Enn um íslenska trúboðið á Ítalíu

Enn um íslenska trúboðið á Ítalíu

Þar með hefur ítalskur dómstóll staðfest með dómi, að íslenska framlagið til Feneyjatvíæringsins var ekki listaverk, heldur trúboð. ... Hér hefur því opnast sóknarfæri fyrir Kristniboðssamandið til tekjuöflunar.
fullname - andlitsmynd Gunnlaugur S Stefánsson
08. september 2015

Þær urðu ekki fyrirferðamiklar fréttirnar í fjölmiðlum af afdrifum íslenska trúboðsins á Ítalíu í nafni listahátíðar, Feneyjatvíærings, sem hófst í vor og átti að standa langt fram eftir árinu. Þar fór illa því lokað var á trúboðið af ítölskum yfirvöldum. Að trúboðinu stóð Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar í samstarfi við Félag múslima á Íslandi sem hafði umsjón með helgihaldinu í moskunni sem búin hafði verið til inni í afhelgaðri kirkju í Feneyjum, - að sögn með listrænu ívafi. Um það fjallaði ég í sérstökum pistli s.l. vor hér á tru.is.

Tíðindi bárust svo til Íslands, að Kynningarmiðstöðinn hefði kært ítölsk yfirvöld til dómstóla fyrir að banna trúboðið og loka moskunni í kirkjunni, -eflaust í listrænum tilgangi. Og nú hefur fallið einróma ítalskur hérðasdómur þar sem segir m.a.: „Enginn vafi leiki á því að kirkjan, sem notuð var undir moskuna, hafi verið nýtt til trúarlegra athafna. Leyfi hafi verið gefið fyrir listaverki, en ekki til að opna bænahús“. Þá taldi ítalska lögreglan „framlagið ógn við öryggið“.

Þar með hefur ítalskur dómstóll staðfest með dómi, að íslenska framlagið til Feneyjatvíæringsins var ekki listaverk, heldur trúboð.

Þannig fór nú um þá útrás, þegar íslensk ríkisstofnun fór í trúboð á Ítalíu. Og fjölmiðlar láta sér fátt um finnast. Skiljanlega, því þeir ljómuðu af hrifningu yfir trúboðinu á meðan á stóð, sérstaklega 365 miðlar og Ríkissjónvarpið, sem héldu hátt á lofti með ítarlegum viðtölum við trúboðana hve helgihaldið væri einstaklega himneskt.

Nú er Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar opinbert fyrirtæki og fær rekstrarfé sitt úr Ríkissjóði. Á sama tíma og íslenska Rkið ver umtalsverðum fjármunum í trúboð á Ítalíu, þá eru í gildi opinberar reglur sem banna trúfélögum eðlileg samskipti við börn og unglinga í íslenskum skólum í því skyni að varðveita ungmennin fyrir skaðlegum áhrifum trúarinnar. Vonandi hafa ítölsk börn ekki orðið fyrir skaða, ef þau hafi litið við í moskunni þann stutta tíma sem trúboðið stóð yfir. Ítalska lögreglan hafði þó áhyggjur af öryggi fólksins vegna íslenska trúboðsins.

Fréttavefurinn Hringbraut upplýsti s.l. vor, að kostnaður við trúboðið á Ítalíu var kominn í 36 milljónir króna og áður en því var lokað og var þá eftir að taka moskuna niður og hreinsa til. Fjölmiðlar láta sér útgjöldin í léttu rúmi liggja, og ekki síður hvernig kostnaður skiptist á hina margvíslegu rekstrar-og verkþætti, og að ógleymdum málarekstrinum fyrir ítalska dómstólnum sem eitthvað hefur kostað til viðbótar. Kynningarmiðstöðin birtir án efa nákvæma kostnaðargreiningu um ævintýrið í Feneyjum áður en langt um líður.

Oft hafa fjölmiðlar gripið til stórra fyrirsagna um Þjóðkirkjuna af minna tilefni.

Fjölmiðlar hafa almennt ekki sýnt trúboði í útlöndum mikinn áhuga, nema Morgunblaðið sem stundum birtir fréttir af starfi Kristniboðssambandsins í fjarlægum löndum.

Hjá íslenska Kristniboðssambandinu er vandað til verka og farið um á meðal fólks af virðingu og áhersla lögð á náið samstarf með heimafólki á krisniboðsakrinum. Þar starfa menntaðir kristniboðar sem undirbúa sig rækilega áður en störf eru hafin, kynna sér lögin, sögu, menningu og siði viðkomandi landa og læra tungumálið.

Í íslenska kristniboðinu er starfað af hugsjón og einlægri trú, mannúð og kærleika. Starfsemi Kristniboðssambandsins er fjármögnuð fyrst og fremst af frjálsum framlögum og sjálfboðnu starfi og fær engan styrk af fjárlögum íslenska ríkisins. Heildartekjur Kristniboðssambandsins voru rúmar 63 milljónir á síðasta ári.

En nú hefur verið mörkuð alveg ný stefna. Íslenska ríkið hefur haslað sér völl með trúboði í útlöndum og varið til þess umtalsverðum fjármunum. Hér hefur því opnast sóknarfæri fyrir Kristniboðssambandið til tekjuöflunar, því ekki verður trúað að gildi einhver mismunun í þeim efnum.

Þá gæti dýrkeyptri hrakför verið breytt í fararheill.