Kyrrðarstundir

Kyrrðarstundir

Sumardagur árið 1974 í svissnesku Ölpunum austan Lausanne. Amerískur hippaprestur laðaði til sín ungt fólk af meginlandi Evrópu og frá Ameríku. Þegar hann kom til að ræða við hópinn kom í ljós að dagurinn var árlegur bænadagur. Spámaðurinn sagði því lítið. Allir voru sendir í skóg eða hlíð, sem var alveg eins og í Heiðubókinni og teiknimyndunum.
fullname - andlitsmynd Sigurður Árni Þórðarson
12. nóvember 2002

Sumardagur árið 1974 í svissnesku Ölpunum austan Lausanne. Amerískur hippaprestur laðaði til sín ungt fólk af meginlandi Evrópu og frá Ameríku. Þegar hann kom til að ræða við hópinn kom í ljós að dagurinn var árlegur bænadagur. Spámaðurinn sagði því lítið. Allir voru sendir í skóg eða hlíð, sem var alveg eins og í Heiðubókinni og teiknimyndunum. Við vorum ein með sjálfum okkur allan daginn og áttum kyrrðardag. Vissulega heyrðum við skröltið í kúabjöllum, fagnaðarlæti fuglanna og syngjandi vind í stráum. Ótrúlegust var upplifun af glímu við Guð í bland við sorteringu á alls konar varnarháttum og tilfinningum. Presturinn var ekki lengur markmið heldur vegvísir. Allt frá þessum ágústdegi í Sviss hefur sannfæringin lifað í mér um mikilvægi kyrrðarstunda. Jesús fór í óbyggðir til bænahalds, dró sig í hlé til að eiga næði og kyrrð með Guði. Við eigum þar fyrirmynd. Jesúatferli fer kristnum mönnum vel og er þeim hagnýtt.

Þagnarflótti

Afþreyingarmenning nútímans metur þögn lítils. Umhverfi nútímamannsins er mettað ómum sem deyfa og léttvægum orðum. Bakgrunnstónlist fyllir kauphallir. Áthraða fólks á veitingastöðum er stýrt með tempóbreytingu. Á heimilum er sjónvarpið í gangi þótt enginn horfi. Græjurnar spila þindarlaust með diskamatara og randomstillingu. Útvarpsstöðvar eru svipaðar síbyljur. Frelsi í fjölmiðlun er lítt annað en kúgun einsleitninnar. Hávaðinn er alls staðar, á heimilum, vinnustöðum og skemmtistöðum. Víða er hann svo megn að fólk getur ekki greint orðaskil nema æpt sé. Hávaði einangrar fólk. Æ erfiðara er að eiga samskipti við persónur fólks, tala orð sem snerta inntak og dýptir. Samskipti og fundir fólks líkjast kokteilboðum. Hinir dugmestu synda frá einum til annars, tala linnulaust en eru svo á brott, - orðahríð án eyrna. Fólk talar, tjáir hitt og þetta, fjargviðrast og segir frá gerðum eða afrekum. Engir möguleikar eru gefnir til að bregðast við orðunum. Hávaði og sýndariðni er leið fólks til að vera. Þegar dagar á fólk að það lifir í ofgnótt merkingarlítils eða merkingarlauss hávaða, staldra sumir við, spyrja hvort ekki sé einhvers staðar kyrrð þar sem dýpta er leitað. Á tímum hljóðmengunar leitar sálin kyrrðar.

Misbeiting þagnar

Margir óttast þögnina. Þögn virðist óræð og jafnvel ógnvænleg í takmarkaleysi sínu. Í þögninni virðist ekkert til að styðjast við eða grípa í. Þeim sem ekki eru hagvanir þögninni skelfast að missa vald og stjórn. Þögnin er eins og hyldýpi, tóm sem þarf að fylla. Vissulega er til vond þögn. Fátt er jafn skelfilegt og þegar verið er að pína hrædda manneskju með þögninni. Ég hef séð viljasterkan einstakling kaghýða stressaðan mann með því að virða hann einskis orðs og kefla með þögninni. Fólk sem ekki vill opinbera hvar í flokki það stendur getur valið að nota þögnina til að hylja skoðun sína. Þögnin er vopn kameljónanna. Þögnin getur verið kúgunartæki í þágu vondra fræða, valdaaðila og valdagæslu.

Þögn hlýju og merkingar

En þögnin getur verið góð og hlý. Þögn er ekki aðeins það að láta orðin vera. Þögn getur verið þrungin merkingu, gæsku og gleði. Þögn getur verið full návistar og merkingar. Þagnar- eða kyrrðarsekúndan eftir að síðasti hljómur góðra tónleika deyr út og áður en klappið hefst er oft þrungnasta augnablik tónleika. Líka þegar náttúran stendur á öndinni vitjar Guð skepnunnar. Þögn í trúarlegu eða kirkjulegu samhengi er ekki bragð til að kæfa fólk heldur vettvangur samtals Guðs og sálar. Þögnin er sá heyrnarstóll sem við setjumst í þegar við getum talað um það sem máli skiptir. Við Guð tölum við þegar við erum með sjálfum okkur eða í sambandi við dýptir okkar. Þegar við lifum sorg, erum hrifin, efumst eða lifum sálarmyrkur, þegjum við gjarnan. Við þögnum þegar orku þrýtur í lífsglímunum, við verðum fyrir megnu óréttlæti eða heyrum sjúkra- eða andlátsfregn. Sú þögn er frjóakur Guðs. Þá erum við reiðubúin að heyra máttarorð, iðrunarkall, huggunarræðu eða lausnarboð. Þögn getur verið fæðingarvegur til lífs ef við þolum við og flýjum ekki. Það er svo auðvelt að flýja sársauka samvisku, dóm um eigin flekkun eða vitund um hversu vanmáttugur og úrræðalaus maður er á krossgötunum. Til að heyra hvað Guð talar er stundum nauðsynlegt að halda út þögnina og hina djúpu samræðu. Hin guðlega ræða heyrist oft ekki eða skilst, fyrr en eftir nokkurn þagnartíma.

Kyrrðardagar

Vegna streitu, álags, hávaða og yfirborðsmennsku alls konar hafa kyrrðarsetur verið stofnuð og efnt er til kyrrðarstunda. Fyrir nær tíu árum var farið að efna til kyrrðardaga í Skálholti. Mörgum þótti það undarlegt að kalla fólk saman til að þegja og býsnuðust yfir að fólk skyldi vilja borga fyrir að vera bannað að tala. Um þetta var glensað en oft án þess að menn gerðu sér grein fyrir ástæðum, skipan eða möguleikum.

Á kyrrðardögum í Skálholti og víðar hefur klassísk tíðagerð kirkjunnar verið iðkuð og notuð. Auk tíðagerðar hafa verið á dagskrá íhugunarstundir og fræðslustundir. Íhugunarstundir eru íhugun einhvers verðmætis úr hinni kristnu hefð. Oft er biblíuvers eða kafli hugleidd, sem er ekki hefðbundin predikun heldur af ætt sálarskoðunar Passíusálma. Stundum hefur íkón verið notaður sem íhugunarmiðja, saga leidd fram, áherslur íkónografíunnar túlkaðar. Á fræðslustundum er síðan leiðbeint um trúarlíf, bænaiðju, hætti við biblíulestur og styrktaræfingar í trúariðkun hversdags og hátíða. Ræðumaður eða fræðari situr gjarnan að baki söfnuði til að augu og hugur séu bundin við það sem er handan einstaklingsins. Ramminn er kyrrð og þögn. Þau sem sótt hafa kyrrðardaga einu sinni eða oftar eru fljót að hverfa inn í þögnina, eiga vingott við dýptirnar og hafa mörg lært að nýta hana í þágu tilbeiðslu, bænar og samfylgdar með kynslóðum kirkjunnar í slitsterki tíðagerðinni. Aukageta kyrrðardaga er djúptæk slökun. Stressaður maður á hlaupum í leit að Guði finnur oft sjálfan sig á kyrrðardögum og uppgötvar hvar hann eða hún á heima. Kyrrðardagar hafa verið nefndir dagar af þessu tagi og við skulum halda í þá nefningu. Kyrrðardagar eru ekki spjalldagar, heldur dagar sálarsamræðu við Guð með hjálp tíðagerðar, íhugunar og fræðslu. Ytri rammi er þögn.

Kyrrðarstundir

Síðan eru til kyrrðarstundir í kirkjum. Meinlaust er að kenna þær samverur við kyrrð þótt söfnuður tali. Kirkjan þarf að koma til móts við öll þau sem leita íhugunar, bænar og tilbeiðslu í þögn. Ef þú íhugar hvort og hvernig efna eigi til kyrrðarstunda er vert að kynna þér það sem best er gert af því tagi. Kyrrðarstundir í einhverju hversdagshádegi eru víða á dagskrá, ekki síst á Reykjavíkursvæðinu. Þá eru ýmsar útgáfur af svokölluðum kyrrðarguðsþjónustum. Flestar hafa alla messuliði en tónlist er með ýmsu móti. Á kyrrðarstundum, þar sem ekki er gengið til Guðs borðs, skiptir máli að tónlist leiði til kyrrðar. Organistar mega ekki láta undan freistingu að sýna tæknigetu sína á þessum stundum. Hlutverk tónlistarinnar er að leiða til íhugunar og bænaiðju. Presturinn má gjarnan sitja að baki söfnuði. Mörgum er þetta framandi og óskiljanlegt í upphafi. Og sjálfhverfungarnir munu vissulega aldrei skilja. Látæði, föt, kækir og atferli prests getur orðið hindrun á næmnisstundum. Samhengi trúariðkunar er Guð en ekki presturinn. Kyrrðarstundirnar geta orðið skilvirkari við að presturinn sitji aftast. En skýra þarf við upphaf af hverju stjórnandi samverunnar er á svo óvenjulegum stað. Í fallegu kirkjuhúsi getur myndlist, lýsing, gluggar og innviðir orðið augnhvíla. Gerið þessa tilraun, en áður ættuð þið að grandskoða sjálf ykkur, atferli og látæði. Hugleiðingar á kyrrðarstundum þarf að flytja með streitulausri röddu, gjarnan með hljómfalli kyrrláts öldufalls, svona eins og þegar Gregor er vel sunginn. Efnistök mega ekki vera af húsi og kyni þrætubókarlistar. Biblíuvers eða stef er vel við hæfi. Notið mynd einhvern tíma, altaristöfluna eða eitthvað sýnilegt í kirkjunni og lyftið táknefninu. Ekki þarf að sauma að öllum áherendum með fullkominni heimfærslu. Ímyndunarafl og þarfir eru lifandi og verka. Gerið ykkur grein fyrir nýjum predikunarmöguleikum. Ræða má um sálarhætti, skynjun og trúarleg stef, sem fólk kannast við og finnur sig í. Kyrrðarstund fyrir almenning er ekki vettvangur til fyrirlestrahalds, t.d. að ræða um "panenteisma" þótt merkilegur sé. Fyrir slíkt eru fræðslusamverur. Sumum prestum er svo í mun að efna til kyrrðarstundar, að þeir vilja ekki að fólk hafi messusvör upphátt. Hina drottinlegu bæn vilja þeir að fólk biðji í hljóði. Þetta er misskilningur á kyrrðarstund og eðli hennar. Það er hið ónauðsynlega orð sem fólk sneiðir hjá en ekki messusvör eða bænarorð af vörum Jesú.