Kjarni málsins

Kjarni málsins

Hin kristna upprisutrú gefur innsýn og von til framtíðar þar sem slíkt líf og samfélag lifir og dafnar, hið góða sigrar, lífið, kærleikurinn, ljósið sigrar. Þetta er kjarni málsins.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
04. maí 2010

Páskablóm

Páskarnir bera okkur boðskap sem er kjarni kristinnar trúar, hinn krossfesti Jesús er upprisinn frá dauðum. Hefur nokkuð gerst, er gangi fremur í berhögg við allt sem sennilegt er? Dæmdur maður, krossfestur með ódæðismönnum fyrir allra augum, og lagður í gröf. En svo þegar ástvinir hans koma að vitja grafarinnar þá er hann ekki þar, Guð hefur reist hann upp frá dauðum, hann er upprisinn! Og að örskömmum tíma liðnum er hann boðaður víðsvegar um lönd sem upprisinn frá dauðum og ekki bara það heldur sem guðlegur dómari og konungur allrar heimsbyggðar.

Þetta var og er véfengt sem vonlegt er, það var hlegið, gert gys að, þau sem komu með þessi lygilegu tíðindi voru uppnefnd, þau voru hædd, hrakin, ákærð fyrir háskalega heimsku og villu, þeim var útskúfað, þau voru dæmd til dauða. Og svo er enn víða um heim. En það var samt hlustað, og er samt hlustað. Þau sem hlógu og spottuðu í gær, stóðust ef til vill ekki mátið að koma og hlusta í dag, og á morgun voru þau gengin hinum upprisna á vald og tökin voru djúp og sterk og náðu víðar og víðar og ekkert gat stöðvað hann. Jesús frá Nasaret vann þessa viðureign svo vonlaus sem hún mátti virðast, vann þessa sókn gegn háði og kuldaglotti hinna tignu vitsmuna, gegn sinnuleysi hinnar sljóu hugsunar, gegn ógnum valds og ofbeldis og ofsókna hatursins, vann það ríki um álfur og lönd, í hugum og hjörtum manna, sem engum öðrum hefur fallið í skaut fyrr eða síðar.

Og hver er skýringin á þessu? Er einhver skynsamleg skýring á þessari staðreynd?

Það má finna ýmis svör og margar hugvitsamlegar skýringar, sem menn hafa spreytt sig á í aldanna rás. En eiginlega er ekkert vit í neinni skýringu nema þessari, sem postularnir gáfu og Nýja testamentið heldur fram og kristin kirkja byggir á og vitnar um: Jesús frá Nasaret er Drottinn, Guð reisti hann upp frá dauðum. Kirkja hans tekur sér stöðu með konunum sem vitjuðu grafarinnar á páskadagsmorgni og postulunum sem mættu honum lifandi, upprisnum.

Kristur er sjálfur á bak við þennan boðskap, hann var sjálfur hinn lifandi sannleikur að baki hans. Það er innistæða á bak við fagnaðarerindið um fyrirgefningu syndanna og eilíft líf. Það er innistæða fyrir orðinu helga sem hljómar við skírnarlaugina og yfir moldum hins látna. Það er innistæða fyrir hinni kristnu samfélagssýn umhyggju, réttlætis, mannúðar og miskunnsemi. Guð er að verki og er ekkert um megn. Það er innistæða fyrir þeirri fullyrðingu kristninnar að gott líf og heilbrigt samfélag fólks sé grundvallað á kærleika og ekkert samfélag þrífist, engin þjóð standist, sé það ekki viðurkennt og því fylgt. Hin kristna upprisutrú gefur innsýn og von til framtíðar þar sem slíkt líf og samfélag lifir og dafnar, hið góða sigrar, lífið, kærleikurinn, ljósið sigrar.

Þetta er kjarni málsins.