“Virðandi nærvera”

“Virðandi nærvera”

Svo er sem það komi ætíð jafnmikið á óvart hve grunnt er á hryggð sorgar og hve auðvakin hún er, jafnvel þó langt geti verið um liðið frá missi og þau sem eftir lifa í alla staði aftur aftur farin að finna sig vel burðug og gild.
fullname - andlitsmynd Gunnar Rúnar Matthíasson
08. nóvember 2007

Hugleiðing af tilefni allra heilagra messu 2007

Allra heilagra messa er minningardagur látinna, dagur þar sem komið er saman til bæna, til að bera fram minningar um ástvini sem gengin eru. Það er viðkvæmur dagur á þann veg að það er sárt að hafa þurft að skiljast að. Hann er viðkvæmur á þann veg að það kann að kalla fram tár að nefna látinn ástvin og þau sem í kring eru vilja þá oft finna til varnarleysis gagnvart hryggð sorgarinnar. Svo er sem það komi ætíð jafnmikið á óvart hve grunnt er á hryggð sorgar og hve auðvakin hún er, jafnvel þó langt geti verið um liðið frá missi og þau sem eftir lifa í alla staði aftur aftur farin að finna sig vel burðug og gild.

Mörgum kann að líka illa við daginn sökum þessa, og mörg eru þau á meðal okkar sem fylgja því lífslagi að vilja ekki hafa orð á neinu því sem erfitt kann að þykja. Þau vilja ekki íþyngja öðrum eins og gjarnan er sagt og telja sig þannig geta haldið hlífiskildi hvert yfir öðru og sýnt náunga sínum tillitssemi. Vel má hugsa sér tilvik þar sem þetta getur átt við en oftar vekur þetta mér meiri ótta en tár fá gert. Ég tel langtum meiri ástæðu til að óttast hvað þetta getur gert öðrum en hitt að fólk þurfi að óttast að vita ekki hvað það á að gera frammi fyrir hryggð og sorg meðbróður eða meðsystur. Að bera hlífiskildi yfir og vilja þannig verja annan getur svo auðveldlega snúist upp í andhverfu sína, hlífiskjöldurinn orðið sem veggur og verndin sem útilokun í upplifun þess sem hennar á að njóta.

Er þá réttara að taka hinn pólinn, ganga til beint til syrgjenda, nefna sorg þeirra og hafa allt uppi á borðinu eins og oft er sagt? Væri hjálplegra að fara þannig að? Ég þarf vart að segja mikið um þennan kost því á sama hátt og hlífðin getur gengið of hart fram þá getur þetta auðveldlega orðið of ákaft. Þegar komið að mjög beint að þeim sem misst hafa, eða eru viðkvæm fyrir, þá er sem þeim sé stillt upp á afar óþægilegan veg, þau geta fundið sig berskjölduð og upplifað slíka tilraun til hreinskiptni, sem hún sé bein árás. Afleiðingin verður í það minnsta óþarfa álag ef ekki beinn skaði í samskiptum þeirra sem hlut eiga að máli.

Hvað er þá til ráða ef varhugavert er að bera hlífiskildi yfir og varhugavert að ganga beint og opinskátt að hvert öðru? Jú það er meðalhófið sem gildir, kann einhver að segja og vissulega er einhver sannleikur í því. En villan er þó að mínu viti fremur önnur en hve langt við göngum, hún felst í því að við horfum um of á aðferðina sem við beitum í samskiptum frammi fyrir sárum og sorg annarra. Villan er helst í því að gleyma náunganum sjálfum, bróður okkar eða systur sem misst hefur. Það er hann eða hún sem þarf að geta sagt með einhverju móti hvenær gott væri að við bærum hlífiskildi yfir hana eða hann. Það er hann eða hún sem þarf að geta gefið til kynna og ráðið hvar, hvenær og hversu mikið við segjum. Spurningin snýst nefnilega ekki svo mikið um hvað við gerum, eða hvaða aðferð við fylgjum við að vera nærverandi á viðkvæmum stundum. Heldur er spurningin, hvort við erum læs á eða reynum yfirleitt að lesa hvert í viðbrögð annars. Hún snýst um hvort við gefum gaum að og erum tilbúin til að hlusta með okkar innri eyrum. Erum við nógu huguð til að spyrja hvort það sé viðmælanda okkar á móti skapi að við spyrjum eða orðum sorg þeirra á þann veg sem við gerum. Spurningin er hvort við gefum gaum að og hlustum nærfærið hvert á annað, sem bræður og systur, í vinnu eða einkalífi, í fámenni eða þar sem fleiri eru saman komnir.

Hvers þörfnumst við helst þegar við finnum til, þegar við höfum orðið fyrir alvarlegu mótlæti, missi eða sorg.

 Þegar ég finn til þá er mér þörf nærveru einhvers sem þolir að vera hjá mér er mér líður illa, einhvers sem þolir og þorir að sjá og reyna sárindi mín.  Þegar ég finn til er mér þörf einhvers sem veður ekki yfir mig á skítugum skónum heldur hefur áhuga á að vera hjá mér og fara varfærnum og virðandi huga um það sem varðar mig svo miklu.
Á minningardegi látinna, er staðreyndin sem við lyftum upp vissulega sá sári raunveruleiki að við höfum misst, en það er ekki allur raunveruleikinn, heldur einnig hitt að við höfum átt. Sá eða sú sem við söknum og syrgjum hefur verið, átt sér lifandi líf, drauma og vonir, háð sínar glímur, átt sína sigra og mætt sínu mótlæti, verið lifandi einstaklingur rétt eins og við. Og sá einstaklingur sem var, sá eða sú sem við elskuðum, nutum samvista við og áttum svo margt með, verður aldrei liðin tíð eins og verkfæri, hlutur eða klæði sem við höfum átt. Lifandi einstaklingur hefur mótað, haft áhrif og markað vitund og líf þeirra sem hann eða hún var í samskiptum við. Því er það ljóst að hversu ágengur sem dauðinn kann að vera þá fær aldrei afmáð lífið.

Hver sá sem lifað hefur, mun aldrei hverfa úr lífi þeirra sem hann hafa þekkt og elskað. Arfleifð er meira en hugarfóstur eða fjarlæg minning, hún er lifandi veruleiki, áhrif sem vara í lífi þeirra sem lifa. Hún er og verður nærtæk jafnvel löngu eftir að viðkomandi er fallinn frá.

Því er það að við minnumst látinna hvert fyrir sig og þegar við komum saman. Það er ekki óður til gærdagsins, eins og Bítlarnir sungu um í frægri ballöðu, sem lofaði þann tíma sem var, áður en áhyggjur og verkefni dagsins í dag urðu til. Við minnumst látinna til að styrkja rætur okkar, til að efla og draga fram dýrmæta hornsteina lífs okkar. Og það er meira. Við minnumst látinna til að minna okkur á að lífið er meira en hverfandi augnablik. Það á sér rætur og það á sér tilgang, þar sem hvert og eitt okkar hefur ábyrgð frammi fyrir skaparanum sjálfum, ábyrgð sem við stöndum ekki skil á síðar heldur nú, í því hvernig og hvað við leggjum til lífsins í dag.

“Þér eruð salt jarðar” segir í ritningunni. Við, hvert og eitt erum sem saltið, sem hljóðlega smýgur, hefur áhrif, mótar og þroskar það sem það kemst í snertingu við. Það hefur ekki áhrif ef því er haldið frá, ekki frekar en ljósið lýsir nokkrum til gagns nema því sé þannig komið fyrir að bjarma þess geti borið niður þar sem fólk er. Ritningin spyr:“Ef saltið dofnar, með hverju á þá að selta það”. Það er áminning til okkar um að við gefum færi á okkur. Ljós sem undir mæliker er sett er engum til gagns. Það verður aðeins til gagns ef því er lyft fram og komið fyrir þar sem það sést. Aðeins þá gefst færi til að þau sem það vilja, geti borið í bjarma þess það sem þau vilja sjá.

Þannig þurfum við að vera gagnvart bræðrum okkar og systrum sem syrgja ástvini. Við stígum fram og gefum færi á okkur, gefum færi á að minnast á þann veg, að birta nærverunnar, virðingarinnar og samskiptanna megi lýsa upp minninguna sem deilt er. Þannig fá fleiri að sjá og njóta þess sem látinn bróðir eða systir hefur gefið og verið. Virðingin og þökkin haldast þá í hendur og nýta sér stuðning og lærdóm genginna bræðra og systra.

Já við minnumst látinna í trú, sem ekki hopar undan dauðanum heldur stendur stöðug og trúir Guði fyrir þeim sem gengin eru. Þau lifa og eru Guði falin. En trúin er virkur og knýjandi veruleiki lífsins, hún þakkar og biður styrks og stuðnings til handa þeim sem lifa. Því biðjum við dag hvern að við megum vinna ljóssins verk á meðan dagur er. Við biðjum að við megum reynast bræðrum okkar og systrum vel og virða líðan þeirra og vera hjá þeim á viðkvæmum stundum lífs þeirra.