ofbeldi. Ef við aftur á móti tökum á ofbeldi með ást, þá er líklegra að við getum stöðvað það. Það að mæta hinu illa, því sem sundrar og skapar ótta, öfund og sjálfselsku, með kærleika þýðir ekki að við eigum að loka augunum fyrir hinu illa. Jesús hvetur okkur til þess að loka ekki augunum fyrir hinu illa hvaðan sem það kemur og í hvaða mynd sem það er. Það er jafn slæmt að halda að heimurinn og allt fólk sé fullkomlega gott og vilji okkur alltaf hið besta og að telja að heimurinn sé vondur og allt fólk vilji okkur illt.

Bæði er barnaskapur.

Blanda af báðu Heimurinn er blanda af báðu. Við erum blanda af báðu. Í okkur öllum blunda bæði góðir kraftar og vondir. Við erum öll fær um að gera gott og að gera illt. Síðan er það umhverfi okkar og aðstæður sem ýtir undir hið góða í okkur eða hið vonda. Það er flókið að vera manneskja og standa frammi fyrir vonsku heimsins og annars fólks. Það er flókið að vera manneskja á stríðstímum og horfast í augu við mannvonskuna allt í kring og jafnvel í okkur sjálfum.

En það er líka dásamlegt að vera manneskja og hafa hæfileikann til að elska og vilja fólki vel. Að geta elskað eitthvað sem er utanvið okkur sjálf og geta sett þarfir annarra ofar okkar eigin. Að geta fundið æðri tilgang með lífinu. Að finna Guð sem er hrein ást.

Einmitt þess vegna er svo ágætt að hlusta á fólk eins og Hans Rosling sem segir okkur frá því að heimurinn sé ekki eins vondur og við oft teljum og sýnir fram á það með tölfræði. Í kirkjunni erum við oft að skoða það sem má fara betur vegna þess að við viljum bæta heiminn og þá er hættan sú að við sjáum fyrst og fremst það sem ekki er nógu gott, fátækt, ofbeldi, valdasýki, öfund o.s.frv. En við megum líka opna augu okkar fyrir því að í heiminum er svo margt gott og að heimurinn hafi meira að segja batnað síðustu 50 – 100 árin þar sem lífsgæði stórs hluta mannkyns hafa batnað.

Við ættum því kannski að fara að ráðum Rosling og láta ekki fjölmiðla eina og sér skapa heimsmyndina okkar. Heimurinn er svo miklu stærri, betri og fjölbreyttari en sú mynd er fjölmiðlarnir sýna okkur.

Lokum ekki augun fyrir hinu illa sem er í okkur og allt í kringum okkur en munum að hið góða er sterkara. Sigrum illt með góðu. Amen.

Hans og Ola Rosling í Ted Talks Hans Rosling um fjöliðla