Eingetinn eða...

Eingetinn eða...

Það er því ljóst að niðurstaða íslensku þýðingarnefndarinnar er hvorki röng þýðing, afneitun á meyjarfæðingunni né tilraun til blekkingar, heldur studd niðurstöðum færustu biblíu- og grískufræðinga.
fullname - andlitsmynd Sigurður Pálsson
08. nóvember 2007

Ýmsir hafa kvatt sér hljóðs að undanförnu um nýja Biblíuþýðingu. Háværastir hafa þeir verið sem hafa séð útgáfuna sem tækifæri til að tjá fordóma sína og andúð á kirkju og kristni. Aðrir hafa kvatt sér hljóðs af umhyggju fyrir því að frumtextanum sé komið rétt til skila og gleðjast yfir því sem vel er gert og gagnrýnt annað. Það að orðinu "eingetinn" hefur verið skipt út fyrir "einkasonur" á einum stað (Jóh 3.16) er meðal þess sem mest hefur verið rætt. Sú breyting var þó kynnt neðanmáls í Biblíunni útg. 1981. Raunar var öllum stöðum í Jóhannesarguðspjalli, þar sem eldri þýðingar höfðu "eingetinn sonur" breytt i "einkasonur" eða "eini sonur" í þeirri útgáfu.

Svo mikilvægt hefur texta- og guðfræðingum þótt að komast að merkingu gríska orðsins "monogenes" að um það hafa verið skrifaðar margar lærðar ritgerðir. Í ritinu Theologishes Wörterbuch zum Neuen Testament er grein um þetta, þar sem bent er á að hugtakið er ekki eingöngu notað um Jesú, son Guðs, heldur t.d. um Ísak, son Abrahams, son ekkjunnar frá Nain og dóttur Jairusar. Í engu þessara tilvika hefur í íslenskum þýðingum verið notað orðið "eingetinn", nema um Jesú. Í sömu grein er bent á að Jóhs. guðspj. er eina guðspjallið sem notar orðið "monogenes" um Jesú er það ræðir samband Jesú við Guð föður til undirstrikunar á kærleika Guðs sem sendi einkason sinn í heiminn. Jóhannes lýsir þessu sambandi í upphafi guðspjallsins til að undirstrika að orðið, sem var Guð, "varð hold og hann bjó með oss". "Monogenes" vísar því ekki til meyjarfæðingarinnar.

Það vakti umræður um miðja síðustu öld, þegar Revised Standard Version var gefin út, að orðasambandinu "only begotten son" hafði verið skipt út fyrir "only Son". Þýðendur voru ásakaðir fyrir að með því væru þeir að afneita meyjarfæðingunni og guðdómi Jesú. Í grein sem Dale Moody ritaði í Journal of Biblical Litterature, nr. 4, 1953, neitar hann þessum ásökunum, áréttar að þessi ritningarstaður komi meyjarfæðingunni ekkert við, og segir að ástæða breytingarinnar hafi einfaldlega verið niðurstaða ítarlegra, málvísindalegra rannsókna (the plain demands of linguistic study). Að sömu niðurstöðu komst hópur biblíu- og textafræðinga sem unnu að ensku þýðingunni New International Version sem hefur "one and only son". Þessi útgáfa er ein útbreiddasta þýðing Biblíunnar í hinum enska heimi. Í hinni þýsku Einheitsübersetzung, sem unnin var í samvinnu guðfræðinga, bæði kaþólskra og mótmælenda, er notað orðið einkasonur (dass er seinen einzigen Sohn hingab). Það er því ljóst að niðurstaða íslensku þýðingarnefndarinnar er hvorki röng þýðing, afneitun á meyjarfæðingunni né tilraun til blekkingar, heldur studd niðurstöðum færustu biblíu- og grískufræðinga. Þýðingin einkasonur, kemur betur til skila því sem guðspjallamaðurinn vildi sagt hafa um samband Guðs föður og Guðs sonar, með áherslu á það kærleiksverk Guðs að gefa heiminum einkason sinn.

Vegna nýju þýðingarinnar á ávarpi Páls postula, "bræður" í "systkin" eða "bræður og systur" má geta þess að í Intermediate Greek-English Lexicon, sem gefin var út af Oxford University Press 1976, er orðið "adelphoi", sem fram að þessu hefur verið þýtt með "bræður", þýtt með "brothers and sisters".

Það orkar tvímælis hvort svara eigi skætingi og rangfærslum þeirra sem skrifa af illum huga til kirkju og kristni, svo sem skrifum Illuga Jökulssonar. Hann virðist una sér betur í félagsskap Gróu á Leiti en Ara fróða, sem kaus að hafa það sem sannara reyndist. Auk fákænnar umræðu um hugtökin "eingetinn" og "einkasonur" segir Illugi í grein sinni Að breyta bók í blaðinu 24 stundum 27. okt. sl., að það sé "víst búið að breyta" öllum ritningarstöðum, þar sem Jesús talar um þræla, á þann veg að hann tali nú aðeins um þjóna. Telur Illugi þetta gert til að fegra ásýnd Jesú. Eins og annað sem Gróa er borin fyrir er þessi staðhæfing röng. Þessir ritningarstaðir, sem eru fjórir (Mt 20.27; Mk 10.44; Jóh 8.34 og 8.35), eru allir óbreyttir. Svona langt geta menn seilst eftir verkfærum til að smíða sér klubbur til að berja á kirkju og kristni. Sömu ættar eru skrif Óla Gneista í sama blaði hinn 31. okt, þar sem hann reiðir sleggju sína hátt til höggs og fellir dóma á báðar hendur. Talar Óli Gneisti um "kattarþvott ríkiskirkjunnar" í málefnum samkynhneigðra vegna þess að orðinu "kynvillingar" hefur verið sleppt í þýðingunni á 1. Kor 6. 9 og þess í stað sett "enginn karlmaður sem lætur nota sig eða notar aðra til ólifnaðar". Fyrrnefndar erlendar þýðingar hafa hér "male prostitutes" og "homosexual offenders" (NIV) og "Lustknaben" og "Knabenschänder" (Einheitsübersetzung). Einnig þessar breytingar eiga sér rætur í fræðilegri rannsóknarvinnu en ekki í einhverri hentistefnu. Ekki veit ég hvaða virðingu framangreindir menn, Illugi og Óli, bera fyrir eigin störfum og hvort þeir taka mið af því þegar þeir dæma verk annarra. Hitt veit ég að biblíu- og textafræðingar sem vinna að þýðingum biblíutexta stefna ekki fræðimannsheiðri sínum í voða með fúski sem þeir kumpánar ætla þeim.

Höfundur er fyrrv. sóknarprestur og sat í ritnefnd nýrrar biblíuútgáfu.