Aftur til framtíðar

Aftur til framtíðar

Það er mikil blessun að fá að njóta krafta sjálfboðaliða í kirkjustarfinu. Bæði þeirra sem sýna trúfesti gagnvart kirkjunni sinni og koma hér sunnudag eftir sunnudag til að leggja hönd á plóg, en líka þeirra sem eru tilbúin að leggja á sig langt ferðalag, til lands sem þau þekkja ekki neitt, og nota bæði sinn eigin tíma og fjármagn í það að verða öðrum blessun og uppörvun.
fullname - andlitsmynd Arna Ýrr Sigurðardóttir
23. janúar 2013

Fyrir 24 árum síðan fór ég á Biblíuskóla. Svokallað Discipleship Training School á vegum Youth With a Mission, á Eyjólfsstöðum á Héraði. Ég ákvað þetta því að mig langaði að læra meira um Guð, um það að vera lærisveinn hans og ganga með honum. Ég dvaldi ásamt góðum hópi fólks á Eyjólfsstöðum í 3 mánuði og stúderaði Biblíuna, lærði ýmislegt um Guð og enn meira um sjálfa mig. Eftir skólann tók við 2 mánaða boðunarferð, sem er alltaf hluti af þessum námskeiðum. Það var ákveðið að fara í boðunarferð til Akureyrar, sem var heimabær nokkurra okkar sem vorum í skólanum. Við dvöldum á Akureyri, gistum í kristniboðshúsinu Síon, og, merkilegt nokk, þá var starfsstöðin okkar Glerárkirkja. Þá var þar sóknarprestur sr. Pétur Þórarinsson, og hann tók okkur og okkar framlagi inn í kirkjustarfið fagnandi. Við héldum samkomur undir yfirskriftinni ,,Ný dögun” auk þess sem við komum að unglingastarfi.

Það er sérstök tilviljun (nema það sé bara engin tilviljun!) að nú er staddur boðunarhópur í Glerárkirkju frá sömu samtökum. Eins kom hingað hópur fyrir tveimur árum, þannig að þetta er í þriðja skiptið sem Glerárkirkja nýtur krafta YWAM í kirkjustarfinu. Nú er ég orðin prestur í Glerárkirkju og við hér njótum þess að hafa hér frábæran hóp ungmenna frá Montana sem aðstoðar okkur í starfinu, þau taka þátt í fermingarfræðslunni með dansi, söng, leikjum og vitnisburðum. Svo ætla þau að vera með okkur í messu á sunnudaginn, og á föstudagskvöldið kemur (25. janúar) verður samkoma hér í kirkjunni, sem þau leiða.

Það er mikil blessun að fá að njóta krafta sjálfboðaliða í kirkjustarfinu. Bæði þeirra sem sýna trúfesti gagnvart kirkjunni sinni og koma hér sunnudag eftir sunnudag til að leggja hönd á plóg, en líka þeirra sem eru tilbúin að leggja á sig langt ferðalag, til lands sem þau þekkja ekki neitt, og nota bæði sinn eigin tíma og fjármagn í það að verða öðrum blessun og uppörvun. Við í Glerárkirkju erum þakklát fyrir allt þetta góða fólk og biðjum Guð að blessa líf þeirra og starf.