Auratal

Auratal

Hún gengur inn á sjónarsviðið í kjölfar þessara orðaskipta þar sem skikkjum hefur verið svipt, yfirlæti, mælska og tilgerð hafa greinilega borið alla einlægni ofurliði eins og lesa má út úr orðum Krists.

Textar:  1Kon 17.8-16, Post 20.32-35, Mk 12.41-44 Peningar eru jafnan í umræðunni. Vart líður sá dagur að við leiðum ekki hugann að þeim – eða tölum um þá. Fréttatímar eru uppfullir af frásögnum af fjármálum og alls kyns tíðindi góð og slæm eru útskýrð með vísan til þess hversu háar fjárhæðir græðast eða tapast hverju sinni. Staða gjaldmiðla þykir gefa góða mynd af því hvernig þjóðum og samfélögum vegnar. Og um suma menn er sagt að þeir viti ekki aura sinna tal, sem merkir þá vitaskuld að þeir hafi meira fé en tíma til ráðstöfunar.

Afl þeirra hluta er gjöra skal

Stundum verða peningamál óskiljanleg okkur, þessu svokallaða venjulega fólki. Ekki síst þegar mælikvarðarnir eru orðnir svo gerólíkir og tekjumunurinn svo ofboðslegur að það er eins og fólk tali ólík tungumál þegar að þessum málum kemur. Engu að síður virðist sem aurarnir stýri okkur að miklu leyti. Sérfræðingar halda því fram að afar stór hluti angurs okkar og áhyggju sé bundið krónum og aurum – eða öllu heldur skortinum á þeim.

Peningar geta því vitaskuld veitt gleði. Þeir eru afl þeirra hluta er gjöra skal eins og Cicero komst að orði. Ekki verður því andmælt. Það getur verið gott að þiggja góða gjöf veitta af góðum hug sem léttir áhyggjubyrðum af fólki. Það er ekki síður ánægjulegt að gefa. Í texta postulasögunnar sem hér var lesinn er vitnað í orð Krists um að sælla sé að gefa heldur en að þiggja og tekur þar af öll tvímæli úr þeirri áttinni.

Fermingarbörn safna

Þetta fengu fermingarbörnin að upplifa í vikunni sem leið. Fyrst fengu þau fræðslu um hjálparstarf kirkjunnar suður í Eþjópíu. Ragnar Schram kom á staðinn og sýndi okkur myndir þaðan sunnan frá. Þar mættu okkur ekki brostin augu og bugaðir einstaklingar. Ragnar dró fram mun jákvæða mynd af lífi innfæddra. Brosandi andlit fylltu skerminn. Skólastofur voru þéttsetnar, læknar og hjúkrunarfólk gerðu að sárum fólks og ekki voru þeir aðfluttir úr norðinu. Nei, leiðtogar úr hópi heimamanna voru þar oftar en ekki í fararbroddi við það að stuðla að því að rjúfa vítahring fátæktar sem hlykkjast aftur í aldir og árþúsund. Þarna sáum við hjálparstarf sem virkaði – peningunum þarna er greinilega vel varið.

Kvöldið eftir héldu fermingarbörnin af stað með bauka frá Hjálparstarfi kirkjunnar og gengu í hús. Þau söfnuðu fé fyrir þessi systkini okkar sem hafa svo lítið milli handanna þrátt fyrir allt og tækifærin eru, fyrir vikið, ekki öll innan seilingar. Daginn eftir fórum við sr. Sigfús í Sparisjóðinn með baukana í Sparisjóðinn þar sem innihaldið var talið. Börnin söfnuðu 262.708 krónum og einhverju því til viðbótar í erlendri mynt. Þetta er hæsta fjárhæð sem fermingarbörn hér við kirkjuna hafa safnað – en þá er heldur ekki horft til vísitalna og verðtryggingar!

Sælla að gefa en þiggja

„Sælla er að gefa en þiggja“, segir Kristur. Það þarf heldur ekki að undra að þegar fjársterkir menn og félög kalla til blaðamannafundar gefið er til góðra málefna. Slíkt skyldi víst ekki lasta enda held ég að enginn geri neitt slíkt. Nei það er öðru nær. Augun beinast í þær áttir og auglýsingin sem hlýst af því að veita verðugu viðfangsefni stuðning til frekari dáða er mikil og í anda þess sem að ofan var sagt – líklega hverrar krónu virði!

Þeir voru líka örlátir höfðingjarnir sem sagt er frá í guðspjallinu. Ekki fylgir sögunni hér frásögnin rétt á undan þar sem Jesús hafði átt við þá orðastað. Þeir voru staddir í helgidómnum og þar farísear og saddúkear. Þeir báru undir hann alls kyns vafamál og lögðu fyrir hann gildrur af ýmsum toga. Um það hvort gjalda ætti keisaranum skatt, um hjúskaparmál á himnum, hvert væri hið æðsta boðorð og margt fleira. Að lokum sagði Kristur:

„Varist fræðimennina sem fýsir að ganga í síðskikkjum og láta heilsa sér á torgum, vilja skipa æðsta bekk í samkundum og hefðarsæti í veislum. Þeir mergsjúga heimili ekkna en flytja langar bænir að yfirskini. Þeir munu fá því þyngri dóm.“

Frægir aurar

Í þeirri andrá birtist ekkjan með smápeningana sína tvo – sem líklega eru orðnir einhverjir frægustu peningar veraldarsögunnar. Hún gengur inn á sjónarsviðið í kjölfar þessara orðaskipta þar sem skikkjum hefur verið svipt, yfirlæti, mælska og tilgerð hafa greinilega borið alla einlægni ofurliði eins og lesa má út úr orðum Krists. Inn í þessar aðstæður læðist hún inn í helgidómin ekkjan með aurinn sinn, ósýnileg flestum. Vart hefur heyrst mikið í bauknum þegar aurinn þunni lenti þar í.

Þarna birtast því andstæðurnar sem aldrei fyrr. Og Kristur dregur þær fram með skýrum hætti. Ólíkt er merkara hlutskipti konunnar sem lagði það fram sem hún átti. Einlægnin, fórnfýsin og heiðarleikinn eru hennar dygðir og þótt umhverfið sé ekki alltaf næmt á slíkt gekk hún inn í sviðsljós Krists og hefur um aldir og árþúsund staðið þar sem fyrirmynd og verðugur fulltrúi þess sem göfugt er og eftirsóknarvert. Augu Guðs eru um margt ólík okkar augum. Mælikvarði Guðs er ekki sá sami og heimurinn setur. Guð setur önnur viðmið en við mennirnir gerum.

Hið smáa verður stórt

Hér er það þverstæðan stóra sem birtist í svo margri mynd í ritningunni þar sem hið smáa reynist merkara hinu háleita og því sem heimurinn hampar. Þetta sjáum við víða í guðspjöllunum: fiskarnir og brauðin í eyðimörkinni virtust svo smá og hrökkva svo skammt fyrir allan fjöldann en þegar þau voru sett í hendur Krists varð það kraftaverk að fjöldi fólks naut fæðu. Himnaríki sagði Kristur vera eins og mustarðskorn – það er minnst af öllu en í því felst slíkur sáðkraftur að upp vex mikið tré. Í fæðingarfrásögninni á jólum mætir Guð okkur sem lítið barn. Og sjálf hjálpræðissagan væri óhugsandi ef ekki hefði verið fyrir niðurlæginguna og dauðann á Golgata.

Hið fábrotna felur í sér einhvern merkilegan kraft. Það blasir ekki við í fyrstu og virðist ekki mega sín mikils í samanburðinum við það sem er frekara á athygli og umbun. Ekkjan hafði það fram yfir hina hálærðu fræðimenn að hún kom fram í einlægni og fórnin sem hún færði var svo miklu stærri heldur en allar gjafir þeirra sem auðugir voru og nutu mikillar virðingar. Framlag hennar var stærra. Hún sýndi meiri trúnað og fórnfýsi heldur en hinir höfðu gert.

Auratal

Það er sú hugsun sem textar dagsins skilja eftir handa okkur. Við lifum á tímum þar sem margur veit ekki sinna aura tal. Og kannske hefur sjaldan verið talað eins mikið um krónur og aura og á okkar dögum. Upphæðirnar verða alltaf rosalegri og illskiljanlegri fyrir þá sem ekki taka beinan þátt í leiknum. Hvaða erindi á saga af tveimur smápeningum fátækrar ekkju inn í slíkar aðstæður? Jú, þeir veita minna okkur á það að framlag okkar getur verið stórt, merkilegt og jafnvel ódauðlegt þó það virðist ekki bera það með sér í fyrstu. Þeir minna okkur á það hversu ólík augu Krists eru augum heimsins. Það sem ekki nýtur athygli og frægðar kann að vera einstakt og ómetanlegt.

Þannig var framlag hvers fermingarbarns – ein klukkustund eða tvær – á mánudagskvöldið nóg til þess að skapa stór tækifæri þar sem fjármagnsins var mest þörf. Þannig getum við með trú í hjartanu og einlægan hug unnið stórvirki á okkar nánasta umhverfi. Megi Guð gefa okkur til þess viljann og styrkinn svo við getum látið sköpun hans njóta krafta okkar.