Malala og spádómar aðventunnar

Malala og spádómar aðventunnar

Þegar Malala var spurð á BBC í liðinni viku hvaðan styrkur sinn kæmi nefndi hún ást og stuðning fjölskyldu sinnar og trú sína, þá sömu trú og ofbeldismenn hennar kenna sig við. Við sem hér erum samankomin tilheyrum annari menningu, skyldri en ólíkri trúarhefð og búum langt frá vígstöðvum Talibana, en í grunninn erum við eins.

Í ljósamessu í Neskirkju er hefð fyrir því að fermingarungmenni umvefji söfnuðinn með ljósum og lesi spádómstexta aðventunnar. Sú hefð er áratugagömul og foreldrar sem aldir eru upp í Vesturbænum muna mörg sjálf að hafa borið ljósið inn í kirkjuna sem fermingarbörn í þessari guðsþjónustu. Spádómstextar aðventunnar boða nýtt upphaf í erfiðum aðstæðum og bera með sér fyrirheiti um frið og réttlæti, sem heiminn sárlega skortir.

Á fimmtánda stjórnarári Tíberíusar keisara, þegar Pontíus Pílatus var landstjóri í Júdeu en Heródes fjórðungsstjóri í Galíleu, Filippus, bróðir hans, í Ítúreu og Trakónítishéraði og Lýsanías í Abílene, í æðstapreststíð Annasar og Kaífasar, kom orð Guðs til Jóhannesar Sakaríasonar í óbyggðinni. Og hann fór um alla Jórdanbyggð og boðaði mönnum að taka sinnaskiptum og láta skírast til fyrirgefningar synda, eins og ritað er í bók Jesaja spámanns: Rödd hrópanda í eyðimörk: Greiðið veg Drottins, gerið beinar brautir hans. Öll gil skulu fyllast, öll fell og hálsar jafnast, bugður verða beinar og óvegir sléttar götur. Og allir munu sjá hjálpræði Guðs.

Eitt af því sem við leggjum áherslu á í fermingarfræðslu Neskirkju er sú staðreynd að margt af því sem mætir okkur í trúarefnum er mun flóknara en virðist við fyrstu sýn og það á sannarlega við um inntak jólanna. Sagan af fæðingu Jesú Krists er áhrifamesta fæðingarfrásögn allra og tíma. Saga sem að mótað hefur heimssöguna og gerir enn.

Í sunnudagaskólanum er nú verið að segja frá hirðunum sem fyrstir heyrðu af fæðingu jesúbarnsins í fjárhúsinu og fengu að heyra boðskap engilsins, sem sagði:

„Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“

Og síðan segir:

Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu: Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.

Þessum atburði hafði verið spáð og þess vegna lásum við hér áðan spádómstexta sem hljómuðu af vörum spámanna Gamla testamentisins og Jóhannesar skírara um komu barns sem breytt gæti öllu.

Það sem ekki verður kennt í sunnudagaskólanum er hinsvegar það að þessir spádómar og boðskapur jólaguðspjallsins talar inn í aðstæður fólks sem var kúgað og beitt slíku ofbeldi að manni blöskrar hversu grimm manneskjan getur verið.

Hirðarnir í Júdeu, voru líkt og allt venjulegt fólk á fyrstu öldinni undir hælnum á harðstjórn Rómverja, sem hreyktu sér upp af friði sem byggðist á því að berja niður alla þá sem töluðu gegn ofríki þeirra. Þaðan er krossinn kominn, tákn kristinna manna um frið, sigur og eilíft líf, sem var í höndum rómverja tákn um það að ef þú talaðir gegn Róm varstu tekinn af lífi með því að vera hengdur upp á kross.

Í Matteusarguðspjalli segir frá því að Heródes, landsstjóri Rómverja í Júdeu hafi svo óttast fregnir af yfirvofandi fæðingu þessa barns að hann hafi látið myrða „sveinbörn í Betlehem og nágrenni hennar” til að tryggja að ekkert ógni valdi sínu.

Hverju getur barn breytt í slíkum aðstæðum og andspænis slíkri kúgun? Hvað þá barn fátækra hjóna, hrakin á milli borga og ekki einu sinni með gistingu annarsstaðar en í fjárhúsi. Það kom í ljós að þetta barn breytti öllu, og sá fagnaðarboðskapur hefur gengið mann fram af manni í kristinni kirkju í 2.000 ár og fram til okkar daga.

Guð er kominn í þennan heim til að færa frið, hugrekki og ljós sem engin harðstjóri getur frá okkur tekið, ekkert ofbeldi þaggað niður í og ekkert óréttlæti kæft. Barn getur breytt öllu.

Í liðinni viku var tilkynnt í Osló í Noregi um handhafa friðarverðlauna nóbels í ár en þar voru heiðruð þau Kailash Satyarthi, Indverji sem um áratugaskeið hefur barist fyrir afnámi barnaþrælkunnar þar í landi og fyrir menntun barna og hin hugrakka Malala Yousafzai sem hefur barist fyrir menntun stúlkna frá 11 ára aldri.

Flest þekkjum við sögu hennar en hún er alin upp í Swat héraði í Pakistan, á svæði þar sem Talibanar voru að berjast til valda. Talibanar eru ofstækissamtök sem boða íslamska alræðisstjórn og vilja meina aðgang barna að menntun, sem þeir sjá sem ógn við vald sitt. Malala sagði frá lífi sínu sem barn á blogsíðu sem hún skrifaði þegar hún var 11 og 12 ára gömul og meðal annars þeirri ógn sem stúlkur stóðu frammi fyrir við að sækja skóla í óþökk Talibana sem höfðu eyðilagt yfir 400 skólabyggingar í nágrenni héraðsins.

Þegar hún var um fermingaraldur, 13 ára gömul, var hún skotin í höfuðið og átti kúlan að þagga niður í þessari stúlku sem lét sér ekki segjast. Ég gef henni nú orðið þar sem hún hélt ræðu fyrir Sameinuðu Þjóðirnar á Malala deginum, 16 ára afmælisdegi sínum.

Ræða Malölu

Hugrekki hennar er leiðarljós og vonarglæta í baráttu okkar í samtímanum við vaxandi öfgaöfl sem ógna þeirri framtíð sem mannkynið dreymir um, að eignast frið. Sá draumur hefur alltaf virst ótryggur en hefur verið haldið lifandi af spámönnum á borð við þessa ungu pakistönsku stúlku sem enn er barn, einungis 17 ára gömul, og hefur haft slík áhrif að þöggunartilburðir Talibana hefur breyst í friðarandóf sem vakið hefur heimsathygli.

Þegar Malala var spurð á BBC í liðinni viku hvaðan styrkur sinn kæmi nefndi hún ást og stuðning fjölskyldu sinnar og trú sína, þá sömu trú og ofbeldismenn hennar kenna sig við.

Við sem hér erum samankomin tilheyrum annari menningu, skyldri en ólíkri trúarhefð og búum langt frá vígstöðvum Talibana, en í grunninn erum við eins.

Þegar við undirbúum komu jólanna er vert að minnast þess að boðskapur jólaguðspjallsins einskorðast ekki við gæðastundir fjölskyldunnar og því að skiptast á gjöfum eða borða góðan mat, þó það sé vissulega mikilvægt.

Heldur krefja jólin okkur um afstöðu: Beygjum við okkur í ótta gagnvart því valdi sem ógnar friðnum og beitir ofbeldi eða veitum við friðsama mótstöðu, í trausti þeirrar vissu að Guð hefur gefið okkur frið og ljós sem er öruggt frá veraldlegum valdshöfum?

Þið hafið kæru fermingarungmenni sama tjáningarfrelsi og Malölu var gefið, sama stuðning í fjölskyldu ykkar og hún naut og berið sömu ábyrgð og við öll um að beita okkur fyrir betri heimi.

Þið eruð elskuð, við erum elskuð, af hvert öðru og af þeim Guði sem gaf okkur öllum líf, hvaða trú sem við tilheyrum og hvaða heimalandi sem við komum frá, og við berum sem slík ábyrð í þessum heimi.

Um það snýst fermingarheitið, sem þið undirbúið í vetur, en er okkur öllum sístætt verkefni sem kennum okkur við kristna trú.

Ljósamessa minnir okkur á það ljós sem lýsir öllum mönnum, þeirri von sem mannkyninu var gefið og þann frið sem fæddist inn í þennan heim á jólanótt. Verkefnið er að opna hjörtu okkar fyrir því ljósi og leyfa því að tendra hjörtu okkar í kærleika til allra manna. Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu: Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.