Að koma til sjálf sín

Að koma til sjálf sín

Þegar syndir okkar eru opinberaðar eru það eðlislæg viðbrögð að fara undan og benda á aðra, í stað þess að gangast við og taka ábyrgð á breiskleika okkar. Um það snýst fasta, að opna augun fyrir syndum okkar og láta af því stolti sem að hindrar okkur í að biðja um hjálp til að breytast, hjálp sem yfirleitt stendur okkur fúslega til boða þegar við erum tilbúin.

Bænin má aldrei bresta þig, búin er freisting ýmisleg. Þá líf og sál er lúð og þjáð lykill er hún að drottins náð.

Í takti kirkjuársins er nú fyrsti sunnudagur í sjö-vikna föstu, þeim tíma þegar beðið er eftir páskum, með undirbúningi hið innra og hið ytra. Kirkjuárið birtist okkur í margvíslegum myndum í samfélagi okkar og í takti þess hljómar táknfræði sem að minnir okkur á að stuðla að eigin heilbrigði, með því að fasta.

Páskaföstur eiga fornar rætur í kristnum sið og birtast í ýmsum myndum í hinum ólíku hefðum, með kjötkveðjuhátíðum og grímugöngum, og okkar dagar haldast að mestu leiti í hendur við danskar hefðir. Bolludagur er yngstur og nafngiftin íslensk en hefðin að marka hveitiföstu með hveitibollum og rjóma er, samkvæmt Árna Björnssyni, líklegast komin frá dönskum og norskum bökurum. Bolludagsvöndurinn eru hinvegar leyfar þeirrar iðkunar, sem víða tíðkast enn, að hlutgera iðrunarferli föstunnar með táknrænum hirtingum, að finna iðrunina á eigin skinni.

Nafngiftin sprengidagur er samkvæmt þjóðháttafræðingnum komið til okkar frá Hansakaupmönnum en í Þýskalandi kallaðist sambærilegur helgur dagur ,,Sprengtag”, en þá var stökkt vígðu vatni á kirkjugesti til helgunar. Við tengjum nafnið því að sprengja sig á kjötáti en sú kjötveisla er ævaforn, enda var öllu jafna lítið eftir að haustslátruninni á bæjum þegar komið var fram í Góu. Sá siður að fasta á kjöt hefur reynst Íslendingum heilladrjúgur, en saltfiskútflutningur til landa þar sem fastað er á kjöt á föstunni var verðmætasta tekjulind okkar erlendis framundir seinni heimstyrjöld.

Öskudagur vísar til þess iðrunartákns og við guðsþjónustur var ösku dreift yfir kirkjugesti til að undirstrika þörfina til að gangast við eigin sekt. Sá siður að hengja öskupoka á öskudag er nær horfinn úr barnamenningu okkar á örfáum árum en það er miður því sá skemmtilegi siður er íslenskur að uppruna. Öskupokarnir, eða steinapokar eins og þeir voru stundum, eiga að tákna þær syndir sem við berum með okkur og íþyngja okkur í lífinu ... og það skemmtilega er að líkt og öskupokarnir eru þær oft öllum ljósar, þó við sjálf séum grandalaus.

Hugtakið fasta hefur víða merkingu og vísar iðulega í það að neita sér með einhverjum hætti um mat eða matartegundir, en markmið föstu eru hinsvegar frá upphafi trúarleg og sálfræðileg en ekki líkamleg. Fasta er ekki megrunarkúr, enda eru megrunarkúrar nútímans ólíkir föstuiðkun og hafa annan uppruna og merkingu. Fasta er sú iðkun að horfast í augu við og hreinsa burtu það í lífi okkar sem hindrar okkur í að njóta þess til fulls. Þar getur verið um að ræða syndir og bresti hið innra eða fíknir og venjur, sem stjórna lífi okkar á hátt sem er okkur til trafala.

Tímasetningin er ekki tilviljun. Á sama hátt og við undirbúum heimili okkar og umhverfi undir stórhátíðir kristninnar, jól og páska, ber okkur að undirbúa okkur sjálf undir þessar hátíðir með það fyrir augum að geta notið þeirra gæða sem þær bera með sér. Páskar eru hátíð lífsins og til að geta notið lífsins til fulls ber okkur að hreinsa út það sem veldur dauða í lífi okkar, hvort sem um er að ræða viðhorf, sekt eða venjur.

Við upphaf föstu eru lesnir kraftmiklir textar, sem með ólíkum hætti sýna djöfulinn sem táknmynd freistinga í lífi okkar og fjalla um afleiðingar þess að láta undan freistingum. Sagan af Adam og Evu í aldingarðinum er ein af þessum kjarnagoðsögnum, sem með sterku myndmáli hefur mótað mannskilning vestrænnar menningar um aldir og fjallar í eðli sínu um syndir mannsins. Frumfólkið, sem á hebresku eru einungis nefnd maður og kona, búa í syndlausu ástandi þar sem þau njóta lífsins til fulls og þar er fullkomin friður. Eplið, sem er táknmynd freistinga og ber með sér dauðann, er þeim þekkt og þau er hlýðin þar til freistarinn lýgur því til að það sé óhætt að fá sér bara einn. Afleiðingarnar eru þekktar og goðsögnin er í eðli sínu greining á öllum ófriði mannkyns og erfiðleikum, sem í sínum margvíslegum myndum stafar af syndugu eðli okkar og lönguninni til að leika Guð í lífi annara.

Sá þáttur í þessari sögu sem mér þykir mest heillandi er sú atburðarás, sem á sér stað þegar rödd Guðs ásakar þau um að hafa brotið gegn betri vitund. Guð spyr Adam: ,,Hefur þú etið af trénu sem ég bannaði þér að eta af?“ Maðurinn mælti: „Konan sem þú hefur sett mér við hlið, hún gaf mér af trénu og ég át.“ Þá sagði Drottinn Guð við konuna: „Hvað hefurðu gert?“ Konan svaraði: „Höggormurinn tældi mig og ég át.“ Eins og litríkir öskupokar sem hanga á áberandi stað er synd þeirra augljós en í stað þess að gangast við henni benda þau á aðra í leit að sökudólgi, maðurinn á konuna og konan á snákinn.

Þó sagan sé ótrúverð sem raunveruleg atburðarás, gæti hún ekki verið nær sannleikanum þegar kemur að eðli manneskjunnar. Þeir þættir í fari okkar sem standa okkur fyrir þrifum geta verið öllum ljósir, nema okkur sjálfum og því er það sannur vinur sem segir okkur satt um það hver við erum og hvernig við högum okkur gagnvart öðrum. Þegar syndir okkar eru opinberaðar eru það eðlislæg viðbrögð að fara undan og benda á aðra, í stað þess að gangast við og taka ábyrgð á breiskleika okkar. Um það snýst fasta, að setja sig í þær stellingar að opna augun fyrir syndum okkar og láta af því stolti sem að hindrar okkur í að biðja um hjálp til að breytast, hjálp sem yfirleitt stendur okkur fúslega til boða þegar við erum tilbúin.

Hinn textinn, sem er ekki síður grunnfrásögn í okkar menningu, er freistingarfrásögn Jesú. Í guðspjallinu segir að andi Guðs hafi leitt Jesú út í óbyggðirnar til að fasta í 40 daga og 40 nætur og til þess að mega standast freistingar. Slíkur undirbúningur undir þjónustu er algengt stef í trúarbókmenntum, persónur Gamla testamentisins föstuðu í aðdraganda þjónustu, Móse, Elía og Daníel, og í austrænum hefðum er þetta áberandi, samanber Siddhārtha Gautama Búdda sem ólst upp í munaði og fann meðalhóf eftir meinlætalíf og föstur. Sá eða sú sem lætur stjórnast af brestum sínum eða lifnaðarháttum getur ekki orðið andlegur leiðtogi samkvæmt slíkum hefðum.

Freistarinn sýnir Jesú það sem að hann í þjónustu sinni þarf að afneita, sem eru veraldleg völd og vinsældir og frásögnin setur tóninn fyrir þá þjónustu sem að hann vinnur með lífi sínu. Nýja testamentið segir Jesú hafa með komu sinni breytt hinu mannlega ástandi og að hann hafi með dauða sínum og upprisu endurleyst manneskjuna undan syndinni sem kom inn í heiminn með syndafallinu. Rismeiri gerist táknfræði ekki en kröftugur boðskapur ber ekki ávöxt í lífi okkar nema að við iðkum það sem verið er að boða.

Guðspjall merkir góðar fréttir og Biblían er í senn fullkomlega raunsæ á syndugt eðli mannsins, sem birtist í öllu því ranglæti og ofbeldi sem mannskepnan er megnug um, og fullkomlega bjartsýn á getu mannsins til að breytast. Forsenda þess að breytast er að líta í eigin barm, sjá það hið innra sem krefst endurskoðunar, og öðlast fúsleika til að þiggja hjálp, frá Guði og mönnum, til að láta af því sem stendur okkur fyrir þrifum og veldur skaða í samskiptum okkar við annað fólk.

Það getum við ekki ein og þó ferlið sé í sjálfu sér sálfræðilegt liggur greiðfærasta leiðin til breytinga í gegnum bænaiðkun. Vandinn sem við flest glímum við er ekki að við stöndum grandalaus frammi fyrir brestum okkur, nógu afdrifaríkar afleiðingar hafa þeir í lífi okkur, heldur því að okkur skortir auðmýkt til að horfast í augu við þá og kraft til að breytast. Þar skiptir bænaiðkun sköpum. Með því að biðja Guð um að sýna okkur hvað það er í fari okkar sem þarf að breytast, opnast augun fyrir því sem öðrum er augljóst og okkur er hulið. Með orðum Jesú: Hví sér þú flísina í auga bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu? (Mt. 7.3). Og í bæninni eigum við aðgang að uppsprettu krafts heilags anda, sem við getum reitt okkur á í þeirri viðleitni að leggja af það sem stendur okkur fyrir þrifum og til að þjóna náunganum með gleði.

Megi þessi föstutíð reynast okkur gæfurík í þeirri viðleitni að horfast í augu við syndir okkar, sem einstaklingar, kirkja og samfélag og bera gæfu til þess að leita til Guðs eftir visku og krafti til að mega breytast til hins betra.