Innflytjendur og íslensk tunga

Innflytjendur og íslensk tunga

Þó að það séu meiri líkur á samskiptaerfiðleikum ef maður skilur ekki íslenskuna, þá getur maður samt sem áður auðgað samfélagið með margvíslegum hætti.
fullname - andlitsmynd Toshiki Toma
10. júní 2012

Þegar rætt er um málefni innflytjenda á Íslandi er mikilvægi íslenskunnar jafnan ofarlega á blaði. Tungumálið er grundvallarverkfæri fyrir samskipti yfirleitt og auk þess er íslenskan kjarni íslenskrar menningar og hefðar. Það er því skiljanlegt að áhersla er lögð á mikilvægi þess að innflytjendur læra íslenskuna fljótt og vel. Til þess er það afar nauðsynlegt, að þegar mörkuð er stefna í málefnum innflytjenda á Íslandi, að það ríki skilningur á mikilvægi þess að við innflytjendur fáum tækifæri til náms í íslensku og einnig að við notum það tækifæri. Slíkt er eftirsóknarverð stefna.

Hins vegar er það líka mikilvægt að horfa á raunverulega stöðu innflytjenda í samfélaginu. Hver sem rökin eru fyrir mikilvægi íslensku fyrir innflytjendur, þá snýr þetta alltaf að þeim sjálfum og það eru á endanum alltaf einhverjir sem ekki geta lært íslenskuna nógu vel af einhverri ástæðu. Viðkomandi getur verið orðinn mjög fullorðinn og átt erfitt með að læra nýtt tungumál, einstæð móðir með lítil börn, haft einhvern námserfiðleika, unnið langan vinnudag osfrv.

Og hvernig er þá litið á þá ef ekki er tekið tillit til ólíkra einstaklinga, heldur aðeins horft á málefnið út frá þeirri kröfu að allir verði að kunna íslensku? Mér sýnist það sé dulin tilhneiging enn til staðar í samfélaginu að álíta innflytjanda sem kann ekki íslensku eins og hann sé ekki ,, góður innflytjandi“ eða jafnvel ,, samfélagslegt álag“.

Það er ekki gott ef innflytjandi sem vill ekki læra íslensku, þó að hann hafi til þess alla möguleika, kvartar síðan yfir samskiptaerfiðleikum í landinu. En sú staðreynd að innflytjandi getur ekki talað íslenskuna þýðir alls ekki sjálfkrafa að hann nenni ekki að læra hana. Auk þess er raunin sú að margir innflytjendur sem ekki kunna íslensku vel, leggja þó mikið af mörkum inn í íslenskt samfélag.

Ef ég skoða aðeins í kringum mig þá starfa margir sem leiðsögumenn og taka á móti hundruðum ferðamönnum frá heimalandi sínu, aðrir starfa sem tungumálskennarar í skólum og margir Íslendingar njóta þjónustu þeirra. Einnig er oft bent á það, í umræðunni um vinnumarkaðinn almennt, að innflytjendur sinna þar störfum sem Íslendingar kæra sig ekki um.

Þannig er það mikil þröngsýni að telja einhvern vera ,, samfélagslegt álag“ ef viðmiðið er aðeins kunnátta viðkomandi á íslenskunni. Þó að það séu meiri líkur á samskiptaerfiðleikum ef maður skilur ekki íslenskuna, þá getur maður samt sem áður auðgað samfélagið með margvíslegum hætti.

Ég er ekki að halda því fram að innflytjendur þurfi ekki að læra íslensku. Þvert á móti er ég fyllilega sammála því að leggja þurfi mikla áherslu á mikilvægi íslenskunnar fyrir alla innflytjendur. En samt má það ekki verða að viðmiði til að meta mannlegt og samfélagslegt virði manneskjunnar, hvort viðkomandi sé með nægilega þekkingu á íslensku eða ekki. Ég hef sagt þetta mörgum sinnum á undanförnum árum og ætla að halda áfram að endurtaka þetta, svo lengi sem umræðan verður um innflytjendur og íslenska tungu.