Truflar Guð ?

Truflar Guð ?

Að trufla eða valda ónæði þýðir að við okkur er hreyft, athygli okkar er beint að einhverju öðru en við erum að sinna, eitthvað raskar einbeitingu okkar. Og það er það sem Guð gerir. Hann vill hreyfa við okkur, vekja athygli okkar á einhverju sem honum finnst rétt að við hugum að, hann truflar hið reglufasta líf okkar – til góðs.
fullname - andlitsmynd Svavar Stefánsson
25. desember 2006
Flokkar

Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er. Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna. Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð, sem sonurinn eini á frá föðurnum. Jóhannesarguðspjall 1:1-4,14
Ég óska ykkur öllum gleðilegrar jólahátíðar og Guð gefi okkur góða jóladaga.

Litli snáðinn hafði fengið það hlutverk í helgileiknum í kirkjunni að lesa jólatextann úr Jesajabókinni, þann sem við lesum gjarnan á jólum, um fæðingu Jesúbarnsins, „Því að barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla. Nafn hans skal kallað Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi.“. Hann æfði sig af kostgæfni því hann átti að fara með versið utanað. Hann skrifaði orðin á marga gula miða og nældi þá í gardínurnar heima, handklæðin á baðinu, dúkinn á borðinu, hvar sem því var við komið. Og hann fór yfir textann oft í hljóði. Svo rann upp stóra stundin í kirkjunni að hann átti að koma fram með vinum sínum og flytja helgileikinn. Hann hóf upp rödd sína og las hiklaust: „Því að barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla. Nafn hans skal kallað Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir... “. En æ. Eitt orð var eftir þegar farsími hringdi hátt í vasa eins kirkjugestanna og truflaði drenginn við lesturinn og hann missti þráðinn. Hikandi byrjaði hann aftur. „Barn er oss fætt...“ og hann hélt áfram þar til kom að síðasta orðinu, friðarhöfðingi. Hann mundi það ekki og í skömm hneigði hann höfuðið og starði á peysustroffið við buxnastrenginn. En þar voru stafir á gulum fleti. Hann leit upp og brosti tárvotum augum og lauk setningunni: 66°Norður – Amen.

Truflanir – það er stöðugt verið að trufla okkur og ónáða. Það getur oft komið sér illa og valdið okkur óþægindum þegar við erum trufluð við einhver þeirra verkefna sem við erum að sinna og þurfum að einbeita okkur að. En svona truflanir eða ónæði eru hluti daglegs lífs okkar, óumflýjanlegur hluti nútímalífs. Og kannski eigum við ekki að taka þessa hluti svo alvarlega því Guð truflar okkur líka. Að trufla eða valda ónæði þýðir að við okkur er hreyft, athygli okkar er beint að einhverju öðru en við erum að sinna, eitthvað raskar einbeitingu okkar. Og það er það sem Guð gerir. Hann vill hreyfa við okkur, vekja athygli okkar á einhverju sem honum finnst rétt að við hugum að, hann truflar hið reglufasta líf okkar – til góðs. Kannski finnst þér einkennilegt að ég skuli taka svona til orða. En erum við ekki, flest okkar, fólk með skipulagt líf, dagbókin er húsbóndinn/húsfreyjan í lífi okkar? Erum við ekki búin að vefja lífi okkar inn í áferðafallegar umbúðir skipulagsins? Fundir á þessum vikudegi, líkamsrækt þessa daga, námskeið þessa daga, saumaklúbburinn þennan vikudag, karlaklúbburinn annan o.s.frv. Við búum okkur til eins konar öryggi í þessum föstu liðum daglegs lífs, þessir föstu liðir veita okkur öryggi og eyða fyrirkvíðanlegri óvissu. Svo erum við bara trufluð við þessa föstu liði, Guð kemur og ónáðar okkur í þessu tilbúna öryggi.

Jólaboðskapurinn er í eðli sínu svona truflandi atburður. Við erum í svartasta skammdeginu að gera allt í kringum okkur svo fallegt og jólalegt, verslum, bökum, búum til góðan mat, skreytum umhverfið, heimsækjum vini og ættingja, engir siðir eru eins rótfastir í okkur og jólasiðirnir og jólavenjurnar og það veitir okkur visst öryggi. Svo kemur Guð og truflar þessa mynd örlítið. „Bíddu, barnið mitt. Lof mér að trufla þig örlítið. Er það virkilega þetta sem jólin mín snúast um, þessir ytri siðir og venjur? Á ég ekki einhvers staðar rúm í hjarta þínu, einhverjar hugsanir og kenndir sem kalla þig til athafna?“.

„Í upphafi var orðið og orðið var hjá Guði og orðið var Guð. Orðið varð hold og hann bjó með oss fullur náðar og sannleika“, segir í öðru guðspjalli jólanna, því sem ég las hér áðan. Stendur reyndar fyrri hluti þess á glugganum hér á bakvið mig. Guð varð maður í honum, Jesú, barninu sem á hverjum jólum fæðist í hugskoti okkar. Orð Guðs, hugsun hans, áætlun hans fengu framrás í fæðingu, lífi og starfi þessa barns jólanna, Jesú. Og veruleiki hugsunar Guðs öðlast nýtt líf og nýja merkingu á hverri hátíð jólanna. Það allt verður nýtt og ferskt, lífið tekur mið af þeim veruleika sem við lifum í. Fátækt, ríkidæmi, gleði, sorg, hamingja, vonbrigði, ávinningur, missir. Þetta allt lifum við einhverja stund, líka á jólum og Guð kemur og bankar á hugskot þitt í Jesú til að lifa þessar kenndir með þér, sefa það sem særir, fylla gleðina dýpri merkingu. Já, hann kemur og truflar eigingjarnar hugsanir, sjálfsvorkunn, hann kemur til að trufla þig í eigin heimi og benda þér og mér og öllum á að það er annar heimur utan okkar sjálfs, heimur sem við eigum að gefa gaum.

Biskup Íslands vakti athygli á því í útvarpsviðtali s.l. miðvikudag hve einkennandi væri fyrir samtíma okkar hve óþolinmóð við erum. Stressið, hraðinn, hamagangurinn, lætin eru slík að við erum að fara fram úr okkur, gleymum gildum og tillitssemi. Fólk getur ekki beðið meðan dauðslys eru rannsökuð á vegum landsins heldur hringir í lögregluna og skammast yfir því að bíða og koma of seint í jólahlaðborðið. Við erum orðin svo sjálfhverf. Hvað fæ ég út úr lífinu, hvað fæ ég  í minn hlut, hvað mikið get ég sölsað undir mig, hvernig græði ég mest? Við spyrjum sjaldnar: Hvað get ég lagt af mörkum, hvernig get ég lagt góðu máli lið? Þessari kynslóð veitir ekki af að íhuga boðskap jólanna um kærleikann, friðinn, tillitssemina, sagði biskup réttilega.

Við sáum dæmisögu um Jesú jólanna í sjónvarpinu nú í vikunni fyrir jól. Í brimsköflunum við Hvalsnes stóð skip á grunni með á annan tug skipverja um borð í hafsnauð. Lífi þeirra var ógnað, þeir voru í bráðri lífshættu. Og við sáum þessa undursamlegu íslensku björgunarmenn ganga fumlaust til verka, lögðu niður vinnu og hversdagslegu annir fyrir jól, þeir voru truflaðir við daglegt líf til að fara og bjarga. Og þyrlurnar okkar voru kyrrar í ólguloftinu yfir skipinu, milli mastra og staga, grafkyrrar og hífðu skipbrotsmennina hvern af öðrum af slysstað og í öryggið. Áður um morguninn höfðu 8 vaskir danir lagt líf sín í hættu við að nálgast slysstað ef þeir gætu bjargað. Til þeirra var kallað um að hjálpa, þeir truflaðir af værum blundi til að leggja líf í hættu til að bjarga lífi. Og okkar flugmenn fundu þá alla í sjónum og náðu að bjarga þeim – nema einum sem því miður lést og lét líf sitt í sölurnar fyrir aðra. Blessuð sé minning þess mæta danska manns og samúð okkar fylgir aðstandendum hans.

Ég sá þetta sem dæmisögu. Er ekki líf okkar stundum eins og skip í stórsjó þar sem brimskaflarnir ganga yfir og við komin í bjargarlaust þrot? En þá kemur hann, Guð, hann kemur í persónu Jesú Krists, orðið sem varð hold, og eins og skipverjana í sjónvarpsfréttinni, hreinlega vefur hann okkur öruggum örmum og dregur okkur upp úr lífsháskanum í öryggi sitt og umhyggju. Hann truflar lífshlaup okkar líka oft og einatt til að minna okkur á að fara og hjálpa. Jólin eru bæn, ákall um að fara og ganga erinda hans, vitnisburður um að við erum honum ekki gleymd og týnd, heldur kemur hann til að búa hjá okkur, vera með okkur, vernda okkur, bjarga og blessa, bægja ógnum lífsins frá svo við eigum öruggt skjól og athvarf í lífsbaráttunni. Og hann, líkt og sjóliðinn, danski, og reyndar margir aðrir, lagði líf sitt sem lausnargjald, fórnaði lífi sínu svo aðrir, við, mættum lifa. Svona dæmisögur eru að gerast og einmitt jólin vitja okkar til að segja okkur þetta. Guð varð maður, kærleikur lífsins varð opinber til að við mættum læra og skilja, gera sjálfum okkur og öðrum gott. Hann þarf stundum að trufla okkur við dagleg störf til að minna á þetta. Og það eru margir sem skynja þetta og hjálpa okkur með dæmisögum og sterkum svipmyndum að öðlast dýpri skilning á fegurð jólanna.

Ein kátleg, eða kannski grátbrosleg, birti Spaugstofan okkur á aðventunni. Í föndurhorni Spaugstofunnar tók leikarinn hluta af þessum óhemjumagni af auglýsingapósti sem dettur inn um bréfalúgur landsmanna og sem auglýsir fánýtan varning og spurði: „Hvað eigum við að gera við þetta. Mér hefur hugkvæmst ráð“. Og leikarinn náði í pappírstætara, bjó þar undir sviðsmynd úr plasti af fjárhúsinu í Betlehem með sögupersónum jólaguðspjallsins. Svo lét hann tætarann rífa pappírsblöðin í tætlur sem urðu eins og snjókorn yfir leikmyndina. Að lokum hurfu Jesúbarnið, foreldrar þess og skepnurnar í sundurrifinn auglýsingapappír. Við höfðum náð að kæfa í skrumi það sem jólin snúast um. Táknrænt? Kannski. Spaugstofumynd sem truflar okkur og vekur til umhugsunar.

„Orðið varð hold og hann bjó með oss fullur náðar og sannleika“, segja jólin við þig, þú lífsins og ljóssins barn. Hann kom í þennan heim til að lýsa hann upp. Og þegar myrkrið sækir að, hið mannlega myrkur fátæktar, vonleysis, sorgar, saknaðar, vonsku mannanna, þá hnyppir hann í þig og mig, truflar okkur til að vekja okkur til vitundar um kærleikann og ástúðina, umhyggjuna og gleðina. Hann biður okkur að búa Jesú stað í hjartanu, vagga jötunni hans þar. Inn í þetta líf okkar fæðist á jólum ljósið stærsta og bjartasta til að lýsa upp það skammdegismyrkur sem ríkir í mannlegu hjarta. Við skulum hætta að hugsa um umbúðir en huga að innihaldinu. Við skulum fagna þeim stundum sem Jesús kemur og truflar okkur, bendir okkur hvar við getum bjargað og blessað. Guð truflar til þess að bjarga, ljós jólanna kviknar til að lýsa okkur réttan veg. Orðið varð hold til að við mættum taka við honum og búa honum stað í vitund okkar, lífsviðhorfi, lífsgildum. Það er hann vinur velkominn nú sem ætíð.

Höldum þannig, jól, kæru vinir, jól sem trufla okkur til þess að við göngum hinn rétta veg, veg ljóss og friðar, gæsku og góðvildar. Guð gefi að hver dagur í lífi okkar beri þess vott að við þiggjum gjöfina hans, orðið sem varð hold og býr hjá okkur. Guð gefi ykkur gleðileg jól, hátíð friðar, ljóss og kærleika í frelsarans Jesú nafni. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen