Vondu kallarnir og vinátta Guðs

Vondu kallarnir og vinátta Guðs

Þannig er Guði farið. Þegar einum hinna minnstu bræðra og systra er hjálpað, er Guð sjálfur þiggjandi umhyggjunnar. Og þegar við látum vera að hjálpa í aðstæðum hvar við erum einhvers megnug, þá er vanræksla okkar brot gegn himnaföðurnum sjálfum, sem lætur sér annt um hvert mannslíf.

Í dag er síðasti sunnudagur kirkjuársins – aðventan framundan með hátíðum sínum og búnaði fyrir komu Drottins. Kirkjuárinu lýkur með voldugri mynd dómsins. Í guðspjalli dagsins bendir Jesús fram til endurkomu sinnar: “Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum...”. Endurkoman er dýrðlegt fyrirheit sem ber okkur í gegn um neyð og sorg og viðheldur voninni. Jesús kemur aftur, eins og segir í trúarjátningunni: “...og mun þaðan (þ.e. úr sæti sínu við hægri hönd Guðs föður almáttugs) koma að dæma lifendur og dauða”. Lífið í þessum heimi er ekki eilíf hringrás, heldur stefnir það að ákveðnu marki, sem Guð hefur sett því, endurkomu Jesú við lok tímanna.

Þangað til það gerist kemur Jesús inn í þennan heim í smæð: Í gripahúsinu forðum og í einfaldleik guðsþjónustunnar í kirkjum heimsins. Í gegn um hina fátæklegu umgjörð endurkastast þó dýrð himnanna: “Hvert fátækt hreysi höll nú er/því Guð er sjálfur gestur hér”. Og í fólkinu sem við finnum á förnum vegi sjáum við Krist kominn, í hinum svöngu, köldu og klæðlausu.

Við foreldrar getum þekkt huga Guðs í þessum aðstæðum, því er það ekki svo að þegar fólk sýnir börnum okkar umhyggju á einhvern hátt, finnst okkur að við höfum sjálf orðið greiðans aðnjótandi? Og öfugt – þegar einhver er hranalegur við börn okkar eða sýnir þeim lítilsvirðingu, er það þá ekki eins og brotið hafi verið á okkur sjálfum?

Þannig er Guði farið. Þegar einum hinna minnstu bræðra og systra er hjálpað, er Guð sjálfur þiggjandi umhyggjunnar. Og þegar við látum vera að hjálpa í aðstæðum hvar við erum einhvers megnug, þá er vanræksla okkar brot gegn himnaföðurnum sjálfum, sem lætur sér annt um hvert mannslíf.

Ég átti um daginn samtal við sérkennara hér í borg. Kennarinn sagði mér frá unglingsstúlku, sem síðasta árið hefur verið undir umsjón hans. Stúlkan var illa á sig komin andlega þegar hann kom að kennslu hennar, meiddi kennara og börn og kunni sér engin mörk. Einn daginn, áður en að kennslunni kom, var sérkennarinn að niðurlotum kominn og langaði mest að snúa við og flýja af hólmi, líkt og margir á undan honum.

En andvarpið breyttist í einfalda bæn: “Jesús, gefðu mér að sjá augun þín þegar ég lít í augu barnsins”. Og svo varð; allt varð auðveldara við þetta breytta hugarfar kennarans, og stúlkan nú á batavegi. Er þetta ekki tilraunarinnar virði, þegar við eigum samskipti við fólk almennt – að sjá Jesú í hverri manneskju og að öll okkar framganga sé eins og Guð sjálfur ætti í hlut?

---

Dómurinn er hins vegar aðalumfjöllunarefni dagsins. Hvað merkir þetta, sem við segjum við hverja guðsþjónustu, að Jesús komi úr dýrð himnanna til að dæma lifendur og dauða? Ritningin virðist hér vera að segja okkur að hvern lífsins dag drögum við sjálf okkar líflínu. Sú líflína kemur til með að segja til um afdrif okkar þegar uppgjörið rennur upp við komu Drottins. Engin getur afsakað sig með því að skilaboðin hafi ekki verið nægilega skýr, því ritningin segir einfaldlega: Inn til hægri, út til vinstri.

Fagnaðarerindið í þessum ógurlega boðskap er að allt verður á sínum stað, í samræmi við það hugarfar sem hver manneskja hefur valið sér í jarðlífinu og þar með dæmt sjálfa sig með. Bubbi Morteins orðar þetta svona í all svakalegu lagi á nýja disknum sínum, Sól að morgni. Lagið heitir Þar sem gemsarnir aldrei þagna og þar segir m.a:

Þú veist þú þarft að þjóna húsbónda þínum vel. Þú valdir í lifanda lífi að ráða þig hjá Hel. Of seint að hrópa á hjálp þín bíður þetta bál. Fyrir löngu síðan seldir þú dýrinu þína sál.

Ég rifja stundum upp samtal sem við sonur minn áttum fyrir nokkrum árum. Hann var þá fjögurra ára og þar sem við vorum að aka undir Höfðabakkabrúna spurði hann: “Mamma, hvað verður um vondu kallana þegar þeir deyja? Fara þeir líka til Guðs?”. Móðurinni í bílstjórasætinu varð orða vant um stund, en barnið svaraði sér sjálft: “Nú, ef að vondu kallarnir vilja ekki vera vinir Guðs núna, þá vilja þeir það örugglega ekki heldur þegar þeir eru dauðir”. Nokkuð sannfærandi röksemdafærsla það.

Ég sagði áðan að fagnaðarerindið í þessum ógurlega boðskap væri að allt verður á sínum stað þegar yfir lýkur. Fagnaðarerindið í dómnum er líka að okkar er ekki að dæma aðra. Víst má segja að við með framferði, vanrækslu og mannvonsku okkar dæmum okkur sjálf, en okkur er ekki ætlað að dæma aðra. Það gerir Guð. Guð þekkir og veit; hann þekkir sársauka fórnarlambs nauðgunar, sem grætur stuttan fangelsisdóm kvalara síns. Guð þekkir kvalarann, hver sem hann er og hvernig; kvalarinn dæmir sjálfan sig með verkum sínum og Guð mun díla við það, svo notuð sé sletta.

Þessi vitneskja er mikilvæg og getur verið léttir þeim sem þjást hafa af völdum annarra að vita að hefndin er ekki þeirra sjálfra. Þannig segir í Rómverjabréfinu (Rm. 12.14, 17-21 í endursögn): Blessið þau sem ofsækja yður, blessið þau, en bölvið þeim ekki... Gjaldið engum illt fyrir illt... Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi. Hefnið yðar ekki sjálf, þér elskuð, heldur lofið hinni refsandi reiði Guðs að komast að, því ritað er: “Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir Drottin.” En “ef óvin þinn hungrar, þá gef honum að eta, ef hann þyrstir, þá gef honum að drekka. Með því að gjöra þetta, safnar þú glóðum elds á höfuð honum.” Lát ekki hið vonda yfirbuga þig, heldur sigra þú illt með góðu.

Og síðar segir Páll postuli (Rm. 14.10-12, endursagt): En þú, hví dæmir þú bróður þinn eða systur þína? Eða þá þú, hví fyrirlítur þú bróður þinn og systur? Öll munum vér verða að koma fram fyrir dómstól Guðs. Því að ritað er: “Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn, fyrir mér skulu öll kné beyja sig og sér hver tunga vegsama Guð.” Því skal þá sérhvert af oss lúka Guði reikning fyrir sjálfan sig.

“En,” kunnum við að spyrja, “er þá engin miskunn fyrir vondu kallana?” þar með talin okkur sjálf ef til vill ef við þekkjum ekki stöðu okkar í guðsríkinu. Jú, miskunn Guðs kom sjálf í heimin, holdi klædd í Kristi, en heimurinn þekkti hann ekki og hans eigin menn tóku ekki við honum (Jh. 1.10-11). Ást Guðs var dæmd og tekin af lífi. Það er ekki eðli ástarinnar að þvinga nokkra manneskju. Öllum stendur hins vegar til boða að þiggja: En öllum þeim sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans (Jh. 1.12).

Afneitun ástarinnar getur orðið svo sterk að viðkomandi veit varla lengur hvað hann gerir. Þetta gildir einnig um ástina í verki. Tökum eftir því að í mynd Jesú af hinsta dómi verða báðir hóparnir jafn hissa: “Herra, hvenær sáum við þig hungraðan?” segja sauðirnir til hægri jafnt sem hafrarnir til vinstri. Hér er hugarfarið svo afgerandi. Hugarfar Krists (sbr. Fl. 2.5), sem er eðlilegt að hjálpa og sér Guð sjálfan í hverju mannsbarni, á að verða svo inngróið í hina kristnu manneskju að hún tekur ekki einu sinni eftir því þegar hún gerir öðrum gott. Það verður sjálfsagt. Góðu verkin eru ekki unnin til að fá prik hjá Guði, heldur spretta þau eðlilega af trú okkar, sem er dauð án verkanna (Jk. 2.26b).

Vöntun á sama hugarfari, hugarfari Krists, vekur heldur ekki alltaf eftirtekt. Það eru svo margir sem hugsa bara um sitt og verða vanrækslunnar ekki varir. Hvað segir ekki Bubbi í laginu Hvað kemur mér það við: Við lifum á tímum trúleysis og heimsku. Tölum um frelsi til að velja Dauðann í formi ofáts eða drykkju Og menga landi og selja. Ímynd þess á leið til Heljar.

En hvað kemur mér það við? Ég hugsa um mig og mína.

Það er athyglisvert að Jesús tínir ekki til afbrot og vond verk þeirra, sem lenda vinstra megin. Það er ekki það vonda sem þau gerðu, heldur það góða sem þau létu vera að gera. Ég hugsa um mig og mína....

Dómur Jesú felur í sér að gera þetta ljóst. Eins og hirðir í Palestínu smalaði saman bæði geitum og kindum til að skilja að hafrana, sem litla hlífð hafa í geitarhárunum yfir kaldasta tímann og sauðina, sem njóta hlýju ullarkápunnar sinnar, þannig smalar Jesús saman þeim sem lifandi verða við endurkomu hans og fjöldanum sem dáinn er til að skilja í milli þeirra sem þegið hafa hugarfar hans, ullarkápuna hlýju, og þeirra, sem hafnað hafa lífinu í skjóli Guðs.

Hirðirinn gerir þetta af umhyggju fyrir báðum hópnunum; höfrunum vill hann hjálpa með því að setja þá á hús, en sauðirnir eru meira sjálfbjarga. Í líkingu Jesú vísar hirðirinn höfrunum hins vegar frá sér. Þarna verðum við að setja traust okkar á Drottinn, sem veit hvað hverjum kemur.

---

Siðbótarmaðurinn Marteinn Lúther glímdi eins og þekkt er við spurninguna um réttlæti og dóm. Honum – eins og fleirum - fannst hann ekki verðugur ástar Guðs. Hann spurði sig: Í hvorum hópnum verð ég við efsta dóm? En í ritningunni fann hann lausnina, þá að réttlætið gefst fyrir trú (sbr. Rm. 1.17). Það er í traustinu til Guðs, sem lykillinn er fólginn. Guð mun framfylgja dóminum, það er víst, en okkar er að treysta á hjálp hans og leyfa að ást hans verði virk í lífi okkar.

Guð þekkir hvert og eitt. Sú tilhugsun vekur bæði ógn og létti. Ógn vekur hún ef á vantar traustið til Guðs. Léttir vaknar við vitneskjuna um þekkingu Guðs ef líf okkar hefur fengið að mótast af lífi Jesú. Við gerum aldrei nógu vel í sjálfu sér. Alltaf vantar eitthvað á. Og það eru ekki verkin sjálf sem telja, heldur viðhorf okkar, sem síðan speglast í framgöngu okkar allri. Einmitt þetta kemur svo sterklega fram í áherslu guðspjallsins á vanræksluna. Við þurfum ekki að vera okkur meðvituð um illverk, en kunnum samt að lenda í hópi hafranna vegna þess að vera Guðs og vináttan við hann hefur ekki verið okkar leiðarljós.

Fyrirgefningin flæðir hins vegar, hverjum þeim sem hana vill þiggja. Dómurinn er daglegur; við dæmum okkur sjálf í samskiptum við annað fólk. En þegar við glutrum niður umhyggjunni, er fyrirgefningin sömuleiðis daglegur veruleiki þeirra sem hana vilja lifa. Við eigum aðeins þetta augnablik víst. Biðjum Guð að gefa okkur af ást sinni, svo að augnablikið dýrmæta dæmi okkur til eilífrar ástarvistar í vináttu hans með hinum minnstu bræðrum og systrum. Þá verður mynd dómsdagsins efsta okkur dýrðleg uppspretta eftirvæntingar og vonar á erfiðum tímum.