Heimþing Alkirkjuráðsins í S-Kóreu, fjórði pistill

Heimþing Alkirkjuráðsins í S-Kóreu, fjórði pistill

Fréttir af illa útbúnum bátum, yfirfullum af flóttamönnum á Miðjarðarhafi, þekkjum við öll, margir slíkir hafa farist og fjöldi fólks týnt lífi. Sama hefur verið að gerast í Ástralíu undanfarna áratugi og á fleiri stöðum í heiminum. Verkefni kirknanna í Ástralíu ber yfirskriftina ,,The better way“.
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Víðisson
05. nóvember 2013

Í Singapoor blómstra öll trúarbrögð og þátttaka í helgihaldi er mikil, samkvæmt einum þátttakanda á heimsþinginu, sem miðlaði reynslu sinni í leshópnum í morgun.

Í dag var þemað, eining kristinna manna í heiminum. Nefnd hefur útbúið drög að ályktun um einingu, sem kynnt var í dag og ber yfirskriftina: ,,Unity in Christ: the journey of the fellowship“. Biskup frá Kanada sagði frá reynslu sinni og horfði í þeim orðum norður eftir, til Alaska, og sagði eitthvað á þá leið, að undir -50°C hverfa mörk kirkjudeildanna og eining ríkir. Hann átti við í eiginlegri og óeiginlegri merkingu og fannst mér þetta skemmtileg nálgun.

Samkirkjulega umræðan bar yfirskriftina ,,Exploring Christian self-identity in a world og many faiths“. Í þeim hópi var unnið að ályktun og voru þátttakendur þar einnig frá öðrum trúarbrögðum.

Fjárhagsstaða sambandsins, WCC, er erfið. Kynnt var áætlun til næstu fimm ára, um hvernig mæta eigi vandanum. Kirsten frá Danmörku sagði að sambandið væri í raun í alvarlegri fjárhagskreppu. Þónokkur fjöldi kirkna fær undanþágu frá því að greiða aðildargjöld, aðrar greiða ekki alveg eins mikið og þeim ber, og þar erum við, þjóðkirkjan, á meðal. Áhersla var lögð á að þær kirkjur sem ekki greiða aðildargjöld, þurfi að gera það í framtíðinni. Einhver orðaði það svo: ,,We have to stay together, pray together and pay together.“ Þær leiðir sem kynntar voru og fimm ára áætlunin var samþykkt af þinginu í dag.

Rætt var um stjórnarskrá sambandsins og þær reglur sem gilda um störf þess. Hægt er að nálgast þær upplýsingar á heimasíðunni http://www.oikoumene.org/en/about-us/self-understanding-vision/constitution-rules

Þingið vinnur að skilaboðum, ,,message“, sem er í raun ávarp til aðildarkirkna og heimsins alls. Fyrstu drög voru kynnt í dag og hægt er að senda ábendingar fram til hádegis á morgun. Það hefði verið gaman að senda ykkur þessi drög en mér vannst ekki tími til þess í dag.

Madang fræðslan sem við tókum þátt í fjallaði um flóttamenn í Ástralíu og verkefni kirkjunnar með flóttamönnum þar í landi. Þriggja manna hópur frá Ástralíu, kynnti verkefnið, og umræðan var fróðleg. Í umræðuhópnum voru þátttakendur sem verið höfðu flóttamenn. Fréttir af illa útbúnum bátum, yfirfullum af flóttamönnum á Miðjarðarhafi, þekkjum við öll, margir slíkir hafa farist og fjöldi fólks týnt lífi. Sama hefur verið að gerast í Ástralíu undanfarna áratugi og á fleiri stöðum í heiminum. Verkefni kirknanna í Ástralíu ber yfirskriftina ,,The better way“.

Á myndasíðu þjóðkirkjunnar er örstutt myndband frá kvöldbæninni, en fulltrúar kaþólsku kirkjunnar sáu um hana í kvöld. Fleiri myndir má einnig nálgast á síðunni: http://www.flickr.com/photos/kirkjan