Eineltissagan af Jesú

Eineltissagan af Jesú

Það er von okkar og bæn að það myndist samstaða um það meðal þjóðarinnar að útrýma einelti úr samfélagi okkar, en til að það geti orðið þurfum við öll að sýna það hugrekki að mótmæli samskiptum valdbeitingar og ofbeldis í hvaða mynd sem þau birtast.

Sagan af Jesú er í eðli sínu eineltissaga.

Jesús var hylltur sem konungur af íbúum Jerúsalemborgar á pálmasunnudegi og nokkrum dögum síðar var það sannfært um að hann yrði að taka af lífi að ósekju. Eins og í öllu einelti birtist ofbeldið í hjarðhegðun þeirra sem taka þátt í eða samþykkja ofbeldið, allt að því hugsunarlaust.

Það er auðvellt að skilja þörf valdastéttar Jerúsalem til að koma böndum yfir þennan mann, sem ógnaði völdum þeirra og valdakerfi með boðun sinni, en Jesús fór ófögrum orðum um valdbeitingu hinna gyðinglegu presta og stjórnmálaaðals Rómverja.

Skelfilegasta birtingamynd illskunnar er í viðbrögðum fólksins, sem lét ofbeldið yfir sig ganga og mótmælti því ekki, annaðhvort af ótta við að verða sjálf fyrir sömu örlögum eða sökum þess að þau fundu ekki að málið varðaði það persónulega.

Því er lýst í Jóhannesarguðspjalli að prestastéttin hafi egnt fólkið áfram í að úthrópa Jesú ,,krossfestið hann” og þannig beitt fólkinu fyrir sig í ofbeldi sínu. Sömu lögmál hjarðhegðunar hafa tekið á sig skelfilegar myndir þegar ofbeldismenn rísa til valda í samfélögum og ofbeldið birtist í sinni skelfilegustu mynd, með þjóðarmorðum og útskúfun þeirra sem ekki tilheyra meirihlutanum.

Kristindómurinn sem átrúnaður snýr þessari eineltissögu, sem í kjarna sínum birtir ljótustu hliðar mannlegs eðlis, upp í andhverfu sínu. Krossinn, sem í höndum Rómverja var hrottalegasta aftökutæki síns tíma og notaður sem táknmynd fyrir ótta og þöggun, verður í kristindóminum tákn fyrir upprisu, líf, von, sigur og kraft. Hápunktur messunnar, altarisgangan, hefst með því að rifja upp svik og ofbeldi í garð Jesú og minnist síðustu kvöldmáltíðar hans með fylgjendum sínum.

Með því að setja svik, einelti og morð á hinn helgasta stað er ekki verið að upphefja ofbeldi eða réttlæta það, heldur einangra. Það sem er heilagt, er í eðli sínu frátekið, og á helgasta stað kirkjunnar er orðaður sá þáttur í mannlegu eðli, sem er ljótastur og krefur okkur til að taka ábyrð á eigin syndum. Þegar ofbeldið er orðað á helgasta stað meiðir það ekki, heldur veitir þeim sem orðið hafa fyrir ofbeldi vettvang til að samsama sig með Jesú og hugrekki til að orða það ofbeldi sem það hefur þolað í sínu lífi. Í stað þess að borða saman í meðvirkri afneitun á að við séum öll góð og að allt sé í góðu, horfumst við í augu við vandann og tökum í auðmýkt ábyrgð á okkur þætti hans.

Einelti er ekki einstaklingsbundið ofbeldi, heldur félagslegt, og þó auðvellt sé að benda á gerendur og þolendur er ábyrgðin á herðum okkar allra. Það er einföldun að líta svo á að einelti sé vandamál bernskunnar, það einelti sem fer fram í samfélagi barna er spegilmynd af samfélagi fullorðinna. Einelti á sér stað í fjölmiðlum, í stjórnsýslunni, á vinnustöðum og í íslensku Þjóðkirkjunni, óáreitt og með samþykki fullorðinna, sem sjálfir myndu ekki telja sig ofbeldisfólk.

Sú von sem kristin kirkja boðar, jafnt til þolenda og gerenda eineltis, felst í því hvernig kirkjan umgengst hið heilaga og í sögunni af Jesú Kristi. Í helgidómi Guðs erum við örugg og getum orðað sársauka okkar án þess að eiga það á hættu að vera meidd; í guðsþjónustunni er horfst í augu við ofbeldið og okkur gefið tækifæri til að líta í eigin barm, játa syndir okkar og standa sem jafningjar við altari Guðs; og í sögunni af Jesú Kristi öðlumst við fyrirmynd um mann sem hafði hugrekki til að rísa upp gegn kerfisbundnu ofbeldi síns tíma og gaf fyrirheiti um að við stöndum ekki ein í lífinu.

Biskup Íslands, Frú Agnes Sigurðardóttir, hefur hvatt kirkjur landsins til að hringja bjöllum á degi gegn einelti 8. nóvember og Laugarneskirkja mun ekki skorast undan því. Það er von okkar og bæn að það myndist samstaða um það meðal þjóðarinnar að útrýma einelti úr samfélagi okkar, en til að það geti orðið þurfum við öll að sýna það hugrekki að mótmæli samskiptum valdbeitingar og ofbeldis í hvaða mynd sem þau birtast.