Líf í hendi - kristniboð

Líf í hendi - kristniboð

Er kristniboð til einhvers? Tölur eru ekki allt, en geta orðið okkur skilningsauki. Í sem stystu máli eru þessar kirkjur einhverjar mestu spútnikkirkjur í heimi. Í Konsó í Eþíópíu hafa íslenskir trúboðar starfað í fimmtíu ár. Á “íslenska” svæðinu eru nú nærri hundrað söfnuðir með um 40.000 meðlimi. Konsóþjóðflokkurinn er samtals um 180.000 manns. Kirkjan er því orðinn nærri fjórðungur þjóðarinnar og hefur því mikil áhrif á samfélag Konsómanna, er að breyta því til góðs um flest. Ýmsir lífsfjandsamlegir siðir hafa verið aflagðir eða eru á undanhaldi. Kristnin hefur valdið byltingu á öllum stigum og sviðum.

Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar. Guðspjall kristniboðsdags - Mattheusarguðspjall 28.18-20

Fjör heims er í höndum manna – okkar höndum. Það skiptir máli hverju við trúum og hvernig málum samfélags og menningar er skipað. Heimsþorp okkar er þrúgað af átökum. Við eigum aðild að öllum vanda og vegsemd veraldar. Gegn misrétti, kúgun, ójöfnuði, þjáningu, stendur boð Jesú Krists. Farið og kristnið allar þjóðir, skírið, kennið... Prédikun í Neskirkju á kristniboðsdegi, 2004, fer hér á eftir.

Sár og kærleikur

Móðir Theresa (1910-97) var sem engill af himnum í fátækrahverfunum í Kalkútta á Indlandi. Hún líknaði sjúkum og gerði allt sem hún gat til að lina þrautir. Einu sinni fékk amerískur ferðamaður að fylgja henni eftir og horfði stóreygur á þegar Theresa þvoði hryllilega útlítandi og illþefjandi sár holdsveikisjúklings. Kaninn dró sig til baka og sagði svo við móður Theresu þegar hún hafði lokið verki sínu. “Þó mér væru boðnir milljón dollarar myndi ég ekki vilja þvo svona sár.” Theresa brosti og sagði án hiks: “Ekki ég heldur.”

Hvað þarf til að fólk beygi kné og líkni deyjandi fólki? Hvað veldur, þegar fólk snýr baki við velsæld, öryggi og ríkidæmi og fer í ótryggar aðstæður fjarri heimahögum til að berjast fyrir bættu heilbrigði, réttindum kvenna, atvinnuuppbyggingu, menntun, mannréttindum og að líkna þurfandi? Ekki eru það fjármunir, frægð eða völd. Í hvaða höndum er slíkt fólk? Getur verið að guðleg köllun hafi hrifið það, elska sem strýkur hug og knýr til starfa?

Kristniboðsdagur

Í dag er kristniboðsdagur þjóðkirkjunnar, að venju annan sunnudag í nóvember. Í kirkjum landsins er starf kristniboðanna kynnt og fólk hvatt til stuðnings. Íslendingar eru nú að störfum í Eþíópíu og Kenýju. Á vegum þessa starfs eru reknar heilsugæslustöðvar, sem þjóna og líkna tugum eða þó líklega nær hundrað þúsund manns árlega. Skólastarf og menntun hefur ávallt verið mikilvægur starfsþáttur kristniboðs. Íslenskt kristniboð hefur byggt upp eða beitt sér fyrir byggingu og starfi nær 40 skóla í Pókothérði í Kenýju. Þá eru ónefndir allir skólarnir í Eþíópíu. Stuðlað er að menntun og bættri stöðu kvenna. Þekkingu er miðlað um landbúnað og ræktunaraðferðir, mataræði og nytjajurtir. Frætt er um heilsuvernd og forvarnir gegn sjúkdómum. Í hvaða höndum er fólk, sem þetta vinnur og þetta vill?

Boð Krists

Af hverju kristniboð? Af hverju gefa Íslendingar tugi milljóna árlega til að reka þetta starf? Vegna þess að margir Íslendingar hafa eins og móðir Theresa tekið alvarlega það kærleiksboð Jesú Krists að fara, kristna, skíra og kenna. Þau, sem hafa gerst kristniboðar, hafa síðan kynnst því að hvarvetna er brýn ástæða til að miðla þekkingu okkar á sviði menntunar og heilsugæslu. Víða þar, sem kristniboð er stundað, er ástand bágborið vegna stéttaskiptingar, misréttis, kynjamismununar og kúgandi átrúnaðar. Kristniboð er stundað að fordæmi Jesú sjálfs. Orðum hans fylgdu ávallt kærleiksgjörðir. Velferð manna var ekki aðeins mál sálar og eilífs lífs, heldur jafnframt líkamleg, félagsleg, tilfinningaleg, menningarleg og heilsufarsleg velferð.

Löng saga

Kristniboðsáhugi er engin ný bóla á Íslandi. Þegar á nítjándu öld voru til prestar, sem hvöttu til boðunar kristni meðal fjarlægra þjóða. Sr. Jón Jónsson í Möðrufelli í Eyjafirði safnaði fé, sem hann sendi til Danmerkur til kristniboðsfélaga þar. Hann hélt uppi kynningu á kristniboði í smáritum sínum. Helgi Thordersen, biskup, var einnig áhugamaður um kristniboð. Fyrir öld var svo stofnað kristniboðsfélag kvenna til að styðja við trúboðið. Á þriðjudaginn síðasta, 9. nóvember, varð þetta félag 100 ára. Það sendi fé til að styrkja vestur-íslenskar konur til kristniboðs í Kína. Þá aflaði það fjár til að greiða götu Ólafs Ólafssonar til starfa í Kína, einnig Jóhanns Hannessonar, síðar prófessors og háskólarektors. Báðir áttu norskar öndvegiskonur, Herborgu og Astrid. Síðan hefur fjöldi Íslendinga verið að störfum í Eþíópíu og Kenýju. Mörg kristniboðsfélög hafa síðan verið stofnuð og við ættum að íhuga að stofna hjálpar- og kristniboðsfélag í okkar söfnuði. Og það er gleðilegt að sóknarnefnd hefur ákveðið að leggja árlega milljón til líknarstarfs í Eþíópíu.

Mesta hraðvaxtarkirkja heims

Er þetta starf til einhvers? Tölur eru ekki allt, en geta orðið okkur skilningsauki. Í sem stystu máli eru þessar kirkjur einhverjar mestu spútnikkirkjur í heimi. Í Konsó í Eþíópíu hafa íslenskir trúboðar starfað í fimmtíu ár. Á “íslenska” svæðinu eru nú nærri hundrað söfnuðir með um 40.000 meðlimi. Konsóþjóðflokkurinn er samtals um 180.000 manns. Kirkjan er því orðinn nærri fjórðungur þjóðarinnar og hefur því mikil áhrif á samfélag Konsómanna, er að breyta því til góðs um flest. Ýmsir lífsfjandsamlegir siðir hafa verið aflagðir eða eru á undanhaldi. Kristnin hefur valdið byltingu á öllum stigum og sviðum.

Eins og Nessöfnuður er hluti af þjóðkirkjunni íslensku er Konsókirkjan hluti af lúthersku Mekane Yesus kirkjunni í Eþíópíu (kirkjuheitið merkir: Þar sem Jesús býr). Hún var stofnuð árið 1959 og þá voru meðlimir hennar um 20.000. Fjörutíu og fimm árum síðar eru meðlimir orðnir fjórar milljón talsins! Engin lúthersk kirkja í heiminum vex jafnhratt.

Svipuðu máli gegnir um hina afrísku dótturkirkju okkar, sem er í Pokóthéraði í Kenýju. Þar hófst trúboð 1977 og á aldarfjórðungi hefur orðið til kirkja sem er mun fjölmennari en allur Nessöfnuður, sem er næst stærsti söfnuður á Íslandi. Á aldarfjórðungi hafa nærri fimmtán þúsund manns gengið Kristi á hönd. Eftir nokkur ár má búast við að fjöldin verði tvöfaldur á við okkar sókn eða eins og allur Vesturbærinn. Hvílík bylting. Yfir fjörutíu skóla rekur kristniboðið í þessu samfélagi. Hvílík blessun.

Hvers vegna fórna menn lífi og heilsu fyrir þessa hugsjón að boða fjarlægum þjóðum, ókunnu fólki Krist? Af hverju leggja menn sig og sína í hættu við trúboðs- og lækningastörf, vera öðrum sem Kristur? Er það ævintýralöngun? Er það vegna einhvers menningarlegs hroka? Nei, það er vegna þess að til er meistari, sem vill hjálpa öllum og hefur tjáð skýrt með verki og orðum þann vilja sinn, að allar þjóðir fái að heyra boðskapinn um ást Guðs. Við erum hluti af því verki, sem umspennir allan heiminn, varðar alla veröld. Í hvaða höndum er þessi heimur?

Fugl í hendi

Í gamalli sögu segir frá vitrum manni, sem sagt var að gæti svarað öllum spurningum. Drengur einn hafi heyrt af honum og hugsaði með sér hvernig hann gæti rekið vitringinn mikla á gat. Eftir mikla yfirlegu rak hann augu í lítinn fugl, sem hann átti í búri. Þá datt honum ráð í hug. Hann ætlaði að fara með fuglinn í hendi svo aðeins stélfjaðrirnar sæjust. Síðan ætlaði hann að spyrja þann spaka hvort hann héldi, að fuglinn væri lifandi eða dauður. Strákur hugsaði með sér: Ef hann segir að fuglinn sé á lífi ætla ég að kreista hann svo hann deyi og sýna hann svo. Ef hann segir, að fuglinn sé dauður ætla ég að opna lófann og sleppa fuglinum upp í himininn.

Drengurinn skundaði til fundar við spekinginn og bar upp spurningu sína. Vitringurinn horfði djúpt í augu hans, las huga hans. Drengurinn var tilbúinn að bregðast við, en svo kom svarið óvænt. “Hvort fuglinn lifir eða deyr er algerlega á þínu valdi, drengur minn. Það er háð þér.” Drengurinn lyppaðist niður og viskan seig í dýptir sálar hans.

Á okkar valdi

Fjör heims er í höndum manna – okkar höndum. Það skiptir máli hverju við trúum, hvernig við skipum málum samfélags og menningar. Heimsþorpið okkar er undirlagt átökum. Sprengjur springa í borgum um allan heim, skothríðin dynur í mörgum heimsálfum, milljónir manna líða stríðsskelfingar. Engin þjóð er fjarri heimsins vígaslóð, ekki við heldur. Við eigum aðild að öllum vanda og vegsemd veraldar.

Við erum líka aðili að hvernig við förum með fjör náttúrunnar. Neysla okkar, lífshættir okkar eru líka ákvörðun um hvernig við sem einstaklingar og þjóð viljum að náttúran lifi eða deyi. Munur á milli ríkra og fátækra vex. Er það rétt og viljum við það?

Farið, kristnið, skírið, þjónið

Gegn misrétti, kúgun, ójöfnuði, þjáningu, stendur boð Jesú Krists. Allt vald er mér gefið á himni og jörðu, farið því og kristnið allar þjóðir, skírið, kennið...

Það er háð okkur. Þú heldur á fugli í hendi þinni. Á þínu valdi er hvort börn deyja í Eþíópíu, hvort læknisþjónusta berst í Kenýju. Í okkar höndum sameiginlega er fólgin framtíð mannkyns. Munum við deyða, eða munum við vakna til meðvitundar um að við berum ábyrgð, að við erum samverkamenn Guðs.

Í hvaða hendi ert þú? Í hvaða hendi er heimur okkar. “Farið” segir Kristur, Sleppið lífi heimsins úr greipum heljar, leyfið lífinu að blómstra. Guð elskar þennan heim, heldur honum í sinni hendi og sendir fólk til starfa, til að hreinsa sár heimsins.

Amen