Lögmál jólanna

Lögmál jólanna

Allt er það í anda þessarar hátíðar. Hversdagarnir eru hverjum öðrum líkir. En hátíðin sækir líkindin annað. Hún sækir lengra aftur og kallar fram hugarástand liðinna ára og áratuga. Og gefur okkur um leið þessa notalegu tilfinningu – að við tilheyrum einhverju sérstöku; tilheyrum fjölskyldu og tilheyrum merkilegum hópi sem nær aftur aldir og árþúsund í tímann – kristinni kirkju.

Textar: Jes. 62.10-12, Tít. 3.4-7 og Lk.2.1-14 Gleðilega hátíð kæru kirkjugestir. Hafið þið leitt hugann að því hvað hátíð eins og þessi er stórkostlegt fyrirbæri og merkilegt? Á einu andartaki sameinast þjóðin og svo margar aðrar þjóðir í sömu erindagjörðum: í samfélagi, tilbeiðslu og einlægri tilraun til þess að skapa gleði og fegurð og fögnuð. Þegar jólin ganga í garð tekur umhverfið stakkaskiptum og hátterni okkar mannanna að sama skapi.

Allir sem einn Hér á árum áður dofnuðu ljósin í húsum þegar seinni part aðfangadags því þá voru ofnar í gangi í hverju húsi og álagið var að sliga kerfið vegna þess að á þeim tímamótum hæfir að efna til samsætis og fagnaðar. Hver tími hefur sína útgáfu af þessu. Á okkar dögum kemur þessi taktfasta hrynjandi fyrir m.a. í bloggheimum þar sem hlýjar kveðjur berast úr öllum áttum. Þrætukóngar á þessum undarlegu slóðum sem varið hafa síðkvöldum og ófáum vinnutímum í karp og rökræður fallast í faðma í innilegum jólakveðjum. Allt samkvæmt lögmáli jólanna sem kveður á um frið og hlýhug manna á milli! Já, þetta getum við kallað lögmál jólanna og við fylgjum því með mikilli gleði enda fela það í sér allt það sem okkur er kært og skiptir máli. En lögmálin eru fleiri. Andartökin sem hátíðina mynda hafa mörg hver mikla merkingu að geyma og vísa aftur í tímann. Hátíðin tengist endurtekningunni og um þetta leyti reynum við að setja okkur í spor sem við höfum áður verið í. Jólahefðirnar eru margar, jólalögin mörg hver sígild og jafnvel þegar við tökum okkur eitthvað nýtt fyrir hendur í tengslum við jólin gerum við ráð fyrir því að þarna sé einhver hefð í uppsiglingu sem á eftir að lifa árum saman.

Endurtekningin Nú á Þorláksmessu ljósrituðum við til að mynda söngvahefti fyrir barnasamveruna á aðfangadag – sem er ný af nálinni hér í starfinu – og um leið létum við eiga sig að setja ártal á forsíðuna. Við væntum þess að atburðurinn verði endurtekinn að ári og svo koll af kolli og þá getum við notað þetta aftur! Og þegar ánægðir foreldrar héldu út í snjóinn að samveru lokinni höfðu þeir það margir á orði að þetta þyrfti nú að gera aftur næstu jól. Einmitt það! Við höfum tilhneigingu til þess að leika aftur sama leikinn ár eftir ár. Það er annað lögmál jólanna: hefðin og sístæð hrynjandi árs frá ári. Allt er það í anda þessarar hátíðar. Hversdagarnir eru hverjum öðrum líkir. En hátíðin sækir líkindin annað. Hún sækir lengra aftur og kallar fram hugarástand liðinna ára og áratuga. Og gefur okkur um leið þessa notalegu tilfinningu – að við tilheyrum einhverju sérstöku; tilheyrum fjölskyldu og tilheyrum merkilegum hópi sem nær aftur aldir og árþúsund í tímann – kristinni kirkju. Það er jafnvel eins og tíminn standi í stað þegar við setjum okkur í sömu spor og við voru í á þessum tíma að ári.   Jólaguðspjall Jóhannesar Nú þegar við hlýðum á guðspjallið sem við þekkjum svo vel – skynjum við hvernig hughrif þessi og tilfinningar sem við köllum fram á helgum jólum eiga sinn stað í jólafrásögninni. Það er eins og mannlífið allt leiti eftir því að túlka og endurskapa boðskapinn góða sem sagan flytur okkur – þar sem greint er frá því hvernig Guð mætti manninum á hinum fyrstu jólum.

Guðspjall Jóhannesar er vissulega um margt frábrugðið textanum hjá Lúkasi og Mattheusi. Þarna er engin saga, engin innsýn í huga þeirra sem tengdust hinum fyrstu jólum. Engin ótti, engin úrræði í húsnæðisleysi, ekki örvæntingafullur flótti til annars lands. Nei, Jóhannes hefur sig hærra í loft upp og lýsir allt annarri hlið á þessum stórkostlegu tíðindum: Hann horfir allt aftur til sköpunarinnar – upphafsins mikla og lýsir því hvernig það hófst allt með þessu magnaða Orði – logos eins og frumtextinn kallar það. Og í því felst ekki bara orð heldur um leið sú guðlega skipan sem er forsenda þess að til er eitthvað fremur en ekki neitt.

Þegar sagt er frá komu Krists hingað í heim er horft aftur til upprunans sjálfrar sköpunarinnar. Allt nær þetta saman í huga hins trúaaða – fortíð og nútíð: hjálpræðissagan er eins og festing sem myndar eina samfellda heild. Allt tengist þetta hinu guðlega hjálpræði sem birtist okkur hvað skýrast á jólunum.

Hjá Jóhannesi takast líka á ljós og myrkur rétt eins og hæfir svo vel þeim tíma sem er nú við vetrarsólstöður þegar sól tekur á ný að hækka á lofti. Kristnum mönnum þykir sá tími hæfa vel sem umgjörð og vettvangur fyrir hátíðina stóru. „Ljósið skein í myrkrinu“ segir í frasögninni – „en myrkrið tók ekki við því“. En þökk sé hjálpræði Krists sigraði ljósið þó myrkrið um síðir og þess minnumst við sem aldrei fyrr á helgri hátíð. Þegar við látum ljósið skína í myrkrinu og beitum til þess öllum þeim ráðum sem við kunnum: kertum, ljósum í öllum litum regnbogans en þó fyrst og fremst með því að láta gott af okkur leiða og sýna hvert öðru kærleika.

Lögmál jólanna Þetta tvennt: umhyggjan og náungakærleikurinn annars vegar og svo vísunin í hið liðna hins vegar getum við kallað lögmál jólanna. Þetta er upphaf fagnaðarerindisins sem kristin kirkja hefur miðlað til heimsins í allan þennan tíma og gerir enn. Það er þessi boðskapur sem hún vill svo gjarnan halda áfram að flytja og lætur einskis ófreistað til þess arna. Erindi kirkjunnar er af sömu rót spunnið og hátíðin sem við höldum núna. Það flytur okkur sömu skilaboð og við gerum hvert til annars með látbragði okkar og fasi á helgum jólum. Það er lögmál jólanna – fegurðin, kærleikurinn og endurtekningin sem veitir okkur festu og öryggi í ólgusjó daganna.

Fagnaðu því að vita í hjarta þínu að fyrirgefningin er merkilegri og heillavænlegri hefndinni. Að auðmýktin er meiri hrokanum. Að samfélagið sé fegurra einsemdinni. Vertu sæll yfir því að eiga þá von að broddur dauðans hefur verið afmáður og lífið hefur sigrað.

Nú er hátíð í bæ og við skynjum með svo margvíslegum hætti hvernig við verðum eitt með kynslóðunum. Sannarlega er það merkilegt hvernig allir þessir hugar starfa sem einn á helgri jólahátíð. Það er eins og við lútum öll ákveðnu lögmáli – öll störfum við sem eitt þegar hátíðin gengur í garð. Við tengjumst liðnum tíma og skynjum það líklega best um þetta leyti hvernig við mætumst öll – við sem tilheyrum einni þjóð og við sem erum hluti mannkyns. Jólin eru tíminn þar sem við ræktum samfélagið hvert við annað og eflumst í því. Þetta getum við kallað lögmál jólanna – orðið sem skín til okkar í myrkri daganna, lýsir þá upp og minnir okkur á það sem aldrei fyrr hversu dýrmætt það er að vera hluti af söfnuði Krists hér á jörðu. Amen