Hvar er Guð?

Hvar er Guð?

Predikanir enda í Jerúsalem, en eigum við að fara til Palestínu til að hitta Jesú? Nei, þú finnur ekki æðstu sælu lífsins þar. Ef þú ferð til Jerúsalem muntu finna að Jesús er löngu farinn. Hann er heima hjá þér. Hann er í Skjólunum, á Gröndunum, Melunum, Högunum og suður í Skerjafirði, við dyrnar þínar.

Predikun á að byrja í New York og enda í Jerúsalem er gamalt slagorð. Það þýðir á venjulegu máli, að predikun eigi að fjalla um líf nútímafólks, þrár, vonir, sorg og kvíða, og leiða það síðan inn í Biblíulandið. Í dag förum við ekki alveg hefðbundna leið. En við byrjum þó í New York, færum okkur svo austur yfir Atlantshafið, en förum ýmsa útúrdúra í prédikun á fyrsta sunndegi í aðventu.

Hinn týndi Guð

Á Long Island spyrja menn sömu knýjandi stórspurninganna um líf og gildi og hér í Vesturbænum. Þar hljómar líka: Hvar er Guð? Hefur þú fundið Guð? Það voru einu sinni tveir drengir í Brooklyn, sem voru alger plága og frægir fyrir hnupl. Foreldrarnir höfðu gert allt, sem þeir gátu í uppeldinu, en voru að gefast upp. Svo heyrðu þau, að presturinn væri laginn við vandræðagemsana. Þau ákváðu því að fara með þann yngri í kirkjuna til siðbótar. Presturinn þagði góða stund og drengurinn varð órólegur. Svo spurði klerkur: “Hvar er Guð?” Drengurinn hugsaði hratt, en var ekki alveg viss um hvernig hann ætti að svara svo flókinni spurningu. Prestur gaf sig ekki, vildi að strákur gerði sér grein fyrir að Guð sæi allt, líka prakkarastrikin, og spurði aftur: “Þegar þú hegðar þér svona, hlýt ég að spyrja hvar Guð sé?” Ekki batnaði ástandið, engin voru svörin og drengurinn varð hræddur. Að lokum þrumaði prestur: “Hvar er Guð?” Þá þaut sá stutti upp og út, hljóp heim og kallaði í eldri bróðurinn, sem beið niðurstöðu kirkjuferðarinnar. “Nú erum við í vondum málum,” sagði sá yngri. “Guð er týndur og þau halda að við höfum falið hann!”

Hvar finnur þú fyrir guðsnándinni?

Hvar er Guð? Hvar finnur þú Guð? Í dag er fyrsti sunnudagur aðventu og þar með nýs kirkjuárs. Það er við hæfi að óska velfarnaðar á nýju andans ári í þínu lífi, óska þér farsældar í sambúðinni með Guði. Þessi dagur er góður til hreingerningar sálarinnar.

Lexían minnir á komu lausnara heimsins, guðspjallið sýnir okkur sjálfsskilning Jesú og pistillinn segir okkur að hann vilji vera hjá okkur og fagna. Textarnir fanga því allan heiminn, tíma, sögu, samfélagsfélagsheill, söfnuð og þig.

Við stöldrum við pistilstefið, sem er í síðustu bók Biblíunnar. Þetta er frægur texti, mynd af Jesú við dyr. Hann knýr á og vill koma inn. Það er vissulega sérstætt að ímynda sér Jesú við útidyrnar heima. Erum við tilbúin að opna dyrnar að lífi okkar?

Hvar er gleðin?

Hvar finnum við gleði og hvað höfðar til okkar? Öll leitum við hins djúpa, hamingjunnar. Aðstæður verka með mismunandi móti á okkur til að tengja okkur. Sumum lætur vel að eiga sér kyrrðarstund heima. Aðrir finna fyrir sterkri guðlegri nánd í tónlistarhæðum. Með sterku form- og lita-máli höfða sjónlistir til dýpta annarra.

Hljóðlátt hvísl stararbreiðu í mýri er himnesk tónlist á sumarnótt. Ljósbrot í skoppandi fjallalæk verkar stundum eins og himininn leiki sér á jörðinni. Stjörnubjartur himinn og norðurljósadans vekja oft áleitnar spurningar um til hvers lífið sé.

Svo lifa margir djúpt þetta undur að ganga fram í kirkjunni að bikar og patínu, finna brauðið í hendi, bera í kaleik og síðan að vörum. Hvað er maðurinn að þú vitjir hans, mannsins barn að þú vitjir þess?

Leitin að merkingu

“Hefurðu fundið Guð?” kallaði prédikarinn á kassanum niður á Lækjartorgi til þeirra, sem áttu leið um? Spaugsamur vegfarandi kallaði á móti? Er Guð týndur?

Sjálfsræktaráherslur í samfélagi okkar eru til góðs, allir kúrarnir, aðferðirnar, bækurnar, námskeiðin og átökin. En ef fólk nær aldrei að botna í lífsháskanum og samhengi tilverunnar er alveg sama hversu mikið er spriklað. Það er þetta uppgjör við hin hinstu mörk sem reyna. Af því að menningin er orðin fjölradda og fjölbreytileg verðum við að horfast í augu við að gera sjálf upp. Það eru margir týndir sjálfum sér og þar með óvitar í lífsgæðum. Í sálgæslunni leita æ fleiri eftir trúarlegri leiðsögn, hjálp við að skilja og tengja við merkingu.

Lífskraftur við mörkin

Ég las í vikunni tvær bækur um krabbameinssjúkt fólk og vinnu þess með veikindin og nálægð dauðans. Þetta eru n.k. Ó-bækur því heiti beggja byrjar á Ó og valda ýmsum ó-um í lestri og skilningi.

Önnur er hin undursamlega bók Ótuktin eftir Önnu Pálínu Árnadóttur. Í henni veitir hún okkur innsýn í baráttuna við krabbann, skuggasundin, hamslausa von og þrá eftir að fá að eiga samfylgd með ástvinum. Og við sjáum nakta lífsþrá og lífsþorsta.

Í lífinu megnaði Anna Pálína að kenna vinum og vandamönnum að lifa vel og deyja vel. Bókin er í sama anda. Það fer jafnan saman, að til að deyja vel er þess þörf að fólk kunni að lifa vel. Þeim, sem lánast að lifa vel hafa lært að lifa þrátt fyrir dauðann, lært að viðurkenna að dauðinn er raunverulegur, en þó ekki hið endanlega tóm. Lífið verður mikilvægara en dauðinn, sem hopar og verður fremur sem baksvið, en ekki skuggi yfir lífið.

Þessa visku náði Anna Pálína að þroska með sér í nálægð Kröbbu frænku, krabbameinið sem bjó í henni og felldi að lokum. Ef þú vinnur með sjúkdóm eða einhver af þínu fólki er hægt að mæla með þessari bók um að lifa vel og deyja vel.

Óskar og bleikklædda konan

Svo var hin bókin, á svipuðum slóðum, og einnig hlaðin vísdómi: Óskar og bleikklædda konan eftir franska höfundinn Eric-Emmanuel Schmitt. Schmitt er mörgum kunnur fyrir leikverk sín, sem sýnd hafa verið hér, Abel Snorko býr einn og Gesturinn. Í þessari litlu bók er fjallað um lífið, trúna og Guð. Hvað gerir tíu ára strákur á spítala, sem kemst að því að hann er deyjandi? Óskar er með hvítblæði. Lækningar hafa mistekist. Skömmu fyrir jól heyrir Óskar samtal læknis og foreldra hans þegar þeim var tilkynnt, að sonur þeirra eigi skammt eftir ólifað. Hann grunaði að svona væri komið, en enginn vildi eða gat talað við hann, nema gömul aðstoðarkona. Hún hafði þroska og þol til að horfast í augu við alvöru og lífsháska deyjandi stráks. Hún hafði þrek til að svara spurningum hans, en líka getu til að miðla honum reynslu, efasemdum, hugmyndum um lífið, ástina, dauðann og Guð.

Óskar var einmana vegna hræðslu fólks við dauða og stríð hans. Bleika amma lagði til að hann skrifaði Guði bréf. Óskari fannst tilgangslítið að skrifa til Guðs sem ekki væri til. En bleika amma var klók og benti Óskari á að því meira sem hann skrifaði eða talaði við Guð því meira yrði Guð til. Og svo reyndi Óskar þetta.

Bleika amma sagði Óskari sögur og opinberaði honum möguleika, sem Óskar hafði ekki gert sér grein fyrir. Hún hjálpaði honum til að skilja að þótt hann ætti bara nokkra daga eftir gæti hann samt, eins og aðrir, lifað heila ævi, bara hraðar en flestir hinir. Hann gæti t.d. lifað þannig að hver dagur væri sem tíu ár. Óskar tók áskoruninni, lifði hvern dag eins og hann væri áratugur. Hann náði að ganga í gegnum kynþroskann, verða ástfanginn, gera uppreisn gegn foreldrum, vinna sig í gegnum kreppurnar og mynda þroskaðri tengsl að nýju. Hann sá á bak ástinni sinni, fann hvernig hann eltist og hrörnaði. Og honum tókst að vinna sig frá vantrú til skilnings á að Guð væri nærri, til viðtals og að lokum var Guð honum sá eini utan bleiku ömmu sem var nálægur. Á tíu dögum, lifað hratt, og allt breytt. Mannsævin í hnotskurn, við dyr dauðans. Þessi fleygiferð Óskarslífsins hófst rétt fyrir jól og lauk við áramót.

Virðisaukinn og lífsvaka

Hvað er líf? Ég man eftir manni, sem dvaldi langdvölum í sumarbúðunum í Vatnaskógi. Hann var ekki eins og fólk er flest, fullvaxinn en í mörgu sem barn. Í einlægni rambaði hann oft á kostulega speki. Einu sinni spurðu Skógardrengir hann, hvað hann tautaði alltaf þegar hann vaknaði. Jú, hann var alveg til í að segja strákunum hvað það væri. “Þegar ég fer á fætur bið ég alltaf sömu bænina. Ég segi við Guð: Þakka þér góði Guð fyrir að ég er ekki dauður þegar ég vakna!” Þetta þótti bæði spaugilegt, en líka íhugunarvirði.

Er hægt að vakna dáinn? Margir virðast heldur líflitlir þó þeir hamist í lífsbaráttunni. Við erum kölluð til lífs, við erum öll kölluð til hamingju og við erum öll kölluð til að vera ástvinir Guðs.

Þegar lífið fær lyktadóm, þegar lífinu er nær lokið, verður það svo óendanlega mikils virði og dýrmætt. Þannig virðisauki verður á hverjum degi á sjúkrahúsunum, meðal allra þeirra, sem fá þungbær tíðindi um eigin heilsu eða fjölskyldu og ástvina. Óskar þráði að fá að lifa, þráði að fá ævi, með öllum helstu æviþáttum. Við erum við trúaráramótin núna, við skúrum sálina og megum læra ýmislegt af Óskari.

Dyrnar hið innra

Predikanir enda í Jerúsalem, en eigum við að fara til Palestínu til að hitta Jesú? Nei, þú finnur ekki æðstu sælu lífsins þar. Ef þú ferð til Jerúsalem muntu finna að Jesús er löngu farinn. Hann er heima hjá þér. Hann er í Skjólunum, á Gröndunum, Melunum, Högunum og suður í Skerjafirði, við dyrnar þínar.

“Sjá, ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum, þá mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér.”

Það eru dyrnar innan í þér, sem er bankað á. Gesturinn treður sér ekki inn, en er tilbúinn að bera þér ljós alls heimsins, lýsa þér á þessum myrku dögum framundan, lýsa þér alla erfiðisdagana, vera þér stoð á neyðardögum og fylgja þér í hvaða aðstæðum sem þú lendir í.

Nú eru síðustu dagar ársins framundan í þínu lífi. Má bjóða þér að lifa hratt og læra lífsundrið? Hvar Guð? Hann var og er ekki týndur, heldur fann þig, lítið barn, hálfvaxinn eða fullorðinn. Hann er hér og vill fara með þér heim til að halda lífsveislu. Þar er virðisauki lífsins til að maður vakni lifandi á morgnana og lifi vel.

Amen.

Þessi prédikun var flutt í Neskirkju á fyrsta sunnudegi í aðventu, 28. nóvember, 2004.

Salka gefur út bók Önnu Pálínu Árnadóttur Ótuktin.

Bókaútgáfan Bjartur gefur út Óskar og bleikklædda konan eftir Eric-Emmanuel Schmitt.