„Það sagði engin neitt.“

„Það sagði engin neitt.“

Ég las mér til einhverstaðar að maður getur gefið tóninn fyrir það hvernig dagurinn verður með skóvalinu. Einhverjum þykir skór flottasta og besta tjáningarformið þegar kemur að klæðnaði. Skóvalið segir líka svo furðulega margt um líðan manns.
fullname - andlitsmynd Þór Hauksson
02. apríl 2020

Ég var að athafna um daginn í heimahúsi.  Daglegt helgarbrauð hjá prestinum kann einhver að hugsa.   Heimilisfaðirinn kom til dyra og afsakaði óreiðuna.  Ég sagðist hafa fullan skilning á þessu.  Skór af öllum stærðum, gerðum og litum fylltu anddyri íbúðarinnar þannig að erfitt var að komast hjá því að fótumtroða einhverja þeirra.  Í því að ég geri mig líklegan til að fara úr skónum eins og allir hinir sem komnir voru og þeir sem voru að koma um svipað leiti og ég bograndi við að koma sér og sínum úr skónum kemur húsmóðirinn horfir á mig og síðan á skóna og segir:

„Þú þarft ekki að fara úr skónum.“ 

Ég möglaði eitthvað um að það væri ekkert mál fyrir mig, ég gæti alveg...“nei, nei vertu bara í þeim“  áréttaði húsmóðirinn og vísaði mér inn.   Þegar inn var komið tók á móti mér fólk á öllum aldri allt frá nokkura mánaða til tíræðisaldurs mætt í skírnarstund.  Óhjákvæmilega varð ég fljótlega var við að gestirnir og þá sérstaklega börnunum var starsýnt á skóna mína.  Mér fannst það ekkert skrýtið, tekið tillit til þess að ég væri sá eini sem fékk að vera í skónum.   Hugsaði  sem svo að ég væri nú ekki embættismaður fyrir ekki neitt.  Hvarflaði að huga að blessunarlega hafði ég pússað embættisskóna mína vel snemma morguns eða eins og máltækið segir „af skónum ertu dæmd/ur.“   Það skal upplýst að orðið „embættisskór“ kom til einhverju sinni eftir að nágranni minn fyrir mörgum árum síðan kom auga á spariskóna mína fyrir utan íbúð okkar hjóna og verður á orði við minn betri helming sem þar var eitthvað að þvælast „eru þetta embættisskór eiginmanns þíns?“

Þar sem ég stend inni í stofu íbúðar í úthverfi Stór - Reykjavíkursvæðisins í mínum vel pússuðu embættisskóm innan um alla sokkana komst ég ekki hjá því að taka eftir að einhverjir voru komnir í litríka Mottumarssokka.   Skýst upp í hugan minn svona rétt fyrir athöfn búin að troða einum eða tveimur um tær í bókstaflegri og sárri merkingu þeim sem fyrir mér urðu.   Hvers vegna vildu húsráðendur ekki að ég færi úr skónum? 

Ég hristi þá hugsun af mér á meðan ég embættaðist hjá þessu góða fólki.   Hún fór ekki lengra hugsunin. Hún beið eftir mér fyrir utan tvíefld og einhvernvegin óvægnari svona á pari við Eflingu annarsvegar og Borgina hinsvegar.   Ég var ekki tilbúin að taka slaginn og samræðuna því önnur athöfn beið mín úti við næsta horn, 

Síðar um daginn undir kvöld kom ég heim eftir embættisverk dagsins.  Sáttur með mitt.  Skírnir og hjónavígsla og hamingja hjá öllum.   Ekki síst hjá mér.  Þar sem ég opna útihurðina berst sætur ilmur að vitum mér, kvöldverðarboð eftir korter.   Í miðri ilminntökunni og sælunni sem fylgdi rekur ekki þá eiginkonan mín upp þetta skaðræðisóp.   Mér bregður og tek bakfall hafði ekki séð konuna og ekki vanur svona heitri og innilegri og hávaðasamri heimkomu eftir embættisverk dagsins.    

„Guð minn góður“ hrópar hún upp yfir sig þar sem hún stendur inni í miðri forstofunni.   Ég sagði, bara til að segja eitthvað, „uh nei...ég er umboðsmaður hans“ og dæsi og geri mig til við að klæða mig úr yfirhöfninni.  

„Ekki segja mér að þú hafir farið út svona klæddur?“ spurði eiginkonan með angistarsvip.  

„Nei ég skipti um föt í Krónunni áður ég kom heim.  Ég geri það alltaf“  og hló.  Að þeim orðum sögðum er mér litið á skótauið eftir athafnir dagsins.   Á vinstri fæti voru dökkbrúnir skór, svona hversdagsskór sem passar við allt og þeim hægri var svartur embættiskór sem passar aðeins við embættisklæðnað prestsins hvort heldur það er, guðsþjónusta, skírn, hjónavígsla, útför og þannig mætti lengi halda áfram.   Eftir dágóða yfirhalningu og vandlætingartónaflóð eiginkonunar var það eina sem ég gat sagt:

„Það sagði engin neitt.“

Ég las mér til einhverstaðar að maður getur gefið tóninn fyrir það hvernig dagurinn verður með skóvalinu.  Einhverjum þykir skór flottasta og besta tjáningarformið þegar kemur að klæðnaði.  Skóvalið segir líka svo furðulega margt um líðan manns.  Það er allt gott um það að segja, en ég hef ekki enn komist að haldbærri niðurstöðu hver líðan mín hafi verið þennan laugardagsmorgunn á síðasta degi febrúarmánaðar.   Ég fór úr húsi fullur eftivæntingar og gleði að fá að vera þátttakandi á gleðidegi svo margra.   

Þótt ég og minn betri helmingur deilum ekki sömu skoðun á þessu held ég að ég hafi bara bætt á þá gleði allavega fyrir einhverja. 

Ég trúi því.

Enda trúmaður fyrir ekki neitt.