Novissima verba

Novissima verba

Hvar gefast okkur orð á þessum jólum, orð sem eru ekki blaut, máttlaus og fölsk, heldur sönn, heiðarleg, réttlát og lifandi og geta sæmilega nýst okkur í baráttu fyrir betri tíð og bjartari heimi?

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. “Orð ég segi alltaf færri og færri orð enda hafði ég lengi á þeim illan bifur. Tign mannsins segja þeir þó þeir geri sér ekki ljóst að orð eru dýr né með hverju þeir geti borgað. Bráðum á að dimma en annars vitum við ekki margt sjá: hin fögru andlit hin marglitu hrjáðu andlit líða hjá líða hjá og hverfa og hispursmeyjar þar og hér önnum kafnar að lengja sólarhringinn (til þess að við gefumst ekki upp í leit okkar að efnafræðilega hreinu tungumáli til að nota í laumi.) Nei við vorum trúi ég að tala um orð ýmsum eru þau víst mjög leiðitöm þeir taka upp orð í kippum við götu sína og tala - það fæ ég enn ekki skilið. Hvað sem öðru líður vil ég biðja menn að fara varlega með orð þau geta sprungið og þó er hitt öllu hættulegra að það getur vöknað í púðrinu. Gagnvart þessum vanda hef ég lengi verið skelfingu lostinn og reyndar vitum við mjög fátt nema að bráðum fer að dimma nýtt tungl nýtt glas af víni novissima verba.” Sigfús Daðason (Úr ljóðabókinni Hendur og orð) “Novissima verba” þýðir nýjustu orðin eða nýjustu fréttirnar í þessu stórbrotna kvæði eftir Sigfús Daðason. Ég hef prédikað út frá því áður á jóladaginn, einhvern veginn leitar kvæðið alltaf á huga minn þegar ég les jólaguðspjall Jóhannesar um orðið sem varð hold og býr með okkur. Í jólaguðspjallinu er litla jólabarnið í jötunni í Betlehem víðs fjarri og ekkert rætt um móður þess, vitringa, hirða og engla sem við erum svo vön að tengja jólunum. Jólaguðspjall Jóhannesar fjallar um ljós og myrkur, orð sem gerðist maður. Í kvæði sínu biður Sigfús biður okkur lengstra orða að fara vel og varlega með orð, jaska þeim ekki út, láta ekki blotna í púðrinu. Kannski er hann að biðja okkur um að gera ekki úr orðunum innantómar og óheiðarlegar klisjur sem falsa mannlega tilvist og búa til úr þeim ódýrar skrumskælingar. Vandi klisjanna, hugsunarleysisins og skoðanasveltisins er alvarlegur vandi “Gagnvart þessum vanda hef ég lengi verið skelfingu lostinn”. Ef til vill er vandi okkar kynslóðar einmitt sá að heimsmynd okkar er að nokkru leyti hrunin, fólk hefur ekki lengur traust á stofnunum og kerfum orðin, gildin og heimsmyndin sem við tókum upp í kippum af götunni eru orðin innantóm og hol og þarfnast uppstokkunar. Það hefur þegar dimmt og við erum smám saman að koma til sjálfs okkar eftir hrun “sjá: hin fögru andlit hin marglitu hrjáðu andlit líða hjá líða hjá og hverfa og hispursmeyjar þar og hér önnum kafnar að lengja sólarhringinn”. Það rofar til. Við erum orðin leið á þessum hispursmeyjum, greifum og dárum og íslenskt þjóðfélag þjáist fyrir gerðir þeirra og orð. Það er því full ástæða til að taka undir með Sigfúsi þegar hann varar okkur við orðum og segir okkur að orðin séu dýr. “Orð, ég segi alltaf færri og færri orð enda hafði ég lengi á þeim illan bifur.” En ekki byggjum við upp nýja veröld orðalaust. Hvar gefast okkur orð á þessum jólum, orð sem eru ekki blaut, máttlaus og fölsk, heldur sönn, heiðarleg, réttlát og lifandi og geta sæmilega nýst okkur í baráttu fyrir betri tíð og bjartari heimi? II. “Í upphafi var orðið og orðið var hjá Guði og orðið var Guð.” “Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því.” “Fæddi hún þá son sinn, vafði hann reifum og lagði í jötu, því að ekki var rúm handa þeim í gistihúsi.” Saman vefa jólaguðspjöll Lúkasar og Jóhannesar þéttan grunn helgra jóla sem hefur verið túlkaður og endurtúlkaður í áranna rás, jólavefnað sem einkum stendur saman af þremur þáttum. Þar er sagan af hinu veikburða barni sem síðar endurspeglast í hinum veikburða líkama líkama á krossinum. Barnið litla er á ferð með foreldrum sínum og á hvergi höfði sínu að halla, það er fátækt, það er flóttamaður, en samt er það erfingi veldis sem er stærra og voldugra en nokkurt sem fyrirfinnst á jörðu. Um þessa þversögn hins smáa og háa sem tekst á í barninu í Betlehem fjalla margir jólasálmarnir okkar, ekki síst hinn gamli latneski sálmur sem við sungum nú á undan prédikun: “Það barn oss fæddi fátæk mær/hann er þó dýrðar Drottinn skær Hann var í jötu lagður lágt/en ríkir þó á himnum hátt. Hallelúja, hallelúja.” Okkur Íslendingum er líka hugstætt minnið um ljósið sem kom í heiminn. Minnið um heimsljósið sem á að vaxa en myrkrið að minnka tengir saman hina fornu sólstöðuhátíð og hin kristnu jól, hin heiðnu og kristnu minni á jólum. Og að síðustu nefni ég minnið um orðið sem varð hold, orðið sem var Guð. Einhvern veginn finnst mér hafa farið minna fyrir því í jólaprédikunum kirkjunnar en prédikun ljóssins og Jesúbarnsins. Það er í raun sérstakt í ljósi þess hvað okkur Íslendingum þykir vænt um orð og hvað við byggjum mikið af sjálfsmynd okkar sem bókaþjóð og menningarþjóð upp á orðum. Kannski höfum við gengið að orðum sem gefnum og þá sérstaklega því orði sem varð hold það orð getur líka sprungið og þó er hitt öllu hættulegra að það getur vöknað í púðrinu. Og því held ég að það sé þarft að prédika um orðið sem varð hold einmitt á tíð sem vantreystir orðum og á engin orð til að lýsa því sem við göngum í gegnum. Ég held að til þess að tala um þetta orðaleysi til orða það sem við getum ekki orðað þurfum við fyrst að endurskoða viðhorf okkar til trúarlegs orðaforða. Við leitum að grunni fyrir tilvist okkar í orðum í kerfum og gildum og trúarbrögðum. Það fyllir okkur öryggi að hafa eitthvað fast í hendi Jesúbarn og jólaguðspjall sem við þekkjum og könnumst við og getum treyst því að presturinn segi það sama ár frá ári komi með réttu stemmninguna með steikinni stuði ekki kirkjugestina. Getur það verið grunnhyggni að leita að slíkum grunni? Getur grunnur orða okkar verið of grunnur? Getur það verið að hann kafi of skammt ofan í orð og myndir sem eru full af óþekktu ógrynni? III. Kristinn boðskapur er mýþos, mýtiskur boðskapur. Hún er öflugasti mýþos vestrænnar hugsunar sem hefur haft gríðarleg áhrif um heim allan og mótað menningu og sögu Vesturlanda. Mýþos er erfitt orð að þýða á íslensku, því að hin venjulega þýðing goðsaga er of grunn. Goðsaga er venjulega notað um sögur úr ásatrú eða af grískum goðum Um goðmögn sem stela eplum og berjast við Elli kerlingu í dulargervi, fljúga of nærri sólu og opna öskjur með óvættum. Stundum er talað um mýtur á íslensku en orðið mýta hefur tekið á sig merkingu þess sem er bábilja og flökkusaga og á við engin rök að styðjast. Hvernig getur hinn kristni boðskapur þá verið mýþos? Mýþos er mýta og goðsaga en mýþos er líka fornt orð sem notað er um söguþráð sem er grunnforsenda harmleiksins hjá Aristótelesi. Þessi þráður er byggður upp af viðsnúningi, viðurkenningu og þjáningu og liggur til grundvallar allri persónusköpun og atburðarrás leikssins. Trúarlegur orðaforði er mýþos vegna þess að hann á sér stað í mannlífinu miðju á djúpmiðum mannlegrar tilvistar þar sem unnið er úr þjáningu, endurspeglun og viðsnúningi í formi sögu, prédikunar og túlkunar þar sem okkur er boðið að ganga inn í fornar sögur og gera þær að okkar sögum. Flestar tegundir mýþos hafa sprottið úr fornum sagnaminnum, sumar byggja að einhverju leiti á sögulegum persónum sem tengdar eru ólíkum sagnahefðum eins og sagan um Jesúbarnið. Litla jólabarnið kemur ekki til okkar án umbúða, jafnvel í jötunni er það ekki nakið og nýtt, heldur vafið reifum orða og reynslu sem miðlað hefur verið til okkar fyrir munn þúsunda túlkenda í aldanna rás. Og einn góðan veðurdag verður þetta barn stórt, stendur við hlið okkar og spyr okkur: “Hvern segið þér mig vera?” “Nei við vorum trúi ég að tala um orð ýmsum eru þau víst mjög leiðitöm þeir taka upp orð í kippum við götu sína og tala - það fæ ég enn ekki skilið.” Við getum farið illa með orðið sem varð hold og gerum það svo oft. Hlæjum að því og snúum út úr því slengjum því fram í reiðiskasti. Hitt er verra þegar blotnað hefur í púðrinu þegar trúarhugsun okkar og orðaforði verður staðnaður, óheiðarlegur og klisjukenndur og verður of auðveldlega samþættur sjónarmiðum markaðar og gróðahyggju, þegar við vefjum barnið reifum svo hörðum og þröngum að það fær ekki að vaxa vegna þess að við þurfum að vera kyrr í fjárhúsinu. Orð eru dýr og þeirra bíða margar hættur Barn sem dvelur um kyrrt í fjárhúsi verður drepið af hermönnum Heródesar. Trúarhugsun sem ekki fær að þroskast og upplifa dýptir hins leikræna og listræna í sínum óvæntu víddum verður klisjukennd, barnaleg, bókstafsleg og fölsk. “Gagnvart þessum vanda hef ég lengi verið skelfingu lostinn og reyndar vitum við mjög fátt nema að bráðum fer að dimma nýtt tungl nýtt glas af víni novissima verba.” Það er þungi yfir orðum Sigfúsar og orð hans má lesa á þann hátt að enginn sé lausn á vanda orðsveltisins nema að horfast í augu við hann kannast við fánýti orðanna glys nýjustu frétta hringsnúning tunglsins og mannlífsins og að fá sér meira vín. En “novissima verba” þýðir ekki aðeins nýjustu fréttir, heldur má líka lesa það sem orðið sem er ávallt nýtt orðið sem holdgerir sig í nýjum og nýjum aðstæðum. Í honum var líf og lífið er ljós mannanna. “Og orðið varð hold, það bjó með oss, fullt náðar og sannleika og vér sáum dýrð þess.” Orðið sem varð hold fæðist á hverjum jólum í nýrri mynd mýþosins sem knýr áfram listsköpun og nýgervingu og veitir okkur nýja von ný orð nýtt ljós nýtt barn novissima verba. “Í upphafi var orðið og orðið var hjá Guði og orðið var Guð.” Guð gefi íslenskri þjóð orð sem varð hold til að hjálpa okkur þeim mýþos sem við glímum við í djúpi daganna. Guð gefi okkur sjálfum skerpu, von, trú og heiðarleika til að finna ný orð, nýja trú og nýja von í stað þeirra sem eru dauf af blautu púðri og hafa sprungið í hjörtum okkar. Guð gefi okkur gleðileg jól ómælisdjúp nýrra orða og uppbyggingar novissima verba. Og friður Guðs sem er æðri öllum skilningi varðveiti hjörtu yðar og hugsanir í Kristi Jesú. Amen.