Frænkumafía, auðugur Kínverji og frelsi barnsins

Frænkumafía, auðugur Kínverji og frelsi barnsins

Predikað út frá guðspjallstexta dagsins: Matteus 11. 16-24 og versi 15 bætt við.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Hver sem eyru hefur, hann heyri!

Ég var að skemmta mér í góðra vina hópi í gærkvöld. Frænkumafían sem tilheyrir tengdafjölskyldu minni, hafði boðið til árlegs fögnuðar er nefnist ,,Fiskidagurinn litli". Boðið er upp á fiskrétti og fínerý, skálað í léttu víni, leikin nokkur skemmtiatriði og dansað af hjartans lyst. Reyndar er metnaður frænkumafíunnar slíkur að hún býður upp á danskennslu með ,,alvöru" danskennara svo að pupullinn dansar með miklum bravúr á þessu tiltekna skemmtikvöldi.

Einn af dagskrárliðum var að verðlauna þann maka mafíumeðlims sem þætti skara framúr hvað varðar undirgefni og óttablandna virðingu við mafíuna. Var hinn útvaldi krýndur blikkandi kúrekahatti og fegurðardrotningarborða eftir að útlistað hafði verið hvers vegna hann átti titilinn skilið. Upptalningin var löng og lesningin öll á þá leið að tíunda undirgefni hans og virðingu, hjálpfýsi hans og fórnarlund gagnvart öllum mafíumeðlimum. Atriðið vakti stormandi lukku og salurinn bókstaflega veinaði úr hlátri. Undir þessum kringumstæðum, með freyðivín í staupinu og hláturskrampa í maganum varð ég hugsi. Mér þótti þessi litli gamanleikur mafíunnar minna mig óþægilega mikið á sjálfsmynd hins dæmigerða íslendings. Því þrátt fyrir að þjóðin telji sig góðgjarna, friðsama, umburðarlynda, fjöllmenningarlega, jafnréttissinna og metnaðarfulla, þá er eins og öll þessi element reki sig áfram af einhvers konar minnimáttarkennd sem byrtist í þörfinni fyrir að skara framúr. Við erum ekki aðeins friðsöm þjóð, heldur friðsamasta þjóðin í heiminum o.s.frv..

Þörfin fyrir að skara fram úr er stúdía út af fyrir sig og eflaust ósköp skiljanleg þar sem við höfum öll átt ömmur og afa, langömmur og -afa eða í lengstu lög langalangömmur og -afa sem bjuggu í torfbæjum, niðurgrafin í rökkurhúsum. Það er engu líkara en að í okkur sé forrituð uppskrift um, ekki aðeins að komast upp úr moldinni, heldur komast æ hærra. Uppskriftin er ákaflega einföld, svona rétt eins og hver önnur hveitibrauðsuppskrift. Í hveitibrauðsuppskriftinni spilar hveitið stærstu rulluna, en í þessari uppskrift spilar minnimáttarkenndin stærstu rulluna. Minnimáttarkennd yfir því að vera á margan hátt eftirbátur annarra þjóða og það um árhundruða skeið. Lyftiduftið er skömmin sem magnar minnimáttarkenndina og eggið, eða límingin sem heldur öllu saman er metnaðurinn sem gerir að verkum að þjóðin mun seint læra að standa í röð... hún vill komast fram fyrir hina og fá sitt strax!

Það merkilega hefur síðan gerst að jafnvel þótt metnaðurinn og þörfin fyrir að komast hærra sé enn til staðar, þá höfum við flest gleymt því hvaða ástæður lágu að baki þessari lífsafstöðu. Það er eins og við séum ekki enn búin að átta okkur á því að við erum komin upp úr torfinu og að það sé í lagi að kyrra sig af, líta sér nær og koma sér úr sjötta gír. Að mörgu leiti held ég að efnahagshrunið hafi gert okkur gott. Það hægði á okkur og fékk þjóðinni það verkefni að rýna í tilganginn með þessu öllu saman. Þjóð sem hafði þeyst áfram með offorsa og látum varð á einu augnabliki neydd í biðstöðu, eða kyrrsett og hefur því ekki komist hjá að leggja við hlustir.

Hver sem eyru hefur, hann heyri!

Jesú segir þessa setningu með reglulegu millibili í samtölum sínum við samferðamenn sína, bæði lærisveinana, en einnig við fólkið sem hann mætir á ferðum sínum. Hann segir þessi orð við okkur í dag, vegna þess að hann vill að við hlýðum. Hlýðum í fyrsta lagi með því að hlýða á og heyra það sem sagt er og í öðru lagi með því að bregðast við því sem sagt er og gera eitthvað. En um leið gerir Jesús sér grein fyrir því að fæstir heyra í raun og veru hvað hann segir. Fólkið hlustar kannski, en heyrir ekki og hverfur því aftur til fyrri hátta.

Biblían kallar á okkur að bregðast við. Orð Guðs er ekki dægurlesning eða afþreyingarefni og þaðan af síður hylluskraut. Orð Guðs er uppskrift að líferni og sem slíkt í eðli sínu hvatning um að við trúum og tökum sinnaskiptum, bregðumst við og gerum eitthvað. Þannig má segja að Biblían sé framkvæmdabók eða (svo ég leyfi mér að sletta) ,,handmanual" um það með hvaða hætti okkur er hollast að lifa.

Í guðspjalli dagsins reynir Jesús að kalla okkur til trúar, eða til sinnaskipta, að við skiptum frá einum hugsunarhætti til annars. Það er gríðarlega erfitt verkefni, því það krefst þess að við látum af hinu fyrra og að eitthvað nýtt komi í staðinn. Sumir hafa reyndar upplifað að turnast í einum vettvangi, líkt og Páll postuli gerði. Aðrir læra jafnt og þétt í gegnum lífið að treysta Guði og trúa. Upplifa kannski erfiðleika, sækja styrk í æðri mátt og finna ekki aðeins huggun, heldur einnig trú. Enn aðrir horfa á fegurð lífsins, náttúruna, kraftaverkin í nýfæddum börnum sínum og lofa sköpunarkraftinn sem að baki liggur og finna um leið Guð.

En hverngi sem trúin kemur til okkar, þá getum við haft mjög mismunandi hugmyndir um það að trúa. Við getum öll haft okkar skoðanir á Guði og átt okkar eigin guðsmyndir. Það sama gildir um himnaríkið og helvítið, við gerum okkur myndir af þessum fyrirbærum og leggjum misþunga merkingu í þau. Sumir álíta að um staði sé að ræða og bíða eða kvíða að fara þangað. Aðrir álíta að um einhvers konar ástand sé að ræða og að maður geti skapað sér slíkt ástand hér og nú.

Þótt Jesús talaði um föður sinn á himnum, þá virðist hann frekar tilheyra þeim sem tala um himnaríkið sem ástand og orðaði það með því að segja: ,,Guðs ríki kemur ekki þannig að á því beri. Ekki munu menn segja: Sjá, þar er það eða hér er það, því Guðs ríki er innra með yður.“ (Lk. 17.20-21). En forsendan fyrir þessu ástandi innra með okkur er trúin og forsendan fyrir lifandi trú er Biblían og bænin. Þá erum við aftur komin að Guðspjalli dagsins, þar sem Jesús segir við samferðamenn sína: ,,Þið eruð eins og börn, sem á torgum sitja og kallast á".

Torgin voru auð virka daga, en um helgar safnaðist fólk þar með sölubása sína, hljómlistarmenn léku á flautur og mikið líf og fjör einkenndi þessa litskrúðugu markaði. Börnin komu þangað með foreldrum sínum og lærðu af þeim, horfðu á verslunarhætti þeirra og léku eftir í leikjum sínum. Á virkum dögum stóðu torgin auð og þá var nóg pláss fyrir annars konar leiki barnanna.

Börn þessa tíma voru ekkert ólík börnum í dag. Í leikjum sínum voru þau vön að apa eftir háttum hinna fullorðnu. Þar voru tveir leikir vinsælli en aðrir, nefnilega að leika brúðkaup og jarðaför. Báðar voru athafnirnar opinberar og í báðum tilfellum var gengið í prósessíu um torgið. Þegar brúðkaupið stóð yfir ríkti gleði og glaumur, leikið var á flautur, dansað og sungið. En þegar jarðarförin stóð yfir voru grátkonur kallaðar til og fóru þær mikinn í táraflóðum og grátköllum. Fólk barði sér á brjóst og jós ösku yfir höfuð sér. Þetta léku börnin eftir og flestir vildu vera með í leiknum. En þó voru alltaf einhverjir krakkar sem vildu aldrei vera með. Þau gagnrýndu hin börnin þegar þau léku sér í gleði, hlógu, sungu og dönsuðu og þau gagnrýndu líka sorgarleikinn og harmrænu tilburðina. Þau stóðu álengdar, horfðu á og gerðu lítið úr hinum.

Sumir taka einfaldlega ekki þátt en eru endalaust tilbúnir að gagnrýna.

Jesús notar þessa samlíkingu og er í raun að tala um muninn á sér og Jóhannesi frænda sínum. Jóhannes var spámaðurinn mikli sem gekk um í eyðimörkinni og hrópaði á fólk að gera sinnaskipti. Hann át engisprettur og það sem til féll í eyðimörkinni og sótti ekki inn í borgarlífið, heldur lifði nokkurs konar meinlæta- og einsetulífi. Hann leið skort og eflaust hefur hann borið mynd hins hrygga manns. Fyrir þetta var hann gagnrýndur af mörgum. Jesús hins vegar kom inn í borgirnar, umgekkst alls kyns fólk, tollheimtumenn og synduga, útlendinga og heiðingja, fullorðna og börn. Hann mætti í brúðkaupin og jarðarfarirnar og mætti þannig fólki þar sem það var statt. Hann drakk vín og át kræsingar í veislum, gerði sér glaðan dag þegar færi gafst og fyrir það var hann gagnrýndur af mörgum.

Sumir taka einfaldlega ekki þátt en eru endalaust tilbúnir að gagnrýna. William Barclay sagði: ,,Hin einfalda staðreynd er sú að þegar fólk vill ekki hlusta á sannleikann, mun það einfaldlega finna sér afsökun fyrir því að hlusta ekki. Það reynir ekki einu sinni að vera stöðugt í gagnrýni sinni. Það mun gagnrýna sömu manneskjuna og sama málefnið af öllu mögulegu eða ómögulegu tilefni eða ástæðu sem er. Því ef fólk er ákveðið í því að bregðast ekki við með neinum hætti, mun það halda áfram að vera alveg jafn þvermóðskufullt og gagnrýnið sama hvernig málefnið er borið fram fyrir það.“ Tilvitnun í Barkley lýkur.

Hér er Barkley á sömu skoðun og Jesús, því með samlíkingunni við börnin sýnir Jesús okkur að það skiptir ekki nokkru máli hvernig tilboð Guðs er matreytt, hvort predikarinn heitir Jesús eða Jóhannes, þau verða alltaf til sem ekki vilja hlusta. En ef við ætlum að vaxa, þá er verkefnið okkar í dag að líta okkur nær og skoða hvort heyrn okkar sé góð eða slæm þegar kemur að Guðs orði. Hlustum við yfirleitt á það? Heyrum við það sem sagt er? Bregðumst við við því? Eða tökum við okkur stöðu með þeim sem standa hjá og gagnrýna?

Þegar ég horfi í kringum mig og rannsaka þjóðarsálina, þá finnst mér við enn burðast með klafa minnimáttarkenndar og er trúarleg spéhræðsla e.t.v. tengd þeirri minnimáttarkennd. Afleiðingin er sú að við reynum í meira eða minna mæli að komast hærra og verða meiri en við teljum okkur í raun vera. Þessi tilhneyging okkar er svo áberandi að henni er slegið upp á forsíður fjölmiðla við öll möguleg tækifæri. Sem dæmi um það er hvernig fréttin um auðugan kínverja kitlar hégómagirnd fólksins í landinu. Kannski er það vegna þess að við teljum okkur ekki vera nóg og mælum virði okkar í því hvað öðrum finnst um okkur. Það að auðugur Kínverji skuli vilja kaupa landið hlýtur að tákna að við séum eftirsóknarverð. Hins vegar finnst okkur ekkert eftirsóknarvert í því að slá fram fyrirsögnum sem lyfta smæð okkar upp, líkt og fegurðina sé hvergi að finna í hinu smáa. Okkur finnst erfitt að opinbera einlæga trú, líkt og það sé felumál og geri okkur of viðkvæm. Þó bennti Jesús okkur á liljur vallarins til að sýna okkur að við erum einmitt lík þeim. Stórkostleg í smæð okkar.

Við eigum ekki að þurfa að ,,skvera" okkur til fyrir aðra. Við erum smá en við erum líka undurfögur, við eigum fátt, en við eigum það sem skiptir máli. Það sem aðrar þjóðir skortir eigum við gnægtir af. Ég er ekki bara að tala um orkuna og tæra vatnið okkar heldur líka aðgang okkar að orði Guðs. Langflestir íslendingar eru kristinnar trúar og stærstur hluti þeirra tilheyra sama félagsskapnum, Þjóðkirkjunni. Allt er þetta hér og nú og tilboðið stendur. Spurningin er bara þessi: Ætlum við að gagnrýna og gera lítið úr eða leyfum við okkur að hlusta á og bregðast við? Ef við hlustum ekki og bregðumst við, líður e.t.v ekki á löngu áður en börnin í gagnrýnishópnum komast í foringjaraðir. Hvað verður þá um leikinn sem við þekkjum?

Mafíumakinn, hlustaði á frænkumafíuna. Hann bar virðingu fyrir henni, trúði á hana og steig inn í leikinn án þess að hika, jafnvel þótt það kostaði hann æruna í þrjár mínútur eða svo. Já, þótt hann vissi að hann yrði aðhlátursefni og mætti eiga von á skotum frá vinum sínum næstu daga og vikur, þá hleypti hann lausu barninu innra með sér og steig inn í leikinn. Á því sama augnabliki varð hann frjáls og laus undan klafa minnimáttarkenndar og spéhræðslu. Hann tók sér stöðu hins óttalausa og gat því ekki flokkast með börnunum í sögu Jesú, er stóðu undir húsvegg við torgið, hrópandi og gerandi lítið úr leik hinna. Þvert á móti skipti hann máli, því með barnslegri einlægni sinni og æðruleysi varð hann hinum hvatning um að leggja af arfgenga minnimáttarkennd og króníska spéhræðslu og hvíla í einlægu trausti til þeirra sem hann taldi sér æðri.

Hver sem eyru hefur, hann heyri!

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.