Gleymskan er náðarmeðal hugans.

Gleymskan er náðarmeðal hugans.

Sorgin og missirinn og þjáningin varð að eiga sitt rými sínar hugsanir, sem leita farvegs skilnings, sem þegar upp er staðið frá þjáningunni er óskiljanleg. Framandi eins og að heyra að maður hafi verið krossfestur í fjarlægu landi löngu áður en afi og amma fæddust og af því tilefni skyldi ekki vera með neinn galsa. Það væri ekki tilhlýðilegt.
fullname - andlitsmynd Þór Hauksson
19. apríl 2019
Flokkar

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen

Föstudagurinn langi er mesti sorgardagur kirkjuársins og ber allt helgihald vott um það. Þegar rýnt er inn í mistur fortíðar fálmandi höndum, stóð föstudagurinn langi undir nafni, beinn með útréttan arminn á dögum æsku minnar. Þegar fólk almennt; ef mig brestur ekki minni, hafði nennu og þor að mæta og standa í báða fætur frammi fyrir leiðindum. Því hugsanlega er merking orðsins „langur“ ekki endilega sú sem við höfum helst vanist. Orðið er stundum notað um eitthvað leiðinlegt. Skilgreinging á leiðinlegu getur verið margvísleg. Fer væntanlega eftir aldri og þroska einstaklings, þjóðfélagsstöðu og öðru því sem kann að greina á milli jafnvel innan fjölskyldu.

Föstudagur langi æsku minnar var sveipaður þungri sorgartónlist, prelodíur og fúkur löngu dauðra tónskálda var blastað úr útvarpstækinu í stofu æsku minnar í boði Ríkisútvarpsins. Hvers konar skemmtanir voru bannaðar. Orðið skemmtun er einmitt dregið af orðinu skammur og merkir í rauninni eitthvað sem styttir mönnum stundir.
Það er ekki nýtt, frekar en á tímum núvitundar að yfir ýmsu var nöldrað á þessum degi þegar fiskur var í hádegismat og fiskisúpa í kvöldmat. Á þeim dögum var ekki til hugtakið matarsóun. Það sem kláraðist ekki í einni máltíð; sem sjaldan gerðist, var notað í þá næstu.

Í ungum huga var skoðun fullorðna fólksins „naglföst“ að það væri við hæfi að hafa almenn leiðindi á þessum degi. Þjáning Krists á krossinum var merkingarlaus í ungum huga og er enn í dag fyrir mörgum. Það var talað í hálfum hljóðum, eins og öll heimsins leyndarmál væru viðruð og hengd út til þerris þennan dag, en ekki mátti ná eyrum.

Það er sem nætursöltuð orð séu greypt inn í opið sár í lófa þjáningarinnar sem teygir sig í átt til okkar nútímamanneskjunnar til að minna á tilvist sína og raunveru á tímum, sem við höfum ekki nennu til að staldra við og íhuga á þessum degi. Hlaupum frá í fastreimuðum hlaupaskóm stefnulaust bara eitthvað sem lengst frá skugga krossins sem kann að falla á ásjónu okkar. Kannski eins framandlegur og fermingarbarninu sem fyllti í eyðu texta í könnunarprófi nú nýverið. Textin hljóðaði svo: „Eigi leið oss í ( ) í stað þess að þar stæði („freistni“) hafði barnið skrifað í eyðuna ( „Kristni.“) Þannig að textinn í heild sinni var „Eigi leið oss í Kristni. Hljómar svipað en merkingin auðvitað önnur. Tilhlýðilegt að segja frá þessu í dag á tímum, þegar engum má leiðast og allt á að vera skemmtilegt. Allt skal gert til að fylla í eyður þagnar, bara eitthvað og hafa sem hæst og enginn má missa að neinu, sem mögulega kann að svipta hulunni af veikleika þungra hugsana. Ég er þakklátur að hafa verið umvafin þessum degi æsku minnar í sparifötum sem eldri bræður mínir voru vaxnir uppúr og „myrkri“ dagins. Horfa sorgmæddur á umhverfið fyrir utan sem guðaði á glugga í leik sem á óskiljanlegan hátt kinkaði kolli hughreystandi. Eins og það vildi segja, umhverfið fyrir utan. Þetta tekur enda um síðir.

Kannski er þjáningin aðeins stundarfyrirbæri? Eins og skyndibiti sálarinnar? Næringargildi ekkert.
Umhverfið fyrir utan kinkaði kolli - já, en samt hughreystandi, einhvernvegin úr takti við dimman silalegan hljóm klukkunar á ganginum sem á klukkustundafresti allan sólarhringinn gaf til kynna með þungum hljómi sínum, að um síðir líður dagurinn hjá og ævintýrin sem lágu fyrir utan glugga æsku minnar og biðu þess að eiga stefnumót við galsafullan leik barna daginn eftir föstudaginn langa. Barna sem létu sig ekki varða dimmar hugsanir fullorðna fólksins og fána á stöng sem í huga barnsins virtist hafa gefist upp á að ná upp að gylltum fánahnúðnum, eða var það leti þess sem dró upp fánann um að kenna var karpað um á tilbreytingalausum deginum.

Ég vissi að Jesús Kristur var á þessum degi nelgdur á kross og þá var tilefni til að vera sorgmæddur næstum meira en þegar ég eina páskana var svo veikur að ég gaf systkinum mínum páska eggið mitt eins og ég myndi aldrei að eilífu ná heilsu á ný og njóta hversdagsins, já og eggsins. Þvílík vonbrigði þegar ég náði vopnum heilsu fáeinum dögum seinna – það var sem þjáningin fengi áþreifanlega merkingu og myrkrið eitt grúfði yfir mér. Hvað hafði ég eiginlega verið að hugsa? Þetta skyldi aldrei gerast aftur lofaði ég sjálfum mér þegar frískleikin og gleðin á ný marseraði inn í huga minn og líkama með skærum lúðrablæstri og öllum hinum hljóðfærum gleðinnar inn í mína einföldu tilveru.

Það var þá, á þeim tíma, þegar sáraukinn og missirinn var hvort heldur í sparifötum eða hversdags, en ekki dreginn fram af rykfallinni hillu þessa atburðar sem var einhversstaðar í fjarlægð í enn fjarlægu landi og helst af öllu – ekki tala um í dag því það truflar. Það á að vera skemmtilegt alla daga. Nóg er víst af illskuni og hatrinu og myrkrinu heyrist sagt, sem við fáum að sjá á rauntíma í dag. Óttaslegin andlit barna og fullorðina mæla sér mót við okkur hvar sem er og hvenær sem er. Dagskráin ekki línuleg ekki frekar en hatrið og illskan.

Tölum aðeins um illskuna og bölið, „sé ég tár á hvarmi“ eins og einn ágætur sjónvarpsmaður var tamt að segja við viðmælendur sína. Á öllum tímum að ætla sér að tala inn í sársauka og pínu og standa hjá er nær ómögulegt verkefni.
Illskan og hatrið átti blessunarlega sitt lögheimili handan sjávar og hárra fjalla, sem ekki var vert að tala um eða beygja huga að í erli hversdagsins nema á föstudaginn langa, en ekki skyldi hafa hátt um það, en samt leyfa sér að dveljast þar einn dag, kannski af skyldurækni einni frammi fyrir óttalegri þjáningunni sem ég kunni ekki skil á og um stund frá hversdeginum?
Kannski höfðu gegnar kynslóðir meiri kjark eða lífið hafi kennt þeim á harðvítugan hátt að gleðin og galsin á sér ekki fast heimilisfang, bara kemur og fer eftir hentugleika eins og að sækja sjóinn og fyrir einhverjum lá fyrir að koma ekki aftur. Lamandi ótti um hvað varð stóð heima á hlaði fólks og barði allt sem fyrir varð eins og boðflenna, settist að og fór hvergi, löngu eftir að aðrir voru farnir og sinna sínu. „Hafið krefst fórna“ heyrði ég og tíminn leið og sorginn og söknuðurinn og þjáningin varð hluti af sorgarhúsi þar sem hvíslað var hálfum hljóðum eins og á föstudeginum langa.

Sorgin og missirinn og þjáningin varð að eiga sitt rými sínar hugsanir, sem leita farvegs skilnings, sem þegar upp er staðið frá þjáningunni er óskiljanleg. Framandi eins og að heyra að maður hafi verið krossfestur í fjarlægu landi löngu áður en afi og amma fæddust og af því tilefni skyldi ekki vera með neinn galsa. Það væri ekki tilhlýðilegt.

Í dag er tilefni til þess á föstudeginum langa að tala um illskuna, bölið, þjáninguna, já og vonina, sem heldur fast í hverja þá festu sem hægt er að finna í mannlegum huga.

Ég tala um illskuna annarsvegar og bölið hinsvegar. Gera verður greinamun á illsku og böli. Illskan gengur út á að skaða aðra. Bölið er eitthvað sem getur birst í náttúruhamförum hvort heldur það er vegna hegðunar okkar mannanna eins og virðist vera raunin eða hamfara eins og eldgosa, veikinda sem valda þjáningum og dauða, myrkurs.

Gæta verður þess að slá þröngan hring um illskuna. Gera verður ráð fyrir að hryðjuverk séu yfirleitt framin af yfirlögðu ráði og meðvitund um að atferli þess sem verkið fremur skaði aðra. Markmið raunverulegs illvirkja er öðru fremur að skaða aðra í því liggur illskan. Illska einhvers leiðir óhjákvæmilega af sér þjáningu og kvöl. Reglulega erum við minnt á það af fregnum úti í hinum stóra heimi sem hvílir handan hafs og fjalla og til þess að gera ýmindurafls þess sem okkur er gefin og við gleymum.
Gleymska er náðarmeðal hugsans, þar til næst, því sagan á það til að endurtaka sig og minna okkur á mennsku okkar og þrá að lifa í veröld friðar og manngæsku.

Það er sárt til þess að hugsa og það er erfitt að horfast í augu við, að stundum erum við völd að þjáningu án þess að vera meðvituð um það. Hin síðari ár hefur verið bent á að lífshættir okkar, þæginda og framfara kunna að ógna lífríki jarðar. Sitt sýnist hverjum um það, en á móti því verður ekki mælt að jörðin stynur og byltir sér. „Stóri ísinn er veikur“ þannig lýsti aldraður Grænlendingur ástandi Grænlandsjökuls. Sköpunin stynur. Jörðin stynur undan okkur mannfólkinu. Veröldin öll er veröld Guðs. Þegar hún þjáist, þjáist Guð.

Þjáningin er óhjákvæmilegur fylgifiskur lífsins, er hluti af lífinu. Ég talaði um að hér að framan að „þjáning þess sem var, er merkingarlaus í huga og er enn í dag fyrir mörgum.“ Þjáningin ein og sér er merkingarlaus, en þegar við horfum á hana í ljósi krossins þá fær hún nýja ásjónu. Að standa frammi fyrir illsku og þeirri þjáningu sem hún kann að leiða af sér verður hún tækifæri kærleikans. Þjáningin hefur merkingu því krossdauði Krists er leiðrétting á því sem hefur verið eyðilagt með vilja mannsins, eiginhagsmunum og sjálfselsku.

Það er von í dag þegar horft er til viðbragða forsætisráðherra Nýja Sjálands Jacindu Arden sem í raun sagði með orðum sínum í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar í Christchurch í síðasta mánuði, að lífið lúti ekki lögmálum maklegra málagjalda.
Birtingamynd hins illa á sér ásjónu og nafn, sem ekki skal vera sagt, en þar með er ekki sagt að tilvist þess sé hafnað það væri barnaskapur.

Í orðum Arden birtist í mínum huga guðfræði Krossins-táknmynd hins illa, táknmynd þjáningarinnar umbreyttist í von í föllnum heimi. Á föstudaginn langa tekst Kristur endanlega á við þessi öfl illskunnar og virðast þau fara með sigur af hólmi.
Við sem stöndum hérna megin krossins vitum að Kristur sem herra lífsins brýst inn á yfirráðasvæði tortímingaraflanna og sigrar þau og frelsar okkur manneskjurnar undan valdi þeirra. Það er alltaf von í föllnum heimi. Í þeirri von lifum við og deyjum til lífsins á hverjum degi. Amen.