Þjóðkirkja í frjálsu falli?

Þjóðkirkja í frjálsu falli?

Öðlist frumvarpið gildi mun ný stjskr. ekki hafa að geyma neina þjóðkirkjugrein. Hún mun hins vegar veita þjóðkirkjuskipan sem sett yrði með lögum sérstaka vernd. Bæði fylgjendur og andstæðingar þjóðkirkju í landinu kunna því að geta vel við unað.
fullname - andlitsmynd Hjalti Hugason
30. ágúst 2011

Dr. Hjalti Hugason, prófessorÍ aðdraganda hinna ógildu Stjórnlagaþingskosninga s.l. haust varð þjóðkirkjugrein stjskr. (62. gr.) að heitu umræðuefni. Snemma tók þó að örla á þeirri afstöðu — ekki síst meðal margra er síðar settust í Stjórnlagaráð — að ekki bæri að eyða dýrmætum tíma ráðsins í þetta mál. Það sjónarmið hefur raunar jafnan komið fram þegar breytingum á trúmálaákvæðum stjskr. hefur verið hreyft samtímis víðtækari endurskoðun. Hafa tillögur að trúmálarétti þá annað tveggja dagað uppi eða flotið umræðulítið gegnum breytingaferlið. Málamiðlun Stjórnlagaráðs

Þrátt fyrir þetta kom Stjórnlagaráð sér saman um tillögu að efnislegir breytingu á þjóðkirkjugreininni. Nú hljóðar greinin svo:

„Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum.“

Stjórnlagaráð leggur til að í staðinn komi í 19. gr. nýrrar stjskr.:

„Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins. Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipan ríkisins og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.“

Er síðari málsgreinin sótt til 2. málsgr. 79. gr. núgildandi stjskr.

Þetta er dæmigerð málamiðlunarlausn. Öðlist frumvarpið gildi mun ný stjskr. ekki hafa að geyma neina þjóðkirkjugrein. Hún mun hins vegar veita þjóðkirkjuskipan sem sett yrði með lögum sérstaka vernd. Bæði fylgjendur og andstæðingar þjóðkirkju í landinu kunna því að geta vel við unað. Fljótt á litið virðist breytingin heldur ekki hafa teljandi praktísk áhrif — eða hvað?

Frjálst fall?

Setjum svo að frumvarp Stjórnlagaráðs gangi rétta boðleið og öðlist gildi 17. júní árið X. Það með féllu 62. og 79. gr. núverandi stjskr. úr gildi rétt eins og allar aðrar greinar hennar. Löggjafinn stæði þá frammi fyrir því að hann hefði heimild til að setja lög um kirkjuskipan ríkisins. Margháttuð rök mæla með að það verði gert (sjá m.a. pistil undirritaðs „Á að setja landinu kirkjuskipan“ á Pressunni). Stjórnvöld kynnu enda að velja þá leið. Þá kemur síðari liður 19. gr. frumvarpsins til framkvæmda og hinum nýju lögum yrði ekki breytt án þjóðaratkvæðagreisðlu. Núverandi staða þjóðkirkjunnar gæti þá haldist lítt röskuð

Svo kynni þó að fara að þeir sem forystu hefðu á vettvangi stjórnmálanna kysu að notfæra sér ekki heimildina. Hvað gerist þá? Augljósasta svarið er að þar með færi þjóðkirkjuskipanin í frjálst fall. Hún nyti hvorki verndar núgildandi stjskr. né þeirrar nýju.

Svo virðist með öðrum orðum að á grundvelli stjórnlagaráðstillögunnar geti löggjafinn tekið endanlega afstöðu til þjóðkirkjufyrirkomulagsins en frá 1920 hefur það vald verið í höndum þjóðarinnar sjálfrar. Tillaga Stjórnlagaráðs áskilur þjóðinni sem sé ekki atkvæði um það hvort heimildarákvæðið skuli nýtt eða ekki heldur aðeins um lagabreytingar hafi lög um kirkjuskipan ríkisins verið sett.

Hvað er kirkjuskipan?

Í þessu sambandi skiptir merking hugtaksins kirkjuskipan að sjálfsögðu sköpum. Hún getur verið tvíþætt. Löng hefð er fyrir því að nota hugtakið um lög er kveða á um innri skipan kirkjumála. Dæmi um slíkt er kirkjuskipan Kristjáns konungs III. fyrir danska ríkið frá siðaskiptatímanum á 16. öld. Hún fjallar m.a. um kenningu kirkjunnar, helgisiði, skólana sem voru kirkjulegar stofnanir á þessum tíma og framfærslu presta. Líta má svo á að lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar frá 1997 séu slík kirkjuskipan nú á dögum, þ.e. kirkjuskipan fyrir íslensku þjóðkirkjuna.

Þegar hugtakið er notað um „kirkjuskipan ríkisins“ eins og gert er í 2. mgr. 79. gr. núgildandi stjskr. og tillögu Stjórnlagaráð öðlast það aðra merkingu. Á báðum stöðum er átt við efni núverandi 62. gr. stjskr. eða ígildi hennar. Hér vísar hugtakið ekki til innri skipanar kirkjumálanna heldur einvörðungu til tengsla kirkjunnar við ríkið.

Það er því mikilvægt að greina á milli innri og ytri kirkjuskipunar eða kirkjuskipunar í innri og ytri málum. Ytri kirkjuskipanin kemur nú fram í stjskr. og er þjóðinni allri ætluð aðkoma að breytingum á henni eins og eðlilegt er í lýðræðisríki. Innri kirkjukipanin kemur hins vegar nú fram í fyrrnefndum lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar.

Það skal fúslega játað að að sá hluti þjóðarinnar sem tilheyrir þjóðkirkjunni þyrfti að eiga mun beinni aðkomu að innri kirkjuskipaninni en nú er en þá á vettvangi Kirkjuþings en ekki Alþingis. Það er hins vegar ljóst að ekki er mögulegt að leggja breytingar á innri kirkjuskipaninni „undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu“ síst af öllu þegar vaxandi hluti þjóðarinnar kýs að standa utan þjóðkirkju og hefur því vart áhuga á að taka þátt í að móta starfshætti hennar og á enda ekki eðlilegt tilkall til þess.

Ögrandi viðfangsefni

Þennan mun á innri og ytri kirkjuskipan, kirkjuskipan ríkisins og skipan kirkjunnar sjálfrar, verður að hafa í huga þegar afstaða er tekin til tillögu Stjórnlagaráðs.

Spyrja verður: Á að setja ríkinu (ytri) kirkjuskipan og þá til hvers og hvar á hún að koma fram — í lögum eða stjskr.? Einnig verður að ræða hvernig kirkjuskipan ríkisins sé best fyrir komið í lögum. Á að setja hana fram í sérstökum lögum eða viðameiri lögum um þjóðkirkjuna? Með öðrum orðum: Er heppilegt að flétta saman innri og ytri kirkjuskipan? Væri sú leið farin ætti þjóðin öll aðkomu að breytingum á tiltekinni grein laganna en ekki öðrum. Eða ættu frekar ein lög að gilda um stöðu kirkjunnar (ytri kirkjuskipan) en önnur um stjórn hennar og starfshætti (innri kirkjuskipan). Þá væru breytingar á öðrum háð þjóðaratkvæðagreiðslu en ekki hinum. Og loks: Hvar sleppir ytri kirkjuskipaninni og hvar tekur hin innri við?

Stjórnlagaþing hefur boðið upp til þessarar umræðu eins og bert kemur fram í skýringum þess við 19. gr. frumvarpsins. Það er án efa hollt bæði fyrir þjóðina og þjóðkirkjuna að taka þá umræðu. Hún krefst hins vegar yfirvegunar og vandvirkni á báða bóga en ekki fljótræðis og flumbrugangs eins og okkur hættir oft til.