Frjáls Palestína - væntingar og vonbrigði

Frjáls Palestína - væntingar og vonbrigði

Alþjóðasamfélagið verður að gera sátt um Landið helga; sátt er getur haft áhrif í nágrannalöndum. Þar þurfa allir að koma að. Við vitum að engin ein trúarbrögð, eða heimsskoðun læknar þau mein er hrjá heiminn. Þar þurfa allir – burtséð frá trú, trúleysi, lífsskoðunum – allir sem eiga heitt hjarta að taka höndum saman og berjast góðu baráttunni gegn hinu illa. Þótt óveðursskýin sé alls staðar meigum við ekki glata voninni, von um réttlæti, frið og farsæld í Palestínu og í Ísrael.
fullname - andlitsmynd Þorbjörn Hlynur Árnason
19. ágúst 2014

Þessi grein er unnin úr erindi er ég hafði á aðalfundi félagsins Ísland – Palestína í marsmánuði 2013. Margt hefur gerst síðan og allt á verri veg. Það þekkjum við nú öll, jafnvel þeir sem hafa vandlega bundið fyrir augu og eyru. Þjóðarmorð gegn Palestínu, stríðsglæpir sem eru augljósir öllu alþjóðasamfélaginu. Ekki þarf fleiri orð um það. Drepnir palestínumenn á Gaza eru um það bil tvö þúsund. Það er sama fólkstala og er í mínu prestakalli, Borgarprestakalli, sem telur Borgarnes og nágrannasveitir á Mýrum. Þá er víðar helvíti og heimsendir í lífi fólks og þjóða; jasitar og kristnir ofsóttir og drepnir, í Írak, af fasistum sem kenna sig við Islam. Og við Íslendingar sem teljum okkur til siðaðra þjóða erum full af skömm yfir því hversu okkur og nágrannaþjóðum virðist gersamlega fyrirmunað að hafa áhrif til góðs.

Inngangur

Þann 3. mars 2013 í Norræna húsinu í Reykjavík.

Ágætu fundarmenn.

Það er erfitt að segja nei við minn góða vin Svein Rúnar. Það þekkið þið sjálfsagt mörg. Ég dróst á að segja hér nokkur orð um afstöðu kirkjunnar – hér heima og á alþjóðavettvangi um ástandið í Palestínu, þótt margir séu mér þar fróðari og þekking mín um margt brotakennd.

Ég kem því hingað í algjörum vanmætti, alveg enn og aftur og spyr mig sem ykkur. Hvernig má það vera að Palestína sé ávallt réttlaus?

Frá unga aldri hef ég fylgst með stöðunni fyrir botni Miðjarðarhafs. Ég eiginlega fyrirverð mig fyrir hversu mikið ég dáðist að frammistöðu Ísraelsmanna í sex daga stríðinu. Þá var það þannig að flestir héldu með þeim, ef þannig má taka til orða. Mér til afsökunar get ég sagt að þannig var nú stemningin í íslensku samfélagi og ég bara 13 ára unglingur. Ég man þó að pabbi og mamma voru ekki ánægð og reyndu að leiðrétta mig.

Kristindómur og Palestína

En hvernig er afstaða kirkjunnar til þeirrar flóknu stöðu sem er í Palestínu? Ég hef verið spurður af fólki sem sækir kirkju og þekkir málfar og texta kirkjuársins, hvað það merki þegar við tölum um Ísrael.

Tökum sem dæmi lofsöng Símeons er finna má í 2. kafla Lúkasarguðspjalls. Þessi lofsöngur er hluti af ritúali útfararinnar í handbók okkar evangelísk-lúthersku kirkju. Um Símeon segir að hann hafi verið réttlátur og guðrækinn og vænst huggunar Guðs, það er að segja að fyrirheitin um Messías, drottin, rættust. Þegar foreldar Jesú koma með hann nýfæddan til umskurnar í helgidóminn er Símeon leiddur þangað. Símeon sér og skynjar, fær vitrun og flytur lofsöng sinn þar sem hann segir að nú hafi augu hans séð hjálpræði Guðs og að barnið Jesús verði ljós til opinberunar heiðingjum og til vegsemdar lýð Ísraels.

Þarna er ekki verið að vísa í það sem kallast Ísraelsríki í dag. Ekki frekar en á öðrum stöðum í Nýja Testamentinu. Israel í merkingu Nýja Testamentisins merkir lýður Guðs, kirkjan, þar sem Kristur er höfuðið, og kirkjan líkami hans. Ísrael er ríki Jesú frá Nasaret, hins upprisna Krists. Þeir sem hans eru og eru helgaðir honum og gefnir í heilagri skírn. Eða líkt og Páll postuli segir í Galatabréfinu: „Þér eruð allir Guðs börn fyrir trúna á Krist Jesú. Allir þér, sem skírðir eru til samfélags við Krist, þér hafið íklæðst Kristi. Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð allir eitt í Kristi Jesú.“

Gamla Testamentið lesum við kristnir menn öðru vísi en gyðingar. Gamla Testamentið lesum við og skiljum, líkt og Marteinn Lúther sagði, í gegnum trúna á Jesú Krist. Við trúum því, sem gyðingar gera ekki, að fyrirheitin í Jesajabók, sem við lesum á aðventunni séu spádómar um fæðingu Jesú frá Nasaret. Og sá drottinn er leiðir í gegnum dimman dal, er Jesús frá Nasaret.

Gamla testamentið er dýrmætt trúarrit kristnum mönnum. Í sköpunarsögu fyrstu Mósebókar segir: Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði þau í Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu.

Í þessari setningu má segja að felist undirstaða að skilningi okkar á mannréttindum. Manneskjan er í Guðs mynd. Hún ber það sem miðaldaguðfræðingarnir nefndu - Dignitas Aliena. Hið framandi gildi. Það sem er ekki af þessum heimi. Í hverju og einu okkar býr Guðs mynd. Hún er ósnertanleg, Guðs mynd mannsins gerir hann helgan. Að svívirða og skemma, drepa og eyðileggja er synd, dauðasynd.

Því má halda fram að mannréttindahugsjónin, líkt og hún birtist í mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna sé kristin afurð, aðrir hafa aðrar skoðanir á því. Þá er gjarnan vísað í upplýsingaöldina, Voltaire og Rousseau, þeirra hugmyndir og áhrif voru engu að síður skilgetið afkvæmi siðbótar Marteins Lúthers.

Víst er að kirkjan hefur iðulega í gegnum aldir verið í vanheilögu bandalagi við ranglát stjórnvöld og gert sig seka um mannréttindabrot. En eitt er kirkjan og annað er kristin kenning, sem byggir á heilagri ritningu. Við höfum borið gæfu til þess að upp hafa risið mótmælendur og spámenn innan kirkju sem utan sem leiðrétt hafa kirkjur sem fara villar vegar og bent þeim á grundvöllinn sem er Kristur.

Við megum vera minnug orða hans, er hann les úr ritningunni í heimabæ sínum og lýsir því að þessi orð úr Jesajabók hafi ræst á sér:

„Andi Drottins er yfir mér, af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins.“ (Lúkas 4.)

Þessi orð, sem vöktu hneykslan í heimabæ hans, eru eins og hans manifesto – yfirlýsing um erindi hans á jörðu. Jesús birtir veru Guðs meðal manna. Hann samsamar sig hinum fátæku og snauðu, þeim sem ekkert eiga og ekkert eru í augum heimsins. Og síðar talar hann um hina minnstu bræður og segir: „Sannlega segi ég yður, allt það sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þið gjört mér.“

Öll þekkjum við síðan söguna af miskunnsama Samverjanum.

Jesús er ekki aðeins Drottinn er leiðir í gegnum dimman dal. Að vera hans merkir að vera náunganum stoð. Lifa í þessum heimi með öðrum og fyrir aðra, burt séð frá stétt, stöðu, þjóðerni eða trú; vera samstíga bróður og systur sem bera þungan kross.

En kristindómurinn er margþættur í heiminum í dag. Hann á sér mörg andlit og misgóð. Það sama gildir um Íslam. Til er afar sjálfhverfur og þröngsýnn kristindómur. Svokallaðir evangelistar í Bandaríkjunum eru dæmi þar um. Þar er enga áherslu að finna á félagslegt réttlæti. Og persónuleg sálarheill, eða frelsun virðist felast í því að fylgja bókstafshyggju og smáborgaralegum viðmiðum.

Það eru einmitt þessar hreyfingar sem hafa haft mikil áhrif varðandi stöðu Ísraelsríkis ásamt með hinum máttugu og ofurríku samtökum gyðinga í Bandaríkjunum.

Palestína hersetin

Leiðum þá hugann að hlutskipti palestínsku þjóðarinnar. Á árunum 1997 til 2003 átti ég sæti í stjórn Lútherska heimssambandsins, sem eru samtök lútherskra kirkna, telja um það bil 80 milljón manna. Þessi öflugu samtök hafa höfuðstöðvar sínar í Genf. Á þessum árum var ég einnig formaður alþjóða- og mannréttindanefndar heimssambandsins. Það var afar lærdómsríkur tími. Vítt var farið um heiminn og við heimsóttum mörg þau svæði þar sem ástand mannréttindamála er bágborið. Meðal þeirra er Palestína.

Á hverju ári lagði mannréttindanefndin ályktanir um málefni Palestínu fyrir stjórnarfundi – ályktanir sem hlutu óskiptan stuðning stjórnar og voru notaðar á alþjóðavettvangi til að vekja athygli á harmlegu hlutskipti palestínsku þjóðarinnar.

Meðal efnis í þessum ályktunum voru fordæmingar á hernámi, ólöglegri hersetu Ísrelsríkis á Vesturbakkanum og Gaza. Ítrekað kölluðum við eftir því að hinu ólöglega hernámi yrði hætt og sömuleiðis að landnemabyggðirnar, svokölluðu, sem frekar ættu að heita landránsbyggðir yrðu lagðar af. Við vísuðum til ályktana öryggráðs Sameinuðu þjóðanna og allsherjarþingsins.

Það hefur líka verið krafa Lútherska heimssambandsins að palestínska þjóðin fái sjálfstæði, að múrarnir verði rifnir, að flóttamenn fái að snúa heim og að hinar efnahagslegu þvinganir Ísraelsmanna verði lagðar af. Og þá höfum við ekki síður gagnrýnt og fordæmt það sem kallað er „collective punishment“, eða hóprefsing. Ísraelsmenn hafa leyft sér að rústa húsum og heimilum fjölskyldna þeirra sem grunaðir eru um vopnaða baráttu. Þetta er skýrt brot á Genfarsáttmálum. (Genfarsáttmála og annað er varðar hernað er hægt að nálgast á heimasíðu Sameinuðu þjóðanna – þá einnig ályktanir öryggisráðs og allsherjarþings, er varða Palestínu)

Þá hefur Lútherska heimssambandið við talað fyrir því að Jerúsalem fái að vera heil og helgur staður múslima, gyðinga og kristinna manna,

Og þetta er nú fátt eitt af því sem við höfum haldið á lofti.

Landnema- eða öllu heldur landránsbyggðir eru gríðarlegt vandamál. Þær hafa verið til frá árinu 1967. Sérstakur vöxtur hljóp í þetta illkynja mein eftir Oslóarsamkomulagið. Landráðsmenn setja byggðir sínar í hæðum, tróna þannig yfir þorpum palestínumanna, sem hafa sínar byggðir í hlíðum, líka inni í sjálfri Jerúsalem. Landráðsmenn koma sér fyrir í skjóli Ísraelshers og hafa sjálfdæmi um vopnaburð.

Har Homa, jaðri Jerúsalem, er þar eins og helvíti sjálft; að standa við risastórar brynvarðar Caterpillar jarðýtur, rétt kominn yfir chekpoint frá Bethlehem og horfa á þetta svarthol, er yfirþyrmandi. Skammt undan eru síðan tugir trukka með skriðdreka á tengivögnum, tilbúnir að fara inn. Maður spyr sig og horfir á fólkið sem fékk þó að fara í gegnum þessa varðstöð, gamalt fólk, ungar mæður með ungabörn; hvar er réttlætið ? Hvar er alþjóðasamfélagið ? Það er ekki eins og þetta sé falið stríð, líkt og hefur verið víða í löndum Afríku. Árásirnar á Gaza allt ofbeldið sem gegnsýrir framgöngu Ísraelmanna á sér stað fyrir augum heimsins.

Þetta sá ég og reyndi á eigin skinni, í júnímánuði 2002. Þá fundaði framkvæmdanefnd stjórnar Lútherska heimssambandsins í Palestínu og átti fundi með fjölda fólks, þeirra á meðal Yasser Arafat og Shimon Perez. Áður en framkvæmdanefndin kom saman fór ég víða um Palestínu, til að kynnast fólki og skoða kjör og aðstæður þess, með Peter Prove, sem var yfirmaður mannréttindaskrifstofu heimssambandsins í Genf. Við vorum eins og undanfarar áður en við funduðum með framkvæmdanefndinni.

Þess má geta að í þessari heimsókn okkar lét þáverandi aðalritiari LH, dr. Ishmael Noko, þau orð falla að það sem hann sæi í Palestínu væri verra ástand en það sem hann, ungur maður frá Zimbwabe reyndi er hann stundaði nám í Suður-Afríku á apartheit tímanum.

Í Palestínu er evangelisk-lúthersk kirkja. Hún er fámenn en öflug engu að síður, og þjónustar marga, enda hefur hún fengið ríkulegan stuðning frá heimssambandinu og systurkirkjum erlendis; þessi kirkja þjónar ekki aðeins sínum eigin, heldur múslimum einnig. Og það er aðdáunarvert samstarf og samstaða með trúarleiðtogum kristinna og múslima.

Það er dapurleg staðreynd að undir hernáminu hefur kristnum mönnum í Palestínu fækkað. Þeir hafa haft meiri möguleika, vegna efnahags og menntunar til að forða sér og sínum í burtu undan oki og hryllingi hernámsins. Lái þeim hver sem vill.

Það segir kannski eitthvað um samfélag lútherskra kirkna, að núverandi forseti Lútherska heimssambandsins er Munib Younan biskup í Palestínu. Hann er öflugur og styrkur leiðtogi og talsmaður.

Kynni mín af honum má ég þakka Sveini Rúnari og sr. Rögnvaldi heitnum Finnbogasyni. Blessuð sé minning hans. Ég hafði tök á því sem biskupsritari að stuðla að komu hans til Íslands 1994. Það var heimsókn er skilaði miklu.

Félagið Ísland Palestína á mikinn heiður skilinn fyrir að hafa haldið málstað palestínumanna á lofti hér á landi, og með því átt stóran þátt í þeirri miklu viðhorfsbreytingu er orðið hefur meðal þjóð okkar.

Og ekki síður fyrir að hafa stuðlað að heimsóknum Íslendinga til Palestínu. Orð og myndir segja ekki allt. Það er nauðsynlegt að vera á staðnum. Kynnast fólki sem býr við þessi hörðu kjör. Og þetta vilja Palestinumenn. Þeir vilja fá okkur í heimsókn og fá að segja sögu sína.

Stofnun Ísraelsríkis og ógæfa Palestínuþjóðar

Förum aðeins aftur í tímann. Við fall Ottómana, verður fjandinn laus. Undir þeirra stjórn lifðu kristnir, gyðingar og múslimar saman í friði. Zíonistar hvetja til flutninga bæði fyrir og eftir þjóðarmorð á gyðingum í ríki nasista. Bretar sem réðu Mið-Austurlöndum voru máttlausir. Alþjóðasamfélagið sem sannarlega hafði brugðist gyðingum var loks komið með samvisku.

Við þekkjum þessa sögu um stofnun Ísraelsríkis, þar sem ekki var tekið tillit til þess að í landinu helga bjó fyrir fólk, þjóð, múslimar, kristnir.

Tíminn frá stofnun Ísraelsríkis hefur markað leið palestínumanna niður á við. Þá sögu þarf ekki að rekja, Og hver sem er getur sótt sér kort á netinu er sýna hvernig upphaflega hugmyndin leit út og hver er staðan nú. Yfir átta hundruð þúsund palestínumenn voru hraktir úr heimkynnum sínum yfir á Vesturbakkann. Þar er þriðja kynslóð flóttamanna í eign landi. Nú eru Palestínumenn fangar, í eigin landi, umsetnir, fórnarlömb skorts, ofríkis og útþenslustefnu. Ef eitt jákvætt skref verður fram á við koma undireins tvö aftur á bak.

Þrífst Ísrael bara í stríði ? Þetta er spurning sem leitað hefur á mig og fleiri. Ef friður ríkti þýddi það frjálst flæði fjármagns og fólks. Margir myndu leita inní Ísrael vegna betri afkomumöguleika. Gyðingar yrðu þá hugsanlega minnihluti í eigin landi.

Varðandi afstöðu Bandaríkjanna þá er hún ávallt innulaus vonbrigði. Ef Bandaríkin væru sanngjarnir málamiðlarar, þá væri von um lausn.

Þess í stað halda Bandaríkin hlífiskildi yfir Ísrael, meðal annars á vettvangi S.Þ og leggja til háar fjárhæðir bæði í formi hernaðar- og efnahagsaðstoðar. Ef þetta fjármagnsflæði frá Bandaríkjunum stöðvaðist, hryndi Ísraelsríki á einni nóttu. Clinton gerði margt vel. Bush var afleitur. Obama er máttlaus, og virðist í senn örvinglaður og ráðþrota.

Sharon vildi stríð á sínum tíma, í aðdraganda átakanna 2002 . Það var óþolandi ögrun af hans hálfu að fara í Al Aksa moskuna á sínum tíma. Hann vissi alveg hvað hann var að gera.

Af hverju er alþjóðasamfélagið svo máttlaust ?

Það var spurning Arafats í illa löskuðum höfuðstöðvum sínum á fundi með okkur.

Hvað getur alþjóðasamfélagið gert? Beitt viðskiptaþvingunum? Varla góð hugmynd. Þá fara einfaldlega meiri fjármunir frá Bandaríkjunum. Og hvar er Evrópusamfélagið? Tony Blair af öllum mönnum er leiðtogi í sáttaferli í Palestínu. Maðurinn sem greip til vopna í Írak og missti trúverðugleika heima fyrir, æru og embætti allt og í augum heimsins. Af hverju er hann í þessu starfi ? Evrópa er máttlaus og það sem verra er, áhugalaus.

Það þarf að koma á skikk eftir alþjóðalögum og reglum. Og verum raunsæ. Samfélögin eru sjúk, eftir linnulaus átök, víg og banaspjót; auga fyrir auga tönn fyrir tönn: Spilling mismunun og misnotkun er að finna í báðum samfélögum. Horfum bara í eigin barm eftir bankahrun! Reiði, hatur grimmd er alls staðar að finna.

Áreiti Bandaríkjanna í Austurlöndum nær, afskipti og stríðsrekstur hafa skilið heilu samfélögin eftir í rúst. Þeir leggja af stað af miklum móð, líkt og í Íraksstríðinu, án þesa að hafa burði til að greina eða skilja þessi samfélög, og afleiðingarnar eru alltaf á sömu lund; niðurbrot og upplausn samfélaganna, dauði hinna saklausu, borgarastríð.

Bandarísk stjórnvöld virðast þannig ólæs á það sem þau sjá, samfélög, þjóðir, trúarbrögð og siði; það er líkt og horft sé á umheiminn í gegnum fitustorkinn glugga á McDonalds. Og þegar þau hafa ráðið ráðum sínum og stíga út úr sjoppunni tekur við botnlaust fen.

Þegar bandarísk stjórnvöld bæta aðkomu sína og vinnubrögð varðandi Mið-Austurlönd og fara að hlusta á sitt eigið, mjög svo hæfa fólk, sem hefur mikla burði, til að mynda akademíuna, sérfræðinga um málefni Mið- Austurlanda og kirkjudeildir á borð við kaþólska, ensku biskupakirkjuna, methódista og lútherana, getur orðið breyting, en ekki fyrr. Þá getur paranoian í Pentagon hugsanlega gefið eftir.

Nú er það svo, að trúverðugleiki Sameinuðu þjóðanna er farinn, horfinn, Öryggisráðið, með neitunarvaldinu, er kaldastríðsafurð sem verður að reformera svo að vilji aðildarþjóða nái framm að ganga

Vanmátturinn

Er við Peter Prove vorum í áðurnefndri heimsókn í Palestínu og í Ísrael þá heimsóttum við fólk og stofnanir og reyndum að komast sem víðast. Það var ekki auðvelt. Á Vesturbakkanum var okkur ítrekað sýnd lítilsvirðing er við vildum komast í gegn um varðstöðvar, fengum yfir okkur formælingar og hótanir, líkt og við værum misindismenn. Látnir standa í 47 stiga hita fyrir utan skúrinn á meðan vegabréfin okkar voru gaumgæfð í hálftíma. Samt var engin umferð. Þegar svo afgangurinn af framkvæmdastjórninni og aðalritari komu, fórum við víða um Vesturbakkann, funduðum með trúarleiðtogum og veraldlegum. Siðvenja, eða prótókoll, hefði heimtað að við óskuðum eftir fundi með forsætisráðherra, Ariel Sharon.

Sem betur fer var hann ekki heima, heldur í heimsókn hjá besta vini sínum Bush í Washington. Í staðinn var settur á fundur með Perez utanríkisráðherra í Tel Aviv. Mikil vinna að koma þeim fundi á. Ísraels stjórnvöld lögðu til fundartíma kl. 10.00 á sunnudagsmorgni. Þá vorum við öll væntanleg í messu í Beit-Yala. Sunnudagur er helgidagur okkar kristinna manna, og fyrir löngu hafði verið boðuð heimsókn okkar í þann helgidóm. Í minni vitund er þetta einhver sterkasta guðsþjónusta sem ég hef fengið að taka þátt í , með lestri og ávarpi. Christian Krause, stjórnarformaður okkar predikaði og gerði vel.

Eftir margvíslegt þóf og þref varð loks samkomulag um fundi á mánudagskvöldi.

Viðbrögð utanríkisráðherrans við áhyggjum okkar voru þannig, að á leiðinni til baka, til Jerúsalem, vorum við nánast orðvana. Og þetta var Perez, álitinn frjálslyndi og víðsýni maðurinn.

Perez hlustaði ekki á orð okkar, hálfsofandi á fundinum og vaknaði og horfði á mig líkt úr kóma og vitnaði allt í einu í orð Davíðs Oddssonar, fyrrum forsætisráðherra sem hafði sagt í móttöku fyrir Perez hér á Íslandi. „You are the chosen people we are the frozen people.“ Mér var misboðið sem og félögum mínum.

Þessi ósmekklega aulafyndni var það eina sem utanríkisráðherra Ísraels hafði fram að færa í þessum harmlegu aðstæðum. Félagar mínir settu hendur á handleggi mína til að róa mig, öllum var okkur misboðið. Og ég sagði: „Your excellency, I´m not convinced this is an accurate assessment. No nation is frozen, nor chosen.“ Með það fórum við á ofsahraða til Austur - Jerúsalem. Öskureið og örmagna.

Á mjög góðum fundi með Arafat hrósaði hann Halldóri Ásgrímssyni, þáverandi utanríkisráðherra, sem hafði verið í opinberri heimsókn tveimur vikum fyrr, og lét ekki undan ferðaplönum sem ísraelsk stjórnvöld lögðu fyrir hann – það gera þau alltaf og reyna að stýra för. Halldór fór þar um sem hann vildi, meðal annars til Jenin, sem hafði verið lögð í rúst. Hann er sannarlega maður að meiri. Ég var stoltur af þessum íslenska ráðherra.

Hvað verður?

Hvað getur orðið? Verður Palestína sjálfstætt ríki ? Það er erfitt en ekki ómögulegt. Landránsbyggðirnar gera það að verkum að landið lítur út eins og svissneskur ostur. Landránsbyggðir verða að hverfa og alla vega, að lágmarki landamærin frá 1967 að gilda. Ótal tálmar eru sjáanlegir, en margt er hægt með góðum vilja

Það var lærdómsríkt að kynnast ísraelskum samtök sem bera hag palestínumanna fyrir brjósti og vilja frið og réttlæti. Þar á meðal samtökin B´tselem og Rabbis for Human Rights. Þar fer fólk, sem hikar ekki við að setja sjálft sig í erfiða stöðu gagnvart löndum sínum.

Palestínumenn eru einstakt fólk. Þeir taka manni fagnandi; fólk sem á ekkert en vill gefa allt með mikilli rausn.

Þolgæði, styrkur og von einkennir þessa hrjáðu þjóð sem vill ekki stríð og átök, þjóð sem vonar á betri tíma. Það er okkar, alþjóðasamfélagsins að vinna linnulaust að sjálfsögðum réttindum fólksins og að þau megi ráða sér sjálf í sínu landi. Hvenær veit enginn, eða með hvaða hætti. Enginn friður er þó án réttlætis.

Ég get verið sæmilega ánægður með þann styrk og stuðning sem Lútherska heimssambandið hefur lagt inní samfélag palestínumanna, og hversu vel hefur tekist að halda áfram, meðal annars með því að reka Augusta Victoria sjúkrahúsið á Olíufjallinu og sinna heilsugæslu í þorpum á Vesturbakkanum, sem annars hefðu ekki neitt. Þetta er ekki gert í þökk ísraelskra stjórnvalda, sem hafa uppi skattkröfur og margvíslegt annað áreiti, og virðast helst vilja okkur burt.

Alþjóðasamfélagið verður að gera sátt um Landið helga; sátt er getur haft áhrif í nágrannalöndum. Þar þurfa allir að koma að. Við vitum að engin ein trúarbrögð, eða heimsskoðun læknar þau mein er hrjá heiminn. Þar þurfa allir – burtséð frá trú, trúleysi, lífsskoðunum – allir sem eiga heitt hjarta að taka höndum saman og berjast góðu baráttunni gegn hinu illa. Þótt óveðursskýin sé alls staðar megum við ekki glata voninni, von um réttlæti, frið og farsæld í Palestínu og í Ísrael.

Í Handbók íslensku kirkjunnar er að finna þessi bænarorð: Opna augu vor fyrir neyð náungans og veit oss hugrekki til að koma honum til hjálpar.

Guð gefi að þessi orð megi rætast.