Sprengjusaga

Sprengjusaga

Tólf tonna hitatankur í kjallara sprakk og húsið var sem rúst á eftir. Loftið yfir hitaklefanum splundraðist og hæðirnar fyrir ofan. Stór hluti þaksins hvarf út í nóttina. Steypuhlutar úr gólfum og veggjum flugu hátt í loft upp og grófust svo í jörðu þar sem þeir komu niður. En hvað um fólkið í húsinu? Hvaðan kemur hjálp?

[audio:http://db.tt/bh745kua] Hvar og frá hverjum færðu hjálp þegar allt er í volli? Í Davíðssálmum segir í eftirminnilegum sálmi: „Ég hef augu mín til fjallanna, hvaðan kemur mér hjálp?“ Gildir sú hjálp á fótboltavellinum, í fjölskyldulífinu? Já kannski, en hvaðan kemur mér hjálp þegar hús springur?

Húsin sprungu ekki á Akranesi þriðju helgina í júní þótt fjörið væri mikið og mikil dramatík. Þessa helgi voru á annað þúsund fótboltastrákar í 7. flokk - af öllu landinu - á Skaganum til að taka þátt í svonefndu Norðurálsmóti. Það voru vissulega margir, sem þurftu hjálp og styrk. Og margir horfðu til fjalla og vildu meiri kraft, betra spil og stuðning. Og svo voru þúsundir foreldra, forráðafólks og systkina með í för, stóðu við hliðarlínur, æptu og hvöttu til dáða. Leikirnir voru margir, líka hlaupnir lengdarmetrar. Drengirnir lögðu sig fram. Mörkin urðu mörg, líklega einhver þúsund – og mörg þeirra afar glæsileg. Ég dáðist að frábærri aðstöðu, sem Skagamenn hafa byggt upp. Knattspyrnuhöllin er glæsileg og KR-ingarnir spurðu: Af hverju er ekki svona hús í Vesturbænum?

Veðrið var dásamlegt alla mótsdagana. Sólin baðaði fjöll, sjó og fólk. Nebbarnir urðu rauðir af sólbruna. Margir fóru niður á Langasand – sem var þessa daga ekki síðri en Long Beach. Þar hitti ég Harald Sturlaugsson, sem í áratugi hefur verið vakinn og sofinn við uppbyggingu atvinnulífs og menningar á Skaganum. Við fórum að rabba saman og hann bauð mér að koma heim með sér svo hann gæti sýnt mér atvinnu- og íþróttasögusafn Akraness, sem hann hefur lengi unnið að og komið upp. Safnið er einkasafn og varðveitt í íbúðarhúsinu á Vesturgötu 32. Við röltum svo í góðviðrinu þangað heim til hans, fórum inn og ég dáðist að Akranessögunni. Haraldur hefur unnið menningarsögulegt þrekvirki. Ég skoðaði allt safnið og varð margs vísari.

Sprenging En hvað var þetta, sem var þarna á mynd? Var þetta ekki íbúðarhúsið hans, húsið sem við vorum í. Á myndinni var eins og það hefði verið eyðilagt eða hafði það sprungið? Eða hafði það verið tekið svo algerlega í gegn, að það hafði verið eins og eftir loftárás? Og þá fékk ég að heyra nístandi en líka hrífandi sprengjusögu.

Laust fyrir klukkan 5 aðfaranótt laugardagsins 27. nóvember árið 1976 varð gífurleg sprenging í húsinu á Vesturgötu 32 á Akranesi. Tólf tonna hitatankur í kjallara sprakk og hluti hússins var í rúst á eftir. Sprengingin var svo öflug og loftið yfir hitaklefanum splundraðist og líka hæðirnar þar ofan við. Stór hluti þaksins hvarf út í nóttina. Rúður í húsum, sem sneru að sprengihúsinu brotnuðu og bíll sem stóð í vari undir steinvegg 40 metrum frá spreningarstað stórskemmdist. Steypuhlutar úr gólfum og veggjum flugu hátt í loft upp og grófust svo í jörðu þar sem þeir komu niður.

En hvað um fólkið í húsinu? Það var mikil mildi, að fáir voru heima þessa nótt. Nóttina áður hafði húsið verið fullt af gestum. Þá gistu líklega yfir tuttugu mans. Ef sprengingin hefði orðið þá nótt hefðu margir dáið. En þessa nótt voru heima mægðurnar Rannveig Böðvarsson og Helga Sturlaugsdóttir og báðar héldu lífi. Barnabarn Rannveigar, Sturlaugur, hafði átt að gista en óhugur var í Haraldi, pabbanum svo hann ákvað um kvöldið, að drengurinn skyldi gista frekar heima hjá sér. Það var blessun og gæfumál því svefndýna drengsins feyktist burt í sprengingunni. Já, við eigum að hlusta eftir rödd hjartans.

Sprengigígurinn í miðju húsinu var stór. Rannveig rauk upp við hamfararnir og ætlaði að vitja dóttur sinnar, en í myrkrinu féll hún niður í kjallara og slasaðist illa og brenndist einnig af heitu vatni og gufu í kjallaranum. En Helga, dóttirin, var í herbergi sínu, komst ekkert og var síðar bjargað.

Nágrannar héldu, að þrumuveður hefði skollið á eða jarðskjálfti hefði orðið, en urðu síðan skelfdir þegar þeir sáu sprengingarhúsið. Það leit þannig út að vafasamt væri að nokkur hefði getað lifað af. En Rannveigu var bjargað og Helgu líka.

Hvaðan kemur mér hjálp? Haraldur sagði söguna og hvernig nágrannar og vinir hefðu hjálpað. Hann tjáði hvernig stóru spurningarnar hefðu vaknað um líf og dauða, um eyðileggingu og hvort endurbyggja ætti. Þetta var hrikaleg og heillandi saga. Og svo sýndi hann mér Nýja testamenti, sem hafði verið í herbergi Helgu. Þegar björgunarmaður kom í herbergi hennar um morgunin var testamentið opið á náttborðinu. Það var opnan, blaðsíðurnar 128 og 129. Við blöstu skilaboð sem eftir var tekið. Og Haraldur benti á sálminn á hægri blaðsíðu, 121. sálm Davíðs:

„Ég hef augu mín til fjallanna, hvaðan kemur mér hjálp? Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar. Hann mun ekki láta fót þinn skriðna, vörður þinn blundar ekki ...“

Já, Guð sé vörður þinn og að Guð skýlir þér. Og það var einkennilegt að ganga um í kjallaranum þar sem sprengingin varð, hugsa um orkuna sem leystist úr læðingi úr tólf tonna hitatanknum og splundraði húsi og öryggi fólks.

En svo var byggt upp, húsið lagfært, sálarsárin læknuð og lífið lifði. Svo hefur orðið til þetta einkasafnsafn í sprengjuhólfinu til vitnis um lífið. Og kjallarinn á Vesturgötu 32 hefur orðið vaxtarreitur menningar, lífs og elskusemi. Og svo benda fingur húsbóndans á samhengið, stóra samhengið, ofursamhengið: „Ég hef augu mín til fjallanna, hvaðan kemur mér hjálp?“ Það er ekki bara smásaga Skagans sem er haldið til haga heldur vísar hún út fyrir sjálfa sig – eins og öll menning og allt líf – vísar til dýpta, breiddar og hæða.

Allar kynslóðir, allar fjölskyldur eiga sér einhverja sprengjusögu, þegar hryllingur verður, slys verða, þegar eitthvað er gert, sem lamar eða sjúkdómar nísta. Hvað hjálpar þá? Hvar er hjálpar að leita? Og hvernig á að skýra það sem gerðist? Er einhver merking, vernd, blessun og von þegar sprengingin verður? Nýja testamentið er tákn um blessun. Sálmurinn er boðskapur um vernd Guðs.

Ég horfði á húsið á Akranesi, hugsaði um þessa sögu, um fólkið og sögu samfélagsins. Allt þetta fólk hefur spurt um hjálpina, vernd á einhverju skeiði - og við lendum öll í lífsklemmu með einhverjum hætti. Sprenginar verða með ýmsu móti í lífi okkar, en það er okkar að ákveða hvert við leitum, hvar við finnum vernd okkar og líka lífsakkeri.

Drengirnir léku sinn fótbolta og öttu kappi. Það voru sár á sumum og aðrir voru sárir hið innra. Liðin tókust á, fjölskyldur áttu sér sínar sögur og sín átök á Skaganum þessa daga. Og íbúarnir lifðu líka sína gleði og sínar sorgir, t.d. tapaði Skaginn illa fyrir ÍBV í meistaradeildinni eitt kvöldið. Hvar er samhengið, hvar er lífsbjörgin, hver er trúin?

Boðskapur sálmsins, fjallanna, Skagans, Biblíunnar er skýr: Guð elskar, hefur á okkur augu, réttir hendur, skýlir, gætir að og hjálpar. Guð hefur einbeittan ástarvilja!

„Ég hef augu mín til fjallanna, hvaðan kemur mér hjálp? Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar. Hann mun ekki láta fót þinn skriðna, vörður þinn blundar ekki....“

Amen. Hugleiðing í Neskirkju 8. júlí, 2012, 5. sunnudag eftir þrenningarhátíð.