Billjónir milljóna

Billjónir milljóna

Í ályktuninni segir: „Allt er samtengt, lífríki, lofthjúpur, vatn, tækni, veður, straumar, skorpuflekar og bálið í jarðarmiðju. Menn gegna ekki aðeins smáskyldum ... heldur alheimsskyldum.“ Hver á heiminn?

Vegna nýrrar tækni við leit og námavinnslu hafa miklir möguleikar opnast við vinnslu auðlinda þar sem ekki var hægt að nýta áður. Græðgi skilar litlu, þekking meiru en viskan mestu. Auðlindasaga dagsins er okkur til íhugunar um ríkidæmi.

Miklar námur fundust á þremur stöðum í veröldinni, reyndar í sjávarbotni út á hafsvæðum þar sem aðstæður voru mjög erfiðar og gerðu miklar kröfur til allra sem að málum komu. Vegna lagaflækjumála og til að fyrirbyggja hugsanlegar deilur var ákveðið að Auðlindaráð Sameinuðu þjóðanna hefði lögsögu og sæi um alla þætti máls. Ákveðið var að tilraunatíminn yrði 10 ár og eftir þann tíma yrði ákveðið hvort framhald yrði á og hvert það yrði.

Billjónir milljóna Öflugir vinnsluaðilar fengu að vera með í útboðspottinum - og áhuginn var mikill. Mesti spenningurinn var hver hreppti stærsta og verðmætasta vinnslusvæðið. Talið var að verðmætin, sem þar mætti vinna, gætu verið um fimm billjónir milljóna og að hagnaður gæti orðið mikill. Næst-stærsta vinnslusvæðið var auðugt einnig og talið að vermæti á tíu ára vinnslutíma yrði um tvær billjónir milljóna. Þriðja svæðið var metið til einnar billjónar milljóna, sem er óskiljanlega há upphæð en þó tákn um hin miklu efnisleg verðmæti.

Tækni til vinnslu var þróuð og hópar bestu vísindamanna heims og tæknirisar fengu verðug viðfangsefni. Fátæk svæði urðu allt í einu þennslusvæði og peningarnir flæddu. Ekki voru allir sáttir við og gagnrýndu. Menning heimafólks á svæðunum brotnaði eða lemstraðist. Mengunarslys ergðu fiskimenn sem urðu fyrir aflabresti og höfðu áhrif á ferðamennsku og spilltu náttúrugæðum eins og vatni á vinnslusvæðum. Nokkrar dýra- og plöntutegundir dóu út.

Mat og lok Eftir tíu ára rannsóknarvinnu og vinnslu kom Auðlindaráð Sameinuðu þjóðanna saman til að meta ferlið og ákveða framhaldið. Fyrirtækjasamsteypan, sem hafði fengið stærsta og ríkulegasta auðlindasvæðið til vinnslu, hafði unnið vel að undirbúningi og efnt til samvinnu við heimaðaila með gagsæjum ferlum og miðlun upplýsinga. Stjórnvöld ríkja sem áttu hagsmuna að gæta höfðu haft aðgang að öllum þáttum og gátu sinnt eftirliti. Vel var gætt að náttúru- og umhverfisþáttum. Nokkur mengunaróhöpp og slys urðu. En vinnsluaðilinn hafði – vegna eigin gilda og umhverfisstefnu – þó farið lengra en skyldur kröfðu. Fólk, menning og náttúra höfðu verið virt. Rekstraraðilinn lagði fram ítarlega áætlun um hvernig ætti að bregðast við gagnrýni og í þeim efnum sem deilur stóðu um. Á stefnuna var fallist og Auðlindaráðið heimilaði áframhaldandi vinnslu. Nóbelsverðlaun voru veitt einum vísindahópnum sem tengdist verkefninu.

Tveggja billjón-milljóna Af tveggja billjón-milljónasvæðinu var líka sögu að segja. Í námavinnslunni höfðu verið gerð mistök sem höfðu meiri áhrif á viðkvæmt búsetusvæði strandfólks en búist hafði verið við. Deilur höfðu því blossað upp og lá við styrjöld. En lánast hafði að lægja öldur. Vísindamenn vinnsluaðilans uppgötvuðu að heimafólkið gat veitt mikilvæga ráðgjöf vegna þekkingar þeirra á viðkvæmri náttúru, göngum fiska og þekkingu við náttúru hafsbotnsins og hafstrauma á svæðinu. Niðurstaðan var að samsteypan fékk að vinna áfram næstu tíu árin að settum ákveðnum skilyrðum. Friðarverðlaun voru veitt fyrir samvinnuverkefnið með heimamönnum.

Ein bm Svo var komið að minnsta vinnslusvæðinu, sem var raunar mörg hundruð ferkílómetra svæði og var metið að verðmæti einnar billjón milljóna. Miðað við hin svæðin hafði ekki lánast vel. Vinnsluaðilin tók við leyfinu en braut af sér, ætlaði að nota lögfræðingagengi til að komast hjá að hlýða og starfa í anda samningsins. Keðjuverkun mistaka olli dauða fiskitegunda á svæðinu. Tugir þúsunda farfugla dóu. Auðlindaráðið endurnýjaði ekki vinnsluleyfi. Vegna tryggingaákvæðis í upprunasamningi hafði ráðið tök á að halda eftir öllum hagnaði vinnslufyrirtækisins. Það vakti athygli að þeir fjármunir voru síðan settir í þróunarverkefni sem höfðu orðið til á verðmætari svæðunum. Þau er best höfðu unnið fengu óvæntan bónus.

Allt er samtengt – ábyrgð rík Auðlindaráðið spurði ákveðið: „Hver á auðlindir jarðar?“ Ráðið hvatti til endurskilgreiningar eignarhalds og nýtingar náttúrugæða, ekki aðeins á plánetunni jörð heldur líka varðandi námavinnslu á smástirnum og tunglinu. Ráðið lét rannsaka allt ferlið og margra binda rannsóknarskýrsla var birt. Auðlindaráðið mælti með lögsóknum vegna þess að ýmsir aðilar og eigendur vinnsluaðila minnsta svæðisins hefðu hegðað sér eins og iðndólgar fyrri áratuga – þvert á þekkingu um tengsl menningar, umhverfis og tækni. Margir stjórnarmenn og forystumenn fyrirtækins voru fangelsaðir. Þegar forstjórinn var hnepptur í varðhald gaf hann út yfirlýsingu um að Auðlindaráðið gerði sig sekt um úrelta harðúð. Í yfirlýsingu forstjórans var vitnað í tuttugasta og fimmta kafla Mattheusargðspjalls, en þar segir: „Takið af honum talentuna og fáið þeim sem hefur tíu talenturnar...Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.“

Forstjórinn sagði að svona atferli væri úrelt og ráðið hegðaði sér eins og reiður guð í fornöld. En Auðlindaráðið stóð fast við sitt og birti eigin yfirlýsingu um málið. Þar var kveðið á um að ábyrgð sé ekki aðeins mál einstaklinga eða samfélags. Þar segir: „Ábyrgð í nútíma er ekki einföld heldur fjölþætt. Í atvinnulífi, þróun tækni og nýtingu verður að gæta að heilbrigði, frelsi og mannréttindum einstaklinga. Iðnþróun verður aðeins gjöful og til góðs á grundvelli gilda og með hliðsjón af þörfum samfélaga, blómstrandi menningar og heilbrigðs umhverfis. Fyrirtæki og tækni eiga að þjóna þörfum þeirra ekki síður en eigendum sínum. Náttúran hefur gildi sem er meiri og æðri en hagur einstakra fyrirtækja, samfélaga, ríkja eða heimshluta. Menn eiga ekki veröldina heldur eru þjónar lífs og alheims. Einstaklingar eru ekki aðeins hluti þjóðar, heldur eiga að gangast við því hlutverki að vera ábyrgar mannverur í alheimi. Allt er samtengt, lífríki, lofthjúpur, vatn, tækni, veður, straumar, skorpuflekar og bálið í jarðarmiðju. Menn gegna ekki aðeins smáskyldum við einstaklinga eða nærsamfélag heldur alheimsskyldum. Gerðir manna hafa mikil áhrif og frumskylda manna er að virða mátt og afleiðingar gerða sinna og í þágu alheims.“

Yfirlýsingunni lýkur með þessum orðum. „Græðgi leiðir aðeins til tjóns. Auðlindaráðið hefur ákveðið að þróa nýja eigna- og gildastefnu mannkyns, sem taki mið af þörfum allra jarðarbúa og alheims, ekki aðeins manna.“ Þannig er áfangaskýrsla þessa máls, sem varðar dýrmæti, gildi og eignarhald í heiminum. Sagan er saga til lærdóms hvað sem okkur þykir um hana!

En íhugun dagsins er ekki lokið – hún heldur áfram í atferli og viðburðum helgihalds – og einnig í huga þér, persónudýpt þinni, tengslum og verkum þínum sem og samfélagsins alls. Þar gegna allir ábyrgð og hafa gildi. Gerðir hafa alheimsafleiðingar.

Hver á veröldina og í krafti hvers og hvaða gilda?

Í Jesú nafni. Amen.

Spunaíhugun í Neskirkju 25. janúar, 2012. (Það er rétt að setja fyrirvara - eins og í upphafi kvikmynda - að persónur, Auðlindaráð og viðburðir í íhugun dagsins þjóna þörfum sögunnar. Óráðlegt er að reyna að gúgla þær eða fletta upp í Wikipedia! Sagan er heimaspunnin, snúningur á talentusögu Jesú. Joachim Jeremias, Nýjatestamentisfræðingurinn, taldi að talentusaga Jesú, sem er guðspjallstexti dagsins, væri ekki siðferðissaga, sem ætluð væri til heimabrúks einstaklingum, heldur hefði Jesús sagt hana með þau í huga sem skiluðu ekki fólki því sem þeim bæri af gjöfum Guðs. Gjafir Guðs varða ekki aðeins einstaklinga, kirkju eða þjóðríki. Gjafir Guðs varða alla, eru alls staðar - auðævi eru ætluð lífinu en ekki aðeins eigendum eða fyrirtækjum. Er þetta hjálpleg skýring?)

B. röð 1. sd. í níu vikna föstu. Lexía: 5Mós 8.7, 10-11, 17-18 Drottinn, Guð þinn, mun leiða þig inn í gott land, inn í land með lækjum, lindum og uppsprettum sem streyma fram í dölum og á fjöllum, Þegar þú hefur etið og ert orðinn mettur skaltu lofa Drottin, Guð þinn, fyrir landið góða sem hann hefur gefið þér. Gæt þess þá að þú gleymir ekki Drottni, Guði þínum, og hættir að hlýða boðum hans, ákvæðum og lögum sem ég set þér í dag. Þú skalt ekki hugsa með þér: „Ég hef aflað þessara auðæfa með eigin afli og styrk handar minnar.“ Minnstu heldur Drottins, Guðs þíns, því að það var hann sem gaf þér styrk til að afla auðs til þess að standa við sáttmálann sem hann sór feðrum þínum eins og hann gerir enn í dag.

Pistill: 1Kor 3.10-15 Sem vitur byggingameistari hef ég lagt grundvöll eftir þeirri náð sem Guð hefur veitt mér en annar hefur byggt ofan á. En sérhver athugi hvernig hann byggir. Annan grundvöll getur enginn lagt en þann sem lagður er, sem er Jesús Kristur. En ef einhver byggir ofan á grundvöllinn gull, silfur, dýra steina, tré, hey eða hálm, þá mun koma í ljós hvernig verk hvers og eins er. Dagurinn mun leiða það í ljós af því að hann opinberast með eldi og eldurinn mun prófa hvílíkt verk hvers og eins er. Ef það fær staðist sem einhver byggir ofan á mun hann fá laun. En brenni það upp mun hann bíða tjón. Sjálfur mun hann komast af en þó eins og úr eldi.

Guðspjall: Matt 25.14-30 Svo er um himnaríki sem mann er ætlaði úr landi. Hann kallaði á þjóna sína og fól þeim eigur sínar. Einum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, hverjum eftir hæfni. Síðan fór hann úr landi. Sá sem fékk fimm talentur fór þegar, ávaxtaði þær og græddi aðrar fimm. Eins gerði sá er tvær fékk. Hann græddi aðrar tvær. En sá sem fékk eina fór og gróf fé húsbónda síns í jörð og faldi það. Löngu síðar kom húsbóndi þessara þjóna og lét þá gera skil. Sá með fimm talenturnar gekk þá fram, færði honum aðrar fimm og sagði: Herra, fimm talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar fimm. Húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns. Þá gekk fram sá með tvær talenturnar og mælti: Herra, tvær talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar tvær. Og húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns. Loks kom sá er fékk eina talentu og sagði: Herra, ég vissi að þú ert maður harður sem uppsker þar sem þú sáðir ekki og safnar þar sem þú stráðir ekki. Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð. Hér hefur þú þitt. Og húsbóndi hans sagði við hann: Illi og lati þjónn, þú vissir að ég uppsker þar sem ég sáði ekki og safna þar sem ég stráði ekki. Þú áttir því að leggja fé mitt í banka. Þá hefði ég fengið það með vöxtum þegar ég kom heim. Takið af honum talentuna og fáið þeim sem hefur tíu talenturnar. Því að hverjum sem hefur mun gefið verða og hann mun hafa gnægð en frá þeim sem eigi hefur mun tekið verða, jafnvel það sem hann hefur. Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.