Línan í sandinn - lágmarkskröfur í æskulýðsstarfi kirkjunnar

Línan í sandinn - lágmarkskröfur í æskulýðsstarfi kirkjunnar

Við köllum eftir heildarstefnu þegar kemur að uppbyggingu barna og unglingastarfs innan Þjóðkirkjunnar. Hver söfnuður er ábyrgur fyrir því að sinna þessu mikilvæga safnaðarstarfi. Það á ekki að líðast að æskulýðsstarfi sé ekki sinnt eða að söfnuðir varpi frá sér ábyrgð.
fullname - andlitsmynd Sunna Dóra Möller
28. febrúar 2012
Meðhöfundar:

Á tillidögum flaggar íslenska þjóðkirkjan barna- og unglingastarfi kirkjunnar. Æskulýðsstarf kirkjunnar er blómlegt og fjölbreytt: Sunnudagaskólar eða kirkjuskólar eru starfræktir í nær öllum kirkjum landsins; meginþorri ungmenna í 8. bekk sækir fermingarundirbúning í sínum söfnuði; og æskulýðsmót kirkjunnar eru fjölmenn og fara vaxandi. Þannig hefur Landsmót ÆSKÞ margfaldast að stærð á örfáum árum og er nú stærsti viðburður landsins í kristnu æskulýðsstarfi og nýafstaðin vormót ÆSKR og ÆSKEY/ÆSKA bera vott um fjölsótt unglingastarf í þeim söfnuðum sem að þeim standa. Þessi gróska í æskulýðsstarfi kirkjunnar er ávöxtur af markvissu uppbyggingarstarfi síðustu tveggja áratuga, fjöregg sem við megum ekki missa úr höndunum á niðurskurðartímum í kirkjunni.

Tekjugrundvöllur kirkjunnar hefur verið í tvísýnu frá því að efnahagshrunið reið yfir og nefnd skipuð fulltrúum Þjóðkirkjunnar og Innanríkisráðuneytisins telur að tekjur safnaða hafi minnkað um 20% frá 2008. Þrátt fyrir að biskup Íslands hafi ítrekað kallað eftir því að barna- og unglingastarfi verði sérstaklega hlíft við niðurskurði er staðan í Reykjavíkurprófastsdæmum sú að segja má að fótunum hafi verið kippt undan æskulýðsstarfinu. Árið 2006 voru 10 fagmenntaðir aðilar, æskulýðsfulltrúar, -prestar eða -djáknar, í 100% starfi við söfnuði í Reykjavíkurprófastsdæmum auk 3 í 50% hlutfalli eða stærra. Nú árið 2012 er einn söfnuður með fagmenntaðan aðila í fullu starfi og 5 kirkjur með starfsmann í 50% - 75% hlutfalli. Þessi þróun samsvarar algeru hruni í faglegu starfi safnaða á höfuðborgarsvæðinu og er úr takt við áhrif niðurskurðar á tónlistarstarf kirkjunnar og barna- og unglingastarf á landsbyggðinni.

Þeir söfnuðir utan höfuðborgarinnar sem voru með fagmenntaða aðila í starfi 2006 eru enn með fólk í sama starfshlutfalli: Selfosskirkja, Keflavíkurkirkja, Glerárkirkja og Landakirkja eru með fagaðila í 100% stöðu og Akureyrarkirkja er með 50% stöðuhlutfall í æskulýðsstarfi. Við þennan niðurskurð bætist fækkun starfsfólks á biskupsstofu en þar er nú einn starfsmaður sem sinnir æskulýðsstarfi en voru þrír (tvö stöðugildi) og niðurskurður hjá prófastsdæmum en t.d. var 50% staða skólaprests á Akureyri lögð niður. Einstaka svæði hafa bætt við starfi sbr. Ólafsvíkurkirkja og Austurlandsprófastsdæmi er með fræðslufulltrúa sem sinnir barna- og unglingastarfi.

Undanfarin æskulýðsmót, Landsmót ÆSKÞ í október , Vormót ÆSKR og ÆSKEY/ÆSKA nú í febrúar, eru vitnisburður um hversu rík kirkjan okkar er af ungum leiðtogum á aldrinum 17-25 ára en tugir ungleiðtoga bera uppi þessi mót og án þjónustu þeirra væri ekki hægt að halda úti svo öflugu starfi. Hið faglega bakland sem þessir leiðtogar ólust upp við er hins vegar óðum að hverfa og í því felast miklar hættur. Þó að það hafi þótt eðlilegt fyrir 20 árum í kirkjunni að krakkar um tvítugt bæru ein ábyrgð á og hefðu umsjón með æskulýðsfélögum býður það hættunni heim.

Í starfi okkar sem umsjónarmenn barna- og unglingastarfs Neskirkju og Akureyrarkirkju hefur á köflum reynt til hins ítrasta á fagmenntun okkar og þroska í samskiptum við börn og unglinga. Mál er varða persónumörk, flóknar heimilisaðstæður og einelti í samfélagi barna og unglinga kalla á reynslu og menntun sem yngri leiðtoga skortir. Þá eru ótalin pedagógísk sjónarmið og samskipti við foreldra og fjölskyldur þeirra ungmenna sem sækja æskulýðsstarf. Auknar faglegar kröfur í skólum og á frístundavettvangi barna kalla á auknar kröfur í æskulýðsstarfi kirkjunnar og þessi þróun kastar rýrð á trúverðugleika þess. Með því að hafa fagmenntað fólk í æskulýðsstarfi er verið að senda þau skilaboð út í samfélagið að það skipti máli og sé forgangsstarf innan kirkjunnar.

Sóknarnefndir standa frammi fyrir flóknu og erfiðu verkefni í forgangsröðun fjármagns með allt að fjórðungs niðurskurð sóknargjalda. Það er hinsvegar skammgóður vermir að vega að framtíð kirkjunnar. Það er sannfæring okkar að geta okkar til að sinna börnum, unglingum og fjölskyldufólki í landinu mun ákvarða hvort að við höldum stöðu okkar sem meirihluta trúfélag í landinu á 21. öldinni. Leiðin fram á veginn er ekki að slá af kröfum safnaða um fagmenntun starfsfólks í æskulýðsstarfi heldur að á kirkjan að gera meiri kröfur en skólar og frístundaheimili sökum þess hversu viðkvæmt starfið er.

Á síðasta vetri var tilraunaverkefni á vegum Hjallakirkju og Digraneskirkju en kirkjurnar deildu með sér starfi Þráins Haraldssonar sem æskulýðsfulltrúa. Söfnuðirnir tveir tilheyra sama svæði og því er eðlilegt aðæskulýðsstarf safnaðanna sé hugsað í sameiningu. Það varð ekki framhald á verkefninu þegar Þráinn vígðist til Noregs í sumar en líta má til þessa verkefnis sem vísi að fyrirkomulagi sem varðveitir faglegar forsendur æskulýðsstarfs. Eftir áralanga uppbyggingu í æskulýðsstarfi eru þessir söfnuðir ríkir af ungleiðtogum á aldrinum 17-25 ára og sameiginlegur æskulýðsfulltrúi veitti þeim faglegt bakland í starfi sínu.

Til að snúa þessari þróun við þarf hugarfarsbreytingu. Framtíð kirkjunnar á skilið athygli okkar færasta fólks og má hugsa sér framtíðina með æskulýðsprestum, -djáknum og æskulýðsfulltrúum sem hafa umsjón með og bera ábyrgð á þjónustusvæðum sem skera landamæri sókna. Kirkjan okkar er gjörn á að flagga æskulýðsstarfi á tillidögum en þegar á reynir hefur sýnt sig að æskulýðsstarf er ekki skilgreint sem kjarnastarfsemi kirkjunnar. Vígsluheit presta leggur þær skyldur á okkar herðar að ,,uppfræða með kostgæfni æskulýðinn” á undan söfnuðinum og í þeirri forgangsröð felst sú djúpa viska að í starfi með börnum og unglingum verður til það bakland sem kirkjan byggir stuðning sinn meðal þjóðinnar á.

Við köllum eftir heildarstefnu þegar kemur að uppbyggingu barna og unglingastarfs innan Þjóðkirkjunnar. Hver söfnuður er ábyrgur fyrir því að sinna þessu mikilvæga safnaðarstarfi. Það á ekki að líðast að æskulýðsstarfi sé ekki sinnt eða að söfnuðir varpi frá sér ábyrgð. Börn og ungmenni eru stór hluti safnaða Þjóðkirkjunnar og gefur það auga leið að stór hluti sóknargjalda eigi að fara í þetta mikilvæga starf. Við erum auðug af fólki sem hefur aflað sér mikillar reynslu í barna- og unglingastarfi kirkjunnar og sárt hefur verið að horfa á eftir öflugum æskulýðsstarfsmönnum úr landi vegna uppsagna og niðurskurðar. Allur vöxtur byrjar með því að hlúa vel að rótunum og æskulýðsstarfið eru rætur kirkjunnar. Af rótunum vex stofninn og ef vel er að hlúð munum við sjá sterkari og öflugari Þjóðkirkju. Það á að vera langtímamarkmið þeirra sem sinna yfirstjórn kirkjunnar hverju sinni.

Öll uppbygging kostar peninga, en til framtíðar mun það fé sem varið er í þetta grundvallarstarf skila sér margfalt til baka í mannauði og gæfu. Það er einlæg trú okkar eftir að hafa starfað um árabil á vettvangi æskulýðsstarfs kirkjunnar að fjármunum og kröftum okkar sé vel varið í því að fjárfesta í framtíðinni. Tækifærin eru til staðar, kirkjunni okkar til heilla og blessunar.

Nú er að láta hendur standa fram úr ermum og standa við stóru orðin. Við hvetjum biskupskandídata til að láta sig þessi mál varða og framtíðarbiskup Íslensku þjóðkirkjunnar að gera æskulýðsstarf að forgangsverkefni í sínu starfi. Unga fólkið er framtíð kirkjunnar, ekki málaflokkur sem er vel til þess fallinn að skera niður í skjóli þess að börn og unglingar eiga ekki raddir sem ráðamenn kirkjunnar hlusta á. Við þurfum biskup til að leiða kirkjuna okkar og gera barna og unglingastarf að flaggskipi íslensku þjóðkirkjunnar.