Ég öfunda þig svo...

Ég öfunda þig svo...

Öfund er uppspretta óhamingju í lífi fólks. Öfundin æðir þegar hamingjan býr ekki í hjarta og huga fólks. Skortur verður alger bölvun þegar öfundin bætist við. Andstæða eða öfundarmeðal?

Í fermingarfræðslunni í haust heyrði ég stundum öfundarsetningar: “Ég öfunda þig svo ... Ég öfunda þig svo af skónum þínum.” “Ég öfunda þig ógeðslega af að mega fara í helgarferð til London!” Ég öfunda þig svo... af þessu... af hinu...” Þessi klifun sló mig og ég fór að spyrja krakkana um hvað þau meintu með svona setningum og svo líka fræða þau um hugtakið, fyrirbærið öfund, eðli hennar og afstöðu. Tilefni öfundar geta verið margvísleg, bíll, hús, börn, vinna, velsæld, útlit, aðstaða, hlutir, græjur eða eitthvað annað.

Margir orða upphátt og viðurkenna blygðunarlaust, að þau langi í það sem aðrir eiga. Hluti af klókindum - og jafnvel líka bælingu fyrri tíðar - var að tala ekki um ágirndarmál sín, öfundarmál og opinbera ekki stefnu sína eða gæðasókn. En nú er flest látið flakka. Á netinu tjá margir tilfinningar sínar umbúðalaust. Bersöglin virðist aukast með hverju árinu. Málfar breytist og það er ekki víst að ungt fólk samtímans öfundi meira en foreldrar þeirra eða afar og ömmur gerðu á sínum tíma. Kannski öfundaði eldri kynslóðin jafnmikið, en sagði það bara ekki berum orðum. Og öfundartjáning getur líka jafnvel verið snúin hrifningartjáning – að segja “ég öfunda þig af...” væri með öðrum orðum að segja: “Mikið er þetta flott... þetta er frábært...þú ert æðisleg...” eða eitthvað í þeim dúr. Margir segja, að eitthvað sé “geðveikt” þegar fólk vill tjá að eitthvað sé sérstaklega gott, fallegt, eftirsóknarvert og ánægjulegt. Ég var þó ekki sannfærður um að öfundin væri bara merkingarumskiptingur og fór því að tala við nokkur fermingarbarnanna um öfund og afstöðu.

Öfund – hvað er hún? Í boðorðunum er sagt skýrt: “Þú skalt ekki girnast....” Þar kemur öfundin við sögu. Biblíuefnið og síðan reynsla kynslóðanna leiddi til að öfund var á miðöldum talin svo skelfileg, að hún var metin til dauðasynda kaþólskrar guðfræði þess tíma (múslimar eru á svipuðum túlkunarslóðum og hafa talið að öfund eyðilegði dyggðir og góðverk manna).

Öfundin hefur jafnan verið túlkuð sem tilfinning, sem sprettur fram í fólki gagnvart einhverju og einhverjum, sem eru eða hafa það sem er umfram það sem viðkomandi á eða er sjálfur. Og vissulega er það mismunandi, sem fólk langar í eða langar að vera. Öfund getur líka verið afleiðing skerts sjálfsmats. Staða hins öfundandi er jafnan staða skortsins, að telja sig þarfnast einhvers, þurfa eitthvað og vilja því fá eitthvað annað en viðkomandi er eða hefur. Hinir öfundandi sækja í stöður, velsæld, sýnileika og viðurkenningu. Öfund er að mínu viti meginlind eða uppspretta óhamingju í lífi fólks. Fátt elur af sér eins mikla vansælu og öfundin. Öfundin elur sín börn skilvíst og þeim fjölgar mest þegar hamingjan býr ekki í hjarta og huga fólks. Því vildi ég tala við fermingarbörnin um þessa uppsprettu hlutdýrkunar, efnishyggju, valdapots, - já um bölvun skortsins. Hin víddin En hver er þá andstæða öfundarinnar? Það er að samgleðjast. Þeir sem geta samglaðst eru ekki fullir af skorti heldur ríkidæmi nægjuseminnar og kannski líka hamingju. Við þurfum að æfa okkur í slíku, æfa okkur að segja ég samgleðst þér, æfa okkur að hrósa og segja: “Mikið er þetta fallegur kjóll, mikið lítur þú vel út, þetta var fallega sagt...” osfrv. Þegar einhver fær vinnu megum við gjarnan segja: Ég samgleðst þér – og við ættum að læra að segja það jafnvel þó við höfum sótt um sama starf líka. Því fylgir jafnvel líkamleg vellíðan að segja: “Ég samgleðst þér.” Þau sem gleðjast með öðrum losna úr álögum vansælu og skorts og geta lifað í fullnægju og örlæti. Munum að fátækur maður getur verið örlátur af lífsgæðum. Þau sem lifa skortinn eru herpt, bæði líkamlega og tilfinningalega.

Innræti og sköpun manneskjunnar Textar dagsins snerta þetta efni og varða allir afstöðu manna til sjálfs, manna og lífs. Í lexíunni segir: “Dramb er falli næst, hroki veit á hrun.” Það er eins og það sé búið að breyta Biblíunni og þetta sé skrifað á Íslandi á árinu 2008! Postulinn höfðar til fólks að það rækti hið innra og iðki gott í hinu ytra. Þetta eru textar um hvernig fólk verður til, hvernig fólk gerir sjálft sig, hvernig fólk lifir – og hlutverk okkar og hamingjuleið er að stælast hið innra og gera gott í hinu ytra.

Guðspjallið er í sama anda. Við heyrum um máltíð, sem Jesús var boðinn til. Þetta er eiginlega kappræðumáltíð. Kappið er ekki fólgið í að borða, að hesthúsa sem mest, heldur að ræða saman, reyna rök, takast á um mikilvæg mál yfir mat. Þó máltíðin væri í heimahúsi var hún þó opinber. Til slíkra máltíða var vitrum mönnum boðið. Þeim var boðinn matur og til þess ætlast að þeir ræddu um og greiddu úr flóknum málum. Þetta var sem sé hús-akademískur fundur, ein útgáfa af samdrykkju, málþing yfir mat – eða til að nota hugtak Lúthers – borðræður. Spekingunum, sem var boðið naut athygli og hafði rétt til að tala og auðvitað líka að neyta matarins. Þessar samkomur voru opnar. Nágrannarnir og áhugamenn möguleika á að sækja fundinn, þótt þeir nytu aðeins reyks af réttunum.

Röðun Nú var Jesús kominn, hefur sjálfsagt verið boðið að háborði. Höfðingjarnir, farisearnir voru komnir og fjöldi annarra, sem vildu hlusta á ræðuna og heyra umræður. Og Jesús var kominn til að ræða stöður manna, goggunarröð, sókn manna í lífsins gæði, hver sem þau eru. Jesús var á öfundarslóðum og benti á, að menn sækjast eftir efsta prikinu eða þrepinu. Og Jesús hafði alltaf lag á að vekja fólk, talaði um það sem hitti, fletti ofan af því sem fólk hugsaði, sendi pílur í takt við aðstæður og varð þar með til að fólk fór að hugsa.

Spurning Jesú þennan dag var: “Hvar er þér vísað til sætis? Ertu sáttur eða sátt við stöðu þína?” Og ein útgáfa þeirrar spurningar er: “Öfundar þú hann og hana sem er raðað ofar?” Til að fá fólk til að hugsa bendir hann síðan á allt öðru vísi röðun, að fólk ætti bara að setjast í sætin, sem enginn vill sem myndi vekja gestgjafann ef hann væri með nokkurri rænu. Veisluprótokoll Jesú er, að menn ættu ekki að vera belgja sig, heldur setjast í óvirðingarsæti. Það er verra að menn séu niðurfærðir en uppfærðir. “Vinur, flyt þig hærra upp!” Sem sé ræðan er um líf og príl fólks, en á bak hana er dýpt lífsins og merking í fangi eilífðar.

Gestgjafinn er ekki venjulegur veislumaður heldur Guð. Það er Guð sem segir “Vinur, flyt þig hærra upp.” Merking þess er að við erum kölluð til góðs lífs, við erum boðin til veislu, sem hefur gæði langt umfram smágildi valdastóla eða eignasöfnunar. Gildi hins efnislega og ytri öfundarefna er lítið í samanburði við hið yfirfljótandi og stórkostlega sem Guð gefur í tíma og eilífið. Hinir smáu öfunda, en hinir vitru sjá hið stóra samhengi. Nærsamfélag manna gefur tilefni til valdapots og brölts þeirra, sem eru ófullnægðir, en sýn til hins stóra guðlega samhengis gefur mönnum hlutverk til þjónustu þvert á leikreglur öfundarinnar. Í ávarpinu vinur er tjáð mannafstaða himinsins. Þú ert vinur Guðs, þú ert í mynd Guðs. Þú raðar þér ekki sjálfur í hinni himnesku veislu. Þú ert vinur af því þú ert guðsbarn. Þú ert verðmætur og verðmæt, ekki af því þú átt eitthvað, hefur afrekað einhver ósköp heldur af því þú ert með líf Guðs í þér. Guð öfundar þig ekki heldur samgleðst þér.

Öfundarprófið Ég hitti fyrir nokkrum dögum stráka úr fermingarfræðslunni. Við stóðum í búðarröð og biðum eftir afgreiðslu. Þeir voru kátir og það var skemmtilegt að ræða við þá. Einn þeirra var í fallegum bol og ég sagði við hann: “Mikið er þetta flottur bolur, sem þú ert í.” Þá gall við í einum félaganum: “Öfundarðu hann af bolnum?” Það var skelmissvipur á spyrjandanum og ég áttaði mig á, að hann hafði heyrt vel það sem presturinn sagði í fermingarfræðslunni og var að skemmta sér og mér með öfundarprófi. Við fórum því báðir að hlægja og ég sagði við hann: “Nei, ég öfunda hann ekki, ég þarf það ekki - en ég samgleðst honum.” “Ég öfunda þig svo...” -eða – “Ég samgleðst þér svo...” Við þurfum reglulega að skoða stefnu okkar og endurskoða lífshætti okkar. Við getum auðveldlega dottið í öfund, valdasókn og sókn í ásýnd í stað hins varanlega. Við ættum að æfa okkur daglega í að samgleðjast – og kannski líka hrósa, þá förum við að horfa á sjálf okkur, samferðafólk okkar og lífsgæðin með augum Guðs. Þá verður líf okkar gæfulegra. Þá hljómar af hæðum í öllu því sem við gerum og erum: “Vinur fær þig ofar.” Ég samgleðst þér svo...

Amen

Prédikun í Neskirkju 26. september 2010.

Sautjándi sunnudagur eftir þrenningarhátíð A

Lexía: Okv 16.16-19 Hve miklu betra er að afla sér visku en gulls og ágætara að afla sér skynsemi en silfurs? Háttur hreinskilinna er að forðast illt, líf sitt varðveitir sá sem gætir breytni sinnar. Dramb er falli næst, hroki veit á hrun. Betra er að vera hógvær með lítillátum en deila feng með dramblátum.

Pistill: Ef 4.1-6 Ég, bandinginn vegna Drottins, áminni ykkur þess vegna um að hegða ykkur svo sem samboðið er þeirri köllun sem þið hafið hlotið. Verið í hvívetna lítillát og hógvær. Verið þolinmóð, langlynd, umberið og elskið hvert annað. Kappkostið að varðveita einingu andans í bandi friðarins. Einn er líkaminn og einn andinn eins og Guð gaf ykkur líka eina von þegar hann kallaði ykkur. Einn er Drottinn, ein trú, ein skírn, 6einn Guð og faðir allra, sem er yfir öllum, með öllum og í öllum.

Guðspjall: Lúk 14.1-11 Hvíldardag nokkurn kom Jesús í hús eins af höfðingjum farísea til máltíðar og höfðu menn gætur á honum. Þá var þar frammi fyrir honum maður einn vatnssjúkur. Jesús tók þá til máls og sagði við lögvitringana og faríseana: „Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?“ Þeir þögðu við. En hann tók á honum, læknaði hann og lét hann fara. Og Jesús mælti við þá: „Ef einhver ykkar á asna eða naut, sem fellur í brunn, mun hann ekki óðara draga það upp þótt hvíldardagur sé?“ Þeir gátu engu svarað þessu.

Jesús gaf því gætur hvernig boðsgestir völdu sér hefðarsætin, tók dæmi og sagði við þá: „Þegar einhver býður þér til brúðkaups, þá set þig ekki í hefðarsæti. Svo getur farið að manni þér fremri að virðingu sé boðið og sá komi er ykkur bauð og segi við þig: Þoka fyrir manni þessum. Þá verður þú með kinnroða að taka ysta sæti. Far þú heldur er þér er boðið og set þig í ysta sæti svo að sá sem bauð þér segi við þig þegar hann kemur: Vinur, flyt þig hærra upp! Mun þér þá virðing veitast frammi fyrir öllum er sitja til borðs með þér. Því að hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“