Á hverju byggjum við og hvert stefnum við?

Á hverju byggjum við og hvert stefnum við?

„Við erum ósjálfbærust í heimi. Ef allir myndu lifa eins og Íslendingar þyrftum við tíu jarðir.“ Þessi orð voru fyrirsögn á vefmiðli sem ég las nýverið. Þau voru svo sannarlega nógu sterk til að fréttin sjálf væri lesin. Oft er haft á orði að við séum best og fremst þjóða heimsins og segir það til um sjálfsmynd þjóðarinnar.

Ósjálfbærust í heimi

„Við erum ósjálfbærust í heimi. Ef allir myndu lifa eins og Íslendingar þyrftum við tíu jarðir.“ Þessi orð voru fyrirsögn á vefmiðli sem ég las nýverið. Þau voru svo sannarlega nógu sterk til að fréttin sjálf væri lesin. Oft er haft á orði að við séum best og fremst þjóða heimsins og segir það til um sjálfsmynd þjóðarinnar. Sjálfsmyndin beið hnekki við hrunið. Kannski vorum við eftir allt bara eins og annað fólk og aðrar þjóðir. Við þurfum að strita fyrir okkar brauði og við þurfum að staldra við, meta hlutina upp á nýtt og finna sjálfbærar leiðir.

Fyrirsögnin á vefmiðlinum vakti til umhugsunar um það hvaðan við fáum okkar lifibrauð og hvernig til þess er aflað. Á þjóðhátíðardegi er vert að hugleiða það. Á þeim degi er við minnumst fósturjarðarinnar og þeirra sem unnu að því að gera Ísland að sjálfstæðu lýðræðisríki með fulla stjórn og ákvörðunarrétt um öll málefni okkar. Sjálfstæðinu fylgir ábyrgð og lýðræðinu fylgir áheyrn þar sem allir þegnar landsins mega segja sína skoðun innan þeirra marka er þjóðin hefur komið sér saman um.

Hygginn og heimskur

Guðspjall þjóðhátíðardagsins fjallar um mennina tvo sem byggðu hús. Annar byggði á sandi, hinn á bjargi. Húsið sem byggt var á sandinum féll en húsið sem byggt var á bjarginu stóð af sér storma og regn. Sá sem byggði á sandinum var heimskur, sá sem byggði á bjarginu var hygginn segir í sögunni. Þessa sögu höfum við Íslendingar heyrt all oft og nokkrar kynslóðir hafa lært sönginn um þessa tvo menn, þó börn hafi stundum ruglað saman hvor væri hygginn og hvor heimskur.

Öll viljum við vera hyggin. Líka í sambandi við landið okkar og nýtingu gæða þess. Undanfarnar vikur hef ég vísiterað, farið í heimsóknir til safnaðanna í Kjalarnesprófastsdæmi. Ég hef meðal annars heimsótt allmarga leikskóla og skóla og kynnt mér starfið á þeim. Athyglisvert er að heyra um þær stefnur sem skólarnir fylgja því þær miða allar að því að gera börnin að nýtum þjóðfélagsþegnum og meðvituðum einstaklingum um samfélagslega ábyrgð. Einstaklingum sem gæta heilsu sinnar og umhverfis síns. Þeim er kennt að sýna umhyggju jafnframt sem hæfileikar þeirra eru þroskaðir því við erum ekki öll eins. Eftir þessar heimsóknir er ég viss um að framtíð Íslands verður í góðum höndum fólks sem ber virðingu fyrir sjálfum sér og umhverfi sínu. Fólks sem tekur undir með Jóni Trausta og kynslóðum 20. aldarinnar:

Ég vil frelsi míns lands, ég vil farsæld míns lands, ég vil frægð þess og gnægð þess og auð þess og völd; ég vil heiðursins krans leggja' að höfði hvers manns sem vill hefja það fram móti batnandi öld.

Umhverfisumhyggja

Við búum í ríku landi frá náttúrunnar hendi. Rigningin, hafið, vötnin og fossarnir voru undur veraldar í huga Afríkubúans sem keyrði suðurströndina eitt árið. Hann hafði aldrei séð slíkt ríkidæmi. Hversdagsleg sjón í huga Íslendingsins sem keyrði, en glöggt gests augað. Umhverfisstefnur hafa verið mótaðar. Eina slíka hefur Þjóðkirkjan, sem samþykkt var á kirkjuþingi árið 2009. Þar er minnt á að Íslenska Þjóðkirkjan sé aðili að stefnumótun Alkirkjuráðsins og Lútherska heimssambandsins er lýtur að umhyggju fyrir náttúrunni. „Í því felst hvatning til þess að söfnuðir og stofnanir kirkjunnar leggi sitt af mörkum í mótun samfélags og lífshátta sem stuðla að hófsamari og að réttlátari skiptingu jarðargæða, að vinna gegn fátækt og neyð“. Stefnan er í anda þess er fram kemur í hinni helgu bók er Guð felur manninum að vera ráðsmaður sköpunarverksins um leið og hann er hluti þess.

Það er ábyrgðarmikið hlutverk að vera ráðsmaður sköpunarverksins. Við þurfum að taka það hlutverk alvarlega og snúa vörn í sókn ef við ætlum að lifa áfram á þessari jörð. Við þurfum öll að leggja okkur fram í þeirri baráttu, því barátta er það eins og bent var á í fyrirsögn vefmiðilsins sem vitnað var til í upphafi. „Ef allir myndu lifa eins og Íslendingar þyrftum við tíu jarðir“ sagði þar.

Það er ekki nóg að flokka bara pappír

Á kirkjuþingi unga fólksins árið 2012 var minnt á umhverfisstefnuna og kirkjan brýnd til að framfylgja henni. „Kirkjuþing unga fólksins kallar eftir því að kirkjan vinni raunverulega í þessum málum og söfnuðirnir verði skyldaðir til þess að vinna að umhverfismálum“ segir í þingsályktunartillögu sem þau lögðu fram og samþykkt var. Þau hvöttu til þess að sköpunarverkið væri virt og græn skref tekin til framtíðar. „Það er ekki nóg að flokka bara pappír“ sögðu þau heldur þarf „að stuðla að betra umhverfi“ en það krefst breytinga á hugarfari.

Það lofar góðu að unga fólkið sé meðvitað um mikilvægi þess að taka ráðsmannshlutverkið alvarlega og gera sér grein fyrir því að það sem tekið er af eyðist.

Verið gestrisin

Okkur hefur verið gefið fallegt og gjöfult land. Það er þakkarvert og það er líka þakkarvert að fá að búa í landi friðarins. Við höfum margt að þakka fyrir. Margt af því finnst okkur sjálfsagt því við þekkjum ekki annað. Það var athyglisvert að lesa tilvitnun í útskriftarræðu ungu stúlkunnar Biljönu, sem kom hingað til lands þegar hún var 9 ára gömul frá stríðshrjáðu heimalandi sínu.

„Æskuár mín einkenndust af ótta og von um betra líf,“ sagði hún. „Það komu dagar þegar við áttum hvorki húsaskjól né peninga fyrir mat og vissum ekki hvað morgundagurinn bæri í skauti sér.“ Við byggjum á þeim grunni er lagður var af frelsaranum forðum og það er í hans anda að vera gestrisin og sýna umhyggju og samhyggð. Það er því gott að eiga land sem getur tekið á móti fleirum en þeim sem fæddir eru hér og veita þeim bjarta framtíð. „Verið gestrisin hvert við annað“ segir í fyrra Pétursbréfi.

„Hver á sér fegra föðurland“ orti Hulda. Þetta íslenska ættjarðarljóð var ort í tilefni lýðveldisstofnunarinnar 1944 eins og kunnugt er. Þó nútímabörn þekki meira af veröldinni en fyrri kynslóðir og séu ef til vill ekki alin upp við eins mikla ættjarðarást þá er það staðreynd að Bolvíkingar syngja um björgulegt lífið í Víkinni, Önfirðingar um fegurð fjarðarins, Ísfirðingar um fjöllin bláu og aðrir landshlutar og bæir um sitt umhverfi. Þannig berst ástin til landsins áfram mann fram af manni og kynslóð eftir kynslóð og er það vel því ástinni fylgir þakklæti fyrir það sem við eigum.

Á hverju byggjum við sem þjóð?

Jón Sigurðsson barðist fyrir sjálfstæði þjóðarinnar og það er því viðeigandi að þjóðhátíðardagur okkar sé afmælisdagur hans. Hann var fæddur og alin upp á pressetrinu á Hrafnseyi við Arnarfjörð og var kristin hugsun og hugmundafræði yfir og allt um kring í uppvexti hans. Hann vissi að byggja þyrfti á bjargi ætti verkið að standa og standast storma og hret. Í dag minnumst við hans og allra þeirra er lögðu sig fram um að færa þjóðinni sjálfstæðið. Sú barátta hafði ekki staðið í nokkur ár eða áratugi, heldur í marga áratugi, með mismikilli áherslu þó.

Barátta þeirra er okkur sem nú lifum áminning um að þakka og standa vörð um sjálfstæðið.

Það er nauðsynlegt að spyrja spurninga og velta fyrir sér stöðu lands og þjóðar. Á hverju byggjum við sem þjóð og hvert stefnum við? Ef við horfum á fánann okkar, rauðan og hvítan kross á blátum grunni, þá sjáum við að helstu litir landsins, litur sjávar, elds og íss eru mótaðir í hinn kristna kross. Armar krossins eru ekki allir jafnlangir, heldur er krossinn hið kristna tákn, sem minnir okkur á það hvaðan líf okkar kemur og hver hefur það í hendi sinni.

Ræktun mannlífs í anda kristinnar trúar

Prófessor Þórir Kr. Þórðarson heitinn, lærifaðir minn í guðfræðideildinni lagði grunninn að ýmsu því er ég hef tileinkað mér síðar á lífsleiðinni. Hann skrifaði grein, sem hann nefndi "Lífsgildin og börnin". Þar segir hann m.a.: "Samneytið við landið, tunguna og söguna á að vera snar þáttur í uppeldi barna jafnt sem í sjálfsþroska hvers einstaklings“. „Að elska tunguna, landið og fólkið í landinu felur í sér að rækta. Alþjóðaorðið er merkir menningu (cultura) er dregið af sögninni að rækta“. "Hjálpaðu mér til þess að vera góður Íslendingur" er efni í kvöldbæn barna. - Og það vekur hugann um, hvað það er að vera góður Íslendingur. Það er að elska Guð og náungann, landið sitt og líf þjóðarinnar. Að rækja það sem fegurst vex af jarðargrösum í landinu og lífgrösum hins kristna þjóðlífs“ segir hann.

Ræktun mannlífs í anda kristinnar trúar ætti að vera leiðarljós okkar hér og láta okkur heldur ekki gleyma því að á meðal okkar er einnig fólk, sem ekki er fætt í þessu landi, en vill búa hér. Biðjum þess að þeim geti liðið vel og finni að við elskum þau á þann hátt er Drottinn okkar og frelsari býður. Og við biðjum þess að við megum hafa hans Orð að leiðarljósi í lífi okkar öllu um leið og við biðjum Guð, sem hefur gefið okkur land, þar sem við höfum frelsi til að játa hans heilaga nafn, tilbiðja hann og þjóna honum og leita ríkis hans, að kenna okkur að meta þessa gjöf, varðveita hana og ávaxta til eilífra heilla fyrir okkur og niðja okkar. Guð blessi og varðveiti land og þjóð og gefi gleðilegan þjóðhátíðardag, í Jesú nafni.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri kveðju:

Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda, sé með yður öllum. Amen.

Prédikun flutt 17. júní 2013 í Dómkirkjunni. Jer. 32:38-41; Róm. 13-10; Matt. 7:24-27.