Á refilsstigum lífsins

Á refilsstigum lífsins

Við kristið fólk höfum kosið að tileiinka okkur jákvæð og heilnæm kristileg gildi sem við höfum numið frá einni kynslóð til annarrar. Við gerum það vegna þess að við viljum vera merkisberar ljóssins í lífsins ólgjusjó. Við viljum t.a.m. beina börnum okkar á friðarbraut, benda þeim á það sem til heilla horfir en ekki til óhamingju.
fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
28. febrúar 2016
Flokkar

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í guðspjalli þessa sunnudags er Jesús í varnarstöðu. Ýmislegt er sagt um Jesú. Fólk hvíslar sín á milli og getgátur verða til. Hann er m.a. sakaður um að lækna fólk með hjálp Beelsebúls, höfðingja illra anda. Hann átti auðheyrilega andstæðinga sem fyrir hvern mun vildu koma í veg fyrir að hann fengi áhrif. Þess vegna sögðu þeir: Hann er svo máttugur vegna þess að hinn vondi sjálfur hjálpar honum.

Þegar okkur finnst vera vegið að lífsgrundvelli okkar þá förum við í vörn. Þá verðum við stundum uppvís að hvíslingum, getsökum og jafnvel rógburði í stað þess að horfast í augu við það eða þann sem vegur að okkur og takast á við vandamálið og leysa það með þeim hætti að allir geti sæmilega vel við unað. Að þessu leyti getum við litið til Jesú sem fyrirmyndar. Hann var vissulega oft í varnarstöðu vegna orða sinna og verka. Það var þó ævinlega sáttartónn í orðum hans er hann ræddi við fólk sem varð á vegi hans. Hann gætti þess að hlúa bæði að sál og líkama viðmælenda sinna þrátt fyrir að hann væri þeim ekki alltaf sammála. Jesús snýr vörn í sókn. Hann veit hvað er hvíslað í kringum hann. Hann þekkir hugrenningar hjartna fólksins og laumuleg orð þess. Hann knýr andstöðuna fram í dagsljósið og snýst við henni með rökum sem enginn gat andmælt eða hnekkt.

Hann segir sem svo: Þar sem ég starfa, líkna og lækna er Guðs góða hönd að verki, geisli úr ríki Guðs sem leiftrar inn í dimmuna, bjarmi úr ríki dagsins sem skín inn í nóttina., heilsa úr ríki lífsins sem berst inn í veröld skugganna, þjáninganna og dauðans.

Horfum á Jesú krossfestan. Í honum sjáum við hina sönnu mennsku sem við eigum að breyta eftir. Þegar við rækjum okkar kristnu trú, þá erum við að þreifa eftir höndinni sem er sterkari en okkar, sterkari en allt og þiggja styrk frá henni, lausn, kraft til góðs, innra þrek og vöxt fyrir áhrif þess anda sem í orði hans býr og einn er algóður. Sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita það. Poistulinn Páll hvetur okkur ídag í bréfi sínu til Efesusmanna að fara að vilja Guðs sem elskuð börn hans og lifa í kærleika, við eigum að hegða okkur eins og börn ljóssins en ekki myrkursins því að ávöxtur ljóssins er góðvild, réttlæti og sannleikur.

Við sem lifum í landi náttmyrkranna fögnum sérhverjum degi eftir að dag tekur að lengja á ný, já birtan er okkur kærkomin. Við kristið fólk höfum kosið að tileiinka okkur jákvæð og heilnæm kristileg gildi sem við höfum numið frá einni kynslóð til annarrar. Við gerum það vegna þess að við viljum vera merkisberar ljóssins í lífsins ólgjusjó. Við viljum t.a.m. beina börnum okkar á friðarbraut, benda þeim á það sem til heilla horfir en ekki til óhamingju.

Öll viljum við börnum okkar vel. Við viljum ala þau upp í guðs ótta og góðum siðum þar sem þau læra að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Já, með einum og öðrum hætti viljum við foreldrar benda þeim á þau kristnu gildi sem eru mikilvæg í lífinu.

Svo virðist sem íslensk börn verji nú mun meiri tíma með foreldrum sínum nú en þau gerðu fyrir áratug. Þá er neysla þeirra á vímuefnum mun minni. Þetta gefa Félagsvísar til kynna en þeir hafa nýlega verið birtir á vefsíðu Velferðarráðuneytisins. Könnunin nær til barna á aldrinum fjórtán til fimmtán ára.

Árið 2014 sögðust 63% barna á fyrrnefndum aldri verja tíma sínum oft eða nær alltaf með foreldrum sínum um helgar samanborið við tæplega 37% barna árið 2006. Sama þróun sést þar sem spurt var um tengsl við foreldra utan skóla, virka daga. Árið 2014 sagðist helmingur barna vera oft eða nær alltaf í tengslum við foreldra sína utan skóla á virkum dögum samanborið við tæp 33% árið 2006.

Margt fleira áhugavert um lífsvenjur barna má lesa út úr könnuninni. Til dæmis stundaði mun hærra hlutfall barna íþróttir reglulega árið 2014 (39%) en gerði það árið 2006 (31,8%). Börnum sem segjast reykja eina sígarettu á dag eða fleiri hefur fækkað til stórra muna á síðust árum. Árið 2006 sögðust 12 prósent fimmtán ára barna reykja eina eða fleiri sígarettur á dag en þetta hlutfall var komið niður í 2,5% árið 2015.

Ölvun meðal barna er einnig orðin mun fátíðari en áður. Árið 2006 sögðust 26% fimmtán ára barna hafa orðið ölvuð síðustu 30 daga en árið 2015 var hlutfallið komið niður í 4,6%. Þegar spurt var um hassneyslu sögðust 9% fimmtán ára barna hafa notað hass einu sinni eða oftar um ævina þegar um það var spurt árið 2006, á móti 3,3% barna á sama aldri árið 2015. Þetta eru virikilega ánægjuleg tíðindi sem berast okkur úr félagsvísum Velferðaráðuneytisins en þeir hafa verið birtiir árlega frá 2012. En á þriðja tug sérfræðinga taka þátt í vinnu við gerð félagsvísa frá ári til árs

Mikið og gott forvarnarstarf hefur stuðlað að þessum árangri og við megum aldrei slaka á þessum efnum því að börnin okkar eiga að erfa landið og við höfum fulla trú á að þeim takist það. Í ljósi þessara nýlegu upplýsinga úr félagsvísum Velferðaráðuneytisins þá skil ég ekki hvernig yfirvöldum heilbrigðismála í landinu datt í hug árið 2014 að játa nánast ósigiur sinn í baráttu við eiturlyfjafíknina og berjast gegn henni með því að lögleiða vissa tegund af af eiturlyfjum en að mínum dómi verður vandinn sjöfalt verri en áður ef hugmyndin nær fram að ganga í fámennu íslensku þjóðfélagi.

Og ég skil jafnframt ekki í ljósi þessara upplýsinga hvernig alþingismönnum dettur í hug að flytja tilllögu þess efnis að leyfa sölu léttra vína í matvörubúðum? Ég legg til að þeir sem lögðu tillöguna fram dragi hana til baka nú þegar í ljósi þessara nýju upplýsinga úr félagsvísum Velferðaráðuneytisins en öllu frelsi fylgir ábyrgð.

Við eigum sífelllt í baráttu ásamt Jesú Kristi upprisnum og berjumst gegn hvers kyni böli. Við skulum minnast þess jafnan að hann verður ætíð hinn sterki og megi hann stækka sem slíkur í augum okkur. Við erum merkt og helguð honum í heilagri skírn. Þegar við mætum náunga okkar í kærleika á sjúkrastofnunum eða á förnum vegi þá styrkjum við samband okkar við frelsarann og biðjum að andi Jesú Krists verði yfirsterkari öllu því sem myrkrinu lýtur og þjónar. Vörumst að verða viðskila við vald orða hans og anda í lífi okkar. Honum er alvara er hann segir: ,,Sá sem er ekki með mér er á móti mér. Gangið meðan þér hafið ljósið að myrkrið komi ekki yfir yður.“

Já, kæru vinir, grípum höndina sem er sterkari en allt og vísum þeim sem á þá hönd til sætis í hugskoti okkar. Það mun verða okkur til uppbyggingar.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi, er og verður um aldir alda. Amen