„Stefna” í stormi og stillilogni

„Stefna” í stormi og stillilogni

Hvínandi stormur blés með regni þegar prestar og kirkjulið gengu fylktu liði upp grýttan mel að Kópavogskirkju við upphaf prestastefnu. Veðrið var viðeigandi umgjörð um stefnuna sem kom saman til að fjalla um endurmat í samfélaginu og framtíðarsýn í stormi og straumi óvissu -og krepputíðar.

Hvínandi stormur blés með regni þegar prestar og kirkjulið gengu fylktu liði upp grýttan mel að Kópavogskirkju við upphaf prestastefnu.

Veðrið var viðeigandi umgjörð um stefnuna sem kom saman til að fjalla um endurmat í samfélaginu og framtíðarsýn í stormi og straumi óvissu -og krepputíðar. Í hviðunum, haldandi þétt um prestakragann, minntist ég hendinga Hannesar Hafstein, er hann segir:

,,Ég elska þig stormur, sem geisar um grund og gleðiþyt vekur í blaðstyrkum lund, en gráfeysknu kvistina bugar og brýtur og bjarkirnar treystir um leið og þú þýtur.”

Öflugur stormur bugar vissulega hið feyskna en stælir það sem er grundvallað og gilt. Byr og blessun andans helga virkar á líkan veg, hreinsar og helgar.

Mér varð líka hugsað til þess, er ég 6 ára drengur var nýkominn suður austan af Seyðisfirði með fjölskyldu minni sem kom sér fyrir í Kópavogi á Kársnesbraut. Ég horfði þá oft hugfanginn út á Fossvoginn þar sem flugvélar svifu inn til lendinga eða hófu sig til flugs, ekki aðeins af flugvellinum í Skerjafirði heldur líka af voginum sjálfum. Þá voru grósumikil tún, þakin fíflum og sóleyjum, allt frá Kársnesbrautinni og niður að Marbakka, þar sem nú eru íbúðarhús og aðrar byggingar.

Hús voru þó víða að rísa einkum á melunum fyrir ofan brautina og byggingarsvæðið varð að aur og leðju um sumarið, er þekkt varð sem rigningarsumarið mikla 1955. Ég man enda ekki eftir mér öðruvísi frá þessum tíma en í stígvélum og gúmmiskóm.

Kópavogskirkja, sem varð tákn Kópavogskaupstaðar, var þá enn ekki risin á hæðarásnum. Hún er sem hamravígi og klettaskjól. Steindu glergluggar Gerðar Helgadóttur fylgja sveigðum stúkum kirkjunnar í öllum höfuðáttum og mynda eins konar bænabönd. Glerið í rauðum og bláum litum brýtur upp dagsbirtuna svo að hún felur í sér sem handanlægan bjarma. Sérstæð altaristafla kirkjunnar eftir Steinunni Þórarinsdóttur á að sýna frelsarann brjótast í gegnum vegg og múra og enn ekki allan kominn í gegn.

Hr. Karl biskup tók mið af göngunni upp kirkjuhæðina í setningarræðu sinni, er væri táknmynd þess, að við sem kirkja værum fólk á ferð, og fæli í sér hvatningu til þess slást með í för þótt stormar blésu og fylgjast að á vegi vonarinnar. Hann lagði líka út af altaristöflunni, ógreinilegri mynd frelsarans, og spurði hvað það væri sem gerði mynd hans ljósa í heimi og samtíð og greiddi anda hans og áhrifum veg?

,,Þar sem Jesús er og mætir jarðarbörnum er lækning, fyrirgefning og von um nýja framtíð”,sagði biskup. Glænýtt safnaðarheimili og Gerðarsafn og Salurinn mynda samstæðan klasa bygginga. Þær eru athvarf trúar og lista og njóta skjóls af kirkjunni og voru með henni vettvangur góðrar og gefandi prestastefnu.

Hvar er kirkjan í kreppunni? spurði biskup. ,,Hún sinnir víðtækri þjónustu en þó sem af hliðarlínu og jaðri samfélagsins og þarf nú að færa sig inn að miðjunni”, svo að vitnað sé lauslega í orð eins fyrirlesarans. Kirkjan verður að láta sig varða og setja mark sitt á atvinnu- og viðskiptalíf og alla mannlífsmótun, salta og lýsa mannlífi og menningu með umbreytandi bænum sínum, nærtækri boðun og virkri þjónustu. Boðun og hjálparstarf verður hvort tvegga að vera sýnilegt og virkt, kærleiks- og djáknaþjónusta engu síður en boðun og prestsþjónusta. Þess var einnig getið í umfjöllun og stefnumótun að kirkjustarf ætti að fela í sér list og listsköpun. Trúin á Guð í Jesú nafni gefur enda listinni háleit viðmið og göfgar hana og listin fegrar og fágar trúnna.

Auk þessa alls væru fagleg vinnubrögð og ljós hlutverkaskipan í forystuliði Þjóðkirkjunnar nauðsynleg fyrir frelsandi ,,innrás” hennar að miðju íslensks samfélags til að hafa áhrif á það að stefnt yrði nú og í framtíð frá blindsskerjum ósvifinnar útrásar og afvegaleiðandi auðgilda að siðbættu og blessuðu mannlífi.

Þegar gengið var við slit prestastefnunnar upp grýttan melinn til kærleiksmáltíðar í Kópavogskirkju, hafði veðrið tekið algjörum stakkaskiptum. Stillilogn var og leiftrandi sól.