Fögnum fjölbreytileikanum. Góðar fyrirmyndir

Fögnum fjölbreytileikanum. Góðar fyrirmyndir

fullname - andlitsmynd Kristján Björnsson
31. október 2016
Flokkar

Prédikun í Bústaðkirkju 23. sd. e. trin. 30. okt. 2016 - Kristján Björnsson

Það er gott að koma saman hér í kirkjunni okkar og þakka fyrir daginn í gær þegar við fengum að kjósa okkur nýja forystu á Alþingi, okkar æðstu löggjafasamkomu, og ég leyfir mér af stól að óska nýkjörna fólkinu á Alþingi til hamingju með þá virðingu sem þeim er sýnd og það traust sem svo margir hafa borið til þeirra að kjósa þá til þings. Það þarf mikið til og það sem er einna merkilegast í dag er að horfa á þetta nýja landslag í stjórnmálum og alla þessa breidd sem þjóðin er að birta með vali sínu. Ísland er margradda kór og það birtist núna ekki síður en í mörgum fögrum röddum kirkjukórsins. Við fögnum fjölbreytileikanum og getum vonandi alltaf sagt einsog Evrópusambandið In Varietate Concordia, sameinuð í fjölbreytileikanum eða einsog áður fyrr í Bandaríkjunum E Pluribus Unum, Af mörgum, eitt, áður en tekið var upp mottóið þar vestra, In God We Trust, Á Guð við treystum. Það er heldur betur að reyna á bæði þessi mottó í Bandaríkjunum þessar vikurnar í einkennilegri þróun forsetakosninganna og kemur fasískur boðskapur Trump til með að þenja þann streng til hins ýtrasta að við sýnum hvert öðru ekki aðeins umburðarlyndi heldur njótum þess að vera þjóð sem elskar fjölbreytileikann og treystir á Guð sinn til að leiða sig og gæta sín, hafa auga með sér og verja réttlætið manna á meðal. Það er nú kannski það sem boðskapurinn hljóðar uppá þegar allar sögulegar skýringar hafa verið skoðaðar af frásögninni af Sódómu og Gómorru, að Guð fór þangað niður vegna neyðarópa og kveinstafa fólksins til að sjá með eigin augum hvað gengi á. Það er þá þannig sem við treystum á Guð að hann er Guð sem getur séð og heyrt og kemur til okkar og er annt um réttlæti og frið sem byggir á speki hans. Við þurfum ekki að óttast sundurlyndi á Íslandi þar sem einingin fær að skína svona skært í margbreytileikanum að það nær til allra, snertir alla og er öllum til góðs. Í gær guldum við keisaranum það sem keisarans var og kusum nýtt Alþingi. Í dag gjöldum við Guði þökk. Það er að vísu svolítið sérstakt að við messu hér í Reykjavík Suður þurfi að fá uppbótarprest úr Reykjavík Norður til að prédika, en ef það er huggun er ég ættaður úr Reykjavík Suður og alinn upp í Kraganum og þjóna mest í Suðurkjördæmi. Það ætti að upphefja alla hreppapólitík og auðvelda mér að stíga út úr þægindarammanum með ykkur, kæri söfnuður. Við munum svo saman biðja fyrir forseta, Alþingi og dómstólum líkt og alltaf í messum landsins, því í raun erum við þannig þjóð að við treystum á Guð. Það eru til nokkrir brandarar um viðbrögð presta eftir kosningar. Eitt sinn var sr. Bjarni dómkirkjuprestur spurður að því hvort hann væri hættur að biðja fyrir ríkisstjórninni, en hann var mjög pólitískur og þessi ríkisstjórn var ekki af hans flokki. Nei, sagði hann, oft var þörf en nú er nauðsyn. Svo var hann í annan tíma spurður hvort hann hafi beðið fyrir Alþingi í guðsþjónustunni við setningu þingsins og þá á hann að hafa svarað: „Nei, en þegar ég leit yfir hópinn af nýkjörnum þingmönnum fannst mér nauðsynlegt að biðja fyrir þjóðinni.“ Í dag eru aðrir tímar. Við fögnum nýju fólki en minnum þau öll á þá auðmýkt sem nú er lögð á þau með því trausti sem borið er til þeirra og kom endanlega í ljós undir morgun. Við þökkum líka fyrir þjónustu þeirra sem hverfa frá þingi og óskum þeim heilla í öðrum störfum. Við erum öll minnt á ábyrgð valdsins og í kirkjunni minnum við á ábyrgðina sem við erum kölluð til frammi fyrir Guði því í þessu landi er ekki annað heillavænlegra en setja traust sitt á Drottinn. Það er ekki annað í boði en helga sig þjónustunni við hann í orði og verki á þann hátt sem við sjáum í fögrum fyrirmyndum postulanna og Jesú og kannski ekki síst í dag þá fyrirmynd sem við eigum í Maríu guðsmóður. Við eigum þarna ótrúlega fallegar fyrirmyndir að því hvernig við eigum að vera hvert öðru í góðvild og græskulausri gleði, í kærleika og í friði, í þjónustu við þá sem minna meiga sín og þá sem eru einmanna eða þjást. Við eigum þessar fyrirmyndir og þess vegna er það okkur í blóð borið og lagt á hjarta að vera náunga okkar allt sem hann þarfnast og elska hann einsog hann er, taka opnum örmum á móti flóttafólki frá stríðshrjáðum löndum og biðja fyrir þeim, biðja fyrir friði í Sýrlandi og Jemen, Úkraínu, Pakistan og hvarvetna þar sem fylkingar berast á banaspjótum og menn sýna ómennsku sína skammlaust á torgum með voðaverkum. Við stöndum með sakleysinu í öllum málum því það er eðli og einkenni trúarinnar á Drottinn, Guð kærleikans. Við sjáum það beinlínis í myndinni af Jesú sem leið saklaus á krossi og við sjáum það líka í þjáningu móður hans, Maríu, og lærisveinanna og fylgjendanna sem elskuðu meistara sinn allan þann þjáningarveg sem hann mátti ganga í þágu mannkyns. Staða okkar er sú að okkur hefur verið þyrmt vegna þess að einn var alveg réttlátur og reyndist sannur maður sem stóðst allar freistingar. Einn fullkominn maður er okkur öllum sigur af því að við erum svo rík að eiga hann að fyrirmynd. Það verður að vísu að segjast að uppúr hópnum í kringum hann, þessum fyrirmyndum öllum, er mynd Maríu einna skírust og hreinust. Það glittir á gull hennar í mannhafinu hvar sem hún gengur og hvergi er hún staðinn að því að þrátta við Guð sinn. Reyndar segir hún Jesú einu sinni hreinlega fyrir verkum (í brúkaupinu í Kana). Og þá sjáum við móður og sonar sambandið alveg tært því hann möglar og færist undan að gera það sem mamma hans segir honum – og alveg er það svo dæmigert að hann getur ekki færst undan því nema stutta stund að gera það sem hún biður hann um. Könnumst við ekki við það bæði hjá okkur gagnvart móður okkar eða okkur foreldrunum gagnvart okkar börnum. Eitt hefur þá ekki breyst í tvö þúsund ár. Og frásögnin er ábyggileg því hún er kennd við Jóhannes, lærisveininn sem meistarinn elskaði og þann sama og tók að sér móður hans, Maríu, að honum látnum. María er allar götur mynd hinnar bestu móður og litur hennar er einn sá dýrasti litur sem áður fyrr var framleiddur í alls kyns varningi, fatnaði, postulíni, myndum og list, en það er blái liturinn. Í kirkjunni er litur Maríu þessi djúpblái eða kóngablái litur sem meðal annars var sóttur í rándýr efni sem litarefni með námugreftri og mikilli fyrirhöfn í gegnum aldirnar. Það sjáum við í myndlist því kyrtill Maríu á alltaf að vera blár fyrir sakleysið og sannleikann. Hennar messudagar eru fyrsti sunnudagur í aðventu og ef kirkja er svo rík að eiga bláan messuskrúða er hann notaður þá og einnig á boðunardegi Maríu, 25. mars, en annars á aðventunni er liturinn fjólublár eða purpuri fyrir iðrun og yfirbót. Það er ekki undarlegt að minnast Maríu í upphafi aðventu því orðið eitt merkir koma Drottins. Við sjáum Maríu fyrir okkur á ströngu ferðalagi fjórum vikum fyrir settan tíma og fáum nýja vídd í komu Drottins. Seinna þegar María hafði búið um tíma í Efesus hjá Jóhannesi postula, eftir pietuna og upprisu Jesú, sjáum við hana aftur í helgisögum þar sem hún kemur á slóðir guðspjallanna og vitjar um veg þjáningarinnar og veg krossins og veg upprisunnar og leggur grunn að pílagrímaferðum allra kristinna manna. Þá hefur hún eflaust gist hjá yngri börnum sínum og kannski hjá Jakobi bróður Jesú sem var leiðtogi safnaðarins í Jerusalem og einn af þremur máttarstólpum meðal leiðtoga í frumkristni. Í ljósi þess sem ég nefndi hér áðan um að gjalda keisaranum það sem keisarans er má ekki gleyma framhaldinu: Að gjalda Guði það sem Guðs er. Að ganga á vegi Drottins og hafa hann að öruggri fyrirmynd, líkjast honum og líkja eftir viðhorfi hans og vinna verkin okkar í anda hans. Og það er enginn vandi að sjá hvar við getum látið að okkur kveða því það er frekar auðvelt að sjá þörf náunga okkar. Stundum er snúið að sjá hvað kemur honum best en ef við höldum að við getum gengið í fótspor meistarans og farið að fögru dæmi hans ætti það að reynast okkur auðveldara en ella að setja okkur í spor þeirra sem þurfa okkar við. Það vissi þó móðirin sem setti sig í spor dóttur sinnar og styrkti með því sjálfsmynd hennar (sem er það sem foreldrar eiga að gera) þegar telpan spurði hana eftir góða messu í kirkjunni þeirra: „Mamma, af hverju er ég ekki Guð?“ en móðirin svaraði blíðlega: „Það hefur bara ekki átt fyrir þér að liggja, þótt ekki skorti þig gáfurnar til þess, elsku dóttir.“ Þarna er öllum goldið það sem þeir eiga, Guði og æsku landsins, veruleika og draumum. Nú dreymi alla góða drauminn því veruleikinn er svo magnaður, dýrð Guðs svo mikil og kærleikur hans svo nærri, að það þarf ekki að seilast um alla heima til að sjá þetta. Hann er svo nærri að hann hefur verið gróðursettur í hjarta hvers manns sem trúir. Þar dafnar sú rós og sú lilja í allan vetur og lifir af storma og frost vetrar enda eigum við vonina í svo mörgum fögrum myndum og fólki sem hefur þjónað og líknað og boðað og beðið og vitjað og gefið svo mikið að engin leið er að syngja um það allt í einum söng, og varla heldur í öllum lofsöngvum kristninnar um aldir alda. Fyrri ritningarlestur þessa Drottins dags, sem er 23. sunnudagur eftir þrenningarhátíð er úr Fyrstu Mósebók 18. Kafla, vers 20-21: „Drottinn sagði: „Neyðarópin frá Sódómu og Gómorru eru mikil og synd þeirra mjög þung. Ég ætla að stíga niður og gæta að hvort þeir hafa aðhafst allt sem neyðarópin, sem borist hafa til mín, benda til. Ef ekki vil ég vita það.“ Þannig hljóðar hið heilaga orð.

Síðari ritningarlesturinn er úr Filippíbréfi 3. Kafla, vers 17-21: „Systkin, breytið öll eftir mér og festið sjónir ykkar á þeim sem breyta eftir þeirri fyrirmynd er við höfum gefið ykkur. Margir breyta – ég hef oft sagt ykkur það og nú segi ég það jafnvel grátandi – eins og óvinir kross Krists. Afdrif þeirra eru glötun. Guð þeirra er maginn, þeim þykir sómi að skömminni og þeir hafa hugann á jarðneskum munum. En föðurland okkar er á himni og frá himni væntum við frelsarans, Drottins Jesú Krists. Hann mun breyta veikum og forgengilegum líkama okkar svo að hann fái sömu mynd og dýrðarlíkami hans því hann hefur kraftinn til að leggja allt undir sig.“ Þannig hljóðar hið heilaga orð. Guðspjall: Matt 22.15-22 Þá gengu farísearnir burt og tóku saman ráð sín hvernig þeir gætu flækt Jesú í orðum. Þeir senda til hans lærisveina sína ásamt Heródesarsinnum og þeir segja: „Meistari, við vitum að þú ert sannorður og kennir Guðs veg í sannleika, þú hirðir ekki um álit neins enda gerir þú þér engan mannamun. Seg okkur því hvað þér líst? Leyfist að gjalda keisaranum skatt eða ekki?“ Jesús þekkti illsku þeirra og sagði: „Hvers vegna leggið þið snöru fyrir mig, hræsnarar? Sýnið mér peninginn sem goldinn er í skatt.“ Þeir fengu honum denar. Hann spyr: „Hvers mynd og nafn er á peningnum?“ Þeir svara: „Keisarans.“ Hann segir: „Gjaldið þá keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er.“ Þegar þeir heyrðu þetta undruðust þeir, yfirgáfu hann og gengu burt.