Um kærleikann og hinn ágjarna mammon

Um kærleikann og hinn ágjarna mammon

Þegar fjárhagslegum ábata og hagnaði upp á tugi prósenta hefur verið hampað og hugtakið markaðsvirði hefur í svo mörgum tilvikum ónýtt spurninguna um hvort til sé óréttmætt verð og álagning, það sem áður var kallað okur.
fullname - andlitsmynd Gunnar Rúnar Matthíasson
17. apríl 2008

Einhversstaðar innra með mér, í trúarvitund minni hvílir á stundum óþægileg spurning sem skýtur upp kollinum af og til. Þetta er ekki nema ein af mörgum spurningum sem á mig leita og spyrja hvernig ég lifi trú mína og hvaða mark ég beri sem sýni að ég sé einlægur í trúarafstöðu þeirri sem ég játa opinberlega. Spurningin er ágeng en öndvert við það sem ætla mætti þá snýr glíma mín við hana, ekki að svari heldur að því að koma henni í orð svo vel sé. Hver tilraun mín til að orða spurninguna verður um leið sem spegill sem brugðið er upp fyrir auglíti mínu og beinir efni hennar að mér.

Spurningin varðar skyldur trúar minnar í umhverfi velmegunar þeirrar sem aukennt hefur svo stóran hluta þjóðlífs okkar í nokkur umliðin ár. Þetta er velmegun sem ég er hluti af og hef sjálfur notið að ýmsu leyti. En skuggahlið hennar er óréttmæt og misskipt álagning ýmiskonar og svo hraðvaxandi launa- og aðstöðumunur einstaklinga sem gegna samt áþekkum störfum. Efni spurningarinnar sem spegillinn beinir að mér tekur svo auðvitað til þeirrar sjálfhverfu þrár minnar að mega njóta meira og sýnir að hinn ágjarni mammon hefur þó nokkur tök í hjarta mínu.

Ég hef það gott en finn mig sekan um synd ágirndarinnar. Ég finn til skammar vegna þess og skömmin spyr: “Hvað átt þú upp á bekk með að gagnrýna...”, og hún vill að ég þegi við. En þetta lætur mig ekki í friði, ég er ekki sáttur við hvernig arðvon og hagnaður er að marka vík milli vina að heita má í þessum skrifuðum orðum. Ég óttast um okkar kristnu arfleifð, að það grundvallargildi kristinnar trúar að hver og einn skuli láta sig hag annars varða sem hann væri hans eigin hagur, sé að týnast. Ég spyr, hvað verður þá eftir? Í þúsund ára sögu kristni á Íslandi höfum við glímt við ágirnd í völdum og fjármunum en náð að halda þessu grunngildi og byggja upp samfélag samtryggingar og manngildisjöfnuðar. Samfélag sem ég hef verið stoltur af að tilheyra, samfélag sem lyftir undir með þeim sem höllum fæti standa og virkjar þau sem betur eru sett með áminningu um að það fylgir skylda því að njóta velgengni, skylda sem þarf að virða ef eining á að haldast í samfélagi okkar.

Það er þessi eining sem ég óttast um þegar hagræn gildi eru sett svo hátt sem verið hefur. Þegar fjárhagslegum ábata og hagnaði upp á tugi prósenta hefur verið hampað og hugtakið markaðsvirði hefur í svo mörgum tilvikum ónýtt spurninguna um hvort til sé óréttmætt verð og álagning, það sem áður var kallað okur. Hver er réttlæting þess að húsnæðisverð hefur nú um nokkurt skeið farið nær fjörutíu prósent umfram byggingarkostnað? Gengur virkilega að láta það, eða annað áþekkt, óátalið vegna þess að hinn svokallaði markaður beri svo háa arðsemiskröfu eða arðsemisgetu? Hvaðan koma þau verðmæti öll - hvað greiðir hagnaðinn? Hér þarf að fá fram umræðu sem stendur á kristnum gildum náungakærleika og þorir að spyrja erfiðra spurninga eins og hvort hér er um okur að ræða. Ef við viljum taka trú okkar alvarlega þá megum við ekki þegja í þessari umræðu jafnvel þó við höfum notið velgengni í verð- og hlutabréfaviðskiptum. Það eina sem þögnin gerir er að hún hefur af okkur möguleikann á að geta samglaðst hvert öðru þegar vel hefur gengið.

Það er þessi þögn sem ég óttast að sé nú að eitra samkennd þjóðarinnar. Ég óttast hana meir en margt það sem brotið hefur á í átökum um trúmál undanfarin ár, því þögnin gerir svo marga góða einstaklinga óvirka. Óréttmæt mismunun mun ekki aðeins koma niður á þeim sem minna hafa á milli handa sinna. Hún er skaðsöm öllum góðum og gegnum einstaklingum sem einangrast, vegna fjárhagslegrar stöðu sinnar, frá samstöðu með bræðrum sínum og systrum. Þeir tapa vinum og hlýju þeirri sem fylgir samfélagi og er lífsnauðsyn góðrar andlegrar heilsu. Ég óttast að þessi einangrun sé þegar veruleiki í samfélagi okkar og vil snúast til varnar. Eins og móðir lítur eftir og gætir þess að barn hennar hafi rúman hag til vaxtar síns og þroska, þannig kallar trúin á að við horfum eftir hag systra okkar og bræðra, gætum þeirra og látum okkur varða velferð þeirra.