Bænheyrslan

Bænheyrslan

Kanverska konan vildi eitthvað. Hún vissi hvað hún vildi og þolgæði hennar hlaut umbun:,,Verði þér sem þú vilt.“ Í bænheyrslunni var mikil blessun fólgin.

Tvær manneskjur hafa komið við sögu hér í dag sem vekja eftirtekt mína að þessu sinni.  Sú fyrri er Jakob., ættfaðir Ísraels, sem glímdi við Guð og sagði þessi orð: ég sleppi þér ekki fyrr en þú blessar mig!  Greint var frá þeirri glímu í lexíu dagsins úr fyrstu Mósebók sem lesin var hér áðan.

Hin manneskjan er Kanverska konan. Móðirin, sem í örvæntingu sinni leitar til Jesú, prédikara af öðrum þjóðflokki og annarri trú, en hún sjálf tilheyrir. Einnig hún neitar að sleppa Jesú nema hann veiti blessun, í þessu tilviki dóttur hennar, sem er illa haldin.

Getum við fundið eitthvað sameiginlegt með þessum þremur persónum? Getum við eitthvað lært af þeim?

Ég veit ekki hvort þið vitið eitthvað um Jakob? Jakob var nefnilega skálkur. Hann var óheiðarlegur þrjótur sem hafði fengið flest í lífinu með svikum og prettum. Hann var yngri sonur ættföðursins Ísaks, og hefði með réttu átt að vera settur skör lægra en eldri bróðir hans, Esaú. En með kænsku sinni og klækjum keypti hann frumburðarréttinn af bróður sínum, og útvegaði sér blessun föður síns.

Vegna þessara pretta sinna neyddist hann til að yfirgefa heimahagana og flytja burt. Hann efnaðist reyndar vel, einmitt vegna þess að hann var útsjónarsamur og hikaði ekki við að beita óhefðbundnum aðferðum, svo ekki sé meira sagt, í auðsöfnun sinni. Hann hitti reyndar fyrir jafnoka sinn þegar hann fór að leita sér að konu og var prettaður til að vinna fyrir konunni sem hann elskaði, Rakel, í 14 ár, og í þokkabót þurfti hann líka að kvænast systur hennar, Leu.

  Þegar Jakob hittir Guð fyrir á árbakkanum, er hann á leiðinni heim. Hann hefur auðgast vel, en er búinn að fá nóg af útlegðinni og þráir það að Esaú, bróðir hans taki á móti honum og fyrirgefi honum. Hann hefur sent allan ættflokk sinn á undan yfir ána, þangað sem bróðir hans ræður ríkjum, og er einn eftir á árbakkanum. Og þá verður hann fyrir þessari undarlegu reynslu

Ókunnur maður varnar honum leiðarinnar og þeir takast á. Svo harkalega að Jakob verður fyrir meiðslum. Sá sem glímdi við hann sló Jakob í mjöðmina svo að hann gekk úr augnakörlunum.

En þegar líður á glímuna gerir Jakob sér grein fyrir því að þetta er engin venjuleg glíma. Guð sjálfur er andstæðingur hans. Og þegar honum verður það ljóst, veit hann hvers hann þarfnast mest. Hann þarfnast ekki sigurs í glímunni.

Jakob, sem hefur marga fjöruna sopið án þess að gefast nokkru sinni upp, sleppir ekki Guði. Ég sleppi þér ekki nema þú blessir mig, segir hann við ókunna manninn.

Þvílík orð! Þvílík þrautseigja! Þvílík þrjóska! Fallinn og særður gerir hann sér grein fyrir því að það eina sem hann þarfnast, er blessun Guðs. Í einu vetfangi sér hann að það er Guð sem hann þarf að takast á við, glíma við til að fá blessun í lífinu.

Kanverska konan sem sagt er frá í guðspjalli dagsins glímir líka við Guð. Hún segir líka við Jesú: Ég sleppi þér ekki nema þú blessir mig! Og alveg eins og Jakob, er hún óverðug. Ekki á sama hátt, við vitum að Jakob var óheiðarlegur, en um þessa konu vitum við það eitt að hún er sennilega góð, umhyggjusöm móðir, sem er tilbúin að leggja mikið á sig til að fá lækningu handa dóttur sinni. En hún er ekki af hinni útvöldu þjóð Guðs, hún er ekki gyðingur. En eins og Jakob, þá ber hún kennsl á Guð. Hún þekkir Jesú og veit hver hann er. Miskunna þú mér herra,, Sonur Davíðs, segir hún. Hún veit að hann einn getur hjálpað henni, öll önnur hjálp hefur verið reynd, til einskis.

Og þó að Jesús hafni henni í fyrstu, þá gefst hún ekki upp. Ég sleppi þér ekki nema þú blessir mig. Ég veit að ég er óverðug. En ég vil þiggja blessun þína, ég vil taka við öllu því sem þú getur gefið mér. Hjálpaðu mér!!!

Og þrautseigja hennar borgar sig. Reyndar er þetta í eina skiptið í guðspjöllunum sem Jesús gefur eftir í rökræðum. Venjulega er það hann sem tekur orð fólks og snýr þeim upp á það, en þarna er það kona, heiðin þar að auki, sem sér í gegnum röksemdafærslu hans og nýtir sér þá útgönguleið sem hann býður henni.

Jakob og Kanverska konan fá bæði þá blessun sem þau sækjast eftir. Jesús hrósar meira að segja Kanversku konunni fyrir trú hennar. Mikil er trú þín, verði þér sem þú vilt

 En hvað með okkur. Erum við tilbúin að sleppa takinu?

Getur verið að við búum við falskt öryggi? Öryggi sem felst í því að halda að við getum alltaf treyst á okkur sjálf. Þetta á kannski sérstaklega við okkur sem erum ung. Lífið blasir við og við ætlum að verða rík og fræg. Og við teljum okkur geta staðið á eigin fótum, gert hlutina sjálf. Og fjallgangan virðist létt og löðurmannlegt verk.           En þverhnípin og hyldýpin leynast víða og flest okkar missa fótanna einhvern tíma á lífsleiðinni.

Og þá þurfum við að glíma við Guð.  Við getum orðið reið út í Guð vegna þess sem gerðist kannski.  Við urðum kannski fyrir þungu áfalli og spurðum : Hvers vegna kom þetta fyrir mig eða mína fjölskyldu?  Þegar við glímum við Guð þá förum við að kynnast honum. Fyrir vikið förum við að bera kennsl á hann í lífi okkar og við leyfum honum að hjálpa okkur. Þiggjum blessun hans.

Og þá er mikilvægt fyrir okkur að muna þetta: Ekkert okkar verðskuldar hjálpina sem okkur stendur til boða. Og það snýst alls ekki um það hvort við erum góðar eða slæmar manneskjur. Eða af réttum ættum, eða hvort við tilheyrum réttum hópi fólks. Ekkert af þessu skiptir máli. Það sem skiptir máli er að við berum kennsl á Guð. Að við þekkjum Guð og gerum okkur grein fyrir þætti hans í lífi okkar. Það er ekki nóg að bera kennsl á Guð. Við þurfum líka að gera okkur grein fyrir því að við þörfnumst hans. Guð þekkir okkur betur en við sjálf. Við segjum líka stundum við Guð: 

  ,,Ég sleppi þér ekki nema þú blessir mig...”

 Prestur einn var að ræða við fermingarbörn um kanversku konuna og bæn hennar. Hann spurði:,,Fékk hún þá ekkert hjá Jesú þegar hún bað í fyrra skiptið?“  Börnunum vafðist tunga um tönn. Eftir stundarkorn rétti stúlka upp höndina.  ,,Já, hvað heldur þú að hún hafi fengiið?“, spurði presturinn.  ,,Hún fékk náð til að biðja aftur,“ svaraði stúlkan.

Þegar Jesús þegir við bænum okkar felur það ekki alltaf í sér synjun. Jesús þarf oft að vera þögull til þess að við þroskumst í bænalífinu.

Kanverska konan varð æ minni í sjálfri sér því lengur sem hún bað. Að lokum var hún fús til þess að álíta sig órverðuga eins og hund. Jesús óx æ meir í vitund hennar svo að hún hugði að einungis molar af náð hans og krafti mundu nægja henni.

Þegar Jesús þegir við bænum okkar reynir hann vilja okkar.  Bæn, sem kemur aðeins af hrifningu er engin raunveruleg bæn heldur aðeins löngun og ósk. Kanverska konan vildi eitthvað. Hún vissi hvað hún vildi og þolgæði hennar hlaut umbun:,,Verði þér sem þú vilt.“ Í bænheyrslunni var mikil blessun fólgin.

 Guð vill blessa okkur. Hann blessar skírnarbarnið Hilmi Loga sem skírður var hér áðan og heitir því að vera með honum alla daga. Það er dásamlegt loforð og gott að geta treyst því að hulin hönd sé að baki okkar á vegferð okkar í gegnum lífið.

Hann býður okkur að þiggja náð sína á hverjum degi. Í blessunarorðunum felst einlæg von um að fólk njóti alls hins besta í lífinu. Þegar Guð blessar okkur þá kallar hann okkur til hlutverks í lífinu.  Það er okkar að uppgötva hvað það er  og á hvaða hátt við getum látið gott af okkur leiða í lífinu. Við getum blessað aðra með ýmsu móti.  Við getum uppövað fólk með fallegum orðum. Við getum hjálpað fólki að uppgötva hver mikil guðsgjöf það sjálft er.  Um leið og við blessum aðra þá áttum við okkur betur á hve sæl við sjálf erum og hve undursamlegt það er að njóta blessunar Guðs í lífinu.  Amen.