Mun Kristur kannast við þig þegar hann kemur?

Mun Kristur kannast við þig þegar hann kemur?

Við höfum hlýtt á guðspjall þessa síðasta sunnudags kirkjuársins. Fram til þessarar stundar hefur Matteusarguðspjall fjallað um það hvernig Jesús hefur þjónað fólki. En nú kveður við nýjan tón því að guðspjallamaðurinn gefur til kynna að Jesús sé konungur sem situr í dýrðarhásæti sínu. Þessi staða hans nú virðist ganga í berhögg við það sem Jesús hafði auðsýnt með dagfari sínu þar sem kærleiksþjónustan sat í fyrirrúmi.

Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu. Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum. Sauðunum skipar hann sér til hægri handar, en höfrunum til vinstri. Og þá mun konungurinn segja við þá til hægri: Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims. Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín.

Þá munu þeir réttlátu segja: Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka? Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig? Og hvenær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi og komum til þín? Konungurinn mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.

Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld, sem búinn er djöflinum og árum hans. Því hungraður var ég, en þér gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég, en þér gáfuð mér ekki að drekka, gestur var ég, en þér hýstuð mig ekki, nakinn, en þér klædduð mig ekki, ég var sjúkur og í fangelsi, en ekki vitjuðuð þér mín.

Þá munu þeir svara: Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan eða þyrstan, gestkominn eða nakinn, sjúkan eða í fangelsi, og hjálpuðum þér ekki? Hann mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður: Það allt sem þér gjörðuð ekki einum hinna minnstu bræðra minna, það hafið þér ekki heldur gjört mér. Og þeir munu fara til eilífrar refsingar, en hinir réttlátu til eilífs lífs. 25.31-46

Við höfum hlýtt á guðspjall þessa síðasta sunnudags kirkjuársins. Fram til þessarar stundar hefur Matteusarguðspjall fjallað um það hvernig Jesús hefur þjónað fólki. En nú kveður við nýjan tón því að guðspjallamaðurinn gefur til kynna að Jesús sé konungur sem situr í dýrðarhásæti sínu. Þessi staða hans nú virðist ganga í berhögg við það sem Jesús hafði auðsýnt með dagfari sínu þar sem kærleiksþjónustan sat í fyrirrúmi.

Hafði ekki Jesús reynt að forðast það að vera gerður að konungi? Hann, sem hafði þvegið fætur lærisveinanna? Hann, sem hafði sagt að barnið væri dýrmætara en allt annað í þessum heimi? Hann, sem hafði sagt lærisveinum sínum að höfðingjar létu fólkið kenna á valdi sínu?

Margt fólk segir í dag að tími konunga sé liðinn og taka ætti upp lýðræðislegra stjórnarfyrirkomulag. Þetta er satt en það var enginn fótur fyrir því á tímum gamla testamentisins.

Orðið konungur er eitt af þeim orðum sem kemur oftast fyrir í gamla testamentinu, meira ein 2500 sinnum. Á þeim tíma voru væntingar fólks afar miklar í garð konunga og þær voru mjög oft tjáðar. T.d. í 72. Davíðssálmi. Þar er beðið fyrir konunginum á þessa leið: “Guð, sel konungi í hendur dóma þína og konungssyni réttlæti þitt, að hann dæmi lýð þinn með réttvísi og þína þjáðu með sanngirni. Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða er enginn liðsinnir. Hann aumkast yfir bágstadda og snauða og fátækum hjálpar hann. Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá, og líf þeirra er dýrmætt í augum hans”.

Þessa var vænst af konunginum á tímum gamla testamentisins. Og Jesús sem þekkti þetta bænarávarp sá sjálfan sig sem slíkan konung sem þar er lýst.

Leiðum nú hugann að áhrifaríku stundinni í samkunduhúsinu í Nazaret þar sem Jesú hafði alist upp. Hann sté þá fullþroska í stólinn og rúllaði þögull bókrollu Jesaja handritsins þar til fingur hans staðnæmdust við eftirfarandi ritningargreinar. Hann las: “Andi Drottins er yfir mér, af því að Drottinn hefir smurt mig. Hann hefir sent mig til að flytja nauðstöddum gleðilegan boðskap og til að græða þá sem hafa sundurmarið hjarta, til að boða herteknum frelsi og fjötruðum lausn”. Að lestri loknum dró hann að sér andann, leit á mannfjöldann og sagði: Í dag hefir þessi ritning ræst í áheyrn yðar. Allra augu mændu á Jesú. Það mátti heyra saumnál detta í samkunduhúsinu, slík var þögnin.

Svo að Jesús var þá konungur, og þó. Ef við íhugum guðspjall þessa drottins dags þá virðist umpólun eiga sér stað, algjör viðsnúningur. Því að í lýsingunni á dómsdegi í guðspjalli dagsins þá komum við ekki saman til þess að dæma um það hvort Jesús hafi verið góður konungur heldur er það hann sem dæmir okkur út frá sömu forsendum.

Hann, konungurinn, dæmir okkur þá út frá því hversu góðir konungar og drottningar við höfum verið. Hann hefur hlutverkaskipti og spyr okkur: “Hvað gerðuð þið fyrir hungraða, þyrsta, þjáða, þurfandi, eða fangelsaða”? Hann gengur jafnvel svo langt að samsama sig við fátæka.

Bræður og systur. Okkur ber að hugfesta að við eigum öll sem eitt að ríkja líkt og vænst var af konungum gamla testamentisins. Það er ekki að ófyrirsynju að við vorum öll smurð til prestsdóms, spámanna og konunga í skírn okkar. Okkur ber því skylda til að reynast hvert öðru góður og gegn prestur, ef ekki konungur eða drottning.

Þess var vænst af konungum gamla testamentisins að þeir veittu sínu fólki nýja trú á lífið og tilveruna og hjálpuðu því að gera rétta hluti. Þess var vænst af þeim að þeir væru frelsarar og bjargvættir manna á ýmsa lund.

Bræður og systur. Lifið þið sem konungar og drottningar? Hafið þið reynt að feta í fótspor konungs konunganna? Flæðir réttlætið frá ykkur yfir byggðarlög ykkar, hálsana og fjöllin sem umkringja ykkur? Jesús mun spyrja okkur að þessu þegar hann kemur til að dæma lifendur og dauða.

Gerum við okkur ríkulegt far um að vera farvegir miskunnsemi og góðvildar, hjálpsemi og fyrirgefningar, gagnvart okkar nánustu, andspænis okkar samstarfsfólki, vinnuveitendum okkar, yfirvöldum? Berum við yfirvöld þessa lands á bænarörmum á þessum erfiðu tímum? Kennara? Fyrrum stjórnarfólk hjá olíufélögunum? Handrukkarana og fórnarlömb þeirra? Fíklana hverju nafni sem þeir nefnast? Blaðamenn? Geðsjúka? Fátækt fólk á Íslandi og víðar? Börnin og unglingana í þessu landi sem erfa eiga þetta land? Þá sem hafa sundurmarið hjarta í kjölfar margvíslegra áfalla og missis? Saklaus fórnarlömb stríðsins í Írak? Í Darfur héraði í Súdan? Þjáningin varir enn í þessum heimi líkt og postulinn Páll bendir á í pistli þessa Drottins dags er hann segir: “Vér stynjum með sjálfum oss meðan vér bíðum þess að Guð gefi oss barnarétt og endurleysi líkama vora”.

Að kvöldi dags horfum við fram til þess tíma að Jesús komi og frelsi okkur undan fjötrum syndar og dauða, endurleysi líkama okkar og taki okkur til sín. Hann kemur fyrr ven varir. Hann kemur skjótt.

Höfum við rækt nógsamlega samfélagið við konung konunganna í einrúmi heima fyrir eða í samfélagi trúaðra í trú og gleði innan veggja helgidómanna sem eru fordyri að lífsins gleðisölum?

Jesús kemur. Enn er von. Jesús brosir við okkur því að honum þykir vænt um okkur og þráir að eiga innihaldsríkt samfélag við okkur þrátt fyrir efasemdir okkar og margslungna bresti í dagfari okkar og samskiptum hvort við annað. Hann kemur með límið og límir saman veikbyggðu kerin sem við erum eitt og sérhvert. Við erum og verðum veikbyggð vegna þess að við erum og verðum sek því enginn getur haldið boðorð Guðs til fullnustu. Þrátt fyrir það njótum við náðar Guðs sem tók okkur að sér sem sín börn í skírninni. Enginn getur tekið þá dýrmætu gjöf frá okkur. Dýrmæt er sú skírnarminning hverju barni sem vex úr grasi til manndómsára. Og ætti hún að vera okkur öllum hvatning til að leitast við að láta enn frekar gott af okkur leiða í þessu samfélagi sem góðir og gegnir kristnir einstaklingar með djúpa réttlætiskennd fyrir öllu sem lifir og málefnum líðandi stundar í samfélaginu þar sem ýmsir þjóðfélagshópar eiga á brattan að sækja gagnvart ráðandi öflum í þjóðfélaginu, öflum auðhyggjunnar. Næringuna og styrkinn til þessa verks sækjum við til Drottins í einrúmi sem og í guðsþjónustu safnaðarins en hann gefur hverjum sem þiggja vill. Frá hjarta hans streymir lifandi vatn sem er lífsnauðsynlegt hverjum þeim sem hefur vilja til að feta ríkulega í fótspor hans. Ekki einungis er það fullt af steinefnum heldur er það betra en besta meðal úr apóteki. Það er ekki lyfseðilsskylt því að það er ókeypis. Við getum drukkið það, jafnvel ótæpilega án þess að bíða skaða af. Þó er nauðsynlegt að beita almennri skynsemi í þeim efnum sem öðrum. Kirkja fagnaðarerindisins sem við tilheyrum nefnir þau skírn, orð Guðs og heilaga kvöldmáltíð. Fyrir náð erum við Guðs börn allt frá skírn okkar í lífi og dauða. Þegar við gefum okkur tíma í dagsins önn til að íhuga orð Guðs þá lyftast orðin stundum upp af blaðsíðum ritningarinnar og tala beint inn í kringumstæður okkar og ýmist hugga okkur, styrkja og uppörva, áminna og leiðbeina. Þegar við göngum til altaris þá íhugum við syndir okkar og krjúpandi eða standandi meðtökum við fyrirgefningu syndanna fyrir orð Drottins með skynfærum okkar. Um leið og Kristur reisir okkur á fætur þá segir hann við okkur: Syndir þínar eru fyrirgefnar. Far þú í friði barnið mitt með hreina samvisku og leitastu við að fara ekki aftur í sama farið. Þetta sagði hann við hórseku konuna sem mennirnir hugðust grýta til bana. Við þá sagði hann: Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum”. Þessi orð Krists eru enn í fullu gildi vegna þess að við finnum til ríkulegrar samsemdar með mönnunum og hórseku konunni. Þeir gengu inn í sjálfa sig og sáu að sér líkt og við gerum sjálf þegar við hyggjumst gera eitthvað rangt. Hún tók við tilmælum Jesú um að leitast við að hegða sér betur framvegis.

Hvað verður um þá mörgu sem viðurkenna ekki sekt sína gagnvart Guði og mönnum áður en deyja? Deyja án þess að vera sátt við Guð og menn? Þetta er stór spurning en Jesús leitast þó við að svara henni að einhverju leyti í guðspjalli dagsins.

Við Íslendingar erum mjög dugleg að sækja guðsþjónustu safnaðarins, - einkum þegar við kveðjum látinn ættingja, samstarfsfólk og vini. Minningargreinar í blöðum bera það með sér að við viljum gjarnan muna hið góða sem einkenndi þetta fólk.

Eitt sinn í fjarlægu landi var gerð útför einstaklings sem hugsaði aðeins um viðskipti sín dag og nótt. Hann var svo upptekinn af þessu að hann leit næstum því út eins og peningaseðill. Enginn minntist á þetta meðan á útför hans stóð. Hann var, sagði fólkið, svo elskulegur húsbóndi og umhyggjusamur í garð barna sinna og hjálpsamur í garð þeirra sem voru hjálparþurfi.

Á þeirri stundu efaðist enginn um gæsku hans. Enginn efaðist um miskunnsemi hans. Hann eða hún myndi örugglega fara beint til himna.

Um síðir þegar tárin voru þornuð og kistan var þakin mold, þegar blómin voru byrjuð að sölna í sólinni, þegar síðasti gesturinn var farinn, þegar allir voru farnir til sinna starfa í þeim heimi þar sem þessi látni einstaklingur hafði lifað með þeim þá gerðu margir sér grein fyrir þeim harmi sem þessi einstaklingur hafði valdið á meðal þeirra þrátt fyrir að þess hafi ekki verið getið í ræðu eða riti.

Við erum í vanda stödd þegar við hugleiðum líf þessa einstaklings í ljósi guðspjalls dagsins.

Var hann góður eða var hann vondur? Var hann sauður eða var hann hafur? Var hann dýrlingur eða var hann syndari? Tilheyrir hann þeim sem eru til hægri handar eða tilheyrir hann þeim sem eru til vinstri handar?

Hann gaf einhverjum að eta sem voru svangir en hann neitaði að gefa svo mörgum öðrum að borða sem voru svangir. Hann svalaði þorsta nokkurra en þeir voru svo margir sem hann gaf ekkert að drekka. Hann klæddi marga sem naktir voru en hann klæddi þá ekki alla. Hann mætti Kristi í nokkrum þeirra en neitaði oft að mæta honum í öðrum.

Hvað mun Kristur gera í þessu tilviki þar sem hann situr í dýrðarhásæti sínu sem dómari frammi fyrir mannkyni öllu og horfist í augu við þessa blöndu af gæsku og illsku, fegurð og eymd, hálfan sauð og hálfan hafur? Hvað mun hann gera?

Munum við ekki öll vera í þessum aðstæðum? Tilheyrum við ekki þessari blöndu mannlífsins? Vitum við ekki öll að við erum umlukt þeim sem eru hungruð, þyrst, nakin og í fangelsi meðan við hjálpum aðeins sumum þeirra af og til?

Þetta er ástæðan fyrir því að við verðum svo sannarlega tilbúin á hinum efsta degi til þess að fyrirgefa þeim sem gerðu okkur eitthvað verulega illt í þessum heimi.

Við erum öll sek. Við höfum öll farið villu vegar. Við höfum öll svikið hvort annað. Við þörfnumst öll fyrirgefningar. Við þurfum að læra að fyrirgefa okkur sjálfum um leið og við fyrirgefum öðrum í auknum mæli. Guð steig fyrsta skrefið til okkar og fyrirgaf okkur með því að gefa okkur son sinn Jesú Krist. Stærri fórnargjöf er ekki hægt að færa. Hvernig tökum við á móti þessari gjöf og hvernig nýtum við okkur hana í daglegu lífi? Nýtum við hana til góðs sem Guðs börn í þessum heimi þar sem við stynjum er við horfum upp á þjáningu bræðra okkar og systra?

Án fyrirgefningarinnar förum við öll til vinstri handar þeim sem í hásætinu situr til eilífrar refsingar. Þetta er sannarlega alvarlegur boðskapur, boðskapur sem við þurfum að staldra við og hlusta á. Í samfélagi syndara, samfélagi trúar og gleði er brauðið sem er Kristur brotið og etið. Kristur tekur á sig þær byrðar sem maðurinn getur ekki borið einn eða í eigin mætti. Í nærveru hans er okkur fyrirgefið.

Stundum er sagt að við þurfum kannski fyrst að fara villur vegar til að geta metið að verðleikum hvers virði það er að eiga öruggan samastað og fá að vera heima.

Ég rakst á nokkur gullvæg orð eftir mann að nafni Chesterton sem ég hvet okkur öll til þess að hugfesta í kvöld og fara heim með þau í farteskinu:

“Að elska er að elska þann sem ekki er elskuverður. Að fyrirgefa er að fyrirgefa þeim sem ekki á það skilið. Að trúa er að trúa því ótrúlega. Að vona er að vona þegar allt er vonlaust”.

Í fornri írskri bæn er að finna þessi orð: “Verði jafnan verk fyrir hendur þínar, verði alltaf smámynt í buddu þinni, skíni ætíð sól á gluggann þinn, fylgi regnbogi hverri skúr, vinarhönd sé æ í nánd og Guð fylli hjarta þitt gleði”.

Minnumst jafnframt orða Krists er hann segir: Það sem þér gjörið einum mínum minnstu bræðra það gjörið þér mér”,

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Lexia : Jes . 65:17-19 - Pistill: Róm. 8. 18-25 - Guðspjall. Matt. 25. 31-46.