Jesús kemur

Jesús kemur

Í dag eru tímamót og í dag minnumst við tímamóta. Við horfum aftur til áfanga í sögu íslensku þjóðarinnar. Hún stóð á merkum tímamótum fyrir 84 árum er hún hlaut fullveldi og viðurkenningu sem frjáls þjóð í sjálfstæðu ríki. Ísland varð konungsríki og við leyfðum Dönum að eiga með okkur konung í rúman aldafjórðung. Eftir 58 ára lýðveldi er enn spurt: Hvað merkir fullveldi og frelsi á nýrri öld?
fullname - andlitsmynd Ragnar Gunnarsson
01. desember 2002
Flokkar

Hann kom til Nasaret, þar sem hann var alinn upp, og fór að vanda sínum á hvíldardegi í samkunduna og stóð upp til að lesa. Var honum fengin bók Jesaja spámanns. Hann lauk upp bókinni og fann staðinn, þar sem ritað er:

Andi Drottins er yfir mér, af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins.

Síðan lukti hann aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður, en augu allra í samkundunni hvíldu á honum.Hann tók þá að tala til þeirra: Í dag hefur rætst þessi ritning í áheyrn yðar. Lk. 4:14-22a.

Tímamótadagur

Í dag eru tímamót og í dag minnumst við tímamóta. Við horfum aftur til áfanga í sögu íslensku þjóðarinnar. Hún stóð á merkum tímamótum fyrir 84 árum er hún hlaut fullveldi og viðurkenningu sem frjáls þjóð í sjálfstæðu ríki. Ísland varð konungsríki og við leyfðum Dönum að eiga með okkur konung í rúman aldafjórðung. Eftir 58 ára lýðveldi er enn spurt: Hvað merkir fullveldi og frelsi á nýrri öld? Aukin samskipti ríkja, ný nálægð vegna þróunar á sviði samskipta og samgangna, breytingar á efnahagsstefnu og efnahagskerfi þjóðanna og vaxandi Evrópusamband – allt kallar þetta á sífellt endurmat. Hvernig eigum við að verja fullveldið og frelsið – eða þurfum við þess ekki lengur? Margar eru spurningarnar og svörin enn fleiri. Ekki fáið þið þau hjá mér í dag, en við höfum mikið fyrir að þakka og fá að lifa og búa í landi friðar og frelsis.

Í háskólasamfélaginu eru tímamót. Að baki er tími kennslu og náms þar sem við höfum setið með sveittan skallann yfir bókum, undir fyrirlestrum, í hópvinnu, framsögu, dæmatímum og ritgerðasmíð svo eitthvað sé nefnt. Framundan er prófatími, væntanlega með enn sveittari skalla. Og þá dugar ekki að lesa aðeins Barbapabba fyrir börnin á kvöldin.

Í kirkjunni eru einnig tímamót. Fyrsti sunnudagur í aðventu markar upphaf nýs kirkjuárs. Þau tímamót gefa okkur tækifæri til að líta yfir liðið kirkjuár og spyrja okkur: Hvernig var ganga mín með Guði. Hvaða sess skipaði hann í lífi mínu? Hvað fékk hann að kenna mér? Hvernig fékk hann að leiða mig? Og ekki síst: Hvaða erindi á hann við mig á nýju kirkjuári.

Jesús kemur

„Jesús kemur! Jesús er að koma!“

Án efa var mikið um hróp og köll í Nasaret forðum daga. Eftirvæntingin réði ríkjum þegar Jesús nálgaðist bæinn. Þar hafði hann alist upp. Flestir þekktu hann eða þekktu til hans. Eflaust þótti mörgum hann ekkert merkilegri en aðrir. En undanfarið höfðu borist sögur af honum. Orðrómurinn um það sem hann gerði í Kapernaum var ótrúlegur. Fólk velti þessu fyrir sér: „Kannski við fáum að heyra eitthvað og sjá hérna í Nasaret? Hvað skyldi gerast? Hvenig ætli Jesús líti út núna, ætli hann sé eitthvað breyttur?“

Eitthvað hafði gerst, það var ljóst. Allir voru að tala um hann og lofuðu hann. Hann var eins og nýr og breyttur maður. Lúkas skrifar og segir: Hann sneri til Galíleu í krafti andans. Að baki var skírnin í ánni Jórdan og freistingin í eyðimörkinni. Framundan hið mikla starf sem Jesús átti eftir að vinna. Messías steig fram á sviðið sem hinn smurði konungur. Hann var kominn til sinna manna.

Jesús sá um lesturinn úr spámannaritunum í samkunduhúsinu og las þekktan texta úr bók Jesaja. Hann fjallaði um Messías, frelsarann sem þjóðin beið eftir. Fátækir höfðu þörf fyrir gleðilegan boðskap, bandingjarnir fyrir lausn og blindir fyrir sýn. Engin spurning. Á meðal barna og fullorðinna hafði eftirvæntingin vaxið: Hvenær skyldi hann koma, frelsarinn og lausnarinn, Messías sjálfur?

Jesús ávarpaði heimafólk sitt og sagði að þessi boðskapur um lausn og frelsi, gleðilegan boðskap og náðarár Drottins væri þegar orðinn að raunveruleika meðal þeirra. „Í dag hefur ræst þessi ritning.“ Og við lesum að allir lofuðu hann og undurðust.

Ég sé fólkið fyrir mér, tala saman: „Hugsa sér, þessi Jesús sem allir tala um er einn af okkur. Hann er kominn heim. Strákurinn í næsta húsi er Messías. Hann mun frelsa okkur undan oki og kúgun. Hann á eftir að koma Nasaret á kortið. Við verðum fræg.“ Eitthvað svipað því þegar Íslendingur gerir það gott í útlöndum og stolt landans vex fram. Í nýju James Bond myndinni þurfti aðalleikarinn ekki einu sinni að koma til Íslands þó svo drjúgur hluti myndarinnar gerist þar. Hjá Jesú var það öðruvísi. Hann mætti á staðinn í Nasaret enda kominn til að lifa og deyja meðal manna.

Hann stóð undir væntingunum. Fögnuður og gleði. Þar með lýkur guðspjalli dagsins. En við þurfum ekki að lesa lengi til að sjá að Jesús yfirgaf Nasaret innan um fjölda fólks sem hafði ætlað sér að taka hann af lífi fyrir utan bæinn. Jesús sagði hreint og beint frá að hann væri ekki kominn til Nasaret til að vinna þau kraftaverk sem hann vann annars staðar. Hann gaf í skyn að kraftaverkin væru ekki fyrir alla, og að Guð sé ekki bara umhugað um Gyðinga, heldur líka heiðingjana. Nei takk, hugsuðu Gyðingarnir í samkunduhúsinu: „Guð tilheyrir Gyðingum! Við eigum Guð! Þetta skal hann Jesús fá borgað!“ Hann var dreginn út úr samkunduhúsinu og út úr bænum. Guðsþjónustan breyttist í hasar og læti.

Við sjáum hér, eins og víðar í Nýja testamentinu, að viðbrögð fólks við starfi Jesú og boðskap voru tvíþætt. Annars vegar fögnuður og gleði, allir lofuðu Jesú. Hins vegar höfnun og andstaða. Strax í upphafi dregur Lúkas fram þessi tvíþættu viðbrögð sem fylgdu Jesú og fylgdu boðun fagnaðarerindisins og starfi postulanna fyrstu áratugina. Og hefur fylgt því gegnum aldirnar.

Þrjár áminningar

Eins og Jesús kom til Nasaret kemur aðventan nú til okkar. Góð áminning um margt. Mig langar að nefna þrennt.

Í fyrsta lagi minnir hún okkur á það sem Jesús benti á í Nasaret: Að spádómar Gamla testamentisins voru að rætast. Í aldaraðir höfðu komið fram spádómar um Messías, konunginn sem koma ætti. Áheyrendurnir þekktu textann sem Jesús las. Með upplestri sínum og orðum var hann að segja: „Ég er sendur af Guði sjálfum, ég er hinn útvaldi. Ég á að vinna verkið. Ég er Messías, frelsarinn sem allir hafa beðið eftir. Þetta er að gerast hér og nú, beint fyrir augum ykkar.“ Það er eins og hann sé að spyrja: „Þekkið þið mig í raun og veru?“ Spádómarnir rættust í Jesú.

Tímamót voru runnin upp í samskiptum Guðs og manna. Guð var kominn til þeirra á nýjan og ferskan hátt, svo óvenjulegan að fólk átti erfitt með að átta sig á því. Áætlun Guðs til hjálpar mönnunum, að koma í lag sambandi þeirra og Guðs var nú hrint í framkvæmd. Fyrirgefning og frelsi frá hlekkjum syndar stóð þeim til boða. Aldalöng bið og eftirvænting var á enda. Fjöldinn allur af spádómsorðum Gamla testamentisins, að sumra mati um 300 talsins, voru tekin að rætast.

Aðventan minnir okkur að sá rammi sem Guð setti sér fram að komu Jesú var sprunginn. Spádómarnir rættust. Sá gleðilegi boðskapur sem Jesús kom með var ekki aðeins fyrir Gyðinga, hann var einnig fyrir heiðingjana. Hann var fyrir okkur. Hann er fyrir alla. Aðventan minnir okkur á að við berum ábyrgð á þeim sem þekkja ekki Jesú.

Jesús barðist ekki með sverði heldur með orði, rétt eins og sjálfstæðishetjurnar á 19. öld. Hann flutti gleðilegan boðskap. Hann kenndi eins og sá sem vald hafði. Hann hreif fólk með sér. Hann birti vald Guðs meðal mannanna. Hann leysti menn úr hlekkjum syndar, sjúkdóma og illra anda. Hann ferðaðist um og predikaði, sagði frá kærleika Guðs og nýju tækifæri til sátta við hann. Hann fyrirgaf syndir. Hann kom til að leita að hinu týnda og frelsa það. Frelsarinn var ekki aðeins fæddur. Hann var tekinn til starfa.

Í öðru lagi minnir aðventan okkur á að Jesús á erindi við okkur eitt og sérhvert. Hún minnir okkur á komu Jesú – sem er ástæða þess að við undirbúum jólin - til að minnast fæðingar frelsarans. Yfir skrift aðventunar er: Jesús kemur! Boðskapur jólanna í hnotskurn. Enn fáum við að undirbúa jólin, horfa fram til hvíldar og gleði, samfélags og margs konar gæða. Við fáum um fram allt að horfa á Jesú. En í glaumi og gleði aðventu efnishyggjunnar er hætta á að við gleymum honum, Jesú sjálfum. Auglýsingarnar dynja nú þegar á okkur af miklum þunga, í útvarpi, sjónvarpi, dagblöðum og litskrúðugum auglýsingapésum. Auðvelt er að drukkna í þessu öllu því allir segja: Komið til mín, komið til okkar. Margt gott er í boði. En fleiri kalla. Kirkjuklukkurnar hljóma og kalla okkur til Jesú. Til hans sem fyrirgefur og frelsar, leysir og læknar. Jesús á erindi við okkur á þessari aðventu. Hann stendur við dyrnar og knýr á.

Aðventan er tími sem okkur er gefinn til að undirbúa okkur sjálf fyrir jólin. Ef jólin eiga að vera góð og gleðileg, þurfum við þá ekki að lifa hvern dag aðventunnar með Jesú? Er þá ekki aðventan tími Jesú? Tími þar sem bænin og orð Guðs nær tökum á okkur, endurnærir og styrkir. Heilagur andi fær að snerta við okkur og sambandið og samféaglið við Jesú verður eins og nýtt og ferskt. Enn í dag býður hann okkur að borði sínu, í náðarfaðm sinn, þar sem við þiggjum hann sjálfan og minnumst dauða hans, pínu og upprisu. Við fáum að reyna nálægt hans og kærleika í máltíðinni.

Aðventan er einstakt tækifæri til að efla helgihald heimilisins. Við kveikjum á kertunum, einu af öðru og minnum okkur öll á undirbúninginn að komu Jesú á sínum tíma og spyrjum okkur, hvernig getum við undirbúið okkur sjálf sem best fyrir komandi jól. Vel fer á að lesa einhverja af spádómum Gamla testamentisins og fyrsta kafla Lúkasarguðpjalls. Í bæninni bjóðum við Jesú velkominn. Þegar við tendrum aðventuljósin minna þau okkur á Jesú, ljós heimsins. Á heimasíðu þjóðkirkjunnar eru hagnýtar leiðbeiningar ef fólk þarf aðstoð við helgihaldið.

Í þriðja lagi minnir aðventan okkur á þau sem búa ekki við sama öryggi og við í sambandi við mat og klæði, húsnæði og vatn. Aðventusöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar er nú hafin. Hún er helguð því verkefni að gefa sem flestum aðgang að hreinu og öruggu vatni, sem er forsenda svo margs annars sem mannlegt líf þarfnast.

Okkur býðst að gefa og leyfa öðrum að njóta þeirra gæða sem okkur hefur verið trúað fyrir. Í dag er einnig alþjóðlegi alnæmisdagurinn. Við minnumst þeirra sem þurfa að glíma við sorg og jafnvel höfnun vegna þess að þau hafa smitast.

Viðbrögð okkar

Já, Jesús kemur!

Hver eru viðbrögð okkar við komu hans? Hvaða móttöku fær hann hjá mér og þér? Nýja testamentið og margir aðventusálmar birta okkur myndina af Jesú sem konungi. Konunginum sem kemur. Ef konungurinn kemur viljum við væntanlega vera viðbúin. Tilbúin að taka á móti honum. Geta boðið honum inn. Notið samvista við hann. Þegið gjafir hans. Játast honum enn og einu sinni sem drottni, frelsara og konungi.

Hvað verður um aðventuna í ár er ákvörðun okkar, hvers og eins. Spyrjum okkur hvað við viljum gera, hvað við ætlum að gera. Hvaða sess látum við Jesú skipa í lífi okkar og dagskrá, önnum og væntingum?

Jesús kom og Jesús kemur. „Sjá konungur þinn kemur til þín.“ Aðventan og Jesús eiga samleið. Hvort það verður reyndin hjá þér og mér er undir okkur komið. Við þurfum ekki að fara til Nasaret til að hitta Jesú, hann er hér. Guð gefi okkur öllum blessunarríka aðventu í samfélagi við sig.

Ó, kom minn Jesús, kom sem fyrst ó, kom og mér í brjósti gist, ó, kom þú segir sála mín, ó, seg við mig: Ég kem til þín

Dýrð sé Guði föður syni og heilögum anda um aldir alda.

Ragnar Gunnarsson (ragnar@sik.is) er kristniboði og guðfræðinemi. Þessi prédikun var flutt í Háskólakapellu á fyrsta sunnudegi í aðventu, 1. desember 2002.