Oliver, börnin og kreppan

Oliver, börnin og kreppan

Í sögunni um Oliver bendir Charles Dickens á samfélagsmein í samtíð nær og fjær og varpar fram áleitnum spurnum: Hvernig reiðir börnum af í efnahagskreppu?
fullname - andlitsmynd Gunnþór Þorfinnur Ingason
18. janúar 2010

Þjóðleikhúsið sýnir nú Oliver, söngleik sem byggður er á hinni þekktu skáldsögu Charles Dickens um Oliver Twist, sem ávallt heldur vinsældum sínum. Frásögnin er svo sem vænta mátti einfölduð og samandregin í söngleiknum en meginþræðirnir halda sér þó. Sýningin er mikið sjónarspil, góð skemmtun fyrir unga sem aldna og mjög fjölskylduvæn.

Skáldsaga Dickens var ætluð stálpuðum börnum en átti ekki síður erindi við fullorðna. Hún er skemmtileg aflestrar og spennandi en felur jafnframt í sér þjóðfélagsgagnrýni. Hún afhjúpaði samfélagsmein sem fylgdu iðnbyltingu í ensku borgarsamfélagi á fyrri hluta 19. aldar þar sem félagsstoðir voru óburðugar og hver varð að bjarga sér sem best hann gat hvort sem var með löglegum eða ólöglegum hætti. Í stað þess að liðsinna munaðarlausum og fátækum af alúð og umhyggju var iðulega reynt að hagnast á neyð og vanmætti þeirra.

Sagan hafði uppbyggileg félagsleg áhrif og efni hennar glæðir enn samkennd og réttlætisþrá. Það gerir söngleikurinn líka þótt litskrúðugur og fjörlegur sé. Hann bendir þó jafnframt á samfélagsmein í samtíð nær og fjær og varpar fram áleitnum spurnum. Hvernig reiðir börnum af í efnahagskreppu? Hvernig stóð á því að bjargarlausum börnum var misþyrmt á Breiðavíkurheimilinu og áþekkum stofnunum hér á landi fyrir ekki svo ýkja mörgum árum?

Bjargarlítil börn og ungmenni finnast enn í Lundúnaborg í fjötrum fíknar og margs konar umkomuleysis þótt bragur hennar sé nú allur annar en var á fyrri tíð. Þjófagengi eru þar eflaust enn á ferð, börn þar á meðal, og götudrósir falbjóða blíðu sína og klækjarefir gera þær út í gróðaskyni.

Skáldsagan „Viltu vinna milljarð“ og Óskarsverðlaunamyndin sem gerð var eftir henni koma upp í huga. Þar er munaðarlausum börnum lýst sem lifa á götum Indlands og bjarga sér með því að leita fæðu á ruslahaugum. Sagan er ekki bara skáldskapur heldur raunsönn lýsing á skelfilegum veruleika samtíðar. Og enn er sagt frá börnum á götum borga Brasilíu sem eru skotin á færi til að hreinsa til.

Er nokkuð við þessu að gera? Varla ef vægðarlaus gróða- og hernaðarhyggja, kaldlyndi og kæruleysi eru ráðandi stefna í samskiptum í veröldinni og unnið öðru fremur að því að viðhalda því fyrirkomulagi þrátt fyrir hættumerki í efnahags- og umhverfismálum.

Megnar kristin trú eitthvað til bóta og betrunar nema með fjarlægri hluttekningu og vanmáttku hjálparstarfi, sem virðist oft aðeins vera plástur á svöðusár? Hún megnar það sannarlega ef kraftur hennar birtist í hiklausu hugrekki sem vinnur markvíst á félags-, efnahags- og stjórnmálasviði að því að leita réttlætis og losa helsi og fjötra með hag bjargarlausra, vanmegna og þurfandi helst fyrir augum.

Ekki er hægt að gera allt þetta að umræðuefni við börn. En söngleikurinn, Oliver, á fjölum Þjóðleikhússins er skemmtilegur og lærdómsríkur og hentar þeim vel til að þroska samkennd og vitund um að góðar uppeldisaðstæður skipta miklu fyrir þroska og velferð barna og ungmenna hér á landi og hvarvetna í veröldinni. Tilvalið er að fjölskyldur, börn og foreldrar fari saman í Þjóðleikhúsið og sjái Oliver. Með því geta þau styrkt kærleiks- og vinabönd og viljann til að skapa samfélag sem miðar að samkennd og velferð.

Leiðtogar í barnastarfi kirkjunnar gætu líka efnt til ánægjulegrar leikhúsferðar með börnunum og fjölskyldum þeirra og farið með þeim að sjá söngleikinn góða, Oliver, í Þjóðleikhúsinu.

Nánar

Ítarlegri útgáfu af þessari leikhúsrýni má lesa á kirkjan.is.