Trúarjátningin mín

Trúarjátningin mín

Ein lítil setning eins og: „Hann tók sér stöðu með þeim sem eru kúguð, með þeim lægst settu í heiminum,“ hefði getað breytt miklu. Kirkjan sjálf hefði þá kannski átt erfiðara með að tilheyra yfir- og valdastéttinni.

Trúarjátning

Ég hef alltaf átt í svolitlum erfiðleikum með postullegu trúarjátninguna. Það er eitthvað við hana sem nær illa að kalla það fram afhverju ég trúi á Jesú Krist og vil reyna að fylgja honum. Þó margt sé gott í postullegu trúarjátningunni þá er það sem vantar sem er aðalatriðið. Það er ekki nóg að segja bara frá Jesú sem dó fyrir okkur, það er líf Jesú sem er svo merkilegt. Játninginn fer beint frá fæðingu Jesú í þjáningu hans og krossfestingu. Það er ekkert minnst á starf hans né prédikun. Ekkert um það með hvaða fólki hann kaus að lifa og starfa með. Ekkert um það fólk sem hann sagði að mannkyn og kirkjan væru kölluð til að þjóna.

Ein lítil setning eins og: „Hann tók sér stöðu með þeim sem eru kúguð, með þeim lægst settu í heiminum,“ hefði getað breytt miklu. Kirkjan sjálf hefði þá kannski átt erfiðara með að tilheyra yfir- og valdastéttinni, það hefði kannski reynst erfiðara að réttlæta kúgun gegn konum, gegn samkynhneigðum, gegn fólki af öðru þjóðerni, gegn fátækum, gegn þeim sem eru á jaðrinum og fá ekki að vera með.

Þegar ég stend andspænis spurningunni: Vilt þú gera Jesú Krist að leiðtoga lífs þíns? Þá þarf ég að skoða hvernig leiðtogi hann er. Ég þarf að íhuga hvað einkennir líf hans og boðun. Það er ekki nóg að Jesú sé Guð, hvernig Guð er hann? Það hvernig maður svarar því hefur mikið að segja hvort maður sé tilbúinn að leitast við að gera Jesú Krist að leiðtoga í lífi sínu.

Sem fermingarfræðari hef fengið á annað þúsund fermingarbörn í gegnum tíðina til þess að búa til sína eigin trúarjátningu. Það hafa verið forréttindi að fá að heyra hversu einlægar og merkilegar trúarjátingar þeirra eru oft á tíðum. Það hefur komið mér á óvart hversu mikin trúarþroska unglingar hafa sem rímar oft illa við opinbera umræðu um þroska unglinga. Oft hefur þetta unga fólk líka kennt mér meira en ég þeim.

Þrátt fyrir að hafa hvatt svo marga til að búa til sína eigin trúarjátningu hef ég aldrei gert það sjálfur, en langar til að deila með ykkur minni fyrstu tilraun. Eins og hún er í dag er hún undir miklum áhrifum af því starfi sem ég er að kynnast hérna á Indlandi. Hér er ég umkringdur fólki sem hefur helgað líf sitt baráttunni með þeim sem verst hafa það í samfélaginu. Fólki sem kemur sjálft úr þessum aðstæðum og segir: Jesús er með okkur, við erum fólkið sem hann sagði að væru bræður sínir og systur.

Hér er trúarjátningin mín:

Ég trúi á Guð, föður minn og móður, skapara alls hins sýnilega og ósýnilega. Ég trúi á Guð sem skapaði manneskjuna í sinni mynd, guðsmynd, sem karl og konu og að allar manneskjur séu jafn dýrmætar óháð kyni, kynhneigð, þjóðerni, trú, stöðu eða stétt.

Ég trúi á Jesú Krist, vin minn og frelsara, sem fæddist inn í þennann heim til að leita að hinu týnda og frelsa það. Á Jesú vin minn sem tók sér stöðu með þeim sem eru útilokuð frá nægtarborðinu, þeim sem eru hungruð, án klæða, í fangelsum, þyrst, útskúfuð, öðruvísi, með þeim sem þræla við að búa til kaffið mitt, fötin mín og matinn minn, dótið mitt, já með þeim sem vinna öll þau störf sem verður að vinna í hverju samfélagi en þau sem eiga fé og völd vilja ekki vinna sjálf - með verkafólki og ummönnunarstéttum.

Ég trúi á Jesú Krist, vin minn, sem gagnrýndi óhræddur valdastéttir, fræðimenn og fariseia. Ég trúi á Jesú bróðir minn, sem vildi frekar standa með þeim lægst settu og kallaði þau til starfa sem þjóna sína. Hann er hinn hungraði, fátæki, þyrsti sá sem er sviptur frelsi, hinn nakti stéttlausi maður.

Ég trúi á Jesú Krist systur mína, sem elskar mig og segir mér að ef ég vilji endurgjalda þessa ást verði ég að elska vini hans og systkyni ... öll þau sem lifa án fullra mannréttinda í heiminum.

Ég trúi á Heilagan Anda, kærleikan sem gerir okkur kleift að elska og fyrirgefa og iðrast eigin synda. Ég trúi á Heilagan Anda, viskuna og kraftinn sem knýr okkur áfram til þess að vinna með þeim sem þjást í þessum heimi. Ég trúi á samfélag mannkyns þar sem við erum öll jöfn og jafn mikið elskuð af kærleika Guðs.