Guðshús, sem gestum opnar dyr

Guðshús, sem gestum opnar dyr

Skýrasta einkenni hins kristna safnaðar er samfélagið. Trúin er samfélagsmótandi. Samfélagið við Guð kallar á samfélag við trúsystkin. Samfélag við Guð og við trúsystkin í nafni Jesú Krists er skjól og vörn. Þess vegna var þessi kirkja byggð, þess vegna er enn komið saman í henni til að lofa Guð og ákalla. Þess vegna er haldið upp á 150 ára afmæli hennar.

Við skulum biðja: Vertu Guð faðir faðir minn Í frelsarans Jesú nafni Hönd þín leiði mig út og inn Svo allri synd ég hafni.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

“Þú gamla, lága guðshús, sem gestum opnar dyr, Enn leið í djúpri lotning er lögð til þín sem fyr. Vor önn er yndisvana, vor auður gerviblóm, Því heimur, gulli glæstur, án Guðs er fánýtt hjóm.

Þannig orti Kristján frá Djúpalæk um gamalt guðshús, hús eins og við erum saman komin í hér í dag. Hús sem sagt gæti marga söguna ef það fengi talað. Ég óska söfnuðinum hér í Langholtssókn til hamingju með þessi tímamót og bið Guð að blessa ykkur öll sem undirbúið hafið þetta afmæli og hingað mætt.

Eitthundrað ár og fimmtíu ár er kannski ekki langur tími í eilífðinni, en langur tími í sögu þessarar þjóðar sem hefur aðeins búið í þessu landi í rúm ellefu hundruð ár og einnig langur tími í kirkjusögu þessarar þjóðar.

Eftir að kristni komst á í landinu fannst mönnum nauðsynlegt að koma saman og tilbiðja sinn Guð og byggðu kirkjur þar sem fólk bjó. Það er hverjum söfnuði nauðsynlegt að hafa ákveðinn stað til að koma saman á og hér áður fyrri voru kirkjuferðir tilhlökkunarefni og helstu tilefni mannamóta í sveitinni. “Og hver kirkjuferð og messa var mikil hátíð. Þannig mætti ég í upphafi þeirri kirkju, sem ég hef verið bundinn ástar- og tryggðaböndum” segir sr. Sigurbjörn Einarsson biskup í viðtali sem birtist í Kirkjuritinu fyrir nokkrum árum. Það er gaman að rifja upp þessi orð úr viðtalinu hér í dag, því kirkjuganga bernsku hans var einmitt í þessa kirkju, Langholtskirkju sem reist var á árunum 1862 til 1863. Meðallendingar hafa viljað reisa veglegt og stórt Guðshús og fengu snikkara úr Reykjavík sér til halds og trausts við smíðina. Á þeim tíma, fyrir 150 árum voru færri timburkirkjur en síðar varð en þeim mun fleiri torfkirkjur. Það var ekki fyrr en á fyrsta áratug síðustu aldar sem timburkirkjunum fjölgaði, en þá voru byggðar 32 timburkirkjur hér á landi. Á þeim tíma fór torfkirkjunum fækkandi. Timburkirkjur þóttu reisulegri guðshús en torfkirkjurnar og kröfur til kirkjusmiðanna urðu meiri. Meðallendingar hafa því verið á undan flestum sóknum landsins þegar þeir reistu sína timburkirkju.

Orðið kirkja á ekki aðeins við guðshúsið sjálft, heldur einnig við það samfélag sem um hana stendur. Kirkjan er samfélag þeirra sem trúa því að Jesús sé Messías, guðssonurinn, krossfestur og upprisinn frelsari mannanna. Sé sá Guð sem skapaði himinn og jörð, sá Guð sem við getum leitað til í bæn, sá Guð sem huggar og hjálpar á döprum og erfiðum stundum lífs okkar og sá Guð sem gefur okkur lífið og veitir okkur lífskraftinn.

Hingað í Langholt hefur söfnuðurinn leitað í eina og hálfa öld, komið til fundar við þennan Guð og söfnuð hans. Heyrt orðið, beðið, sungið. Leitað í helgidómurinn, prýtt hann og viðhaldið og þannig tjáð elsku sína til Guðs.

Og hér hefur söfnuðurinn sungið Guði til dýrðar. “Það einkennir þá sem elska að þeir syngja,” sagði Ágústínus kirkjufaðir, endur fyrir löngu. Hann rifjaði upp kynni sín af tónlistinni: “Þegar kirkjan þín fylltist ljúfum ómum helgra ymna og söngva var ég gagntekinn og hrærðist til tára. Þessir ómar flæddu mér um eyru og sannleikurinn streymdi inn í hjarta mitt og heilög hrifning fyllti mig og braust út í tárum sem gerðu mig sælan." Kirkjutónlistin lauk upp fyrir honum sannleikanum himneska. Ágústínus er ekki einn um þá reynslu.

Það sem við heyrum hefur áhrif á okkur. Og það sem við sjáum hefur einnig áhrif á okkur. Fyrir nokkrum árum var ég í guðsþjónustu í kirkju í Kaupmannahöfn með æskuvinkonu minni frá Ísafiðri. Hún sagðist aldrei fara í kirkju í landinu þar sem hún býr núna, en féllst á að koma með í guðsþjónustu þennan sunnudag. Við rötuðum ekki til kirkju, en sáum kross standa upp úr húsaþyrpingunni og gengum að húsinu, sem reyndist vera ein af þekktari kirkjum Kaupmannahafnar.

Það fyrsta sem blasti við okkur var kristslíkneski, sem staðsett var fyrir ofan altarið. Við tókum báðar eftir því að líkneski þetta var eins og kristslíkneskið í æskukirkjunni okkar á Ísafirði. Okkur fannst gott að augu okkar sáu eitthvað sem kom okkur kunnuglega fyrir sjónir. Og þannig trúi ég að sóknarbörnin sem hafa alist upp við myndir þessar kirkju, eins og altaristöfluna og prédikunarstólinn hafi orðið fyrir góðum áhrifum og finnist gott að vera í nálægð þeirra. Og sennilegt er að hér vilji fyrrverandi jafnt sem núverandi sóknarbörn fá blessun Guðs á stórum stundum lífs síns og bera börn sín til skírnar. Bera þau að skírnarlauginni, lindinni einu og sönnu er aldrei tæmist.

Vatnið er trúarlegt tákn og Jesús talar um það t.d. í 4. kafla Jóhannesarguðspjalls: “en hvern sem drekkur af vatninu, er ég gef honum, mun aldrei þyrsta að eilífu. Því vatnið, sem ég gef honum, verður í honum að lind, sem streymir fram til eilífs lífs”.

Vatnið sem aldrei þrýtur er trúin sem gefin er og þegin af náð Guðs. En hún er líka eins og hvert annað blóm sem þarfnast vökvunar. Saga ein segir frá tveimur mönnum er voru á gangi um fagran blómagarð. Lækur rann eftir garðinum og meðfram bökkunum óx hinn fegursti gróður. Fuglar sungu í trjánum og sólin hellti geislum sínum yfir hina fögru náttúru.

Tíu árum síðar hugðust þeir aftur vitja þessa fagra staðar. Þá voru blómin dauð. Fuglasöngur enginn og vindurinn gnauðaði ömurlega í visnum og blaðlausum trjám. Hvernig stendur á þessari breytingu spurðu þeir hissa. Og svarið fengu þeir: Það er hætt að veita læknum hingað niður. Uppsprettan ligggur ónotuð á sama stað, en garðeigandinn hirðir ekki um að nota frjóvgunarkraft hennar. Þess vegna visnar hér allt og deyr.

Dæmisagan minnir okkur á að Guð er uppspretta allrar blessunar og hann er ætíð hinn sami. En fer ekki mörgum eins og garðeigandanum að hirða ekki um að nota frjóvgandi kraft trúarinnar, fyrir sál sína og líf. Gæta þess ekki að gróður trúarinnar og þar með lífsins byggist á næringu lífsnauðsynlegrar uppsprettu. Við eigum aðgang að lífsins lind í trúnni á góðan Guð.

Kirkjan hefur miðlað þessum boðskap í 150 ár hér í þessu húsi. Pétur postuli (1:8) segir í fyrra bréfi sínu: “Þér hafið ekki séð hann, en elskið hann þó. Þér hafið hann ekki nú fyrir augum yðar, en trúið samt á hann”. Þetta getum við tekið til okkar. Að elska hann er að sjá hann. Það eitt sem menn elska, skilja menn, sagði Goethe.

Það var um vor fyrir löngu. Lítill drengur var að leik úti á túni snemma morguns. Faðir hans var skammt frá. Allt í einu braust sólin fram úr skýjum og jökullinn í fjarska leiftraði allur. Drengurinn var niðursokkinn í leik. Pabbi hans hafði rétt úr sér, studdist fram á verkfæri sitt, kallaði, benti. Drengurinn blíndi á pabba sinn og þá sagði hann: Horfðu ekki á mig, líttu þangað, sem ég bendi.

Það sama vil ég segja hér í dag. Lítið þangað, sem kirkjan er. Hún er ekki sólin, ekki ljósið. En hún vísar upp fyrir sig, þangað sem Jesús er. Og þar er að finna kraftinn og kjarkinn, sem við öll þörfnumst í þessu lífi. Og ekki hvað síst þurfum við Íslendingar á því að halda í dag, þegar allt er breytingum háð og framtíð byggðar óljós. Hér í þessari sókn bjuggu um 400 manns þegar kirkjan var byggð en nú búa hér um 40 manns. Trúin hjálpar okkur að takast á við hlutina, þannig að fjötrar hvers konar falla og frelsið, hið andlega frelsi blasir við. Ég veit það af eigin reynslu að trúin og það traust sem hún veitir er besti vegvísir í þessu lífi. Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.

Við verðum sjálf, hvert og eitt að finna út hvernig við viljum verja lífi okkar og dögum. Í frétt sem birtist í Víðförla, fréttablaði Þjóðkirkjunnar fyrir nokkrum árum segir frá því að trúfélag í Noregi sem kallast Monasamfélagið hafi haldið bænastund samfellt frá skírdegi til páskadags, í 88 klukkustundir alls. Að sögn blaðsins aftenposten var markmið fóksins að komast í Heimsmetabók Guinness. Ekki fylgdi sögunni hvort það tókst, enda gætu þeir hjá Guinness viljað taka tillit til einsetumanna og kvenna í frumkristni sem báðu og hugleiddu stanslaust og sum svo lengi í einu að fuglarnir gerðu sér hreiður í hári þeirra.

Þannig hefur hver kynslóð reynt að finna út hvernig hægt er að vera Guði þóknanleg. Guð hefur lokið upp huga hverrar kynslóðar á þeim tíma sem hún er uppi. Með þeim ráðum sem til eru hverju sinni og þess vegna verður hver kynlsóð að finna sinn trúarfarveg, hver einstaklingur að leyfa Guði að tala til sín á þann hátt sem lífið og reynslan bjóða.

Skýrasta einkenni hins kristna safnaðar er samfélagið. Trúin er samfélagsmótandi. Samfélagið við Guð kallar á samfélag við trúsystkin. Samfélag við Guð og við trúsystkin í nafni Jesú Krists er skjól og vörn. Þess vegna var þessi kirkja byggð, þess vegna er enn komið saman í henni til að lofa Guð og ákalla. Þess vegna er haldið upp á 150 ára afmæli hennar. Ég óska ykkur til hamingju með kirkjuna hér, Langholtskirkju í Meðallandi og bið Guð að blessa ykkur öll sem hingað leita og annist málefni kirkjunnar ykkar. Gleðilega hátíð í Jesú nafni.

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.

Prédikun flutt í Langholtskirkju í Meðallandi á 150 ára afmæli kirkjunnar, 16. júní 2013. 1. Konungabók 8:22-30 1. Pétursbréf 2:4-9 Jóhannesarguðspjall 10:22-30 Jóhannesarguðspjall 4:14