Rekum við erindi Krists í þessum heimi?

Rekum við erindi Krists í þessum heimi?

fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
28. nóvember 2004
Flokkar

Guðspjall: Lúk. 4. 16-21 Lexia: Jer.33.14-16 Pistill: Op.3. 20-22

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi Amen.

Jesús hafði verið skírður. Heilagur andi, andi Guðs hafði komið yfir hann. Hann flúði út í eyðimörkina þar sem hans var freistað til þess að hugsa einvörðungu um sjálfan sig, til þess að gefast upp eða að byrja alls ekki að starfa. Hann gafst ekki upp. Hann kom út úr eyðimörkinni. Hann slóst í för með fólki og fór í brúðkaupið í Kana til þess að gefa fólki til kynna hvar grundvöllur mannlegs lífs liggur.

Þegar hann fór í gegnum Kana þorp þá hlýtur hann að hafa verið á leið til heimabæjar síns Nazaret. Orðstýr hans hafði borist út áður en Jesús kom þangað eftir skírn sína og erfiða lífsreynslu í eyðimörkinni þar sem hann dvaldi í 40 daga. Nú var Jesús kominn til Nazaret og fyrsti hvíldardagurinn var framundan. Að sjálfsögðu ætlaði Jesús að fara þangað. Fólkið talaði um að það hefði verið hans háttur í sínu heimaþorpi. Allir sem höfðu burði til að bera fóru í samkunduhúsið að þessu sinni. Það ríkti mikil eftirvænting vegna þess að allir bjuggust við því að Jesús yrði þar meðal samkundugesta. Þegar leiðtogi guðsþjónustunnar spurði hvort einhver vildi lesa úr ritningunni þá héldu allir að sér höndum og sátu sem fastast. Enginn stóð upp vegna þess að vilji allra samkunduhúsgesta stóð til þess að Jesús stæði upp og læsi úr ritningunni. Þögnin var þrúgandi og svitaperlur merluðu á andlitum gesta. Skyndilega stóð Jesús upp og kliður fór um salinn. Jesús hafði samþykkt að lesa úr ritningunni. Hann tók bókrolluna og breiddi úr henni.. Heyra mátti saumnál detta þegar Jesús byrjaði að lesa: ”Andi Drottins er yfir mér, af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins”. Að lestri loknum dró hann bókrolluna saman, gaf hana meðhjálparanum og settist niður. Aftur fór kliður um salinn vegna þess að einungis kennarar með vald settust niður meðan þeir voru að tala. En þegar Jesús settist niður sagði hann: ”Í dag hefir ræst þessi ritning í áheyrn yðar”.

Þegar við kristið fólk heyrum þennan texta þá langar okkur stundum til þess að standa á fætur og láta að okkur kveða og mynda friðarhópa og þrýstihópa sem knýja á um úrlausnir í margvíslegum réttlætismálum. Okkur Íslendingum hefur stundum verið legið á hálsi fyrir að kunna ekki að mótmæla sem skyldi. Skemmst er að minnast mótmælastöðu kennara á Austurvelli með mótmælaspjöld og banana sem þeir lögðu á tröppur Alþingishússins. Meirihluti þjóðarinnar virtist taka undir kröfur þeirra um hærri laun enda væru kennarar barnanna okkar vissulega verðugir þess að búa við sómasamleg kjör. En ég minnist mótmæla bænda í Frakklandi á sínum tíma er þeir mótmæltu kröftuglega niðurfellingu tolla á innfluttu grænmeti og landbúnaðarafurðum. Þá komu þeir með dráttarvélarnar og vagnanna sína fulla af eigin landbúnaðarafurðum og helltu þeim á torgið við þinghúsið í París.

Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi jafnvel hér á Húsavík. Í haust gat fólk skrifað undir ósk þess efnis að Bónusverslun yrði opnuð á Húsavík. Um þúsund manns skrifuðu undir. Ég tel að þessi undirskriftasöfnun hafi átt stóran þátt í því að lágvöruverslunin Kaskó var opnuð á fimmtudaginn var. Við vonum að hún muni standa undir væntingum okkar. En til þess að svo megi verða þá verðum við að halda vöku okkar og fylgjast með vöruverðinu, að það sé í það minnsta sambærilegt og gerist í öðrum Kaskóverslunum Samkaupa. Það er mikið réttlætismál að vöruverð almennt verði jafnað á landinu. Þar er ekki síst átt við olíuverðið, en bensín t.a.m. er himinhátt um þessar mundir. Ég tel það vera mikið réttlætismál að yfirvöld lækki eða afnemi skatta af vörum, ekki síst matvælum. Það er einnig mikið byggða hagsmunamál því að fólk á rétt á því að fá að búa þar sem það kýs sjálft. Það hefur verið mér töluvert áhyggjuefni að yfirvöld hafa ekki nægilega viljað styðja við hinar dreifðu byggðir en fólksflutningur þaðan til bæja og borgar styður það sjónarmið. Gagnvart þessu þurfum við einnig að halda vöku okkar og taka því ekki þegjandi og hljóðalaust að yfirvöld vilji með þegjandahætti sínum láta þessar dreifðu byggðir deyja út. Fólk í þessu landi hefur rétt til að búa þar sem það langar til á hverjum tíma og sköttum okkar ber m.a. að verja til þess að stuðla að því. Í ljósi þessa tel ég heillavænlegast að stækka sveitarfélögin í landinu því að sveitarfélög mega sín meira gagnvart ríkisvaldinu því stærri sem þau eru. Um leið njöta hinar dreifðu byggðir betur þeirrar þjónustu sem í boði er á vegum hins stóra og öfluga sveitarfélags.

Af texta dagsins má ráða að Jesús lætur sig varða heill og hag sérhvers einstaklings, ekki síst þá sem bornir eru ofurliði af valdhöfum eða eiga erfitt vegna kringumstæðna sem þeir ráða ekki við sjálfir. Í bók Jesaja spámanns eru þeir nefndir fátækir, bandingjar, blindir og þjáðir. Þessir einstaklingar voru yfirleitt útskúfaðir á tímum Jesú. Við Íslendingar höfum nú margt lært síðan þetta land tók að byggjast. Við höfum að mestu hætt að höggva mann og annan Þess í stað höfum við byggt upp fyrirmyndarþjóðfélag að ýmsu leyti sem byggir á kristnum trúararfi þar sem við hlynnum að sjúkum og öldruðum á ævikvöldi og veitum börnum okkar sem erfa eiga land og þjóð, menntun á heimsmælikvarða. Og við sjáum það gerast nú við upphaf aðventunnar að forsvarsmenn stórfyrirtækja reynast réttlætiseikur þegar á þarf að halda. Jóhannes í Bónus gaf 20 milljónir til mæðrastyrksnefndar og Hjálparstarfs kirkjunnar og fyrirtækið Íslensk erfðagreining stofnaði fyrir nokkrum árum velferðasjóð barna til þess að unnt verði að hlúa betur að börnum þessa lands með ýmsum hætti. Árlega hefur fyrirtækið veitt fé með myndarlegum hætti í þennan sjóð og síðan úthlutað úr honum til verkefna hér á landi.

Í dag er nýársdagur í þjóðkirkjunni. Um áramót er okkur tamt að líta um öxl með blendnum tilfinningum trega og þakklætis. Við horfum einnig til framtíðar með von í brjósti m.a. um að unnt verði að renna enn styrkari stoðum undir þetta velferðarþjóðfélag sem við búum í þannig að heill og hagur sérhvers einstaklings sé hafður í fyrirrúmi í þessu landi. Á aðventunni er sjónum okkar einnig beint til þeirra barna erlendis sem búa við mun verri kjör en börn á Íslandi. Og okkur er gert kleift að rétta þeim hjálparhönd ásamt Hjálparstarfi kirkjunnar en í dag hefst árleg jólasöfnun hjálparstarfsins sem verður til styrktar munaðarlausum börnum í Úganda sem búa ein. Verkefnið felst í því að hafa upp á börnum sem misst hafa báða foreldra sína úr alnæmi og koma þeim til hjálpar . Það er gert með því að þjálfa sjálfboðaliða til að veita börnunum leiðsögn í daglegu lífi og kenna þeim hvernig þau geti séð fyrir sér . Fræðsla um alnæmi og forvarnir er rauður þráður í starfinu . Þessi börn búa ekki aðeins við sáran missi og örbirgð heldur eru þau líka hlunnfarin af samborgurum sínum með ýmsum hætti. Með stoð Hjálparstarfs kirkjunnar þá munu börnin fá reglulega heimsókn ráðgjafa sem hefur fengið til þess þjálfun hjá Lútherska heimssambandinu. Á einu og hálfu ári, með hléum, læra ráðgjafarnir um barnasálfræði, sorgarviðbrögð, réttindi barna, um ræktun og ýmislegt hagnýtt sem þeir geta miðlað til barnanna. Söfnunarfé Hjálparstarfs kirkjunnar fer í sjóði Lútherska heimssambandsins sem styður ráðgjafana með fjármagni til að kaupa fyrir börnin það sem þau þurfa til að geta séð fyrir sér og átt öruggt húsaskjól. Þessi tilhögun er sérlega árangursrík.

Börn sem hafa í engin hús að venda, fá andlegan og efnislegan stuðning til að lifa lífinu áfram. Ráðgjafarnir fylgja börnunum í nokkur ár. Byggt er á vinnukrafti venjulegs fólks á staðnum sem munu búa áfram í héraðinu. Þar með skiljum við eftir nýja þekkingu og þjálfað fólk þegar við förum þaðan.

Ég hef stundum verið spurður að því hvort fjármagnið sem Íslendingar gefi fari til þeirra sem safnað er fyrir. Ég svara því játandi. Í því sambandi má geta þess að safnað var fyrir þessu sama verkefni um síðustu jól og hafa fjármunir skilað sér í því að á fyrstu 6 mánuðum þessa árs hafa 1500 foreldralaus börn fengið aðstoð . 50 unglingar hafa lokið námi í handverki sem gerir þeim kleift að sjá fyrir sér . 20 hús hafa verið byggð fyrir 65 börn , 25 hús , þar sem 130 börn búa , hafa verið lagfærð . 340 ráðgjafar eru starfandi eftir að hafa fengið kennslu og þjálfun sem spannar 3 anna tímabil . Þeir vinna svo í sjálfboðavinnu .

Það er ljóst af textanum sem Jesús frá Nazaret las í samkunduhúsinu hvað andi Guðs á að gera í okkur . Andi Guðs ætti með öllu því sem prýðir okkur að gera það sem hann gerði í Jesú , flytja fátækum gleðilegan boðskap , boða fjötruðum lausn , gefa blindum sýn , láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins . Þetta þýðir að hvar sem við finnum manneskju sem ekki býr við mannlega virðingu og reisn , náunga okkar sem býr ekki við mannúðlegar aðstæður , þá ber okkur skylda til að koma honum til hjálpar hver svo sem ástæðan fyrir ástandi hans er : sálræn , andleg , líkamleg , efnahagsleg eða menningarleg .

Við eigum að reyna að feta í fótspor hans með því að hjálpa , uppörva , fræða . Jesús segir að við verðum dæmd eftir því hvernig okkur tókst þetta góða verk úr hendi . Að lokum mun hann segja : Þarna var hungruð manneskja . Þú gast auðveldlega hjálpað henni . Hvað gerðir þú ? Þarna voru ýmsir sem bjuggu við fjötra ýmis konar , sálræna , andlega , líkamlega , efnahagslega , menningarlega . Hvað gerðir þú fyrir þau ? Þú mættir mér , segir Jesús við þig og mig , þar sem ég bjó ekki við mannúðlegar aðstæður og naut ekki réttlætis . Ég var fatlaður , vannærður , munaðarlaus , særður , hungraður , atvinnulaus , ómenntaður , flóttamaður . Og hvað gerðir þú þá og samfélag þitt ?

Ég tel að hver jarðarbúi eigi rétt á því að búa við mannlega reisn og sómasamlegar aðstæður og geti horft til framtíðar.Við getum lagt fram okkar skerf til þess að hjálpa fleirum en við höldum í þessu mannhafi .

Reynumst við einhverju af þessu fólki góðar fréttir ? Þetta skulum við hugleiða á aðventunni er við búum okkur undir komu jólanna .Amen

Dýrð sé Guði, föður,syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.