Nú þurfum við siðbót

Nú þurfum við siðbót

Í þeirri undursamlegu náð sem streymir um alla hversdaga okkar las ég um daginn bókina um Munkinn sem seldi sportbílinn sinn. Hún er kennslubók í indverskri heimspeki inni í frásögu um ofurlögfræðing sem brennur út og fer til Himalaya og hittir hóp af jógum og ber boðskap þeirra heim með sér.
Flokkar

Náð Guðs er með okkur.

Í þeirri undursamlegu náð sem streymir um alla hversdaga okkar las ég um daginn bókina um Munkinn sem seldi sportbílinn sinn. Hún er kennslubók í indverskri heimspeki inni í frásögu um ofurlögfræðing sem brennur út og fer til Himalaya og hittir hóp af jógum og ber boðskap þeirra heim með sér. Ég las líka Berlínaraspirnar, um niðurnýtt óðal í Norður Noregi þar sem sundruð fjölskylda safnast heim að jarðarför aldinnar móðurinnar.

[flv:http://vefvarp.kirkjan.is/efni/tru.is/2007-04-24-aav-predikun-husavikurkirkju.flv 480 270]

Einn sonanna er samkynhneigður og flutti til Danmerkur frá ólund fjölskyldunnar og býr í Kaupmannahöfn með Krumma manni sínum. Nú safnast þau saman að dánarbeði móðurinnar og þau sem að koma þvo óðalið með einhverju norsku Ajaxi og Daninn setur á sig græna svuntu og eldar. Og húsið ilmar. Þau taka fram sparistellin og dúkana og kveikja arinelda í öllum stofum, halda jól og blessast af nýrri vináttu og búa til nýja framtíð.

Þú geymir áreiðanlega líka einhverjar nýlesnar bækur í hugskotinu þegar þú tekur þig upp frá hversdeginum og kemur hingað norður til að hitta okkur hin. Og mikið finnst okkur mörgum hérna gott að þú komst. Við komum öll með undur og djásn Ritningarinnar í hjarta okkar, þau sem við lesum á hverjum degi. Í dag mætir okkur boðskapurinn um hirðinn. Við heyrum hinn undursamlega 23. Davíðssálm: Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. Og í Pétursbréfi stendur: Vertu hirðir þeirrar hjarðar sem Guð hefur falið þér. Gættu hennar ekki af nauðung, heldur af fúsu geði, að Guðs vilja og áhuga, vertu fyrirmynd en láttu þér aldrei detta í huga að drottna yfir henni. Þú getur þetta, segir Jesús í öllum guðspjöllunum, af því að ég er hirðir þinn. Ég er Guð sem er komin til þín og ég tala við þig svo að þú heyrir til mín, af því að ég er hirðir þinn og ég elska þig.

Ég hugsa að þessir textar hafi oft glatt þig. Kannski með morgunkaffinu og þú fannst að dagurinn framundan var bjartur, kannski að kvöldi við undurbúning undir jarðarför eða við sálgæslu um miðjan daginn. Við gætum öll sagt hvert öðru svo undursamlegar sögur af mætti Orðsins í starfi okkar og öllu lífi.

Esekíel skrifar um hirðinn, sem við megum líka kalla hjarðmeyna, hana sem leitar sauða sinna og annast þá, heldur þeim í grænum högum fjallanna, sækir og læknar það hrakta og limlesta og varðveitir hið feita og sterka.

Mér þótti það alltaf ögn fyndið þegar ég las textann úr Esekíel í minni löngu liðnu æsku í KFUK og skólasamtökunum. Guð varveitir feitu sauðina. Ég sá kindurnar fyrir mér spikfeitar í grængresinu þar sem þær hámuðu í sig safaríkan og ilmandi gróðurinn og voru hvergi hræddar. Hvort finnst þér þú nú vera feit og hamingjusöm ær eða hrædd og hrakin? Ég held við skiptumst á að vera feit eða löskuð, bæði okkar á milli, stundum þú, stundum við, og eins líður okkur misjafnlega í lífi okkar og starfi eftir því sem ýmislegt breytist. Hvað heldur þú? Það er svo gott að vita að hvort sem við erum sterk eða hrakin í dag eða gær eða verðum á morgun þá eigum við hirði okkar og hjarðmeyju. Það er björgun okkar og gleði.

Við komum hingað með ýmsar óskir og áhyggjur eða tómlæti eða hver veit hvað. Sum vildu ekki koma, leist ekki á það, vildu vernda frið sinn. Fyrir yfirgangi okkar hinna eða roluskap og geðleysi. Það er gott að eiga þess kost þegar við þurfum og ég lái þeim ekki og hef oft kosið að vernda mig svona þótt ég hafi alltaf komið á Prestastefnur og hlakkað til. Einn samferðamanna minna í guðfræðideildinni sem vígðist þegar ég var þar enn lýsti því svona hvernig það var að verða prestur meðal hinna prestanna: Þegar maður er búinn að vera dálítinn tíma, gengur maður inn í sitt eigið prestakall og lokar á eftir sér.

Kannski er þetta rannsóknarefni og kannski sýnir rannsóknin að þetta er náttúrulögmál. Og við getum sigri hrósandi sagt eina af uppáhaldssetningunum okkar: Það er ekkert betra hjá hinum, dýralæknunum og lögfræðingunum og þeim öllum.

En kannski er þetta alls ekkert náttúrulögmál. Kannski er það einmitt náttúrulögmál okkar sem fylgjum hjarðmey okkar að gleðjast yfir því að fá að vera í hjörðinni með hinum og þekkja rödd hennar eins og þau gera líka. Ég held það. Ég er viss um það. Okkur býðst góð vist í haganum. Það er fagnaðarerindi dagsins í dag.

Sum okkar hafa undirbúið mál sem við vildum leggja fyrir ykkur hin og þegar við ræddum það sagði einn úr hópnum: Ekki biðja mig að bera þetta fram, af því ég fer svo mikið í taugarnar á hinum. Og svo leit hann á mig og sagði: Og þú skalt ekki gera það. Því þú ferð svo ógurlega í taugarnar á þeim. Og þegar ég stend nú hér og sé ykkur og veit að við finnum öll nærveru hinna og að hún á eftir að móta þessa daga samveru okkar og marga daga til viðbótar þá hugsa ég: Hver fer í taugarnar á hverjum? Eru hér einhver sem hafa þá góðu stöðu að fara ekki í taugarnar á neinum?

Dalla var að tala við mig um prestana þrjá sem komu hér alltaf á Prestastefnu og önnur prestamót. Bognir af háum aldri leiddust þeir inn kirkjugólfin í gömlu hempunum sínum og hjálpuðu hver öðrum að setjast. Það voru þeir séra Pétur Ingjaldsson og séra Jón Ísfeld og séra Robert Jack.

Hver heldur þú að haldi í þínar hendur inn kirkjugólfin seinna? Það verða einhver okkar. Af því að þótt við förum í taugarnar á hinum og þessum þá finnst einum og öðrum við vera dáldið skemmtileg. Og bara góð. Bara góðar manneskjur sem er gott að tala við um starfið. Og vera nálægt. Við verðum að eiga aðra presta til að tala við. Við verðum að vera hirðar hvert annars. Einhverra, einhvern veginn. Við höfum oft talað um það. Við höfum sagt hvert öðru frá aðferðum frá útlöndum, systrasamtökum og bræðralögum og samfélögum manna og kvenna sem hafa fundið aðferðir. Þú veist hvernig það er. Við erum alltaf að tala um starfið. Um okkur sjálf sem hirða sem vilja vera hirðar þeirrar hjarðar sem Guð hefur falið okkur. Við viljum gæta hennar af fúsu geði og áhuga eins og Guð vill að við gerum, og vera fyrirmynd sem ráðskast aldrei með nokkra sál.

Ég á þá miklu gæfu að vera í biblíuleshópum með gullgóðum konum. Einu sinni, fyrir áratugum, í Lækjarbrekku, var Helena balletdansmær í hópnum, yngri en hinar og yndisleg eins og þær. Ég vildi, sagði hún, að ég þekkti einhverja konu sem ég gæti alltaf komið til og talað við þegar ég þarf. Hún myndi hlusta á mig og skilja mig og hjálpa mér til að skilja sjálfa mig. Við hlustuðum andaktugar og sama svarið var á tungu okkar allra. Svo bar hún það fram sjálf. Hún sagði: Ég á þessa konu. Hún er ég sjálf.

Hvað segir þú um það? Hvað segirðu um það að vinátta Guðs umvefji okkur og gefi okkar þá vináttu hvert til annars að við eignumst þá vináttu við okkur sjálf að við getum hlustað á okkur og hjálpað okkur til að skilja okkur. Svo að við verðum ögn feit og sterk í haganum og ekki eins hrædd og ekki eins snögg við að láta hin fara í taugarnar á okkur.

Ég sagði þér frá bókinni um munkinn sem seldi sportbílinn sinn. Mér fannst dálítið gaman að lesa hana en líka dálítið leiðinlegt. Mér fannst hún segja svo margt sem við erum að segja og er sagt svo víða og oft sem betur fer, af því það þarf að segja það. Alvleg áreiðanlega. Það er þetta sama og við vorum að tala um á Lækjarbrekku: Taktu þig að þér, vertu þinn eigin hirðir.

Og þegar ég segi að mér hafi fundist bókin pínulítið leiðinleg, nei, mér fannst hún svakalega leiðinleg, þá er það af því að mér leiddist svo að klifa á því að við gætum þetta í alvöru. Við getum það nefnilega ekki. Það þýðir ekki að tala um það. Veröldin er brotin og við erum brotin og englar standa með logandi blys til að varna okkur inngöngu inn í Paradís þar sem vandamálin eru ekki til. En við búum utan Paradísar mitt í vandamálunum. Þess vegna kom Guð og varð Jesús og er hjá okkur. Bara þess vegna, en einmitt þess vegna, eigum við möguleikana á að verða hvert öðru, sjálfum okkur og söfnuðum okkar hirðar og hjarðmeyjar.

Þú veist hvernig það er. Þú veist það allt. Og þú veist að Guð blessar þig af því að hún elskar þig og að hún gefur þér allt sem þú þarft. Ég er þess viss að við megum núna biðja hana um þá gjöf sem við þörfnumst svo ákaflega einmitt núna. Við þörfnumst hennar svo ákaflega núna, allir söfnuðirnir og við sem erum hirðar þeirra.

Við erum kölluð til að vera hirðar og handhafar fagnaðarerindisins. Fagnaðarerindið á lausnarorð nú sem jafnan í margvíslegum spurningum og spurningaleysi þeirra sem finnst þau vera að sligast af einhverju sem þau kunna oft ekki að nefna. Við erum vígð prestar þeirra til að bera þeim fagnaðarerindið. Það þarf mikið til þess eins og við finnum. Við erum líka oft að sligast af ýmsu sem við kunnum ekki að nefna.

Gjöfin sem ég held að við eigum að biðja Guð að gefa okkur er siðbót. Okkar sjálfra, okkar prestanna. Svo að við getum borið fram fagnaðarerindið. Og til þess þurfum við að horfast í augu við það sem sligar okkur og rænir okkur starfsgleðinni svo að við getum stundum ekki þjónað hjörð okkar af áhuga og gleði Guðs.

Við höfum sömu köllun og hjörðin sem við eigum að þjóna án þess að drottna yfir. Og hún hefur sömu köllun og við og hún á heldur ekki að drottna yfir okkur. Ég er viss um að það stendur hvegi heilagri ritningu eða lúterskri guðfræði að hjörðin eigi að drottna yfir okkur og ráðskast með okkur. En það er nú orðið svo. Eða það tel ég. Hvað finnst þér?

Lúterska heimssambandið sendi frá sér þann boðskap fyrir næstum aldrafjórðungi að lúterska kirkjan ætti ekki að vera vera spegill í óréttlátri veröld heldur salt. Heldurðu að það geti verið að við séum orðin óþarflega lík speglum þess sem er að gerast, óþarflega kjarklaus og hrædd við valdið, alveg ósölt stétt. Og ef þér finnst það heldurðu þá ekki að við ættum að byrja siðbót? Siðbót prestastéttarinnar. Ég er viss um það og ég er viss um að hún verður að undursamlegri siðbót allrar íslensku kirkjunnar sem breiðist út um lönd.

Ég er svo lánsöm að eiga ættir mínar í Mýrvatnssveit. Ein frænka mín er Annar Þórhallsdóttir sem stundum syngur síðasta lag fyrir fréttir og spilaði líka á langspil. Ég heimsótti hana á spítalann litlu áður en hún dó og þegar við kvöddumst veifaði hún mér glaðlega og sagði: Mundu það svo, elskan, að þú ert af gáfuðust ætt landsins. Mér þótti þetta dálítið skrítið en þegar ég gekk út ganginn fann ég hvað þetta var gott. Og úti hitti ég konu sem var alls ekki af ætt okkar Önnu og þegar við kvöddumst sagði ég: Og mundu það svo, elskan, að þú ert af gáfuðust ætt landsins. Ég sá henni þótti þetta heldur furðuleg kveðja en þegar hún var rétt að sleppa fyrir hornið sá ég að hún réttist öll og vissi að henni var farið að finnast gott að vita þetta. Nú horfi ég framan í þig og veit að þú ert af gáfuðust ætt landsins. Það er áreiðanlegt. Njóttu þess og notaðu það. Það er svo gott. Af því að þú ert boðberi fagnaðarerindisins og vígðist til að flytja hinn mikla fögnuð þess.

Í Berlínaöspunum tók fólkið fram silfrið og postulínið og kristalsglösin og sparidúkana og kveikti arinelda í öllum stofum. Það eldaði mat og settist saman til að tala og borða og gleðjast í vináttu sinni og búa til nýja framtíð.

Ég óska okkur þessara gæða í vinnu og veislu Frelsara okkar Jesú Krists. Núna. Guð geymir þig. Amen.

Náð Guðs sem skapar og er Jesús sem frelsar og heilagur andi sem vekur okkur með kossi á hverjum morgni blessar okkur.

Rísum út sætum og tökum kveðju frá postulunum.

Náðin Frelsara okkar Jesú Krists, kærleikur Guðs og samfélag heilags anda er með okkur öllum. Amen