Stígum inn í óttann og sækjum fram

Stígum inn í óttann og sækjum fram

Guð er hjá okkur í anda sínum í blíðu og stríðu. Hann er með okkur þegar við búum við óvissu hvað varðar fiskveiðimálefni þjóðarinnar. Hann hvetur okkur til þess að stíga inn í óttann og sækja fram því að sókn er besta vörnin.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. Gleðilega hátíð, sjómenn og fjölskyldur.  

 

Í dag langar mig til þess að fjalla um strandveiðar sem ég hef leitt hugann að þegar ég hef spjallað við smábátasjómennina fyrir neðan bakkann á Húsavík en ég hef tekið eftir því að þeim hefur fækkað mikið á undanförnum árum.   

Þegar ég var að undirbúa þessa ræðu þá leitaði ég að umfjöllun um strandveiðar á netinu og rakst á grein sem birtist í Fiskifréttum 11.júní 2009 og er skrifuð af Friðriki Friðrikssyni, lögfræðingi LÍÚ.  Þar vísar hann fyrst í umsölgn LÍÚ um frumvarp sem þá lá fyrir alþingi um stjórn fiskveiða sem m.a. varðar frjálsar handfæraveiðar sem kallaðar hafa verið strandveiðar.  Þar segir: ,,Strandveiðar munu ekki styrkja byggð eða treysta atvinnu í sjávarbyggðum.“  

 Úttekt á áhrifum strandveiða sumarið 2009

Ég fór að velta þessari fullyrðingu fyrir mér, hvort þetta hafi verið raunin að  loknum strandveiðum sumarið 2009 ? Á netinu fann ég úttekt á framgangi og áhrfum strandveiða sumarið 2009, unnið af Háskólasetri Vestfjarða fyrir sjávarútvegs-og landbúnaðarráðuneytið, birt í janúar, ári eftir að grein lögfræðings LÍÚ birtist. Um var að ræða úttekt á frumraun strandveiða við landið sem má ætla að geti gefið gagnlegar upplýsingar til framtíðar litið. Nú gríp ég niður í samantekt á úttektinni. Þar segir: ,,Í lok júní 2009 þustu hundruð báta af stað Í heild voru 554 bátar gerðir út af 529 útgerðum. Mjög fáar útgerðir, eða tæp 4% gerðu út fleiri en einn bát á veiðarnar. Flestir útgerðaraðilar, eða yfir 80% réru sjálfir og þá yfirleitt einir en fimmtungur bátanna taldi tvo í áhöfn. Telja má að tæplega 1000 manns hafi komið að veiðunum 2009. Útgerðaraðilar voru allir karlmenn og flestir komnir á miðjan aldur. Nýliðar í fiskveiðunum voru 20%. Rúmlega 16% sjósettu bát sinn sérstaklega vegna strandveiðanna. Gróflega má áætla að fiskveiðifloti landsins hafi stækkað um 100 báta vegna strandveiðanna. Ásókn reyndist mest í það að gera út frá svæði A, þ.e. Vestfjörðum og Norðvesturlandi. Þar var sóknarharkan mest, þar hefur útgerðarmönnum hlaupið kapp í kinn við veiðarnar. Þeir upplfðu líka töluvert meiri velgengni og efnahagslegan ávinning af veiðunum en gerðist á hinum svæðunum, þ.m.t. svæði C sem er úti fyrir norðausturlandi. Tæplega 30% aflaverðmæta komu á land á svæði C en 40% aflaverðmæta komu á land frá svæði A, Ljóst er að útgerðarmenn á svæðum B og D hafa haft í minna að sækja og gengið verr við veiðarnar. Tölur um ónýttar þorskheimildir á þessum svæðum og minna aflaverðmæti undirstrika þetta. . Það sem kemur á óvart er að það voru ekki bátar á svæði A sem mest báru úr býtum heldur á svæði C. Aflaverðmæti á bát á svæði C var þannig um 2.2. milljónir króna en 1.8 milljónir króna á svæði A. Aflamagn í hverri veiðiferð var að vísu meira á svæði A en tímabilið á svæði C var aftur á móti tvölfalt lengra og fiskverð hærra.  

Um 54 staðir á landinu tóku við afla strandveiðanna og var stærstur hluti aflans þorskur eða 84% Tæplega 20% aflans fóru beint til vinnslu og rúmlega 80% á fiskmarkað. Heildaraflaverðmæti aflans var u.þ.b. 850 milljónir króna.  Yfir helmingur strandveiðisjómanna taldi að þeir hefðu haft minna en 500.000 krónur í nettótekjur af veiðunum en hinn helmingurinn hefur að líkindum haft talsvert meira upp úr þeim.  Yfir helmingur útgerðaraðila taldir veiðarnar vera mikilvægar fyrir afkomu sína. Meðaltekjur strandveiðibáts voru tæpar 1600.000 þúsund krónur. Yfir tugur báta var með aflaverðmæti meira en fimm milljónir króna. Þessir bátar voru allir af svæði B og C  Að mati flestra strandveiðimanna voru gæði aflans almennt mjög góð en munur er á svæðum í því tilliti. Verst komu gæðin út fyrir svæði C og D. Fiskkaupendur og forsvarsmenn 45 fiskmarkaða taka að mestu leyti undir þetta en þó má greina að hluti þeirra eða 30 % svarenda telja að aflinn standist ekki samanburð við annan afla.   Samfélagsleg áhrif strandveiða

Í þessari úttekt var gerð úttekt á samfélagslegum áhrfum og efnahagslegum umsvifum sem vakti athygli mína. Þar skiptust menn í tvo hópa. Helmingur taldi þau hafa verið nokkur eða töluverð en hinn helmingurinn lítill. Áhrifin hafa að mestu snert aukna bátaumferð, mannlíf og sjómennsku í útgerðarbæjunum. Fiskvinnslur, fiskmarkaðir og þjónustuverkstæði eru helst nefnd sem dæmi um atvinnustarfssemi sem hefði notið góðs af veiðunum en 20-30% viðmælenda nefndu þessa þætti: Almennt töldu hagsmunaaðilarnir samfélagslegt mikilvægi veiðanna meira en hið efnahagslega. Í strandveiðibæjum með færri en 1000 íbúa töldu 70% þeirra sem svöruðu að veiðarnar hefðu mjög eða frekar mikið samfélagslegt mikilvægi en þetta hlutfall var 25% fyrir stærri bæina. Af augljósum ástæðum hafa veiðarnar verið fyrirferðarmiklar í minni sjávarplássum en margir af helstu útgerðarbæjum strandveiðanna eru lítil sjávarþorp. Hagsmunaaðiliarnir voru ekki á einu máli um ágæti fyrirkomulagsins og tengsl veiðanna við aðrar leiðir í fiskveiðistjórnun. Tæplega þriðjungur taldi að fyrrvrerandi kvótahafar sem hefðu selt frá sér kvóta hefðu nú möguleika á því að stunda veiðar aftur og að útgerðarmenn gætu leigt frá sér kvóta á meðan á veiðunum stóð. Meirihluti hagsmunaaðilanna taldi svæðisbundinn kvóta geta verið lausn fyrir byggðarlag þeirra. Hagsmunaaðilar skiptust aftur á móti í tvö horn þegar kom að því að meta hvort byggðakvótinn væri sanngjarnari leið en strandveiðarnar. Þeir voru þó ívið vilhallari strandveiðunum í þessu tilliti. Helmingi fleiri voru með því en á móti að strandveiðarnar væri leið til þess að treysta byggð.  Niðurstaða úttektar

Veiðarnar náðu því markmiði að hleypa lífi í minni sjávarbyggðir landsins. Áhrif á samféllög þessara minni staða virðast hafa verið mjög jákvæð en áhrif veiðanna á atvinnulíf eru ekki eins augljós. Byggðasjónarmiðin með veiðunum hafa náðst að því leyti að veiðarnar voru að mestu stundaðar fjarri suðvesturhorni landsins og hafa skipt máli fyrir afkomu útgerðaraðila þar.” Hér lýk ég umfjöllun um samantekt háskólasetursins á Vestfjörðum um reynsluna af strandveiðunum sumarið 2009.  

 Á að hræra í kvótakerfinu og breyta því?

Ég veit ekki til þess að samsvarandi úttekt hafi verið gerð á strandveiðunum sumarið 2010 en ég tel slíkar úttektir til bóta þegar kanna þarf áhrif þessara breytinga á kvótakerfinu á samfélög fólks í sjávarbyggðum. Þá sést hvort við erum að ganga til góðs eða ekki.  

Er rétt  á jafnmiklum óvissutímum og nú ríkja að hræra mikið í kvótakerfinu og breyta því?  En sjávarútvegurinn er undirstöðuatvinnugrein í þjóðfélaginu Sumum finnst að þjóðin megi ekki við að það hrikti í stoðum þess á tímum óvissu og ótta.  Þetta er pólitískt hitamál. Fram hefur komið að íslendingar stunduðu lengi ofveiði, t.d. á þorski, allt upp í 400 þúsund tonn á ári. Þá voru mjög margir á hverju skipi sem þurftu langt að sækja gullið í greipar ægis. Nú skilst mér að það megi einungis veiða um 150 þúsund tonn samtals á ári. Litlir bátar með kannski tveimur mönnum veiða nú jafn mikið og stærri bátar gerðu áður með fleiri sjómönnum. Og þeir þurfa ekki að sækja jafn langt, kannski fyrir það að ofveiði var ekki stunduð á grunnsævi hér áður fyrr.   Upphrópanir stjórnmálamanna

Hafa ekki upphrópanir stjórnmálamanna sem setja sjávarútveginn á pólitískt uppboð um hverjar kosningar  skapað hvað mesta erfiðleika og óvissu í útgerð allt frá upptöku kvótakerfisins til dagsins í dag þar sem þeir eru að verja hagsmuni stóru útgerðarfyrirtækjanna fyrst og síðan almennings í landinu?   Í dag hyggjast stjórnvöld sem telja sig tala máli almennings í landinu taka kvóta frá stærri sjávarútvegsfyrirtækjum og búa til svo kallaða potta og fela sveitarstjórnum út um land, þar sem pólitískir fulltrúar sitja, að úthluta úr þeim. Ugglaust verður þessu fólki vandi á höndum að úthluta svo öllum líki. Það er ekki hægt að mínum dómi nema fundið verði upp einfalt gagnsætt kerfi sem almenningur skilur og samþykkir að gangast undir.  Mér finnst strandveiðikerfið vera kerfi sem almenningur eigi gott með að skilja.  Sveitarfélagið Norðurþing og byggðakvótinn

Ég hef velt því fyrir mér með byggðakvótann hvort ekki væri rétt fyrir sveitarfélagið Norðurþing að leigja kvótann út til nokkurra útgerðaraðila með því skilyrði að aflanum yrði landað á Húsavík. Það fé sem fengist yrði hægt að verja til atvinnu, mennta, samgöngu, og skólamála í sveitarfélaginu.  

Það er uppi krafa hjá ungu fólki að geta farið að stunda veiðar í sjávarbyggðum. Ég tel að nýliðun í þessari grein með þessum hætti geti orðið þjóðinni til góðs, ekki síst út frá byggðasjónarmiðum. Ungt fólk vill geta valið sér búsetu í landinu. Þá verða að vera fyrir hendi skilyrði til að það geti stundað atvinnu og komið sér upp fjölskyldu. Strandveiðar geta komið að gagni í þessu augnamiði  

Rannsóknir hafa sýnt fram á að við strendur Íslands  séu nokkrir staðbundnir stofnar þorsks.  Veðrátta hefur alla tíð stjórnað sókn smábáta og því hafa fiskimið á grunnslóð ekki verið ofnýtt af þeirra völdum.  Hin síðari  ár hefur nokkuð borið á því að stór skip sem gera út á línu sæki á mið nærri landi og inn á firði og flóa.  Af þessu hafa margir smábátasjómenn áhyggjur og telja að ekki eigi að heimila mjög afkastamikil skip svo nærri landi nema að öruggt sé að staðbundnum stofnum þorsks sé ekki hætta búin með þeim veiðum.  Stór skip með afkastamikil veiðarfæri eiga vissulega fullan rétt á sér lengra frá landi og á meira dýpi en ég er þeirrar skoðunar að strandveiðar stundaðar af smábátum skili góðri og hagkvæmri nýtingu á fiskimiðunum næst landi þjóðinni til heilla.  

Í dag lifum við tíma óvissu og ótta. Verða gerðar stórtækar breytingar á fiskveiðikerfinu?  Verða þær þá til góðs eða ills? Hvað verður þá um minn hag? Verður hlutur minn minni en áður?   Af litlum sameiginlegum þorskkvóta er að taka miðað við það sem áður var. Þá er kannski til það kreppuráð að leggja sér fleira til munns en þorsk, ég hefði kannski frekar átt að segja ýsu?  Við höfum aðgang að auðæfum sem í margvíslegu sjávarfangi leynist. Við þurfum að kynna okkur út með ströndum landsins hvort ekki sé hægt að nýta og fullvinna það sem þar er að finna til útflutnings. Ég tel að við ættum í ríkari mæli að fara að fullvinna sjávarafurðir margs konar og flytja þær út, t.d. frá Akureyri, Egisstöðum, Keflavík, allt að því samdægurs á markaði. Sókn er besta vörnin. Við eigum að stíga inn í óttann á tímum óvissu og sækja fram. Ég treysti unga fólkinu til þess en þá þarf að gefa því tækifæri til að sýna hvað í því býr að þessu leyti og skapa því skilyrði til að geta látið drauma sína rætast og jafnframt drauma þjóðarinnar.  Hvernig varð lífið til?

í nýlegri skoðanakönnun kom fram að yfir 60% íslendinga trúa því að lífið hafi orðið til í svokölluðum Mikla hvelli. Við megum ekki gleyma því að auðæfin sem í hafdjúpunum leynast hafa ekki orðið til miklum hvelli.  Þá hefði nú allt steindrepist í djúpi hafsins og ekkert verið þar að hafa sem væri hægt að leggja sér til munns, hvað þá fullnýta til útflutnings.    

Ég segi þetta til gamans en Biblían gengur út frá því að Guð sé skaparinn. Og ég er sæmilega lítið efins um að það sé rétt, af presti að vera. Þegar ég horfi á náttúrulífsmyndir sem sýna undursamlegt líf á hafsbotni þá er jafnan sagt frá því að það séu alltaf að finnast nýjar tegundir sem ekki hafi verið kunnar fólki áður. Svo hefur mér fundist merkilegt hvernig allt líf hefur getað þróast og aðlagast aðstæðum á hafsbotni þar sem gætir lægða og dala og fjalla. Þar þrífast lífverur, bakteríur sem geta lifað í miklum hita. Þær eru þar af ástæðu sem Guð einn veit, ekki satt?  Að iðja sem okkur ber gagnvart sköpuninni

Guð hefur falið okkur að vernda lífið í allri sinni gnægð frá undirdjúpunum djúpu til hæstu fjallstinda á jörðinni. Við megum ekki ganga svo á auðæfi hafsins í græðgi okkar að það komi niður á afkomu okkar og afkomenda okkar. Þess vegna verðum við að setja okkur mörk í ásælni okkar eftir því sem í undirdjúpunum leynast.  

 Lifandi orð á óvissutímum

Tímar óvissu og ótta virðast liðnir um borð í fskiskipum nútímans. En öryggi sjómanna á íslenskum skipum er með því betra sem gerist í heiminum. Ég ætti ekki að alhæfa í þessum efnum frekar en aðrir. Varkárni er alltaf þörf því veður geta fyrirvaralaust gerst válynd  og okkur fallist hugur í háskanum. Sá sem skrifaði lexíu þessa sjómannadags, textann í Davíðssálmi 107, vissi það kannski af eigin reynslu eða annarra sem hann segir að hafi ákallað nafn Drottins, að hann bjargaði þeim þá úr neyð þeirra. Þar segir frá því að Drottinn svaraði ákalli þeirra um hjálp með því að breyta storminum í blíðan blæ og öldur hafsins lægði.  

Pistill dagsins úr Postulasögunni undirstrikar að Páll postuli treystiir Guði, þótt skipskaðii verði þá mun enginn týna lífinu.  

Boðskapur Davíðssálmsins og Postulasögunnar undirstrikar síðan boðskap þessa kunna guðspjalls sem margir myndlistamenn hafa túlkað í verkum sínum. Þar er Jesús með lærisveinum sínum úti á Genesaretvatni þegar mikið óveður skellur á þá. Jesús sefur værum svefni frammi í skut og lærisveinarnir verða mjög hræddir og ákalla nafn Drottins Jesú Krists sem vaknar og segir: ,,Hví eruð þið hræddir, þið trúlitlir? Síðan reis hann upp, hastaði á vindinn og vatnið og varð stillilogn. Jesús hvatti lærisveina sína til að stíga inn í óttann á háskastundu. Það skulum við jafnan leitast við að gera því að þá leysast vandamálin fyrr en ella, ekki síst með hjálp Guðs og góðs fólks.  Fallegur boðskapur sem hæfir þessum sjómannadegi  Guð er með okkur á tímum óvissu og ótta

 Guð er hjá okkur í anda sínum í blíðu og stríðu. Hann er með okkur þegar við búum við óvissu hvað varðar fiskveiðimálefni þjóðarinnar. Hann hvetur okkur til þess að stíga inn í óttann og sækja fram því að sókn er besta vörnin. Guð er líka með okkur þegar við verðum berskjalda fyrir margvíslegum ágjöfum lífsins Guð er gjafari allra góða hluta, alls sem er gott, fagurt og fullkomið. Við skulum gefa honum séns eins og unglingarnir segja. Opna hjörtu okkar fyrir boðskap hans. Þá verður kyrrt innra með okkur, stillilogn, og við heyrum hann hvísla í ljúfum hnjúkaþey sumarsins, í hvissi kjalsogsins, í laufskrúði trjánna, í söng fuglanna og barnanna, í jarmi lambanna, í sköpuninni allri. Þakkið Drottni því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu. Guð gefi okkur vonarríka framtíð.  

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.