Fjölnismenn og nýir Íslendingar

Fjölnismenn og nýir Íslendingar

Ég óska Íslendingum til hamingju með daginn. Fullveldisdagurinn er okkar sigurdagur. Eftir þrotlausa baráttu Fjölnismanna og fleira góðs fólks, rann loks upp sá dagur að við fengum heimastjórn. Við höfðum verið bænheyrð og Guð gaf okkar fólki styrk til að heyja málefnalega sjálfstæðisbaráttu með orði en ekki sverði. Það er okkar lán.
fullname - andlitsmynd Ása Björk Ólafsdóttir
01. desember 2004
Flokkar

Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða. Eða hver er sá maður meðal yðar, sem gefur syni sínum stein, er hann biður um brauð? Eða höggorm, þegar hann biður um fisk? Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir, sem biðja hann? Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Þetta er lögmálið og spámennirnir. Matt 7:7-12

Ég óska Íslendingum til hamingju með daginn. Fullveldisdagurinn er okkar sigurdagur. Eftir þrotlausa baráttu Fjölnismanna og fleira góðs fólks, rann loks upp sá dagur að við fengum heimastjórn. Við höfðum verið bænheyrð og Guð gaf okkar fólki styrk til að heyja málefnalega sjálfstæðisbaráttu með orði en ekki sverði. Það er okkar lán.

Í guðspjallstexta dagsins segir:

Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. Íslendingum fannst þeir hafa knúið á nokkuð lengi, en nú sjáum við nágrannaþjóðir okkar, Færeyinga og Grænlendinga sem enn eru ekki komnar með fullt sjálfstæði frá dönsku krúnunni. Við erum komin langt og okkur ber að standa vörð um sjálfstæðið.

Námsfólk Háskóla Íslands eru nýbúið að vinna brautryðjendastarf fyrir þjóðina, þegar kvöldopnun Þjóðarbók-hlöðunnar er orðin að veruleika á ný. Þrátt fyrir að við séum uppi á tímum þar sem hægt er að nálgast mikið magn upplýs-inga á veraldarvefnum, stendur bókin og hið ritaða mál ávallt fyrir sínu og langt er í að einungis þurfi að setjast við skjáinn til að komast í allt lesefni. Reyndar er það ekki aðeins lesefni sem námsfólk Háskólans sækir í Þjóðarbókhlöðuna, því þar er fyrirmyndar lesaðstaða. Hennar söknuðum við sárt á meðan lokað var. Þetta litla dæmi sýnir okkur hvers við erum megnug þegar við stöndum saman. Við megum vera stolt af þessum sigri. Lífið er allt fullt af sigrum, en þeir koma ekki af sjálfum sér.

Á sama hátt og bæði Fjölnismenn og stúdentar gáfust ekki upp í sinni sterku sannfæringu um það sem skipti þá máli, vill Guð að við biðjum án afláts. Guðspjallið heldur áfram:

Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða. Við erum komin inn í tíma jólaföstunnar. Sá tími er mörgum gleðitími, en þó ekki öllum. Öll vitum við að það á að vera gaman að undirbúa jólin, tilhlökkunin á að vera til staðar og tilhugsunin um samveru fjölskyldunnar hljómar vel í eyrum margra, en þó ekki allra. Margt fólk kvíðir jólunum. Þar kemur margt til. Sú staðreynd er óhugnanleg að til er hópur í okkar velmegunarsamfélagi sem ekki hefur til hnífs og skeiðar, fólk sem er bókstaflega fátækt. Fullvalda þjóð sem ekki getur séð öllum hinna örfáu þegna sinna fyrir nauðþurftum, þarf að endurskoða lífsstíl sinn. Smá þjóð, sem telur jafnmarga íbúa og lítið úthverfi stórborgar, á ekki að láta það viðgangast að fólk þurfi að leita í matar- og fatagjafir. Almenningur leggur hjálparstarfi til fé og það er vel, en eigum við ekki að rækta garðinn okkar betur? Sem betur fer eru til hjálparstofnanir sem útdeila nauðþurftum til þeirra sem eru það sjálfbjarga og hraust að geta borið sig eftir björginni, en síðan er einnig fólk sem ekki er fært um að leita sér hjálpar sjálft. Þá er komið að náungakærleikanum.

Ennfremur segir í guðspjalli dagsins: Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Það er einmitt þarna sem við eigum að staldra við. Við getum svo margt gert sem hópur og einnig sem einstaklingar. Við getum ekki bara bent á stjórnvöld, en haldið sjálf að okkur höndum, því við eigum að gefa öðrum eins og við viljum að aðrir gefi okkur þegar við eigum erfitt. Við skulum tileinka okkur samheldni. Henni megum við ekki glata í hraða samfélagsins.

Barnafólk finnur á þessum tíma hversu samvera fjöl-skyldunnar er mikilvæg. Börn þurfa aðhald, ást og umfram allt reglu í þessu hraða samfélagi.

Ennfremur segir guðspjallið: „Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir, sem biðja hann?” Við megum gæta okkar að líta ekki einungis á gæði gjafanna sem börnin fá frá okkur, út frá veraldlegum auði. Mun meira virði er að börnin fái það góða atlæti sem þau þurfa til þess að verða kærleiksríkar og öruggar manneskjur. Börnin eru framtíð Íslands. Þau eru framtíð alls heimsins og á ábyrgð okkar fullorðna fólksins sem erum þeirra fyrirmyndir.

Jesús sagði: „Leyfið börnunum að koma til mín og varnið þeim eigi, því slíkra er Guðs ríki.” Þetta er ekki einhver merkingarlaus frasi sem gott er að skella fram við skírnar-athafnir, heldur innihalda þessi orð hinn góða sannleika um mikilvægi þess sem börnin eiga. Það er mikil ábyrgð sem því fylgir að viðhalda þeim tærleika sem sjálfur skaparinn hefur gefið hverri manneskju í sköpun sinni. Við eigum einnig að halda í barnið í okkur, því við erum öll börn Guðs. En börn Guðs hér á landi eru ekki öll fædd hér. Þjóð okkar hefur á undanförnum áratugum auðgast mikið, bæði mannauðs- og menningarlega séð. Nýir Íslendingar eru margir hér á landi og okkur ber ekki einungis að bjóða þá velkomna, heldur beinlínis fagna þeim. Við búum í fjölmenningarlegu samfélagi og því ber að fagna. Í nýlegri könnun kemur fram að þjóðin er ánægð með þá matarmenningu sem nýir Íslendingar koma með inn í samfélagið okkar. Hins vegar var stór hópur fólks sem þótti hinir nýju Íslendingar vera of sýnilegir í samfélaginu. Ætli þetta fólk hafi ekki gleymt því að við erum öll börn Guðs? Í stað þess að kvarta undan því að sumu fólki gangi illa að tileinka sér íslenska tungu, þurfum við að skoða hvað það er sem við getum gert til að auðvelda innflytjendum að aðlagast betur hinum nýju aðstæðum. Við ættum að bjóða upp á eða hreinlega að gera þá kröfu að fólk nýti sér íslenskukennslu og fræðslu um sögu þjóðarinnar og menningu, eins og gert er sums staðar erlendis. Markmiðið er að undirbúa þetta fólk undir fulla þátttöku í því samfélagi sem fyrir er, bæði varðandi nám og atvinnu og einnig þannig að fólk geti tekið þátt í stjórnmálaumræðu og fleiru. Auðvelt er að sjá fyrir sér slíkt fyrirkomulag hér í okkar fámenna landi. Þegar við tökum á móti fólki erum við að taka á okkur ákveðna ábyrgð, ekki síst gagnvart börnunum. Okkur ber skylda til að gera þeim kleift að stunda framhaldsnám eftir grunnskóla, en tölur sýna okkur að nýir Íslendingar ganga allt of sjaldan menntaveginn og veit ég að þá er ekki skorti á gáfum um að kenna. Ég vil ekki draga úr því að víða er vel gert, eins og t.d. í Menntaskólanum við Hamrahlíð þar sem hið alþjóðlega IB nám er kennt. Það nám nýtist nú bæði Íslenskum ungmennum sem búið hafa erlendis um hríð og einnig ungmennum sem eru af erlendu bergi brotin.Við skulum ætlast til að gert sé svo við þetta fólk eins og við vildum að gert væri við okkur. Eins og við heyrðum lesið úr Rómverjabréfinu: Skuldið ekki neinum neitt, nema það eitt að elska hver annan, því að sá sem hefur elskað náunga sinn hefur uppfyllt lögmálið. Ennfremur segir: þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Kærleikurinn gjörir ekki náunganum mein. Þess vegna er kærleikurinn fylling lögmálsins. Náungakærleikurinn á alltaf rétt á sér.

Já, biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. Drottinn vill að við biðjum óhikað um það sem stendur hjarta okkar næst. Samband okkar við Drottinn er ekki samband þar sem verið er að prútta. Við biðjum ekki um helmingi meira en við viljum fá til þess að fá allavega svolítið. Svör Drottins við bænum okkar eru misjöfn. Svarið kemur ekki alltaf strax. Við þurfum bæði að vera þolinmóð og opin fyrir nýjum leiðum, til þess að taka á móti svari Drottins. Svarið kemur ávallt, því getum við treyst.

Við erum fullvalda þjóð. Bjóðum öllum þegnum okkar upp á sömu tækifæri, forðumst hvers konar mismunun.

Verum óhrædd við að biðja og munum að þakka fyrir bænina sem færir okkur nær Drottni. Biðjum um leiðsögn og hugrekki til að bæta okkur og reynast náunga okkar sem Kristur. Biðjum um styrk til að glata aldrei voninni.

Dýrð sé Guði; föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.